Páskar í Tossa & St. Tropez

Það er fátt sem toppar þessa flottu páskaferð sem hjónakornin og fararstjórarnir Elísabet og Aðalsteinn leiða af alúð og gleði. Ferðin hefst við Costa Brava ströndina og endar við bláan sjó Frönsku Ríverunnar Þetta er sannkölluð ævintýraferð – þar sem spænskur sjarmi og franskur glæsileiki fléttast saman í töfrandi ferð. Ævintýrið hefst í Tossa de Mar, þar sem steinlögð stræti og gamli borgarmúrinn í Vila Vella heillar mannskapinn með sögu og sjarma. Þaðan liggur leiðin til Barcelona – þar sem Gaudí hefur skreytt borgina með sínum mögnuðu verkum, en borgin er bókstaflega eitt stórt listaverk! Þá er komið að siglingu meðfram gullnu ströndinni, með viðkomu í líflegum og litríkum bæ, Lloret de Mar. Í Figueres kíkjum við svo í dularfulla, fyndna og furðulega veröld Salvador Dalí, þar sem listin ögrar ímyndunaraflinu og fær marga til að brosa út í annað. Síðan höldum við yfir landamærininn í glæsileikann, Sainte-Maxime, sem teygir sig meðfram glitrandi sjó við St. Tropez flóann. Hér tekur við suðrænn blær og franskt fínerí sem lýkur með heimsókn í glæsilega furstadæmið Mónakó, siglingu til St. Tropez og síðast en ekki síst, göngu um kvikmyndabæinn Cannes, þar sem stjörnuryk og glaumur má finna á hverju horni. Heimferðin er síðan frá Nice, eftir sannkallaða veislu af litum, lystisemdum og lífsgleði.

Verð á mann 459.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 87.600 kr.


Innifalið

  • 13 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgun- og kvöldverðir allan tímann á hótelum.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Aðgangur í Salvador Dalí safnið í Figueres. 
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur. 
  • Siglingar.
  • Vínsmökkun.
  • Hádegisverðir.
  • Þjórfé.

Valfrjálst

  • Sigling með Costa Brava ströndinni til Lloret de Mar u.þ.b € 28.
  • Sigling til St. Tropez og smálest í Sainte-Maxime u.þ.b. € 25.
  • Höll furstafjölskyldunnar í Mónakó u.þ.b. € 15.
  • Strætisvagn til Monte Carlo u.þ.b € 5.
  • Spilavítið í Monte Carlo u.þ.b. € 18.

Nánari upplýsingar

Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

4. apríl | Flug til Barcelona & Tossa de Mar

Brottför frá Keflavík kl. 08:00, mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Barcelona kl. 14:10 að staðartíma. Þaðan verður ekið á hótel í miðaldabænum Tossa de Mar á Costa Brava ströndinni. Hér munum við gista í sex nætur á góðu hóteli. Á hótelinu er útisundlaug, líkamsrækt og heilsulind. Að degi til er einnig opinn veitingastaður við sundlaug hótelsins. Lítil lest gengur reglulega frá hótelinu inn í bæinn fyrir þá sem vilja spara sér skrefin.

5. apríl | Gönguferð í Tossa de Mar & frjáls dagur

Við hefjum daginn á fróðlegri gönguferð um Tossa de Mar og göngum upp í elsta hluta bæjarins, klettabæinn Vila Vella, sem er umkringdur borgarmúrum og turnum frá 14. öld. Þaðan gefur að líta stórfallegt útsýni yfir gjörvalla klettaströnd Tossa. Að koma inn í Vila Vella er eins og að ferðast aftur í tímann en enn er búið í nokkrum gömlu húsanna innan virkisveggjanna. Að skoðunarferðinni lokinni gefst hverjum og einum frjáls tími til að kanna umhverfið á eigin vegum. Í nágrenni hótelsins eru fornar minjar frá rómverskum tímum.

6. apríl | Salvador Dalí safnið í Figueres

Þennan skemmtilega dag byrjum við á því að heimsækja Figueres, fæðingarstað Salvador Dalí. Dalí safnið er eitt helsta aðdráttarafl ferðaþjónustunnar í Katalóníu og það er algjört ævintýri að koma þar inn en Dalí sjálfur hannaði safnið. Bærinn er mjög líflegur og skemmtilegur og er upplagt að fá sér hressingu áður en við höldum til baka til Tossa de Mar.

Opna allt

7. apríl | Heimsborgin Barcelona

Barcelona, höfuðborg Katalóníu, er með fegurstu borgum álfunnar. Hún er þekkt fyrir byggingar arkitektsins Gaudí og glæsilegar byggingar skreyta borgina hvert sem litið er. Borgin er mjög gömul og saga hennar merkileg en fegurð hennar og gestrisni íbúanna gera dvölina einstaka. Af merkum byggingum má nefna kirkjuna La Sagrada Familia eftir Gaudí og húsin Casa Battló, Casa Milá og garðinn Güell en þessi verk Gaudí eru öll komin á heimsminjaskrá UNESCO. Gotneska hverfinu má ekki gleyma og kirkjunni við hafið sem er dásamleg og margir þekkja úr bók Ildefonso Falcones. Einnig verður tími til að kanna líf bæjarbúa og líta inn á líflega kaupmenn borgarinnar.

8. apríl | Sigling með Costa Brava ströndinni til Lloret de Mar

Að loknum morgunverði verður farið í siglingu með Costa Brava ströndinni til Lloret de Mar, eins vinsælasta ferðamannabæjar svæðisins. Þetta er mjög snotur bær sem gaman er að rölta um. Þar er að finna fallegu kirkjuna Sant Roma frá 16. öld. Einnig er hægt að fara í góða göngu eftir ströndinni að miðaldavirkinu Sant Joan frá 11. öld. Lloret de Mar er einn af verslunarstöðum strandarinnar, mikið er af skemmtilegum kaffi- og veitingahúsum í bænum og upplagt að fá sér hressingu áður en siglt er til baka.

9. apríl | Frjáls dagur í Tossa de Mar & útimarkaður

Frjáls dagur til að hvíla sig, njóta lífsins, láta dekra við sig á heilsulind hótelsins eða kanna umhverfið í rólegheitum. Í bænum kennir margra grasa menningar og mannlífs sem gaman er að kynna sér í rólegheitunum. Fyrir áhugasama er í dag litríkur útimarkaður frá kl. 7:00 -13:00 rétt við hótelið.

10. apríl | Sainte-Maxime við Côte d'Azur

Eftir góðan morgunverð verður ekið að frönsku rivíerunni eða Côte d'Azur ströndinni til yndislega bæjarins Sainte-Maxime við St. Tropez flóa sem er rómaður fyrir fegurð. Þar verður gist í sex nætur.

11. apríl | Bátsferð til St.Tropez & smálest

Við höldum í siglingu yfir til listamannabæjarins St. Tropez. Smálest ferjar okkur niður að höfn þar sem báturinn bíður okkar. Bærinn er einn aðaláfangastaður hinna ríku og frægu við frönsku rivíeruna. Brigitte Bardot býr þar og einnig halda ýmsar Hollywood stjörnur þar til í sínu orlofi. Við förum í skoðunarferð um þennan fallega, gamla virkisbæ og síðar gefst góður tími til að kanna líflegan bæinn á eigin vegum. Það er til að mynda mikil upplifun að skoða lystisnekkjur fræga fólksins í höfninni. Að lokinni siglingu aftur til Sainte-Maxime mun smálestin ferja okkur til baka á hótelið.

