Go to navigation .
Guðný Margrét Emilsdóttir heiti ég, búsett í dag á Íslandi en bjó um 20 ár á Ítalíu. Á Ítalíu fór ég ítölskunám í háskólabænum Perugia (Umbria) og það var ekki aftur snúið! Lengst af bjó ég í Mílanó en vann sem leiðsögumaður með Íslendinga meira og minna um alla Ítalía. Ég lít á Ítalíu sem mitt annað heimili, elska landið, fólkið, söguna, menninguna, tungumálið, matinn og vínið. Reyndar var uppáhalds tungumálið mitt í menntó latína sem hjálpaði mér heilmikið að ná fljótt tökum á ítölskunni. Ég á mér mörg uppáhaldssvæði á Ítalíu en efst á listanum eru UMBRIA og TOSKANA. Etrúskarnir í Umbria náðu strax tökum á mér og endurreisnin í Toskana. Fegurðin í þessum héruðum er einstök! En öll Ítalía er mjög áhugaverð. Alveg sama hvaða héruð, borgir um ræðir. Ég var líka skíðafararstjóri í Selva Val Gardena. Reyndar elska ég alla útiveru og hvers konar hreyfingu. Var mikið í íþróttum, stundaði sund, skíði og handbolta af miklu kappi. Í dag er það golfið og hvers konar göngur.
Ég vann líka fyrir Ferðamálaráð Íslands á Ítalíu og jafnframt Icelandair. Bjó í eitt ár í Tyrklandi, þar sem ég vann sem leiðsögumaður. Portúgal var eiginlega fyrsta landið sem ég vann með Íslendinga erlendis. Og fast á eftir fylgdu Spánn og Grikkland. Undanfarin ár hef ég unnið mikið á Íslandi með erlenda ferðamenn. Ég elska starfið mitt sem leiðsögumaður og fararstjóri. Hef gaman af fólki og er alltaf að læra eitthvað nýtt. Og núna hlakka ég mikið til næstu ferðar fyrir Bændaferðir til Umbria og Toskana í september 2023. Ci vediamo in Italia!