Saga Bændaferða

Saga Bændaferða

Bændaferðirnar voru löngum viðburðaríkar Agnar Guðnason 2009.JPG

Agnar Guðnason ráðunautur stýrði bændaferðum til útlanda í nær fjóra áratugi. Ferðaþjónusta bænda tók við af honum árið 2004. Agnar sagði Guðna Einarssyni frá bændaferðum, sem allar hafa verið skemmtilegar og sumar sögulegar. 

Búnaðarfélagið stóð fyrir ferð á Smithfield-landbúnaðarsýninguna í Englandi 1965. Mér blöskraði verðið og spurði árið eftir hvort ég mætti ekki skipuleggja ferð og bjóða bæði körlum og konum að fara með. Fram að því var bara körlum leyft að fara í bændaferðir," segir Agnar Guðnason. Þegar þetta gerðist var hann jarðræktarráðunautur hjá Búnaðarfélagi Íslands. Síðar varð hann blaðafulltrúi bændasamtakanna og lengi ritstjóri Handbókar bænda. Þegar hann fór á eftirlaun fyrir 15 árum varð skipulagning og fararstjórn í bændaferðum hans aðalstarf. Nú er Ferðaþjónusta bænda að taka við bændaferðum og mun því sinna ferðaþjónustu innanlands og utan hér eftir. En aftur til upphafsins.

"Ég fór til Flugfélags Íslands og Loftleiða og bað um tilboð í ferðina. Hagstæðara tilboð kom frá Loftleiðum. Þeir lögðu til DC-6 skrúfuvél sem bar 84 farþega. Ég auglýsti ferðina í Frey og sendi fréttatilkynningu til blaðanna. Það var eingöngu miðað við fólk úr dreifbýlinu. Ferðin seldist upp á tveimur dögum, enda var verðið á fluginu fram og aftur og gistingu í átta daga heldur hagstæðara en bara á fluginu árinu áður."

Landbúnaðarsýningin, kennd við Smithfield, var haldin í London í byrjun desember ár hvert. Þetta var alhliða landbúnaðarsýning og bæði búfénaður og nýjustu landbúnaðarvélar til sýnis. Auk Agnars voru tveir aðrir fararstjórar, Ólafur E. Stefánsson nautgriparáðunautur og Haraldur Árnason vélaráðunautur.

"Ég sneri mér til búvélainnflytjenda og fóðurframleiðenda. Þeir tóku vel í að undirbúa heimsóknir okkar í verksmiðjur og fleira. Hver maður hafði almanak með dagskrá við brottför. Sumir höfðu bókað sig í allt, en það var ómögulegt að komast yfir það," segir Agnar. "Ég pantaði einnig miða fyrir allan hópinn á söngleikinn Tónaflóð (Sound of Music) með Julie Andrews, tónleika með The Shadows og Cliff Richard og kvöld á næturklúbbinum Talk of the Town. Það voru fleiri karlar en konur í þessari ferð, en konurnar voru samt nokkuð margar. Þegar við fórum í leikhúsið fóru konurnar í peysufötin og við löbbuðum frá Picadilly Circus í leikhúsið. Þar áttum við frátekna tvo heila bekki. Fólk var almennt komið í sæti þegar við mættum og það vakti mikla athygli þegar öll strollan kom."

Langflestir ferðalanganna höfðu aldrei áður farið til útlanda, að sögn Agnars. Hann segir að enginn hafi týnst "alvarlega", allir fundist aftur um síðir. Mestar áhyggjur hafði hann af hópnum í neðanjarðarbrautinni en með henni var farið á sýningarsvæðið í Earl's Court. Þurfti að skipta á milli lesta einu sinni á leiðinni. Ráðið við því var að skipta hópnum í minni flokka sem ferðuðust saman. Agnar segir að konurnar í hópnum hafi lítið farið á sýninguna, en þess meira í verslanir.

"Vöruverðið í Englandi var á þessum tíma aðeins þriðjungur af því sem var hér heima. Þótt fæstir hefðu farið áður til útlanda vissi fólkið alveg hvernig átti að kaupa inn. Við höfðum tvær konur til að aðstoða í búðunum. Karlarnir, sem komu kvenmannslausir að heiman, voru flestir með innkaupalista. Mesti vandinn var að finna matrósaföt á krakka, sem þá voru í tísku hér en ekki í Englandi. Við fundum loks eina búð sem seldi þau. Þegar við fórum á flugvöllinn þurfti ég að panta vörubíl undir dótið því rútan dugði ekki til!"

Agnar segir að Gísli Kristjánsson, ritstjóri Freys, hafi verið frumkvöðull að bændaferðum héðan til útlanda og skipulagt ferðir til Noregs og Danmerkur í kringum 1960. Það voru litlir hópar og oft gist hjá bændum eða á bændaskólum. Einungis karlar voru gjaldgengir í ferðirnar.

