27. ágúst – 3. september 2026 (8 dagar)
Þessi skemmtilega hjólaferð leiðir okkur í gegnum eitt fegursta og fjölbreyttasta svæði Norður-Ítalíu, Suður-Tíról og Trentino. Við gistum í Cortina, litlu vínþorpi á hinni frægu vínleið Strada del Vino, þar sem þýsk og ítölsk menning fléttast saman í mat, menningu, listum og hefðum. Það sama á við í heild um þetta skemmtilega svæði sem við ferðumst um. Alls staðar vefast þessir mennningarheimar saman í skemmtilega blöndu Alpanna og Miðjarðarhafsins. Á hjóli fylgjum við Via Claudia Augusta, fornum vegi Rómverja, um dal Adige árinnar þar sem vínekrur, eplalundir og kastalar prýða landslagið. Við upplifum fjölbreytta náttúrufegurð frá grænum dölum með stórar sléttur og beljandi ár, til þéttra skóga, hrjóstrugs bergs Alpanna og glitrandi stöðuvatna eins og Caldaro, Lago di Monticolo og Termeno. Við hjólum í gegnum lítil þorp eins og Laghetti, Salorno, San Michele og Mezzocorona. Við hjólum einnig til fallegu menningarborgarinnar Trento, suðupotts ítalskra, þýskra og austurrískra áhrifa. Í heilsulindarbænum Merano hefur löngum verið sótt í gott loftslag og jarðhitaböð og þar hefur verslunargatan I Portici a Merano staðið í yfir 800 ár. Að endingu hjólum við skemmtilega leið frá bænum Roveto upp í hlíðarnar og gegnum þorpin San Giovanni og Nago á leið okkar að hinu víðáttumikla Gardavatni. Þar komum við í bæina Torbole og Acro. Við sjáum skemmtilegar myndanir í Marocche di Dro og njótum veiga og veitinga úr héraði við vatnið Cavedine. Í þessari frábæru ferð á mörkum hinna töfrandi Alpa og rólyndis Miðjarðarhafsins fer saman útivist og hreyfing í heillandi umhverfi.