Fljótasigling á Rhône & Saône

Stórglæsileg fljótasigling eftir ánum Rhône og Saône um dásamleg héruð Suður-Frakklands. Siglt með skipinu MS Mistral frá Chalon-sur-Saône í Búrgúnda héraðinu og suður til Martigues við Miðjarðarhafið. Á leið okkar kynnumst við hrífandi fögru landslagi, fallegum borgum, köstulum, litríkum þorpum og fræðumst um sögu og menningu þeirra. Fjölmargt verður einnig skoðað í landi, m.a. gamla, rómverska borgin Mâcon og við njótum fegurðar Búrgúnda og Beaujolais vínhéraðanna með viðkomu í Hameau du vín safninu. Lyon, borgin við ármót Rhône og Saône, er einstaklega töfrandi og á siglingu verður áð við bæinn Tain l’Hermitage við frægustu vínakra Frakklands. Ólýsanleg fegurð leikur um okkur þegar við ökum um Ardèche gilið, sem stundum er kallað Grand Canyon Frakklands. Í Provence héraði heimsækjum við hina einstöku borg Avignon og í Arles fetum við í fótspor listamannsins Van Gogh. Við hrífumst af heillandi héraðinu Camargue og Saintes Maries de la Mer sem er yndislegur pílagrímsbær. Siglingu okkar lýkur í Martigues en til að kóróna upplifunina endum við ferðina við Lago Maggiore vatnið á Ítalíu í bænum Stresa. Þar heldur dýrðin áfram með siglingu á Lago Maggiore vatni til eyjanna Isola dei Pescatori og Isola Bella þar sem við sjáum glæsilega höll í miðjum lystigarði. Síðasta daginn bíður okkar heimsborgin Mílanó í allri sinni dýrð.

Verð á mann 474.500 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 158.000 kr.

42.900 kr. aukagjald á mann í tvíbýli fyrir káetu á efra þilfari | Ekki er hægt að fá einbýli á efra þilfari.


Innifalið

  • 11 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði á hóteli í lok ferðar. 
  • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hóteli.
  • 7 daga fljótasigling frá Chalon-sur-Saône til Martigues með MS Mistral.
  • Gisting í 6 nætur á MS Mistral í káetum með sturtu / salerni.
  • Morgun-, hádegis- og kvöldverður á MS Mistral.
  • Allir drykkir með máltíðum á skipinu, vín, bjór, vatn og kaffi espresso.
  • Móttökudrykkur á skipinu og allir drykkir á bar. (fyrir utan drykki á sérseðli).
  • Gala kvöldverður á skipinu.
  • Aðgangseyrir í vínsafnið Hameau du Vin og vínsmökkun. 
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Siglingar, vínsmökkun og kláfar.
  • Hádegisverðir aðrir en þeir sem eru innifaldir um borð í skipinu.
  • Þjórfé.

Valfrjálst

  • Sigling út í Borromee eyjarnar og aðgangseyrir í garðinn og höllina ca € 25.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

20. ágúst | Flug á Genf, Chalon sur Saône & sigling á ánni Saône

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Genf kl. 13:00 að staðartíma. Þaðan verður ekið af stað í suðurátt, fagra leið til Chalon sur Saône. Vegna legu borgarinnar og fjölmargra vatnaleiða í kring, lá rómverska verslunarleiðin þar á tímum Rómverja. Borgin var ein mikilvægasta viðskiptaborg miðalda en er nú þekktust fyrir að vera ein af verslunarborgum Búrgúndí vínhéraðsins. Chalon er fæðingarborg Nicéphore Niépce, sem var uppfinningamaður og frumkvöðull á sviði ljósmyndunar. Hér bíður okkar fljótaskipið MS Mistral sem er sannkallað fljótandi eðalhótel og verðum við boðin velkomin í stuttri athöfn áður en kvöldverður hefst. Á meðan á kvöldverði stendur tekur MS Mistral stefnuna niður ána Saône til Mâcon. Þar sjáum við í hina frægu, löngu vínakra Côtes du Rhône, Beaujolais og Maconnais.

