Fljótasigling á Rhone

Þetta er einstaklega ljúf sigling eftir ánni Rhône um rótgróin héruð í Frakklandi, þar sem fara saman glæsilegar byggingar frá liðinni tíð og undurfagurt landslag. Við ökum frá París um Búrgundarhérað í bæinn Beaune sem er gamall virkisbær umvafinn vínökrum. Þaðan liggur leiðin til Lyon þar sem við förum um borð í skipið MS Chamargue sem er sannkallað fljótandi lúxushótel. Næstu daga líðum við um undurfagurt umhverfi og upplifum samspil náttúrufegurðar og glæsibygginga eins og þegar siglt er hjá gömlu, rómversku borginni Valence. Víða er farið í land og ekið um fögur héruð eins og Camargue svæðið, sem er friðlýst vatnasvæði, og þorp og bæi með langa sögu en pílagrímsbærinn Saintes Maries de la Mer er einn slíkur. Eftir dvöl í Arles er siglt til Avignon þar sem við kynnumst þessari fornu borg og skoðum m.a. Palais des Papes og förum að brúnni Pont Saint-Bénézet. Siglum að bænum Chateauneuf du Pape og förum þaðan í skoðunarferð um héraðið og ökum því næst um hið magnaða Ardeche gil en á leið okkar njótum við einstaks útsýnis. Siglum norður ána til La Voulte og förum í skoðunarferð um Cotes du Rhône hérað þar sem við skoðum bæinn Tain-l‘Hermitage en hann er í einu merkilegasta vínyrkjuhéraði Frakklands. Stórkostlegri siglingu lýkur í Lyon en þaðan er ekin fögur leið til bæjarins Murten í Sviss. Ferðalok eru svo í Zürich en þaðan er flogið til Íslands.

Verð á mann 314.800 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 76.600 kr.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði á hóteli í upphafi og lok ferðar.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • 5 daga fljótasigling frá Lyon og aftur til Lyon með MS Chamargue.
 • Gisting í 4 nætur á MS Chamargue í káetum með sturtu / salerni.
 • Morgun-, hádegis- og kvöldverður á MS Chamargue.
 • Allir drykkir með máltíðum á skipinu, vín, bjór, vatn og kaffi espresso.
 • Móttökudrykkur á skipinu og allir drykkir á bar.
 • Gala kvöldverður síðasta kvöldið á skipinu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir, kláfa og kirkjur.
 • Hádegisverðir aðrir en eru taldir upp í innifalið.
 • Þjórfé.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

19. október | Flug til París & Beaune

Brottför frá Keflavík kl. 7:40. Mæting í Leifsstöð um 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í París kl. 13:05 að staðartíma. Þaðan verður ekin fögur leið til Beaune í Búrgundarhéraðinu, sem er rómað fyrir fegurð, þar sem gist verður í 2 nætur í miðbænum.

20. október | Dagur í Beaune

Í dag verður farið í skemmtilega göngu um þessa yndislegu virkisborg Búrgunda vínhéraðsins sem er umvafin Côte d'Or vínökrum. Hrífandi götur með fallegum og blómum skreyttum bindingsverkshúsum sem gleðja augað. Hér eru margar glæstar byggingar sem prýða borgina þar á meðal Hótel Dieu frá 15. öld sem hýsir safn með meistaraverkum eins og „Síðasti dómurinn“ eftir Rogier van der Weyden. Borgin er einnig þekkt fyrir árlegt vínuppboð. Hér er mjög margt áhugavert að skoða. Eftir skemmtilega göngu verður frjáls tími til að upplifa borgina á eigin vegum.

21. október | Beaune Lyon & sigling á ánni Rhône

Nú kveðjum við þennan fallega stað, þar sem komið er að hápunkti ferðarinnar, sjálfri siglingunni. Stefnan er sett á Lyon, sem er önnur fjölmennasta borg landsins. Elsti hluti borgarinnar er St. Jean, sem stendur á tanganum við ármót Rhône og Saône. Torgin Place des Terreaux og Place Bellecour í St. Jean teljast með stærstu torgum Evrópu. Hér bíður okkar fljótaskipið MS Chamargue sem er sannkallað fljótandi eðalhótel. Þegar allir eru búnir að koma sér fyrir leggur skipið frá landi í suður og er stefnan tekin á Arles. Við verðum boðin velkomin í smávegis athöfn áður en kvöldverður hefst. Á fljótaskipinu verður gist í fjórar nætur í þægilegum, vel búnum káetum með tveimur rúmum, sturtu/salerni, loftkælingu, hárþurrku, sjónvarpi, öryggishólfi og útsýnisglugga. Uppi á sóldekki er allt til alls, bæði legubekkir sem og borð og stólar. Um borð er setustofa með bar, les- og sjónvarpsstofu og veitingasal. Á kvöldin er þjónað til borðs. Fullt fæði er innifalið, drykkir með mat á meðan á siglingu stendur og einnig á barnum.

