Dýrðardvöl í Aosta dalnum

Hér er spennandi ferð um heillandi staði í Frakklandi, Sviss og Ítalíu. Ferðin hefst í Genf en þaðan er ekin einstaklega falleg leið til Chamonix í Frakklandi. Þar njótum við okkar í þessum dásamlega bæ í fjallasal Alpanna og förum með kláfi upp á tind Aiguille du Midi en þaðan er stórkostlegt útsýni hvert sem litið er. Við ökum yfir skarðið Col De Forclaz til Martigny í Sviss og þaðan til Aosta á Ítalíu. Aosta er höfuðstaður Valle d‘Aosta héraðsins en hann munum við skoða næstu daga. Dalur þessi er heillandi heimur miðalda þar sem mögnuð fjallafegurð hrífur hvert sem litið er. Ótal kastalar og hallir, með miðaldakastalann Fenis fremstan í flokki, minna á liðna tíð, hver lófastór blettur er ræktaður og vínviður teygir sig hvarvetna upp eftir hæðunum. Við förum í Gran Paradiso, elsta þjóðgarð Ítalíu, og enginn fer um þessa matarkistu Ítalíu án þess að smakka á framleiðslu bændanna. Á leið okkar til Arenzano á ítölsku rivíerunni verður áð í Turin, fyrrum höfuðborg konungsríkis Ítalíu. Turin stendur við ána Po og hana prýða margar fagrar byggingar sem unun er að sjá. Glæstur er turninn Mole Antonelliana sem er eins konar tákn borgarinnar, tæpir 170 m á hæð. Við njótum okkar við Miðjarðarhafið, heimsækjum Rapallo við Tigullio flóa, siglum til hinnar frægu borgar Portofino og röltum um hafnarborgina Genúa. Það er ljúft að ljúka dásamlegri ferð í afslöppun á ströndinni áður en ekið er til Mílanó og flogið heim. 

Verð á mann 249.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 68.900 kr.

Aukagjald fyrir sjávarsýn í Arenzano (3 nætur) 9.600 kr. á mann í tvíbýli.


Innifalið

 • 9 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Siglingar.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Kláfur upp á Aiguille du Midi ca € 60.
 • Aðgangur í kastalann Fenis ca € 10.
 • Hádegissnarl hjá vínbónda ca € 25.
 • Aðgangur upp í turnin Mole Antonelliana ca € 8.
 • Sigling til Portofino ca € 9.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

7. júní | Flug til Genfar & Chamonix

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Genf kl. 13:00 að staðartíma. Nú verður ekin fögur leið yfir til Chamonix í Frakklandi sem stendur við rætur hæsta fjalls Vestur-Evrópu, Mont Blanc. Gist verður í tvær nætur á hóteli í miðbænum.

8. júní | Mont Blanc & kláfur upp á Aiguille du Midi

Chamonix er bær fjalladýrkenda og þekktur skíðabær en fyrstu vetrarólympíuleikarnir voru haldnir hér árið 1924. Frá miðbænum gengur útsýniskláfur upp í 3.842 m hæð á Aiguille du Midi en þaðan er stórkostlegt útsýni yfir á Mont Blanc, Chamonix og dalinn fyrir neðan. Byrjað verður á því að taka kláfinn upp og njóta útsýnisins yfir Alpafjöllin og gott að gefa sér góðan tíma þar uppi, því upplifunin er stórkostleg. Eftir komu niður er örugglega hægt að njóta þess að vera á þessum draumastað því bærinn og umgjörð hans eru töfrandi.

9. júní | Sankti Bernharðsskarð & Valle d‘Aosta

Kveðjum Chamonix eftir frábæra daga en nú verður stefnan tekin á Aosta dalinn sem er rómaður fyrir fegurð og dulúðlega miðaldarómantík. Á leiðinni þangað verður ekið yfir skarðið Col de Forclaz til Martigny í Sviss sem er skemmtilegur bær með frönskum blæ. Þar gefum við okkur tíma til að kanna lífið og fá okkur hressingu. Síðan heldur ferðin áfram um Wallis, yfir Sankti Bernharðsskarðið en vegurinn liggur í 2.469 m hæð þar sem stórkostleg fjallafegurð umvefur okkur á leið til bæjarins Aosta í Aosta dalnum. Þar gistum við í 3 nætur í miðbænum.

Opna allt

10. júní | Dagur í Aosta og frjáls tími

Sá sem heyrir og þekkir Valle d‘Aosta hugsar ósjálfratt um glæsilega, snæviþakta fjallstinda og jökla en hér er að finna hæstu tinda Alpanna. Aosta er höfuðstaður Valle d‘Aosta héraðsins en hér stofnuðu Rómverjar borgina Augusta Prætoria Salassorum. Arfleifð hennar er sýnileg enn í dag, t.d. með Ágústusarboganum, Praetoria hliðinu og borgarmúrnum sem hægt er að ganga á, brúnni Ponte di pietra og leifunum af rómversku leikhúsi. Gotneska dómkirkjan er merkileg og margar dulúðlegar og glæstar byggingar prýða þessa fögru borg. Í dag verður farið í skemmtilega skoðunarferð en eftir hana verður frjáls tími til að kanna borgina á eigin vegum.

11. júní | Kastalar, Valle d´Aosta dalur & snarl hjá vínbónda

Valle d´Aosta dalurinn er dalur kastala og halla þar sem heillandi heimur miðaldanna hrífur. Fjallafegurð og kastalar tróna um allar hæðir og hóla, þar sem gróðursæld og vínviður teygja sig upp hæðirnar. Fenis kastalinn er sá fallegasti og best varðveittasti af þeim öllum og því gaman að skoða hann. Einnig verður ekið inn í Gran Paradiso, elsta þjóðgarð Ítalíu og þaðan farið til fallega bæjarins Cogne sem er í 1534 m hæð í hjarta þjóðgarðsins. Hannn er höfuðstaður hins forna Salassilands sem státar sig af ríkri sögu og menningarlegri fortíð. Á leið okkar um dalinn verður áð til að fá sér hádegissnarl hjá vínbónda en þeir eru frægir fyrir góðan mat, ostagerð og vínrækt.

12. júní | Turin & Arenzano

Nú verður stefnan tekin á Arenzano við ítölsku rivíeruna, en áður en þangað er komið verður sögufræga borgin Turin á vegi okkar. Hún er ein gömlu rómversku borganna við ána Po og var á árunum 1861 - 1865 höfuðborg konungsríkis Ítalíu. Borgin er einstaklega töfrandi og hér er margt að skoða, m.a. falleg torg og Porta Palatina hliðið frá tímum Rómaveldis. Hér má einnig finna ótal glæstar, sögulegar byggingar og hallir. Tákn borgarinnar er hinn öflugi Mole Antonelliana turn sem er einstök bygging, 167,5 m á hæð, byggður árið 1889 og var hann þá önnur hæsta bygging í heimi. Það er mikil upplifun að fara upp í hann því útsýnið þaðan er ólýsanlegt. Eftir góðan tíma þar verður ekið til Arenzano þar sem gist verður í 3 nætur.

13. júní | Rapallo & Sigling Portofino

Á þessum degi upplifum við fegurð ítölsku rivíerunnar á akstri til Rapallo, sem er við Tigullio flóann þar sem fallegasta hafnarkastala Liguria strandarinnar er að finna. En þar byrjum við á því að kanna líf bæjarins sem er litríkur og skemmtilegur. Eftir góðan tíma þar verður farið í töfrandi siglingu með Portofino skaganum sem dregur nafn sitt af bænum fræga Portofino sem við komum til með að njóta í allri sinni dýrð. Þar verður gefinn tími til að fá sér hádegishressingu og kanna líf bæjarbúa á þessum fagra stað.

14. júní | Hálfur dagur í Genúa & Arenzano

Glæsilegur dagur í Genúa, höfuðborg Ligúríu strandar. Hún er ein mesta hafnarborg Ítalíu og með þeim mikilvægustu við Miðjarðarhafið en það er margt sem þessi fallega borg hefur upp á að bjóða. Aðalshallir Genúa taka öðrum slíkum fram á Ítalíu, hvað snertir fjölda, glæsileika og sýnir hvernig aðalsmenn lifðu á 16. og fram á 17 öld. Á skemmtilegri göngu okkar um borgina heyrum við sagnir af m.a þjóðarhetjunni Garibaldi og Kristófer Kólumbus. Eftir líflega skoðunarferð verður frjáls tími til að fá sér hressingu og njóta lífsins áður en ekið verður aftur til Arenzano þar sem hægt verður að slaka á eftir skemmtilega ferð.

15. júní | Mílanó, frjáls tími og heimferð

Það er komið að heimferð eftir sæludaga á þessum yndislegu svæðum. Eftir morgunverð er ekið til heimsborgarinnar Mílanó. Byrjað verður á að fara í stutta skoðunarferð um borgina. Eftir það höfum við frjálsan tíma til að upplifa þessa heillandi borg á eigin vegum og fá okkur kvöldhressingu áður en við ökum út á flugvöll. Brottför þaðan kl. 22:35 og lending í Keflavík kl. 00:50 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hlín Gunnarsdóttir

Hlín Gunnarsdóttir fæddist árið 1956 í Reykjavík en á ættir að rekja bæði vestur á firði og í Mýrdalinn. Hún lærði leikmynda og búningahönnun i Tórínó á Ítalíu á árunum 1978 - 82 og bjó þar alls í 12 ár eða til ársins 1987. Hlín starfaði í sjö sumur sem fararstjóri á Rimini á vegum Samvinnuferða-Landsýnar og þegar hún fluttist heim skellti hún sér í Leiðsöguskólann og starfaði eftir það sem leiðsögumaður á sumrin með erlenda ferðamenn, aðallega ítalska ferðamenn á Íslandi.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00