Fljótasigling á Rhône & Saône
20. - 30. ágúst 2023 (11 dagar)
Stórglæsileg fljótasigling eftir ánum Rhône og Saône um dásamleg héruð Suður-Frakklands. Siglt með skipinu MS Mistral frá Chalon-sur-Saône í Búrgúnda héraðinu og suður til Martigues við Miðjarðarhafið. Á leið okkar kynnumst við hrífandi fögru landslagi, fallegum borgum, köstulum, litríkum þorpum og fræðumst um sögu og menningu þeirra. Fjölmargt verður einnig skoðað í landi, m.a. gamla, rómverska borgin Mâcon og við njótum fegurðar Búrgúnda og Beaujolais vínhéraðanna með viðkomu í Hameau du vín safninu. Lyon, borgin við ármót Rhône og Saône, er einstaklega töfrandi og á siglingu verður áð við bæinn Tain l’Hermitage við frægustu vínakra Frakklands. Ólýsanleg fegurð leikur um okkur þegar við ökum um Ardèche gilið, sem stundum er kallað Grand Canyon Frakklands. Í Provence héraði heimsækjum við hina einstöku borg Avignon og í Arles fetum við í fótspor listamannsins Van Gogh. Við hrífumst af heillandi héraðinu Camargue og Saintes Maries de la Mer sem er yndislegur pílagrímsbær. Siglingu okkar lýkur í Martigues en til að kóróna upplifunina endum við ferðina við Lago Maggiore vatnið á Ítalíu í bænum Stresa. Þar heldur dýrðin áfram með siglingu á Lago Maggiore vatni til eyjanna Isola dei Pescatori og Isola Bella þar sem við sjáum glæsilega höll í miðjum lystigarði. Síðasta daginn bíður okkar heimsborgin Mílanó í allri sinni dýrð.