11. - 18. september 2023 (8 dagar)
Í þessari töfrandi gönguferð verður gengið um Toskanahéraðið á Ítalíu sem svo marga dreymir um að heimsækja. Á vegi okkar verða gróskumiklir vínakrar, heiðgrænir ólífulundir og önnur dásamleg gróðursæld innan um heillandi bæi og glæsilegar byggingar. Við munum ganga eftir fornum rómverskum vegum að miðaldaþorpinu Cozzile og heimsækjum fallega bæinn Greve sem er einn af gimsteinum Chianti héraðsins. Förum til Cinque Terre þorpanna og í skoðunarferð um Flórens sem er ein glæsilegasta lista- og menningarborg Ítalíu. Okkar bíður alveg sérstök upplifun þegar við förum með truffluveiðimanni og hundinum hans í skógarferð að leita að trufflum og fáum að sjálfsögðu að smakka á góðgætinu. Við förum einnig á matreiðslunámskeið og lærum að elda eins og sannir Toskanabúar með því að nota hágæða hráefni og nota hendurnar sem framlengingu á hjartanu. Hvenær sem er í ferðinni er hægt að taka daginn rólega og njóta aðstöðunnar á hótelinu eða kanna umhverfið á eigin vegum. Markmið ferðarinnar er að njóta útivistar í góðum félagsskap á spennandi og fallegum slóðum og upplifa fagurt landslagið með öllum skilningarvitum.