Gengið í Toskana

Í þessari töfrandi gönguferð verður gengið um Toskanahéraðið á Ítalíu sem svo marga dreymir um að heimsækja. Á vegi okkar verða gróskumiklir vínakrar, heiðgrænir ólífulundir og önnur dásamleg gróðursæld innan um heillandi bæi og glæsilegar byggingar. Við munum ganga eftir fornum rómverskum vegum að miðaldaþorpinu Cozzile og heimsækjum fallega bæinn Greve sem er einn af gimsteinum Chianti héraðsins. Förum til Cinque Terre þorpanna og í skoðunarferð um Flórens sem er ein glæsilegasta lista- og menningarborg Ítalíu. Okkar bíður alveg sérstök upplifun þegar við förum með truffluveiðimanni og hundinum hans í skógarferð að leita að trufflum og fáum að sjálfsögðu að smakka á góðgætinu. Við förum einnig á matreiðslunámskeið og lærum að elda eins og sannir Toskanabúar með því að nota hágæða hráefni og nota hendurnar sem framlengingu á hjartanu. Hvenær sem er í ferðinni er hægt að taka daginn rólega og njóta aðstöðunnar á hótelinu eða kanna umhverfið á eigin vegum. Markmið ferðarinnar er að njóta útivistar í góðum félagsskap á spennandi og fallegum slóðum og upplifa fagurt landslagið með öllum skilningarvitum.

Verð á mann 329.600 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 20.800 kr.


Innifalið

  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Ferðir á milli flugvallarins í München og hótelsins.
  • Gisting í 2ja manna herbergi.
  • Morgunverðarhlaðborð.
  • Vel útilátinn 3ja kvöldverður með salatbar.
  • Aðgangur að heilsulind hótelsins.
  • Göngudagskrá.
  • Leiðsögn staðarleiðsögumanns í gönguferðum.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn á söfn, hallir og kirkjur.
  • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
  • Hádegisverðir.
  • Þjórfé.
  • Forfalla- og ferðatryggingar.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Undirbúningur

Mikilvægt er að þátttakendur séu í ágætis gönguformi en besti undirbúningurinn er að ganga reglulega á fjöll. Fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu er gott að fara upp að Steini í Esjunni a.m.k. þrisvar til fjórum sinnum fyrir ferðina. Ágætis viðmið er að geta gengið upp að Steini Esjunnar á innan við 2 klst. og líða vel eftir gönguna. Þeir sem búa fjær velja sér sitt staðarfjall til að ganga á og sameina þar með undirbúning og útiveru. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir gönguferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar miklu betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina. Vinsamlegast athugið að ef þátttakendur hafa ekki þá getu sem nauðsynleg er fyrir göngur ferðarinnar getur fararstjórinn farið fram á að viðkomandi sleppi einhverjum degi/dögum. Í staðinn er hægt að nýta sér aðstöðu hótelsins eða fara í léttar gönguferðir á eigin vegum.

Gönguferðirnar

Farið verður í skipulagðar gönguferðir með staðarleiðsögumanni en íslenski fararstjórinn verður að sjálfsögðu með í för. Hér fyrir neðan eru dæmi um mögulegar dagleiðir en teknar verða ákvarðanir um leiðirnar með skömmum fyrirvara eftir veðri og öðrum aðstæðum. Hvaða dag sem er geta farþegar valið að fara styttri leiðir á eigin vegum eða taka það rólega á hótelinu og njóta þess sem nágrennið hefur upp á að bjóða.

11. september | Flug til Mílanó

Brottför frá Keflavík kl. 7:50 en mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 14:10 að staðartíma. Frá flugvellinum í Mílanó eru um 350 km til Montecatini Terme. Bærinn Montecatini Terme er þekktastur fyrir að vera á jarðhitasvæði og telst einn stærsti heilsulindarbærinn á Ítalíu. Í bænum eru líka margir gosbrunnar sem eru sannkölluð meistaraverk.

Opna allt

12. september | Fiesole, Settignano & Flórens

Við hefjum göngu dagsins í fallega bænum Fiesole. Þaðan fylgjum við Flórens dalbotninum og komum að hæðinni þar sem Leonardo da Vinci prófaði sig áfram með loftförin sín. Við förum fram hjá gróskumiklum ólífulundum á leið okkar til Settignano sem er dæmigert lítið Toskana þorp. Þarna ólst annar mikill listamaður upp, Michelangelo, sem málaði eitt þekktasta listaverk í heimi í loft Sixtínsku kapellunnar í Vatíkaninu. Við endum daginn í hinni fallegu Flórens þar sem við förum í skoðunarferð og sjáum meðal annars margar töfrandi hallir og kirkjubyggingar áður en við snúum aftur til Montecatini með lest.

  • Göngutími: u.þ.b. 2,5 klst.
  • Hækkun/lækkun: u.þ.b. 300 m
  • Erfiðleikastig: létt til miðlungs

13. september | Ólífulundir, olíumyllur & Montecatini Alto

Í dag göngum við skemmtilega hringleið sem hefst í þorpinu Massa. Á þessari þægilegu göngu verður farið eftir fornum rómverskum vegi að miðaldaþorpinu Cozzile og á leiðinni gefst færi á að sjá einstakan byggingarstíl Santuario di Croci helgidómsins og hrífandi landslag ólífulunda, skóga og vínakra. Við munum stoppa á leiðinni við hefðbundna ólífuolíumyllu þar sem við fáum að smakka á afurðum svæðisins. Eftir hádegi munum við svo taka kláf upp í gamla miðaldaþorpið Montecatini Alto.

