Napólí & Ischia

Þessi glæsilega ferð hefst í hrífandi borginni Napólí sem er höfuðborg Campania héraðs við Napólíflóa. Gamli hluti Napólí hefur yndislegan sjarma, hann var stofnaður á bronsöld og er á heimsminjaskrá UNESCO. Borgin er, sem fyrrum konungsborg, rík af glæstum byggingum, fallegum torgum og áhugaverðum söfnum. Við förum í dagsferð til bæjarins Pompei sem geymir frægustu fornminjar veraldar, frá fyrstu öld okkar tímatals og njótum víns úr héraði við rætur eldfjallsins Vesúvíusar. Við könnum eyjar Napólíflóa og dveljum í bænum Forio á fallegu eyjunni Ischia. Hér settust Grikkir að á 8. öld f.Kr. og síðar nýttu Rómverjar jarðvarmann til að skapa stórfenglegar baðlindir og glæsihýsi sem enn bera vitni um þá tíma. Við förum í hinn stórbrotna Aragonese kastala sem gnæfir yfir á lítilli klettaeyju tengdri Ischia með göngubrú og einnig brögðum við á afurðum úr héraði. Við heimsækjum eitt best geymda leyndarmál Napólíflóa, litríku eyjuna Procida. Þessi litla eyja hefur haldið sínum miðjarðarhafssjarma og þar er fiskveiði ennþá aðal atvinnuvegurinn. Við njótum okkar í kyrrðinni á þessari fallegu eyju og brögðum á nýveiddu fiskmeti. Í þessari yndislegu ferð um perlur Napaólíflóa njótum við alls hins besta í náttúrfegurð, mat, menningu og sögu svæðisins og hrífumst með í afslöppuðu andrúmslofti Miðjarðarhafsins.

Verð á mann 389.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 82.500 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Ferðir til og frá flugvelli.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði á 4* hótelum.
  • Morgunverður á hótelum alla dagana.
  • Fjórir kvöldverðir í Forio.
  • Tveir hádegisverðir.
  • Tími í pizzagerð á veitingastað í Napólí.
  • Rúta og skoðunarferð til Pompei og vínsmökkun.
  • Bátsferð til og frá Ischia.
  • Bátsferð til og frá Procida.
  • Heimsókn í ostagerð.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í hallir, kirkjur og söfn, að undanskildum þeim sem eru undir innfalið.
  • Hádegisverðir og kvöldverðir, að undanskildum þeim sem eru undir innfalið.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Nánari upplýsingar

  • Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

23. maí | Flug til Rómar & Napólí

Brottför frá Keflavík kl. 08:15 og mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Róm kl. 15:00 að staðartíma. Nú verður stefnan tekin á Napólí sem er höfuðborg Campania héraðsins á Ítalíu. Þar tekur töfrandi fegurð Napólíflóans á móti okkur, eins fallegasta flóa landsins. Hér verður gist í þrjár nætur.

24. maí | Skoðunarferð um Napólí & pizzagerð

Nú verður farið í skemmtilega skoðunarferð um Napólí sem er heillandi borg á suðausturströnd Ítalíuskagans. Gamli miðbærinn í borginni var stofnaður á bronsöld en hann er á heimsminjaskrá UNESCO og hefur skemmtilegan sjarma sem við njótum á göngu um hann. Við skoðum það helsta í borginni en hana prýða glæstar byggingar og konungleg torg. Napólíbúar eru stoltir af því að uppruna nútíma pizzunar megi rekja til réttar sem var vinsæll í borginni á 18. og 19 öld. Um hádegisbil förum við á pizzastað í borginni og lærum hvernig á að búa til pizzu að hætti heimamanna og gæðum okkur síðan á kræsingunum. Eftir skoðunarferð verður frjáls tími til að njóta lífsins í þessari skemmtilegu borg.

25. maí | Fornminjar í Pompei & vínsmökkun við rætur Vesúvíusar

Í dag liggur leið okkar til magnaða bæjarins Pompei þar sem skoðaðar verða einhverjar frægustu fornminjar veraldar. Árið 79 hófst kraftmikið eldgos í fjallinu Vesúvíusi og súla af gosefnum stóð í um 30 kílómetra upp í loftið. Nóttina eftir féll þessi súla með ógnarhraða og þá grófst borgin á örskotsstundu undir ösku og vikri. Það má segja að Pompei og íbúar hennar hafi frosið í tíma. Hér er hægt að sjá hvernig hugvit Rómverja og listfengi birtust í hversdagslífinu, vatnsveitur, hringleikahús, baðhús, freskur á veggjum og glæsihýsi. Rústir gömlu Pompei eru eitt stórkostlegasta dæmið um fornleifauppgröft heillar byggðar. Heimamaður mun leiða okkur í allan sannleikann um söguna. Seinni part dags munum við njóta vínsmökkunar undir rótum eldfjallsins Vesúvíusar en vínþrúgurnar dafna einstaklega vel í hlíðum fjallsins og þeim jarðvegi sem eldsumbrotin skyldu eftir sig.

Opna allt

26. maí | Sigling til eldfjallaeyjunnar Ischia

Frá líflegu höfninni í Napólí siglum við út í stærstu eyju Napólíflóa, Ischia, en hún á sér langa sögu allt aftur til bronsaldar. Hér settust Grikkir að á 8. öld f.Kr. og síðar nýttu Rómverjar jarðvarmann til að skapa stórfenglegar baðlindir og glæsihýsi sem enn bera vitni um þá tíma. Eyjan hefur lifað af jarðskjálfta, eldgos og ásókn sjóræningja og á 15. öld var hinn áhrifamikli Aragonese kastali reistur til að verjast óvinum. Á 18. og 19. öld varð Ischia aftur aðlaðandi athvarf fyrir aðalsfólk og listafólk sem kom til að njóta heilsulindanna og náttúrunnar og hefur hún haldið því hlutverki allt til dagsins í dag. Við dveljum á hóteli í bænum Forio á vesturströnd eyjunnar næstu fjórar nætur.

27. maí | Skoðunarferð um Ischia, Aragonese kastali & heimsókn í ostagerð

Í dag förum við í skoðunarferð hringinn í kring um eyjuna. Við keyrum meðfram fallegum ströndum með útsýni yfir Týrrenahafið sem liggur allt um kring. Hér eru vínekrur og aldingarðar með sítrusávöxtum í hlíðum eldfjallanna, víðar sandstrendur og grýttir sægrænir flóar og víkur. Í hjarta eyjunnar stendur gamla eldfjallið Monte Epomeo umkringt gróskumiklum kastaníuskógi. Við skoðum kastalann Aragonese sem stendur á eyju sem tengd er við land með göngubrú. Það hafa lengi verið voldugar byggingar á þessari eyju til að verjast ágangi sjóræningja, sú fyrsta á 5. öld fyrir okkar tímatal en á 15. öld varð til kastalinn sem enn stendur. Eftir heimsókn okkar út í kastalann kynnum við okkur Mozzarella ostagerð og brögðum á sólþurrkuðum tómötum og ólífuolíu úr héraði.

28. maí | Heillandi eyjan Procida & fiskur dagsins

Litríka eyjan Procida bíður okkar í dag. Hún er smæst af eyjunum þremur í Napólíflóa og er eitt best geymda leyndarmál hans. Þessi heillandi eyja hefur haldið sínum miðjarðarhafssjarma og hér er meiri ró yfir öllu en gengur og gerist á stærri eyjunum Ischia og Caprí. Procida var valin menningarhöfuðborg Ítalíu árið 2022 og voru þá listir, saga, samfélag og hefðir hennar í hávegum höfð. Siglingin frá Ischia tekur um hálftíma og í höfninni taka fagurlega pastellituð húsin á móti okkur. Hér var alsiða að mála húsið sitt í björtum litum til að sjómennirnir gætu þekkt þau frá sjó. Við förum í skemmtilega skoðunarferð um þessa litlu eyju og stoppum svo á veitingastað um hádegisbil. Þar fáum við besta fisk sem völ er á þann daginn, beint úr sjó. Hér er mikil fiskveiðimenning, bátar við bryggju eða úti fyrir ströndinni og net lögð til þerris. Við sjáum hugguleg þorp við litlar kræklóttar götur en líka fallegar sand- og steinvölustrendur, hæðir, kletta og fagra útsýnisstaði yfir Týrennahafið. Í hæðunum fyrir ofan ströndina eru ólífu- og sítrónulundir og vínekrur. Við njótum okkar í kyrrðinni á þessari fallegu eyju.

29. maí | Frjáls dagur í Forio

Nú verður frjáls dagur til að skoða sig betur um í fallega bænum Forio sem er ríkur af sögu og mannlífi. Hér blandast saman töfrar Miðjarðarhafsins, náttúrufegurð og menning. Bærinn er innrammaður af klettum, hlíðum eldfjalla, gróskuríkum dölum, sandströndum og sægrænum sjó. Hér eru litlar hafnir og stígar meðfram þeim, hægt er að setjast inn á kaffi- og veitingahús, fá sér snæðing og fylgjast með mannlífinu. Einnig er gaman að rölta um þröngar steinilagðar götur inn á milli lítríkra húsanna þar sem finna má lítil torg og garða. Í útjaðri vesturenda bæjarins er fallegi listi – og grasagarðurinn La Mortella Gardens sem liggur í hlíðum Zaro. Þaðan er fallegt útsýni yfir Forio og hafið úti fyrir ströndinni.

30. maí | Heimferð

Nú er þessari glæsilegu ferð um Napólíflóann að ljúka. Við siglum frá Ischia aftur yfir til Napólí og ökum þaðan á flugvöllinn í Róm. Brottför þaðan kl. 16:20 og lending í Keflavík kl. 19:10 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

Napólí = Starhotels Terminus Napoli ****
Forio = Hotel Sorriso Thermae resort & spa ****

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Marianne Eiríksson

Marianne fæddist 1964 í Schaffhausen í Sviss, við landamæri Þýskalands. Hún er menntaður ferðamálafræðingur en kom til Íslands í fyrsta skipti árið 1985 og dvaldist þá á sveitabæjum í nokkra mánuði. Síðan 1992 hefur Marianne búið á Íslandi með íslenskum eiginmanni sínum. Hún er útskrifuð frá leiðsöguskólanum og starfar m.a. sem leiðsögumaður.
Marianne segist sjálf vera orðin meiri Íslendingur en Svisslendingur en hún talar þýsku, ensku, frönsku, ítölsku og að sjálfsögðu reiprennandi íslensku.
Áhugamál Marianne eru ferðalög, tungumál og hestamennska.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti