Gengið við Amalfíströndina
7. - 14. september 2026 (8 dagar)
Amalfíströndin er þekkt fyrir sitt dramatíska landslag, snarbratta kletta í sjó fram, fallegar steinvölustrendur, falda hella og tignarleg fjöll sem gnæfa yfir ásamt stölluðum hlíðum fylltum sítrónutrjám, vínekrum og ólífulundum. Hér eru líka gullfalleg þorp við klettótta sjávarsíðuna og upp eftir hömrunum. Í þessari yndislegu ferð njótum við þess að feta í fótspor guðanna á göngu um Amalfíströndina og næsta nágrenni. Stórkostlegt útsýni er frá gönguleiðunum í þessari ferð yfir hinn dásamlega Napólíflóa sem er einn sá fallegasti á Ítalíu. Við dveljum í bænum Marina di Seiano og njótum þar útivistar og lífsins lystisemda. Við skoðum friðlandið á Punta Campanella höfðanum en þar er fallega eyjan Caprí skammt undan landi. Við göngum stíg Guðanna milli Bomerano og Nocella og komum við í rómantíska bænum Positano. Við kynnumst einnig ítalskri matargerðarlist þar sem við fáum heimamenn til að kenna okkur að matreiða hina einu sönnu ítölsku pizzu sem upprunnin er frá svæðinu. Í þessari dásamlegu gönguferð njótum við hins ítalska Dolce vita sem og mikilfenglegs útsýnis yfir Napólíflóann og náttúrunnar þar um kring.