23. - 30. maí 2026 (8 dagar)
Þessi glæsilega ferð hefst í hrífandi borginni Napólí sem er höfuðborg Campania héraðs við Napólíflóa. Gamli hluti Napólí hefur yndislegan sjarma, hann var stofnaður á bronsöld og er á heimsminjaskrá UNESCO. Borgin er, sem fyrrum konungsborg, rík af glæstum byggingum, fallegum torgum og áhugaverðum söfnum. Við förum í dagsferð til bæjarins Pompei sem geymir frægustu fornminjar veraldar, frá fyrstu öld okkar tímatals og njótum víns úr héraði við rætur eldfjallsins Vesúvíusar. Við könnum eyjar Napólíflóa og dveljum í bænum Forio á fallegu eyjunni Ischia. Hér settust Grikkir að á 8. öld f.Kr. og síðar nýttu Rómverjar jarðvarmann til að skapa stórfenglegar baðlindir og glæsihýsi sem enn bera vitni um þá tíma. Við förum í hinn stórbrotna Aragonese kastala sem gnæfir yfir á lítilli klettaeyju tengdri Ischia með göngubrú og einnig brögðum við á afurðum úr héraði. Við heimsækjum eitt best geymda leyndarmál Napólíflóa, litríku eyjuna Procida. Þessi litla eyja hefur haldið sínum miðjarðarhafssjarma og þar er fiskveiði ennþá aðal atvinnuvegurinn. Við njótum okkar í kyrrðinni á þessari fallegu eyju og brögðum á nýveiddu fiskmeti. Í þessari yndislegu ferð um perlur Napaólíflóa njótum við alls hins besta í náttúrfegurð, mat, menningu og sögu svæðisins og hrífumst með í afslöppuðu andrúmslofti Miðjarðarhafsins.