Opna allt

22. október | Sigling til Arles og ekið um Camargue vatnasvæðið

Á meðan við njótum morgunverðar líðum við áfram í suðurátt með töfrandi og fjölbeytilegu útsýni en í senn rómantísku því siglt verður hjá gömlu, rómversku borginni Valence, sem eru norðurdyr inn í Provence héraðið, og einnig er siglt hjá núggatborginni Montélimar. Á meðan á hádegisverði stendur leggur skipið að höfn í Arles en eftir hádegisverð verður farið með rútunni í ljúfa ferð um Camargue svæðið, sem er friðlýst vatnasvæði myndað af framburði Rhône. Þar má mögulega sjá hópa af flamingóum, svörtum nautum og hvíta, arabíska hesta. Á þessari leið verður komið við í strandbænum Saintes Maries de la Mer, sem er yndislegur pílagrímsbær við Miðjarðarhafið. Skipið liggur við höfn í Arles, þannig að þegar þangað er komið verður hægt að skoða sig þar um en bærinn geymir heilmiklar minjar frá tímum Rómverja.

23. október | Avignon, Viviers & Ardéche gilið

Um morguninn kveður skipið Arles og nú er siglt til borgarinnar Avignon sem við skoðum að loknum góðum morgunverði. Borgarmúrarnir um gamla bæinn hafa varðveist með eindæmum en þar er að finna fjölda sögufrægra staða. Við munum staldra við nokkra þeirra á göngu okkar um borgina, s.s. Palais des Papes, höllina sem var íverustaður páfans á 14. öld, dómkirkjuna og frægu brúnni Pont Saint-Bénézet. Um hádegi leggur skipið frá landi og er stefnan sett á Chateauneuf du Pape, bæinn sem var sumardvalastaður páfana í Avignon og er frægur fyrir samnefnd vín. Eftir hádegisverð verður ekið um hið stórfenglega Ardèche gil, sem er 300 m hátt og 30 km að lengd, en mikill kraftur árinnar Ardéch hefur sorfið sig inn í bergið, myndað hella, boga og skör eins og t.d. Pont-d-Arc, sem er 34 m á hæð. Á leið okkar njótum við stórkostlegs útsýnis yfir þetta villta landslag. Fljótandi hótelið okkar siglir til St. Etienne des Sorts þar sem við förum um borð eftir skoðunarferðina. Á meðan við snæðum kvöldverð verður siglt frá landi í átt til Viviers þar sem skipið liggur við höfn í nótt.

24. október | Viviers & Tain-l’Hermitage

Í dag verður siglt í norðurátt til La Voulte. Njótum þessa dásamlega útsýnis upp á sóldekki á ljúfri siglingu um Rhône dalinn. Eftir hádegisverð verður ekið um Côtes du Rhône héraðið sem er rómað fyrir mikla náttúrufegurð og er þekkt fyrir einstaklega gjöfula vínakra. Á leið okkar verður ekið til bæjarins Tain l’Hermitage, sem er með einhverja frægustu vínakra Frakklands, en þar bíður skipið okkar. Um kvöldið er hátíðarkvöldverður og eftir hann skemmtilegheit í setustofunni. Meðan á þessu stendur verður siglt til Lyon.

25. október | Lyon & Murten við Murten vatn

Nú er komið að því að kveðja áhöfnina eftir sannkallaða dýrðardaga. Að loknum morgunverði förum við frá borði og í rútu en stefnan verður tekin á bæinn Murten í Sviss þar sem gist verður síðustu nóttina. Við verðum komin þangað tímanlega svo upplagt er að skoða þennan fagra miðaldabæ sem er svo fallegur við Murten vatn.

26. október | Heimflug frá Zürich

Nú er komið að leiðarlokum eftir dásemdarferð, að morgunverði loknum verður ekið á flugvöllinn í Zürich. Brottför þaðan kl. 13:05 og áætluð lending í Keflavík kl. 15:50 að staðartíma.
Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Þórdís Erla Ágústsdóttir

Þórdís Erla Ágústsdóttir hefur starfað sem fararstjóri í fjölmörg ár. Hún starfaði fyrst á Íslandi með franska, spánska, breska og ameríska ferðamenn. Á árunum 1993 til 1995 starfaði hún sem fararstjóri í Túnis með íslenska ferðamenn; 1996 á Spáni, nánar tiltekið í Benidorm fyrir ferðaskriftofuna Samvinnuferðir-Landsýn og 1997 og 1998 í Portúgal fyrir sömu ferðaskrifstofu. 

Skip

MS Camargue

Ms. Camargue hefur siglt um árnar Rhone og Saone í meira en 20 ár og var sérstaklega hannað til að sigla um þrengri hluta ánna. Skipið bættist í flota franska útgerðar-fyrirtækisins Croisi Europe árið 2015 og fékk um leið glæsilega yfirhalningu. Á aðalþilfarinu er að finna huggulega setustofu með bar og veitingastað, þar sem morgunverðurinn er borinn fram. Á sólarþilfarinu er einnig fínasta líkamsræktaraðstaða. Allar káeturnar eru með sér baðherbergi, hárblásara, sjónvarpi og öryggishólfi. Loftræstikerfi er að finna í öllum káetum. 

Hér má sjá myndir og lesa nánar um skipið.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00