  • Göngutími: u.þ.b. 4 klst.
  • Hækkun/lækkun: u.þ.b. 290 m
  • Erfiðleikastig: létt til miðlungs 

14. september | Chianti hérað & truffluleit

Nú er ferðinni heitið fram hjá vínekrum Chianti héraðs því svæðið býður upp á svo miklu meira en stórkostlegt vín. Sýprusviður teygir sig með fram hlykkjóttu sveitavegunum sem við göngum á og í fyrstu gönguferð dagsins förum við upp í hæðirnar í kringum fallega bæinn Greve sem er einn af gimsteinum Chianti héraðsins. Eftir hádegi bíður okkar alveg sérstök upplifun þegar við förum með truffluveiðimanni og hundinum hans í skógarferð að leita að trufflum. Trufflur eru af ætt asksveppa, vaxa neðanjarðar og þykja mikið lostæti. Við lærum hvar þær er að finna, hvernig hundurinn er þjálfaður, hvernig á að þrífa trufflurnar og síðast en ekki síst hvernig búa skuli til bragðgóða rétti. Eftir þessa útiveru verða væntanlega allir búnir að byggja upp góða matarlyst og við verðlaunum okkur með því að fá að smakka á góðgætinu ásamt góðu staðbundnu víni.

15. september | Frídagur

Í dag slökum við á og njótum þess sem hótelið og nágrenni þess hefur upp á að bjóða. Hugguleg verönd er við hótelið og notalegt að slappa af í heilsulindinni og láta gönguþreytu liðinna daga líða úr sér.

16. september | Cinque Terre

Nú heimsækjum við Cinque Terre þorpin sem eru á heimsminjaskrá UNESCO sökum einstakra menningarminja. Við förum með rútu til La Spezia og þaðan áfram með lest til Vernazza sem er í Cinque Terre þjóðgarðinum. Þar göngum við af stað fram hjá ólífutrjám og stórkostlegu útsýni í áttina að bænum Corniglia sem er eini Cinque Terre bæjanna sem ekki er hægt að koma sjóleiðina að. Hér skoðum við okkur um og tökum því næst lest til að sjá fleiri af fallegu Cinque Terre þorpunum. Eftir að hafa slappað vel af og notið þess að vera á þessu dásamlega svæði förum við aftur með lest til La Spezia og því næst með rútu til Montecatini.

  • Göngutími: u.þ.b. 2,5 klst.
  • Hækkun/lækkun: u.þ.b. 400 m
  • Erfiðleikastig: miðlungs - langur dagur
  • Göngustígarnir eru oft og tíðum þröngir og grýttir og stór hluti þeirra tröppur

17. september | Matreiðslunámskeið & hæðirnar við Lucca

Íbúar Toskana héraðs segja að mat svæðisins skuli elda með því að nota hendurnar sem framlengingu á hjartanu. Með því að nota fá hágæða hráefni sé engin þörf á kryddi. Fyrir hádegi munum við fá tækifæri til að sannreyna þessar fullyrðingar á matreiðslunámskeiði hjá ferðaþjónustubónda og njótum þess að sjálfsögðu að snæða afraksturinn í yndislegum hádegisverð. Eftir hádegi uppgötvum við svokallaða Montecarlo svæði á hæðunum umhverfis gömlu virkisborgina Lucca. Svæðið er einkum frægt fyrir framleiðslu eðalhvítvína. Leið okkar liggur að heillandi bænum Montecarlo og þaðan í gegnum skóglendi og vínekrur áður en við komum að 500 ára gömlu eikartré og litla þorpinu San Martino.

  • Göngutími: u.þ.b. 2,5 klst.
  • Hækkun/lækkun: u.þ.b. 200 m
  • Erfiðleikastig: létt ganga

18. september | Heimferð frá Mílanó

Nú er komið að heimferð eftir góða göngudaga. Við leggjum snemma af stað út á flugvöll í Mílanó og flogið verður heim kl. 15:45. Lending á Íslandi kl. 18:00 að staðartíma.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Perla Magnúsdóttir

Perla Magnúsdóttir er ung og lífsglöð útivistarkona úr Hafnarfirðinum. Hún er menntaður leiðsögumaður og ferðamálafræðingur sem hefur starfað í íslenskri ferðaþjónustu undanfarin 11 ár. Í dag starfar hún aðallega við alls konar leiðsögn og fararstjórn, og að byggja upp fyrirtæki sitt; NáttúruPerla. Hún býr í smáíbúðahverfinu í Reykjavík með yndislegum ketti og enn betri manni.

Perla hefur óbilandi áhuga á útiveru og ferðalögum. Hún hefur ferðast mikið hérlendis sem og víðs vegar um heiminn. Ferðalögin eiga það öll sameiginlegt að hafa aukið víðsýni hennar, sjálfsbjargarviðleitni og þakklæti. Það er í raun ekkert sem nærir hana meira heldur en útivera í fallegu umhverfi, með góðu fólki og stemmningu.

Hótel

Hotel Adua

Gist verður allar næturnar á Hotel Adua í miðlægum en þó rólegum hluta Montecatini Terme, í um 10 mínútna göngufjarlægð frá lestarstöðinni. Öll herbergin eru með hárþurrku, síma, sjónvarpi, öryggishólfi, loftkælingu, míníbar og ókeypis þráðlausri nettengingu. Á hótelinu er veitingastaður, bar og setustofa ásamt friðsælum garði og verönd. Einnig er heilsulind með innisundlaug, gufubaði og hvíldarsvæði. Í heilsulindinni er hægt að bóka ýmsar tegundir af meðferðum gegn gjaldi.

Vefsíða hótelsins.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-14:00