Gott að vita

Gott að vita

Bændaferðir fyrir alla

Bændaferðir eru fyrir alla þá sem hafa gaman af að ferðast, upplifa nýja hluti og njóta þess að vera til í góðum félagsskap. 

Bókun hjá Bændaferðum

Hægt er að bóka sæti í ferðir á eftirfarandi hátt:

  • Hér á vefnum, baendaferdir.is.
  • Í síma 570 2790.
  • Með því að koma við á skrifstofu okkar að Síðumúla 2, 108 Reykjavík.

Staðfestingargjald greiðist við bókun. Fullnaðargreiðslu þarf að inna af hendi a.m.k. 12 vikum fyrir brottför.

Ekkert bókunargjald er tekið þegar bókað er símleiðis eða á skrifstofu okkar enda viljum við stuðla að góðum samskiptum við okkar viðskiptavini og veita þeim ávallt sem besta þjónustu. 

Hvernig borga ég ferðina mína?

Við bókun greiðist staðfestingargjald sem er a.m.k. 10% af heildarverði ferðar. Staðfestingargjald er óafturkræft.

Fullnaðargreiðslu þarf að inna af hendi a.m.k. 12 vikum fyrir brottför, nema annað sé tekið fram.

Hægt er að greiða með greiðslukorti, debetkorti eða millifærslu.

Ef heildarverð ferðar er undir 150.000 kr. þarf að fullgreiða ferð við bókun.

Á vefsíðu Bændaferða, baendaferdir.is, er hægt að skrá sig inn á Ferðin mín þar sem hægt er að greiða hvenær sem er inn á ferðina, án kostnaðar, og bæta við upplýsingum og þjónustu ef við á. Innskráning fer fram með netfangi þess sem bókaði ferðina ásamt bókunarnúmeri. 

Gjafabréf Bændaferða og Hey Ísland

Gjafabréf Bændaferða og Hey Ísland er tilvalin gjöf til að gleðja nána ættingja og vini sem hafa gaman af því að ferðast, jafnt innanlands sem utan. Hægt er að kaupa rafrænt gjafabréf á vefsíðum okkar, á skrifstofunni að Síðumúla 2 eða í síma 570 2790. Gjafabréfin nýtast jafnt í utanlandsferðir Bændaferða sem hjá þeim fjölmörgu ferðaþjónustufyrirtækjum Hey Ísland sem bjóða gistingu, veitingar og afþreyingu um land allt.

Rafræna gjafabréfinu fylgir kóði sem sleginn er inn í þar til gerðan reit í greiðsluferlinu, þegar bókað er á vefnum. Ef bókað er á skrifstofunni eða í gegnum síma, tekur starfsfólk Bændaferða við kóða bréfsins og skráir það á viðkomandi viðskiptavin. 

Ferðagögn

Ferðagögn eru send farþegum um tveimur vikum fyrir brottför. Ef ferðagögn berast ekki af einhverjum sökum, vinsamlega hafið þá samband við skrifstofu Bændaferða. 

Vegabréf - gildistími

Utanríkisráðuneytið hvetur alla þá sem eru á leið til ríkja utan EES-svæðisins að ferðast með vegabréf sem eru í gildi í a.m.k. 6 mánuði fram yfir áætlaðan dvalartíma í viðkomandi ríki. Gott er að skoða vegabréfin sín strax við bókun. 

Rafrænar ferðaheimildir – API & APIS, ESTA & eTA

Ferðalög til Bandaríkjanna, Bretlands, Kanada & Finnlands. 

Þegar ferðast er til Bandaríkjanna þarf að sækja um ESTA og þegar ferðast er til Kanada þarf að sækja um eTA. Þessar rafrænu ferðaheimildir þarf að sækja um með góðum fyrirvara eða a.m.k. 72 klst. fyrir brottför.

Eins þarf að skila inn API eða APIS þegar ferðast er til Bandaríkjanna, Kanada, Bretlands og núna tímabundið til Finnlands. Þetta eru sömu upplýsingar og koma fram á persónuupplýsingasíðu vegabréfsins. Hægt er að fylla þessar upplýsingar út rafrænt eða í síðasta lagi við innritun á flugvelli.

Hvar og hvernig best er að sækja um ESTA & eTa og fylla út API & APIS er að finna á vef Icelandair

Get ég lengt ferðina mína?

Þegar flogið er með áætlunarflugi Icelandair þá er hægt að sækja um að breyta heimferð. Slík breyting kostar að öllu jöfnu 5.000 kr á mann, ef Icelandair samþykkir slíka breytingu í sama verðflokki og flugbókun Bændaferða segir til um. Oft getur reynst erfitt að breyta tilbaka, gott er að hafa það í huga þegar beðið er um slíka breytingu. Ef farþegar ætla sér að bóka hótel þá mælum við með því að þeir bíði eftir því að fá breytinguna staðfesta áður en slíkt er gert. 

Get ég bókað sæti í flugvélinni?

Starfsfólk Bændaferða sér ekki um að bóka farþega í ákveðin flugsæti en við sendum lista til Icelandair til að reyna að tryggja að fólk sem ferðast saman geti setið saman. Ekki er þó hægt að verða við slíkum óskum í öllum tilvikum. Hægt er að fara inn á vef Icelandair 24 klst. fyrir brottför og innrita sig. Þá er hægt að skoða hvort hægt sé að velja ný sæti. 

Hvernig bóka ég hjólastól á flugvelli?

Fyrir farþega sem eiga erfitt með gang, mælum við eindregið með því að bóka hjólastól á flugvöllum til að auðvelda ferðalagið. Hafið samband við starfsfólk Bændaferða, annað hvort í síma eða tölvupósti og við veitum aðstoð með þetta, viðskiptavinum að kostnaðarlausu. 

Hvar fæ ég upplýsingar um bólusetningar?

Þegar ferðast er um Evrópu er almennt ekki þörf á bólusetningum. Þegar ferðast er til fjarlægra landa er mælt með ákveðnum bólusetningum og sendum við hagnýtar upplýsingar á viðkomandi farþega með slíkum upplýsingum. Hægt er að fá upplýsingar um bólusetningar á heilsugæslustöðvum, hjá heimilislækni eða Ferðavernd. Nauðsynlegt er að huga að bólusetningum eigi síðar en mánuði fyrir brottför. 

Má taka með lyf í ferðina?

Við mælum með að farþegar taki með sér lyfseðilsskyld lyf í handfarangri og þurfa lyfin að vera í upprunalegum umbúðum. Einnig er mælt með að lyfseðlar og/eða læknisvottorð séu höfð meðferðis. Mikilvægt er að hafa með sér lyf fyrir alla ferðina. 

Upplýsingar vegna COVID19

Við hjá Bændaferðum viljum tryggja öryggi og velferð viðskiptavina okkar. Við fylgjumst náið með gangi mála hvað varðar ferðatakmarkanir og ferðalög og metum stöðuna daglega varðandi þær ferðir sem fram undan eru. Við förum eftir leiðbeiningum frá sóttvarnarlækni og embætti landlæknis í hvívetna. Á vef landlæknisembættisins má finna nýjustu upplýsingar um veiruna og útbreiðslu hennar. Þar er einnig fjallað um ferðalög út fyrir landsteinana og hvetjum við ykkur til að kynna ykkur þær upplýsingar vel. 

Ráðleggingar til ferðamanna á vefsíðu Landlæknis vegna COVID-19

Upplýsingasíða um COVID-19
Póstlisti