21. ágúst | Mâcon & ljúf sigling til Lyon

Eftir morgunverð gefst tími til að rölta um elsta hluta hinnar fornu, rómversku borgar Mâcon. Ráðhúsið og fleiri byggingar minna á blómatíma hennar sem höfuðborg Saône-et-Loire svæðisins. Þarna er að finna eitt elsta apótek landsins frá 1761 og það er sannarlega þess virði að skoða. Borgin gegndi lykilhlutverki í starfi frönsku andspyrnuhreyfingarinnar í seinni heimstyrjöldinni og var fyrsta borgin á frísvæðinu milli Parísar og Lyon. Á meðan við borðum hádegisverð á skipinu líðum við áfram á siglingu til Belleville og upplifum töfrandi náttúrufegurð á leið fram hjá Côtes du Rhône, Maconnais og Beaujolais vínökrum. Eftir hádegisverð er skoðunarferð í landi. Við ökum um Beaujolais vínræktarhéraðið og skoðum áhugavert vínsafn, Hameau du Vin í Romanèche-Thorins. Við kveðjum að sjálfsögðu ekki svæðið án þess að smakka hin frægu vín héraðsins. Skipið bíður okkar í Belleville og siglingin heldur áfram til Lyon. Við snæðum kvöldverð um borð en skipið kemur til hafnar að kvöldi og liggur við festar hjá Lyon yfir nóttina.

22. águst | Lyon, sigling hjá Vienne & Tain-l'Hermitage

Eftir morgunverð höldum við í skoðunarferð um Lyon, sem er önnur fjölmennasta borg landsins. Við skoðum elsta hluta borgarinnar, St. Jean, sem stendur á tanganum við ármót Rhône og Saône. Torgin Place des Terreaux og Place Bellecour í St. Jean teljast með stærstu torgum Evrópu. Hádegisverður er snæddur um borð og siglingin heldur áfram suður ána Rhône til vínbæjarins Tain-l’Hermitage. Leiðin er rómantísk og fögur, siglt verður hjá gömlu, rómversku borginni Vienne en borgin geymir umtalsverðar minjar frá tímum Rómverja, s.s. hof Ágústusar. Við siglum áfram og við tekur Condrieu héraðið, hjarta Côtes du Rhône sem þekkt er fyrir einstaklega gjöfula vínakra. Kvöldverður verður snæddur um borð. Skipið kemur að kvöldi til bæjarins Tain l’Hermitage en þar eru einir frægustu vínakrar Frakklands. Þarna liggur skipið við festar yfir nóttina og er upplagt að fara í bæjarrölt um Tain l’Hermitage eftir kvöldverð.

Opna allt

23. ágúst | Sigling til Avignon & Ardèche gilið

Að morgni heldur þessi heillandi sigling áfram, fram hjá kastalanum La Voulte, Tournon og háskólaborginni Valensa til St. Etienne des Sorts. MS Mistral leggur að landi á meðan við borðum hádegisverð. Eftir hádegi verður ekið um hið stórfenglega Ardèche gil, sem er 300 m hátt og 30 km að lengd, en mikill kraftur árinnar Ardéch hefur sorfið sig inn í bergið og myndað hella, boga og skör eins og Pont-d-Arc sem er 34 m á hæð. Á leið okkar njótum við stórkostlegs útsýnis yfir þetta villta landslag. En nú höldum við til skips og ljúflega siglum við áfram, fram hjá Roquemaure, Pont-St-Esprit og Donzère-Mondragon en þar verður farið um stóran skipastiga. Áður voru þarna miklar flúðir en fljótið hefur verið tamið með sterkum varnargörðum og skipastigum. Þessi gamla leið frá Miðjarðarhafi til norðurhluta Evrópu var sú eina sem lá ekki yfir fjallgarða. Á þessum slóðum stigu Rómverjar sín fyrstu skref til yfirráða í Gallíu og skildu alls staðar eftir sig ummerki. Komið verður að landi í Avignon seint um kvöldið en frá ánni skín borgin eins og glitrandi perla.

24. ágúst | Sigling um Provence hérað, Avignon & Arles

Eftir morgunverð verður haldið í skemmtilega skoðunarferð um Avignon. Borgarmúrarnir um gamla bæinn hafa varðveist með eindæmum vel en innan þeirra er að finna fjölda sögufrægra staða. Við munum staldra við nokkra þeirra á göngu okkar um borgina, s.s. Palais des Papes, höllina sem var íverustaður páfans á 14. öld, dómkirkjuna og það sem eftir er af brúnni Saint-Bénézet. Á meðan við snæðum hádegisverð á skipinu léttum við akkerum og siglum fallega leið til Arles. Síðdegis gefst tími til að skoða sig um í þessari einstöku borg, sem er ein af perlum Suður-Frakklands. Við göngum að hinu margrómaða rómverska hringleikahúsi og safni Van Gogh en listamaðurinn dvaldi í bænum um tíma og málaði þar mörg sín þekktustu verk, þ.á m. Gula kaffihúsið. Skipið liggur hér í höfn í nótt. Um kvöldið njótum við glæsilegs hátíðarkvöldverðar og skemmtiatriða á veitingastað skipsins og eigum góða stund saman.

25. ágúst | Camargue & sigling til Martigues

Í dag förum við með rútunni í ferð um Camargue svæðið, sem er friðlýst vatnasvæði myndað af framburði Rhône. Þar má sjá hópa af flamingóum, svörtum nautum og hvíta, arabíska hesta. Á þessari leið verður komið við í strandbænum Saintes Maries de la Mer, sem er pílagrímsbær evrópskra sígauna. Eftir það verður ekið til Port St. Louis vestur af Marseille, þar sem hádegisverður bíður okkar um borð. Nú leggur skipið af stað í siglingu út í Fos flóann, gegnum þröngan skipaskurð til Martigues við Rhônedelta, sem minnir töluvert á Feneyjar, þar sem áin rennur út í Miðjarðarhafið.

26. ágúst | Lago Maggiore vatnið & Stresa á Ítalíu

Nú er komið að því að kveðja áhöfnina á fljótaskipinu MS Mistral eftir sannkallaða dýrðardaga. Að loknum morgunverði förum við frá skipi og verður stefnan tekin á bæinn Stresa við vatnið Lago Maggiore, sem er umvafið fjallafegurð. Þetta er annað stærsta vatn Ítalíu en tæpur fimmtungur vatnsins tilheyrir Sviss. Frá 18. öld hefur fegurð og lega vatnsins dregið til sín baðgesti og ferðamenn hvaðanæva úr heiminum. Þar verður gist í fjórar nætur á góðu hóteli í miðbæ Stresa sem býður upp á glæsilega aðstöðu m.a. inni- og útisundlaug og mjög fallegan garð með sólbekkjum, stólum og borðum. Einnig er heilsulind með saunu og tyrknesku baði.

27. ágúst | Stutt ganga um Stresa & frjáls tími

Það er kærkomið að slaka á eftir ferðalagið. Eftir góðan morgunverð verður farið í stutta göngu um bæinn Stresa sem er einstaklega líflegur og skemmtilegur. Eftir það er frjáls tími og er því upplagt að nota glæsilega aðstöðu hótelsins, rölta um og kanna bæinn betur eða fara í göngutúr meðfram vatninu þar sem fjallafegurðin er dásamleg.

28. ágúst | Sigling til Isola Bella, Borromeo höllin, lystigarðurinn & Isola Pescatori

Dagurinn hefst á siglingu yfir til Isola Bella sem er ein Borromeo eyjanna. Fegurð hennar er ólýsanleg en hún ber nafn Isabellu, eiginkonu Carlo III. Borromeo ættin byggði á eyjunni höll sem þekkt er fyrir að hafa verið gististaður Napóleons og Jósefínu, eiginkonu hans. Það er mjög skemmtilegt að skoða höllina, svo ekki sé talað um garðinn umhverfis hana, stórglæsilegur lystigarður á tíu hæðum. Eftir það verður siglt til eyjunnar Pescatori sem tilheyrir Borromee eyjunum en búseta hefur verið stöðug þar frá 14. öld. Mannlífið á eyjunni heillar en tilvera eyjarskeggja byggist á fiskveiðum í Lago Maggiore vatni. Þar er upplagt að fá sér hádegishressingu áður en siglt verður til baka.

29. ágúst | Frjáls dagur í slökun & rólegheitum

Það er ljúft að taka því rólega hér í Stresa, njóta náttúrufegurðar staðarins, nota glæsilega aðstöðu hótelsins eða fara í göngu með ströndinni. Hægt er að fara í siglingu á vatninu með ferju sem fer á milli bæjanna við vatnið. Einnig er hægt að panta sér tíma í heilsulind hótelsins.

30. ágúst | Heimsborgin Mílanó og heimferð

Það er komið að heimferð eftir yndislega og ljúfa daga. Undir hádegi verður ekið til heimsborgarinnar Mílanó. Byrjað verður á að fara í stutta skoðunarferð um borgina og eftir það höfum við frjálsan tíma til að upplifa þessa heillandi borg á eigin vegum, upplagt að líta inn á kaupmenn borgarinnar sem eru ófáir og fá okkur kvöldhressingu áður en við ökum út á flugvöll. Brottför þaðan kl. 23:00 og lending í Keflavík kl. 01:15 að staðartíma, aðfaranótt 31. ágúst.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Skip

MS Mistral

Á MS Mistral verður gist í þægilegum vel búnum káetum með tveimur rúmum, sturtu/salerni, loftkælingu, hárþurrku, sjónvarpi, öryggishólfi og útsýnisglugga. Uppi á sóldekki er allt til alls, bæði legubekkir og borð og stólar. Um borð er setustofa með bar, veitingasal og les- og sjónvarpsstofu. Á kvöldin er þjónað til borðs. Fullt fæði er innifalið og drykkir með mat og á barnum á meðan á siglingu stendur.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-14:00