Hamingjufundur í Höfn

Árið eftir Lundúnaferðina skipulagði Agnar stóra ferð til Norðurlanda. Flogið var til Stafangurs í Noregi með Loftleiðavél og heim frá Kaupmannahöfn. "Til að mega fara með leiguflugi þurftu allir farþegar að vera í sama félagsskap og hafa verið það í sex mánuði," segir Agnar. "Allir bændur voru í búnaðarfélögum en ég útbjó félagsskírteini fyrir þá frá Búnaðarfélagi Íslands og lét alla hafa gengið í félagið um tvítugt. Ég lagði ríka áherslu á að allir yrðu að passa upp á skírteinin. Áður en gengið var um borð í Kaupmannahöfn var ég kallaður fyrir hafnarlögregluna og spurður um félagsaðild farþeganna. Þeir voru í fríhöfninni og nú þurfti að framvísa skírteinunum. Fimm voru ekki með þau. Sem betur fer var ég með nokkur óútfyllt í vasanum og bjó strax til ný skírteini. Ég þekkti alla með nafni en skrítnast þótti bændunum að ég mundi alveg hvenær hver um sig hafði gengið í félagið!"

Þessu ævintýri var ekki alveg lokið. Þegar farþegarnir áttu að vera komnir um borð vantaði bónda einn úr Borgarfirði. Starfsmenn flugvallarins sögðust hafa kallað hann upp, án árangurs. Agnar sagði að maðurinn hefði ábyggilega ekki skilið nafnið sitt með dönskum framburði. "Ég fékk lánað hlaupahjól til að fara aftur inn í flugstöðina. Um síðir sá ég hvar hann gekk um gólf og spurði fólk: Hvar eru Íslendingarnir? Það skildi hann auðvitað enginn. Hann varð mikið glaður að sjá mig og sagði: Þetta er hamingjusamasta stund í mínu lífi, ég hélt að þið væruð farin! Hann hljóp með mér til baka þar sem ég brunaði á hlaupahjólinu. Í hvert skipti sem ég steig af hjólinu tók hann stökk upp í loftið. Þetta var eins og í bíómynd!"

Svaf í fötunum

Næstu árin lágu leiðir bændaferða til Norðurlandanna og árið 1975 var farin fyrsta bændaferðin til Kanada. "Guðni Þórðarson í Sunnu var með Air Viking. Við tókum 160 farþega flugvél og fórum til Calgary í Albertafylki. Stéttarsamband bænda hafði gefið 10 þúsund dollara til stofnunar safns Klettafjallaskáldsins Stefáns G. Stefánssonar. Það voru fyrstu peningarnir sem bárust til að byggja upp húsið hans í Markerville og við afhentum gjöfina. Alberta fylki gaf peninga á móti. Þetta dugði til að endurgera húsið skáldsins og opna þar minjasafn um Stefán. Þessi ferð var stórkostleg. Ég hafði komið á sambandi við bændaskóla í Olds, miðja vegu á milli Markerville og Calgary. Þar gistum við í fimm nætur, þá fórum við í Klettafjöllin. Skólastjórinn bauð okkur bíla skólans og kennarar voru bílstjórar. Þetta var hagkvæm ferð og borguðu allir kostnaðarverð.

Þegar við komum til Nýja-Íslands í Manitoba var farið að Gimli þar sem Þjóðræknisfélagið tók á móti okkur. Margir gistu heima hjá bændum á sveitabæjum í kring. Margir skemmtilegir karakterar voru með okkur, t.d. Guðmundur ráðunautur Jósafatsson frá Brandsstöðum og Helgi Haraldsson frá Hrafnkelsstöðum í Hrunamannahreppi. Þeir gistu saman hjá Gunnari Sæmundssyni bónda. Kona Gunnars var ekki heima. Helgi vorkenndi honum og bauðst til að sofa hjá Guðmundi til að spara Gunnari umstang og þvott á rúmfötum. Guðmundi þótti verst að Helgi fór ekki úr fötunum þegar hann lagðist til svefns! Þeir spurðu hvers vegna Gunnar talaði svo góða íslensku: "Það er vegna þess að ég tala ekki neitt annað," sagði Gunnar. Hann neitaði að tala nema íslensku við börnin sín, enda tala þau málið afburða vel.

Helgi Austmann, aðstoðarlandbúnaðarráðherra í Manitoba, sá um allan undirbúning fyrir okkur vestra ásamt Stefáni Stefánssyni sem bjó á Gimli og var fógeti í Manitoba. Það má segja að við höfum farið árlega til Kanada síðan í bændaferðir, bæði til Klettafjallanna og norður til Winnipeg.

Í himnaríki um stund

Fljótlega var farið að bjóða upp á haustferðir og vorferðir í Móseldalinn í Þýskalandi. Þá var gist hjá vínbændum í Leiwen, sem er 24 km fyrir austan Trier. Gist var á átta heimilum sem gátu tekið allt upp í 10 manns hvert í gistingu. Aðstaðan hjá bændunum var eins og á fínustu hótelum.

"Þannig stóð á að Bændahöllinni var lokað vegna NATO-fundar og tóku starfsmennirnir sig saman um að fara til Þýskalands. Það voru fáein sæti laus sem ég ákvað að fylla og bauð bændum af Suðurlandi sem ég þekkti. Einn þeirra var mikill sjálfstæðismaður og var þetta hans fyrsta ferð til útlanda. Konan hans vildi ekki fara með, en hann fékk að fara með því skilyrði að ég myndi passa upp á að hann týndist ekki. Við gistum fyrst í Landstein nálægt Koblenz.

Gunnar Guðbjartsson, framkvæmdastjóri Framleiðsluráðs landbúnaðarins og formaður Stéttarsambands bænda um árabil, varð sjötugur í ferðinni. Það varð töluverður gleðskapur af því tilefni að kvöldi afmælisdagsins og umræddur vinur okkar varð sæmilega kenndur.

Þegar hann vaknaði um morguninn varð honum litið út um gluggann og sá þetta yndislega fallega landssvæði, allt skógi vaxið og baðað í morgunsólinni. Hann mundi ekkert hvar hann var staddur og alls ekki að hann væri á ferðalagi. Hann var helst á því að hann væri dáinn og kominn til himnaríkis. Þegar hann kom fram á gang styrktist hann í þeirri trú, því þar heyrði hann mælt á framandi tungur. Því næst gekk hann niður á næstu hæð og sá þar tvo framsóknarmenn, þá Hauk Halldórsson í Sveinbjarnargerði og Gísla Karlsson, framkvæmdastjóra Framleiðsluráðs. Þá taldi hann nokkuð öruggt að hann væri ekki kominn til himnaríkis!"

Gömul áform rætast

Veturinn 1967 flutti Agnar tillögu á Búnaðarþingi, ásamt þeim Sigurði Líndal á Lækjarmóti í Víðidal og Sigmundi Sigurðssyni í Syðra-Langholti, um að ráðist yrði í stofnun félags sem héti Ferðaþjónusta bænda. Á næsta búnaðarþingi var ákveðið að halda af stað með fyrirtækið og hefja skipulagða ferðaþjónustu í sveitum landsins. Auglýst var eftir starfsmanni og Oddný Björgvinsdóttir ráðin forstöðumaður. Í byrjun voru aðeins 10 bændur með bændagistingu.

"Upphaflega var hugmyndin hjá mér að þetta yrði sameiginlegt, bændaferðirnar í utanlandsdeild og bændagistingin í innanlandsdeild, en það fékk ekki hljómgrunn," segir Agnar. "Ég hafði þá hugmynd að utanlandsdeildin gæti stutt starfsemina hér innanlands, jafnvel svo að hún gæti staðið undir rekstri fyrirtækisins. Það má segja að nú sé loksins verið að sameina þetta. Utanlandsdeild Ferðaþjónustu bænda var stofnuð á þessu ári og Bændaferðir, ehf. sem ég stofnaði árið 2000 og hafa ferðaskrifstofuleyfi, verða sameinaðar henni."

Bændaferðir hafa boðið upp á allt að 24 ferðir og flutt upp í 1.200 ferðamenn á ári. Agnar segir að samstarf við aðrar ferðaskrifstofur hafi gengið mjög vel. Best segir hann að sér hafi líkað að vinna með Guðna Þórðarsyni í Sunnu, að öðrum ólöstuðum. Agnari finnst nú kominn tími til að hann dragi sig í hlé, enda orðinn 77 ára gamall. Hann er þó ekki alveg hættur og stefnir á að vera aðstoðarfararstjóri í ferð til Eystrasaltslandanna á næsta ári.

Þeir eru orðnir margir Íslendingarnir sem hafa stigið sín fyrstu spor erlendis með Agnari. Margir viðskiptavinir hafa verið ákaflega tryggir og sumir búnir að fara meira en 20 sinnum með Bændaferðum. Áður fyrr voru flestir úr sveitum landsins, en nú skipa þéttbýlisbúar meirihluta viðskiptavina Bændaferða. Hann segir að mikill munur sé ferðafólki nú og í gamla daga. "Áður voru menn að sulla í víni yfir daginn, en nú þekkist það ekki. Ferðir okkar eru frábrugðnar öðrum hópferðum í því að það er skilyrði að fararstjórinn sé með hópnum frá morgni til kvölds. Margir tala ekki erlend mál og mállaust fólk er óöruggt að fara út að skemmta sér," segir Agnar.


Morgunblaðið 22. nóvember 2004.




Póstlisti