12. apríl | Stutt gönguferð í Sainte-Maxime & frjáls tími

Eftir góðan morgunverð verður farið í stutta gönguferð um Sainte-Maxime, sem færir okkur nær lífinu við ströndina. Þetta er einn af vinsælustu ferðamannabæjum Côte d'Azur strandarinnar og búa þar um 12.000 manns. Það má segja að bærinn hafi notið góðs af frægð St. Tropez bæjarins sem er hinum megin við flóann og er Sainte-Maxime nú með fínni bæjum strandarinnar. Í Sainte-Maxime er jafnframt ein best útbúna lystisnekkjuhöfn strandarinnar. Eftir hádegi verður frjáls tími til að kanna bæinn betur á eigin vegum og fá sér hádegishressingu. Einnig er upplagt að nýta sér aðstöðuna við hótelið okkar.

13. apríl | Furstadæmið Mónakó & spilavítin í Monte Carlo

Þennan skemmtilega dag heimsækjum við furstadæmið Mónakó, stundum kallað dvergríkið Mónakó.Við höldum í glæsilega skoðunarferð um klettaborgina en þar er að finna höll furstafjölskyldunnar og dómkirkjuna þar sem Grace Kelly var borin til grafar og haffræðisafnið. Glæsileg bygging Grand Casino spilavítisins í Monte Carlo hverfinu sem verður einnig skoðað og komum við inn í Grand Casino spilavítið.

14. apríl | Cannes við Côte d'Azur

Nú verður ekin falleg leið til Cannes við Napoule flóann, heillandi borgar á fallegum stað. Í Cannes skoðum við okkur um í gamla bænum og göngum að kvikmyndahöllinni og rauða dreglinum en Cannes er einmitt frægust fyrir alþjóðlegu kvikmyndahátíðina sem haldin er þar ár hvert. Síðdegis gefst frjáls tími til þess að skoða borgina, sýna sig og sjá aðra.

15. apríl | Frjáls dagur í Sainte-Maxime

Í dag njótum við þess að eiga frjálsan dag í Sainte-Maxime. Hægt verður að nýta sér aðstöðuna við hótelið, kanna betur fallega miðbæjarkjarnann, líta inn í skemmtilegar verslanir og fá sér hressingu á einhverju hinna fjölmörgu veitingahúsa bæjarins. Einnig er upplagt að fara í göngu með fram ströndinni.

16. apríl | Ekið til Nice & heimferð

Nú er komið að heimferð eftir yndislega daga en eftir góðan morgunverð verður stefnan tekin á dásamlegu borgina Nice við Cote d´Azur í Frakklandi. Það er ekki annað hægt en að hrífast af bæði borginni sjálfri og bæjarstæði hennar við Englaflóann. Við förum inn í gamla bæinn en skipulagið hefur varla breyst síðan á 17. öld. Þar er nú fullt af veitingastöðum, tískuverslunum og börum en miðpunkturinn er stór matar- og blómamarkaður sem er vel þess virði að heimsækja bara fyrir litina og ilminn. Þar verður stuttur frjáls tími og upplagt að fá sér hressingu áður en ekið er á flugvöll en brottför þaðan er kl. 15:45 og lending í Keflavík kl. 18:35.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

Tossa de Mar - Hotel Bahia

St. Maxime - Les Jardines

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Elísabet Sveinsdóttir & Aðalsteinn Jónsson

Elísabet Sveinsdóttir og Aðalsteinn Jónsson eru ekki aðeins hjón, heldur einstaklega samstillt, traust og reynslumikið tvíeyki í fararstjórn. Þau elska að ferðast, upplifa nýja menningu og njóta útivistar í góðra vina hópi. Þau hafa stýrt fjölda ferða fyrir Bændaferðir við afar góðan orðstír og þekkjast fyrir hlýlegt viðmót, skipulag og smitandi gleði. Það má því með sanni segja að saman tryggja þau ekki bara skemmtilega og örugga ferð – heldur líka hlýlega og persónulega upplifun sem mun án efa skilja eftir sig dýrmæt augnablik í minningarbankann.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti