Fljótasigling á Rhône

Glæsileg fljótasigling um rótgróin héruð Suður-Frakklands eftir ánum Rhône og Saône þar sem fara saman glæsilegar byggingar frá liðinni tíð og undurfagurt landslag. Ferðin hefst í Aix in Provance sem telst með fallegri borgum landsins. Siglingin byrjar í Lyon, sem er við hin einstaklega töfrandi ármót Rhône og Saône. Við siglum með MS Van Gogh og á leið okkar kynnumst við hrífandi fögru landslagi, fallegum borgum, köstulum, litríkum þorpum og fræðumst um sögu og menningu svæðisins. Fjölmargt verður einnig skoðað í landi, m.a. njótum við töfra Beaujolais og Maconnais vínyrkjuhéraðanna og ökum að klaustrinu Cluny en á miðöldum var það eitt mikilvægasta klaustur Evrópu. Fegurðin lætur ekki á sér standa á siglingu til hinnar fornu rómversku borgar Mâcon og á leið til litríku borgarinnar Vienne sem var annar höfuðstaður Gallíu á tímum Rómaveldis. Við líðum hér áfram á siglingu inn í Provence héraðið sem er rómað fyrir fegurð og fetum í fótspor listamannsins Van Gogh í borginni Arles. Upplifum hið fallega Camargue svæði sem er friðlýst vatnasvæði og þorp og bæi með langa sögu en pílagrímsbærinn Saintes Maries de la Mer er einn slíkur. Siglum til Avignon þar sem við kynnumst þessari fornu borg í skemmtilegri skoðunarferð og skoðum m.a. Palais des Papes og förum að brúnni Pont Saint-Bénézet. Siglum einnig fagra leið um Côtes du Rhône vínyrkjuhéraðið að klassíska vínbænum Tournon en þar njótum við undurfallegs útsýnis yfir á bæinn Tain l’Hermitage sem er í einu merkilegasta vínyrkjuhéraði Frakklands. Siglum til bæjarins Viviers og að lokum aftur til Lyon. Til að kóróna upplifunina dveljum við eina nótt í bænum Annecy sem er einn fallegasti bær frönsku Alpanna við Annecy vatnið.

Verð á mann 549.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 152.100 kr.

57.000 kr. aukagjald á mann í tvíbýli fyrir káetu á efra þilfari | Ekki er hægt að fá einbýli á efra þilfari.

Vinsamlegast athugið að dagskrá ferðarinnar getur raskast vegna breytinga á vatnsyfirborði siglingaleiða, bilunar í skipastigum eða annarra óvæntra aðstæðna.


Innifalið

  • 9 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallaskattar. 
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði á hóteli í byrjun og lok ferðar. 
  • Morgunverður á hóteli.
  • 8 daga fljótasigling frá Lyon og aftur til Lyon með MS Van Gogh.
  • Gisting í 7 nætur á MS Van Gogh í káetum með sturtu/salerni.
  • Morgun-, hádegis- og kvöldverður á MS Van Gogh.
  • Allir drykkir með máltíðum á skipinu, vín, bjór, vatn og kaffi.
  • Móttökudrykkur á skipinu og allir drykkir á bar. (fyrir utan drykki á sérseðli).
  • Hátíðarkvöldverður á skipinu.
  • Aðgangseyrir í klaustrið Cluny.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Siglingar, hádegisverðir og vínsmökkun (fyrir utan það sem tekið er fram í innifalið).
  • Einn kvöldverður í Annecy.
  • Þjórfé til staðarleiðsögumanna.
  • Þjórfé til áhafnar MS Van Gogh skipinu u.þ.b. 35 € á mann. 
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Nánari upplýsingar

  • Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

5. ágúst | Flug til Nice & Aux en Provance

Brottför frá Keflavík kl. 8:20. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending á Nice flugvelli kl. 14:40 að staðartíma. Nú verður stefnan tekin á Aix in Provence þar sem gist verður fyrstu nóttina.

6. ágúst | Aix en Provance & sigling með MS Van Gogh á Saône & Rhône

Byrjum þennan ljúfa dag á að aka inn í borg en Aix-en-Provence er með stærri háskólaborgum landsins og nema þar um 30.000 háskólanemar. Segja má að borgin sé með dýrustu en einnig glæsilegustu borgum landsins, umkringd fjöllum og sléttum. Á listasöfnum og í kirkjum borgarinnar má líta glæsta fortíð en einnig bera fjölmargar einkahallir sem byggðar voru í barokkstíl á 17. og 18. öld merki um glæsileikann. Í dag eru þessar einkahallir reknar sem lúxushótel. Förum í stutta göngu um elsta hluta borgarinnar og síðan verður gefin frjáls tími til að kanna borgina á eigin vegum. Eftir hádegi verður stefnan sett á borgina Lyon en þar bíður okkar fljótaskipið MS Van Gogh sem er sannkallað fljótandi eðalhótel. Á fljótaskipinu verður gist í sjö nætur í mjög þægilegum, vel búnum káetum. Við verðum boðin velkomin í stuttri athöfn áður en kvöldverður hefst. Skipið liggur hér við festar yfir nóttina.

7. ágúst | Lyon & töfrandi sigling til Mâcon

Eftir morgunverð höldum við í skoðunarferð um Lyon, sem er önnur fjölmennasta borg Frakklands. Við skoðum elsta hluta borgarinnar, St. Jean, sem stendur á tanganum við ármót Rhône og Saône, og torgin Place des Terreaux og Place Bellecour sem teljast til stærstu torga Evrópu. Við höldum til baka á skipið og á meðan við borðum hádegisverð lætur skipið úr höfn og við stefnum á hina fornu rómversku borg Mâcon. Við líðum áfram á siglingu á ánni Saône og njótum töfrandi náttúrufegurðar vínræktarhéraðanna Beaujolais og Maconnais, siglum meðfram breiðum reyrþykkni, gömlum bátum og framhjá bæjunum Belleville og Villefrance. Upplagt er að setjast upp á sóldekkið eftir hádegisverð og njóta fegurðar héraðanna. Á meðan á kvöldverði stendur leggur skipið að landi í Mâcon en borgin gegndi lykilhlutverki í starfi frönsku andspyrnuhreyfingarinnar í seinni heimstyrjöldinni og var fyrsta borgin á frísvæðinu milli Parísar og Lyon. Hér liggur skipið við festar yfir nótt.

Opna allt

8. ágúst | Klaustrið Cluny & sigling til Vienne

Þessi ljúfi dagur byrjar á morgunverði en eftir það er skoðunarferð með rútunni okkar í klaustrið Cluny sem var eitt mikilvægasta klaustur Evrópu á miðöldum. Árið 910 var klaustrið stofnað af hinni heimsfrægu Benediktínareglu en á hápunkti hennar var nokkur hundruð klaustrum stjórnað héðan. Hin volduga klausturkirkja Cluny klaustursins var stærsta kirkja kristna heimsins allt þar til Péturskirkjan í Róm var byggð. Það er mikil upplifun að koma hér. Nú verður ekið til baka að skipinu þar sem bíður okkar hádegisverður. Við njótum þess að sitja uppi á sóldekki á ljúfri siglingu þessa rómantísku og undurfögru leið suður til forn rómversku borgarinnar Vienne við ána Rhône en þar leggjum við að rétt fyrir miðnætti.

9. ágúst | Skoðunarferð um Vienne & sigling til Arles

Við eigum góðan morgun í borginni Vienne sem geymir umtalsverðar minjar frá tímum Rómaveldis og státar sig af fjallinu Mont Pipet sem prýðir borgina. Á tímum Rómaveldis var borgin önnur höfuðborg suðurhluta Gallíu og ber hún vitni um mikilvæga fortíð en m.a. má þar finna hof Ágústusar og Liviu, hringleikahúsið og litlar, kræklóttar götur. Einnig verður hér tími til að kanna líf bæjarbúa á eigin vegum. Nú bíður okkar hádegisverður á skipinu okkar og upplifum við einstakt útsýni og mikinn fjölbreytileika í landslaginu á leið suður til Arles. Eftir hádegisverð njótum við þess að sitja uppi á sóldekki og líða áfram eftir Rhône.

10. ágúst | Arles & Camargue vatnasvæðið

Undir morgun leggur skipið við bryggju í Arles. Eftir morgunverð verður farið í skemmtilega skoðunarferð um helstu staði í þessari einstöku borg sem er ein af perlum Suður-Frakklands. Á ljúfri göngu verður komið að hinu margrómaða rómverska hringleikahúsi. Við fetum í fótspor listamannsins Van Gogh en hann dvaldi í borginni um tíma og málaði þar mörg sín þekktustu verk, þ.á m. Gula kaffihúsið og Gamla spítalann. Nú bíður okkar hádegisverður um borð í MS Van Gogh en eftir hádegi förum við með rútunni í ferð um Camargue svæðið sem er friðlýst vatnasvæði myndað af framburði Rhône og telst með fallegri náttúrusvæðum Evrópu. Þar má sjá hópa af flamingóum, svörtum nautum og hvíta arabíska hesta sem eru einkennandi fyrir svæðið. Á þessari leið verður komið við í strandbænum Saintes Maries de la Mer sem er yndislegur pílagrímsbær við Miðjarðarhafið. Um kvöldið njótum við glæsilegs hátíðarkvöldverðar og skemmtiatriða á veitingastað skipsins og eigum góða stund saman í dansi og gleði fram á kvöld.

11. ágúst | Arles, Avignon & Viviers

Skipið hefur nú tekið stefnu á borgina Avignon og eftir morgunverð verður haldið í fróðlega skoðunarferð um borgina þar sem við upplifum helstu staði hennar, falleg miðaldastræti, litrík hverfi og hrífandi torg. Þessi fallega borg er komin á heimsminjaskrá UNESCO. Borgarmúrarnir um gamla bæinn hafa varðveist með eindæmum vel en innan þeirra er að finna fjölda sögufrægra staða. Við munum staldra við nokkra þeirra á göngu okkar um borgina, s.s. Palais des Papes, höllina sem var íverustaður páfans á 14. öld, dómkirkjuna og það sem eftir er af brúnni Saint-Bénézet. Á meðan við snæðum hádegisverð leysir skipið landfestar og við siglum aftur norður ána Rhône og stefnum til biskupaborgarinnar Viviers þar sem skipið leggur að seinnipart dags. Einstakur blær er yfir þessum stað og er upplagt að fara í kvöldgöngu um sjarmerandi stræti, lítil torg og líta inn í St. Vincent dómkirkjuna. Draumfagurt útsýni er yfir bæinn og Rhônedalinn. Skipið liggur hér í höfn í nótt.

12. ágúst | Viviers & Tournon

Meðan á morgunverði stendur tekur skipið stefnuna á bæinn Tournon-sur-Rhône og um hádegi leggjum við að bryggju. Eftir hádegi er frjáls tími til að kanna þennan klassíska vínbæ á eigin vegum og njóta útsýnis yfir á Tain-l‘Hermitage en hann er í einu merkilegasta vínyrkjuhéraði Frakklands. Um kvöldið tökum við stefnuna á borgina Lyon. 

13. ágúst | Lyon & Annecy

Undir morgun komum við að landi í Lyon. Nú er komið að því að kveðja áhöfnina á fljótaskipinu MS Van Gogh eftir sannkallaða dýrðardaga. Að loknum morgunverði förum við frá skipi og verður stefnan tekin rakleiðis á Annecy sem er yndislegur bær. Bærinn, sem liggur inn á milli fjallanna, er einn þeirra elstu í frönsku Ölpunum. Yfir honum gnæfir aldagömul höll og eru mörg húsanna frá 16.-18. öld. Við förum í stutta göngu með fararstjóra okkar um þennan töfrandi bæ en eftir það verður frjáls tími til að kanna svæðið á eigin vegum og til dæmis líta inn til kaupmanna. Kvöldverður á eigin vegum.

14. ágúst | Heimferð frá Genf

Þá er þessi glæsilega ferð á enda. Ekið verður til Genf en brottför þaðan er kl. 14:00 og lending í Keflavík kl. 15:55 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Um skipið MS Van Gogh

Skipið, sem er fimm akkera, varð partur af flota franska útgerðarfyrirtækisins Croisi Europe árið 1999 og en árið 2018 fékk það glæsilega yfirhalningu. Skipið tekur hámark 100 farþega. Káeturnar eru rúmar og allar með tveimur rúmum eða hjónarúmi, sér baðherbergi með sturtu, loftkælingu, hárþurrku, sjónvarpi, öryggishólfi og stórum útsýnisglugga. Á aðalþilfari eru káetur með frönskum opnanlegum svölum. Á aðalþilfarinu er að finna huggulega setustofu með bar og glæsilegum veitingastað þar sem morgun-, hádegis - og kvöldverður er borinn fram. Á sólarþilfarinu eru sólbekkir en einnig eru þar borð og stólar. Fullt fæði er innifalið og eins allir drykkir með mat og á barnum meðan á siglingu stendur.

Vinsamlegast athugið að dagskrá ferðarinnar getur raskast vegna breytinga á vatnsyfirborði siglingaleiða, bilunar í skipastigum eða annarra óvæntra aðstæðna.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Ósk Vilhjálmsdóttir

Ósk Vilhjálmsdóttir nam myndlist við Hochschule der Künste í Berlín og hefur sinnt leiðsögn frá árinu 1992 meðfram myndlist og kennslu. Lengst af um náttúru Íslands og yfirleitt með franska og þýska ferðamenn. Árin 2003-2006 skipulagði hún ásamt Ástu Arnardóttur leiðangra um náttúrusvæði norðan Vatnajökuls. Í kjölfarið stofnaði hún eigin ferðaskrifstofu með náttúruvernd og slow-travel hugmyndafræði að leiðarljósi. Hún kom meðal annars á laggirnar námskeiðum fyrir börn og unglinga sem fjalla um náttúruskoðun og myndlist, árlegar ferðir um Þjórsárver o.fl. Undanfarinn áratug hefur hún auk þess skipulagt ferðir og námskeið fyrir Íslendinga í Marokkó, Þýskalandi og á Ítalíu. Nú hefur Ósk gengið til liðs við Bændaferðir og hlakkar til samstarfsins.

Skip

MS Van Gogh

Skipið, sem er fimm akkera, varð partur af flota franska útgerðarfyrirtækisins Croisi Europe árið 1999 og en árið 2018 fékk það glæsilega yfirhalningu. Skipið tekur hámark 100 farþega. Káeturnar eru rúmar og allar með tveimur rúmum eða hjónarúmi, sér baðherbergi með sturtu, loftkælingu, hárþurrku, sjónvarpi, öryggishólfi og stórum útsýnisglugga. Á aðalþilfari eru káetur með frönskum opnanlegum svölum. Á aðalþilfarinu er að finna huggulega setustofu með bar og glæsilegum veitingastað þar sem morgun-, hádegis - og kvöldverður er borinn fram. Á sólarþilfarinu eru sólbekkir en einnig eru þar borð og stólar. Fullt fæði er innifalið og eins allir drykkir með mat og á barnum meðan á siglingu stendur.  

Lesa nánar um MS Van Gogh.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti