Sri Lanka - Perla Indlandshafs

Sri Lanka, oft kölluð perla Indlandshafs eða tár Indlands, er eyja stórbrotins margbreytileika og menningarlegra hápunkta. Endalausar strandir, tímalausar rústir, fjölskrúðugt dýralíf, frægt te og bragðmikill matur. Heimamenn þessarar mikilfenglegu eyju eru þekktir fyrir gestrisni og hjartahlýju. Allt þetta gerir Sri Lanka að mögnuðum áfangastað. Það er stöðug tilbreyting í landslaginu, grænir regnskógar, þykkir frumskógar, fagrar strendur, hálandaskógar og votlendissvæði. Hér má finna allt frá grösugu flatlendi til hálendis sem einkennist af terækt og græna hitabeltissvæðinu í suðri. Við skoðum höfuðborgina Colombo og ferðumst um Menningarþríhyrning Sri Lanka þar sem hægt er að finna marga staði sem eru á heimsminjaskrá UNESCO. Þar má nefna Sigiriya steinvirkið á Ljónakletti, Polonnaruwa sem eitt sinn var höfuðborg landsins og Gullhofið í Dambulla. Við fáum tækifæri til að skoða fílaathvarf í Pinnawala, Konunglega grasagarðinn í Peradeniya og höfuðborg tesins, Nuwara Eliya, eða litla England eins og hún hefur stundum verið kölluð. Við kynnum okkur kryddmenningu og terækt og fáum tækifæri til þess að upplifa menningu landsins á þjóðlegri sýningu og við athöfn búddamunka í Tannhofinu í Kandy. Við munum einnig kynnast dýralífi landsins í safarí ferð um Yala þjóðgarðinn og njótum síðan lífsins á ströndum Benota áður en heim er haldið. Hér er um að ræða ógleymanlega ferð sem skilur eftir ljúfar og litskrúðugar minningar.

Verð á mann 785.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 142.800 kr.


Innifalið

 • Áætlunarflug með Icelandair: Keflavík – Osló. 
 • Áætlunarflug með Emirates: Osló – Dubai – Colombo.
 • Áætlunarflug með Emirates: Colombo – Dubai – Osló.
 • Áætlunarflug með Icelandair: Osló – Keflavík.
 • Allar rútuferðir í loftkældri rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Allar skoðunarferðir og aðgangseyrir samkvæmt ferðalýsingu.
 • Jeppasafarí í Yala þjóðgarðinum.
 • Gisting í 13 nætur í tveggja manna herbergi á 4 - 5* hótelum samkvæmt landsmælikvarða. 
 • Sjá í ferðalýsingu hvaða máltíðir eru innifaldar. (M = morgunverður, H = hádegisverður, K = kvöldverður)
 • Enskumælandi staðarleiðsögn.
 • Íslensk fararstjórn.
 • Undirbúningsfundur með fararstjóra fyrir ferð.

Ekki innifalið

 • Þjórfé fyrir erlendan staðarleiðsögumann og rútubílstjóra. 
 • Aðrar máltíðir en þær sem taldar eru upp í ferðalýsingu.
 • Forfalla- og ferðatryggingar. 

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

4. nóvember | Ferðadagur

Brottför frá Keflavík kl. 7:50. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Við fljúgum fyrsta legginn í morgunflugi með Icelandair frá Keflavík til Oslóar og lendum þar kl. 11:35. Eftir hádegið fljúgum við áfram með Emirates flugfélaginu frá Osló til Colombo með stuttu stoppi í Dubai. Flogið verður kl. 14:10 frá Osló og lent í Dubai kl. 23:55 þaðan sem verður haldið áfram til Colombo kl. 02:40 og lent þar kl. 08:25 að morgni 5. nóvember.

5. nóvember | Lent í Colombo

Við lendum á Colombo flugvelli kl. 8:25 að staðartíma. Eftir vegabréfsskoðun keyrum við inn í höfuðborgina Colombo þar sem við fáum útsýnistúr áður en haldið er á hótelið til hádegisverðar. Hótelið okkar er 5* og vel staðsett, við Beira vatnið, í hjarta borgarinnar. Hér gistum við í tvær nætur. 

 • Kvöldverður

6. nóvember | Skoðunarferð um Colombo & Kelaniya hofið

Eftir morgunverð á hótelinu höldum við í skoðunarferð um borgina. Við ökum meðfram Crystal White Race Course veðhlaupabrautinni, sem komið var á fót af nýlendustjórn Breta árið 1893, og World War II Airstrip flugbrautinni sem gegndi mikilvægu hlutverki í vörnum bandamanna í seinni heimstyrjöldinni. Við sjáum Pettah verslunarhverfið þar sem gefur að líta fljótandi markað við Beira vatnið. Þar eru einnig litlar þröngar götur með sölubásum og fjölskrúðugt mannlíf. Við förum út fyrir borgina þar sem við skoðum Kelaniya Rajamaha Viharaya búddahofið en saga þess spannar yfir 2000 ár. Sagan segir að Búdda hafi heimsótt Kelaniya og predikaði þar sem hofið stendur, við Kelani ánna. Hofið er eitt það mikilvægasta á Sri Lanka og þangað kemur fólk hvaðanæva af landinu, þar fara fram trúarathafnir og margar árlegar hátíðir. Við Kelaniya hofið er fagurt umhverfi, tilkomumiklar byggingar, sérstæðar höggmyndir, áhugaverð myndlist og fallegar skreytingar. Við höldum aftur inn í borgina og skoðum annað hof, Gangaramaya, sem er eitt það elsta í Colombo. Þar gætir áhrifa frá Sri Lanka, Indlandi, Taílandi og Kína í byggingarlist sem gerir hofið einstakt. Í Gangaramaya hofinu eru margir helgir gripir og þar leita sanntrúaðir búddistar og pílagrímar andlegrar huggunar og uppljómunar. 

 • Morgunverður.
 • Hádegisverður.
 • Kvöldverður.
Opna allt

7. nóvember | Habarana & fílar í Pinnawala

Eftir góðan morgunverð höldum við af stað til Habarana sem tilheyrir landsvæði sem kallað er Menningarlegur þríhyrningur Sri Lanka. Á leiðinni stoppum við í þorpinu Pinnawala sem er þekkt fyrir fílaathvarfið, Pinnawala Elephant Orphanage. Þar er hægt að sjá þessa ljúfu risa baða sig í Maha Oya ánni. Athvarfið gegnir stóru hlutverki í verndun fíla landsins. Við snæðum hádegisverð í þorpinu Pinnawala og höldum síðan áfram ferð okkar og komum til Habarana þar sem við gistum næstu þrjár nætur á 5* hóteli. 

 • Morgunverður.
 • Hádegisverður.
 • Kvöldverður.

8. nóvember | Skoðunarferð til Sigiriya

Við snæðum morgunverð á hótelinu og síðan verður haldið í skoðunarferð til Sigiriya. Staðurinn er á heimsminjaskrá UNESCO og er mikilvægur með tilliti til fornleifa og sögu Sri Lanka. Við göngum upp á steinvirki sem rís í 200 m hæð yfir slétturnar í kring og á upphaf sitt að rekja allt aftur til 5. aldar. Virkið er stundum kallað Ljónaklettur (Lion Rock). Það var byggt af konunginum Kasyapa og var hans aðsetur. Höllin stóð á toppi virkisins og þar mátti finna fallega skrautgarða, tilkomumiklar byggingar og varnarvirki. Seinna var þar búddamunkaklaustur allt fram á 14. öld. Á klettaveggjunum má finna ýmsar veggmyndir, meðal annars af Hinum heilögu meyjum, sem þykja einstaklega fallegar og lýsandi fyrir hefðir og trúarhugmyndir þjóðarinnar í fornöld. Sigiriya er mikilvægur staður fyrir Sri Lanka búa og þykir veita innsýn inn í sögu landsins, menningu og þjóðfélög liðinna tíma. Á toppi virkisins er fagurt útsýni til allra átta. 

 • Morgunverður.
 • Hádegisverður.
 • Kvöldverður.

9. nóvember | Skoðunarferð um Polonnaruwa

Í dag ökum við til Polonnaruwa sem einnig er á heimsminjaskrá UNESCO. Polonnaruwa var önnur höfuðborg Sri Lanka á miðöldum og þar er margt áhugavert að sjá. Við skoðum meðal annars rústir konungshallarinnar sem var byggð á 12. öld og er eitt mesta undur staðarins. Við sjáum einnig klettamusterið Gal Vihara þar sem risavaxnar myndir af Búdda hafa verið höggnar í hamarinn. Við skoðum einnig rústir áheyrnasals Nissanka Malla, sem var konungur ríkissins á 12. öld. Þar gefur að líta fallega útskorinn mánastein sem er eitt af einkennum búddalistar á Sri Lanka. Slíkir steinar eru einskonar þröskuldar áður en gengið er inn á heilaga staði. Lótusböðin í Polonnaruwa eru einstök með tilliti byggingarlistar og vatnsvirkjunar og við lítum á þau en lótusblómið er heilög planta í búddisma, merki um hreinleika, uppljómum og andlegan þroska. Við sjáum einnig útskorna bergstyttu af Parakramabahu I sem var einn af merkustu konungum 12. aldar í Sri Lanka, fjölhæfur leiðtogi og verndari lista og lærdóms. Hér eru fleiri byggingar sem tengdar eru Parakramabahu eins og Kiri Vehera eða Mjólkurstrýtan sem tileinkuð var Búdda. Parakramabahu I kom einnig á fót uppistöðulóni, Parakrama Samudraya, sem nær yfir 2000 hektara. Við sjáum hof hindúagyðjunnar Shiva en það var byggt af Chola ættarveldinu á 11. öld. Á þessum tíma voru mikil samskipti við Indland á sviði trúar, listsköpunar og byggingarlistar og hönnun hofsins ber þess merki. Við skoðum einnig Galpotha, Steinbókina svokölluðu, rústir hins forna Tannmusteris Búdda og Dalada Maluwa Watadage, hringlaga musteri sem talið er að hafi verið byggt undir helgigripi tengda Búdda. 

 • Morgunverður.
 • Hádegisverður.
 • Kvöldverður.

10. nóvember | Dambulla, Matale & Kandy

Eftir morgunverð á hótelinu liggur leið okkar til næststærstu borgar landsins, Kandy, sem er jafnframt miðstöð, menntunar, menningar og trúar. Á leiðinni skoðum við Dambulla hellana, eða Gullhofið í Dambulla sem á upphaf sitt að rekja allt aftur á 1. öld. Þetta eru fimm hellar sem öllum hefur verið breytt í helgidóm eða hof. Fallegar veggmyndir prýða veggi og loft og þar er urmull stytta. Við komum við í Matale, kynnum okkur kryddmenningu landsins og heimsækjum kryddgarð þar sem við snæðum einnig hádegisverð. Eftir matinn höldum ferð okkar áfram til Kandy. Umhverfi borgarinnar er einstakt, grænar hæðir, teakrar og stöðuvötn. Við komum okkur fyrir á hótelinu þar sem við gistum eina nótt. Seinnipart dags förum við á sýningu þar sem Kandybúar skrýðast fallegum búningum og dansa og spila. Eftir sýninguna er hægt að sækja kvöldathöfn í tannhofi Búdda í Kandy og upplifa kyrrlátt andrúmsloftið, reykelsin, olíulampana, söng búddamunkanna og blómaskrúðið sem þeir færa Búdda. Þetta er stund hugleiðslu, lotningar og friðsældar. 

 • Morgunverður.
 • Hádegisverður.
 • Kvöldverður.

11. nóvember | Konunglegi grasagarðurinn & Nuwara Eliya

Nú er ferð okkar heitið í Hinn konunglega grasagarð í Perdeniya sem stendur að hluta við bakka lengstu ár landsins, Mahaweeli, og telur tæpar 150 ekrur. Svæðið þar sem garðurinn stendur á sér langa sögu en upphaf hans má rekja til nýlendutíma Breta. Megintilgangurinn var að efla landbúnað, skógrækt og garðrækt í landinu en í dag er grasagarðurinn einn sá ágætasti í Asíu og þar má finna plöntur hvaðanæva úr heiminum. Orkedíuhús garðsins er þekkt fyrir fágætt safn sitt af hinum ýmsu tegundum orkedía. Utandyra má finna ýmis sérsöfn plantna í yndisfögru umhverfi með bugðóttum stígum og rennandi vatni í tjörnum, gosbrunnum og lækjum. Eftir heimsókn okkar í grasagarðinn höldum við ferð okkar áfram og skoðum næst Rambodafossana og snæðum hádegisverð á samnefndum bæ. Eftir hádegið höldum við áfram til borgarinnar Nuwara Eliya sem stendur í um það bil 6000 feta hæð yfir sjávarmáli. Vegna hæðarinnar er loftslagið aðeins svalara og þar er blómlegt um að lítast, frjósamur jarðvegur og mikil gróðursæld. Hér er hjarta teræktarinnar og héðan koma öll bestu te veraldar. Í landslaginu má sjá fagurgrænar teekrur, vatnsmikla fossa og friðsæl stöðuvötn. Hér gistum við í tvær nætur á 5* hóteli. Eftirmiðdagurinn er frjáls og hægt að skoða sig um á eigin vegum. 

 • Morgunverður.
 • Hádegisverður.
 • Kvöldverður.

12. nóvember | Dagur í Nuwara Eliya

Við njótum dagsins í grænu borginni Nuwara Eliya oft nefndri litla England vegna nýlendustíls í byggingarlist og gróinna landsvæða í kring sem minna á búsældarlegar sveitir Englands. Eftir morgunverð höldum við í skoðunarferð um borgina og heimsækjum tebúgarð og -verksmiðju. Seinni hluti dags er frjáls og síðan er sameiginlegur kvöldverður á hóteli. 

 • Morgunverður.
 • Kvöldverður.

13. nóvember | Ella & Yala þjóðgarðurinn

Eftir morgunverð höldum við ferð okkar áfram áleiðis til Yala þjóðgarðsins sem staðsettur er í Uva héraðinu. Við stöldrum aðeins við í litla bænum Ella sem þekktur er fyrir náttúrfegurð og afslappað andrúmsloft. Þar fáum við okkur hádegisverð. Bærinn stendur hátt uppi í landslaginu og fyrir neðan má líta algrænar teekrur, frjósama dali og tíguleg fjöll. Við ökum áfram í átt að Yala þjóðgarðinum við suðausturströndina þar sem við gistum næstu tvær nætur á 5* hóteli. 

 • Morgunverður.
 • Hádegisverður.
 • Kvöldverður.

14. nóvember | Safarí í Yala þjóðgarðinum

Við tökum daginn snemma í dag, fáum okkur te eða kaffi og bregðum okkur síðan í morgunsafarí í þjóðgarðinum. Það er líklegast að dýrin séu á ferli í ljósaskiptunum og við notum því tímann vel. Yala þjóðgarðurinn nær yfir 130.000 hektara og hefur verið athvarf fjölmargra dýrategunda síðan 1938 þegar garðurinn var stofnaður. Þar má finna yfir 40 tegundir spendýra og yfir 200 tegundir fugla. Þekktastur er garðurinn fyrir mikinn fjölda hlébarða og það er ekki ólíklegt að sjá þeim bregða fyrir ásamt hjörðum fíla, letibjörnum, dádýrum, villisvínum, vatnabuffalóum, krókódílum og fjölmörgum tegundum fugla, stórra sem smárra. Garðurinn er sannkölluð paradís þeirra sem hafa yndi af fuglaskoðun. Við höldum aftur heim á hótel og fáum okkur góðan morgunmat og eigum rólega stund fram að hádegisverði. Við höfum það náðugt yfir heitasta tíma dagsins, rétt eins og dýrin í garðinum. Síðdegis höldum við aftur af stað í safarí og njótum þess litskrúðuga dýralífs sem garðurinn hefur upp á að bjóða. 

 • Morgunverður.
 • Hádegisverður.
 • Kvöldverður.

15. nóvember | Benota

Í dag snæðum við morgunverð á hótelinu og ferðumst síðan til Benota á vesturströndinni. Þar eru fallegar strendur og þar hyggjumst við njóta lífsins og slaka á næstu daga eftir viðburðaríkt ferðalag. Við gistum á góðu 5* hóteli við Beruwala ströndina sem kölluð hefur verið Gyllta mílan. Strandlengjan er umvafin skuggsælu pálmaskrúði og þar er tilvalið að fá sér sundsprett. Svæðið á sér langa sögu samskipta og verslunar við aðra menningarheima, svo sem Araba, Persa og Evrópubúa. 

 • Morgunverður.
 • Kvöldverður.

16. nóvember | Slökun í Benota

Við njótum þess að eiga náðugan dag við fallega strönd. Engin skipulögð dagskrá. Morgunmatur og kvöldmatur á hóteli. 

 • Morgunverður.
 • Kvöldverður.

17. nóvember | Slökun í Benota

Við njótum þess að eiga náðugan dag við fallega strönd. Engin skipulögð dagskrá. Morgunmatur og kvöldmatur á hóteli. 

 • Morgunverður.
 • Kvöldverður.

18. nóvember | Síðasti dagur í Benota og Colombo flugvöllur

Við snæðum morgunverð og slökum á fram eftir degi á hótelinu. Síðdegis kveðjum við Benota og höldum til Colombo þar sem við borðum saman kvöldverð. Við ökum síðan sem leið liggur til Colombo flugvallar. Brottför til Dubai er eftir miðnættið. 

 • Morgunverður.
 • Kvöldverður.

19. nóvember | Heimferð

Flugið okkar frá Colombo flugvelli fer klukkan 02:55 eftir miðnætti. Við lendum í Dubai klukkan 05:55 að staðartíma og fljúgum áfram til Osló kl. 07:35. Brottför lokaleggsins heim til Íslands frá Osló er klukkan 13:00. Áætluð heimkoma á Keflavíkurflugvöll er kl. 15:05.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Marianne Eiríksson

Marianne fæddist 1964 í Schaffhausen í Sviss, við landamæri Þýskalands. Hún er menntaður ferðamálafræðingur en kom til Íslands í fyrsta skipti árið 1985 og dvaldist þá á sveitabæjum í nokkra mánuði. Síðan 1992 hefur Marianne búið á Íslandi með íslenskum eiginmanni sínum. Hún er útskrifuð frá leiðsöguskólanum og starfar m.a. sem leiðsögumaður.
Marianne segist sjálf vera orðin meiri Íslendingur en Svisslendingur en hún talar þýsku, ensku, frönsku, ítölsku og að sjálfsögðu reiprennandi íslensku.
Áhugamál Marianne eru ferðalög, tungumál og hestamennska.

Hótel

Hótel í ferðinni Sri Lanka - perla Indlandshafs

Cinnamon Lakeside Colombo - 5* hótel í Colombo 

Þar er sundlaug, líkamsræktaraðstaða og aðgangur að tennis- og skvassvöllum. Hótelið er staðsett í miðborginni við Beira vatnið, sem er vin í ys og þys borgarinnar. Við vatnið er fjölbreyttur gróður og mikið fuglalíf og þar er hægt að sigla á litlum bátum. Í miðju vatnsins er lítil eyja þar sem finna má eitt þekktasta búddahof Colombo búa, Seema Malaka.

Habarana Village - 4* hótel í Habarana 

Hótelið stendur á fallega grónu svæði við Habarana vatnið skammt utan við þorpið, þar er sundlaug og heilsulind.

Cinnamon Citadel - 4* hótel í Kandy

Hótelið stendur við lengstu á landsins, Mahaweli, með Knuckles fjallgarðinn í baksýn. Það er útisundlaug á hótelinu og aðstaða til líkamsræktar.

Araliya Green Hills - 5* stjörnu hótel í Nuwara Eliya

Hótelið stendur í fallegu grænu umhverfi í hálöndum Sri Lanka. Á hótelinu er upphituð sundlaug, líkamsrækt og þar er frábært útsýni yfir gróskumikla dali og heillandi fjöll í fjarska.

Cinnamon Wild - 5* hótel í Yala þjóðgarðinum

Náttúrufegurð og dýralíf eru í aðalhlutverki á þessu skemmtilega hóteli sem stendur í jaðri þjóðgarðsins.

Cinnamon Bey - 5* hótel í Benota

Hótelið stendur við Beruwala ströndina, þar eru sundlaugar, líkamsrækt og heilsulind.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790
Póstlisti