Hjólað í Seefeld

Tíról í Austurríki er sannkallaður ævintýraheimur út af fyrir sig. Fegurð Alpafjallanna umlykur okkur og náttúran skartar sínu fegursta. Seefeld hvílir í fögrum fjallasal milli Wetterstein, Mieminger og Karwendelfjallanna og er einn þekktasti ferðamannabærinn í Tíról. Hér bíða okkar grænir dalir, greniskógar, fjallasel og stórbrotið útsýni. Farnar verða skipulagðar hjólaferðir í frísku fjallalofti með fararstjórum sem velja hentugar leiðir hvern dag og fræða hópinn um staðhætti á leiðinni. Hjólað verður um dali milli hrífandi fjallstinda, með fram fallegum vötnum og ám. Gist verður allar næturnar á huggulegu 4 stjörnu hóteli í miðbæ Seefeld með úrvals heilsulind. Þetta er ferð sem sameinar hjólreiðar, útiveru, slökun og stórkostlega upplifun.

Verð á mann 439.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 13.100 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallaskattar. 
  • Ferðir á milli flugvallarins í München og hótelsins í Seefeld. 
  • Gisting í tveggja manna herbergi með baði á 4* hóteli.
  • Morgunverðarhlaðborð.
  • Síðdegishressing með gómsætu sætabrauði.
  • Vel útilátinn 4ra rétta kvöldverður með salathlaðborði.
  • Þemakvöldverður eitt kvöldið.
  • Aðgangur að heilsulindinni.
  • Leiga á rafhjóli E-MTB í 6 daga.
  • Hjólaprógramm í 5 daga. 
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Hádegisverðir.
  • Aðgangur að Geisterklamm.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Undirbúningur

Dagleiðirnar eru á bilinu 16 - 54 km. Ferðahraðinn er ekki meiri en svo að auðvelt er að upplifa umhverfið og njóta þess sem fyrir augu ber. Við mælum með að þátttakendur æfi sig vel fyrir ferðina, t.d. með því að fara í nokkrar lengri dagsferðir. Gott er að prófa sig áfram með gelhnakk eða hjólabuxur til að auka þægindi. Því betri undirbúningur, því meiri ánægja í ferðinni! Vinsamlegast athugið að ef þátttakandi hefur ekki líkamlegt þol eða færni fyrir hjólaferðirnar geta fararstjórar beðið viðkomandi um að sleppa einum eða fleiri hjóladögum. Þá býðst að nýta aðstöðu hótelsins eða fara í styttri ferðir á eigin vegu. Við hjólum að mestu á malarstígum með hæfilegum hækkunum og lækkunum og verðum á rafmagnsfjallahjólum með dempara að framan sem henta vel við þessar aðstæður. Leiðirnar eru margar stórbrotnar og fjölbreyttar en ekki tæknilega krefjandi.

Tillaga að dagleiðum

Eftirfarandi lýsingar eru viðmið um mögulegar dagleiðir. Endanlegt val fer eftir aðstæðum og mati fararstjóra hverju sinni.

1. Mittenwald – ferð yfir landamæri

Við hjólum til Þýskalands og heimsækjum hinn sjarmerandi bæ Mittenwald sem er frægur fyrir myndskreyttar byggingar og framleiðslu á fiðlum og sellóum.
Leiðin liggur meðfram ánni Isar í gegnum skógarjaðra og fallega alpadali.

  • Vegalengd: u.þ.b. 46 km
  • Hæðarmunur: u.þ.b. 468 m
  • Erfiðleikastig: frekar létt
Opna allt

2. Vötnin þrjú og Alpabjallan í Mösern

Hringferð þar sem við hjólum fram hjá þremur af fjallavötnum svæðisins, Wildmoossee, Lottensee og Möserersee. Hjólað er meðfram Möserer engjum upp aflíðandi halla í átt til bæjarins Mösern. Kíkjum aðeins inn í bæinn og skoðum Alpabjölluna áður en við höldum inn í skóginn á ný. Möserersee er mjög kyrrlátt vatn á fallegum stað og oft stingur fólk sér þar til sunds á sumrin. Á Wildmoos hásléttunni eru tvö vötn til viðbótar en Wildmoossee og Lottensee myndast í leysingum á vorin og hverfa svo skyndilega á haustin. Þetta er áhugavert náttúrufyrirbæri þar sem ferlið er óútreiknanlegt. Mikið er af fallegum útsýnisstöðum á leiðinni.

  • Vegalengd: u.þ.b. 17 km
  • Hæðarmunur: 389 m
  • Erfiðleikastig: miðlungserfið

3. Hämmermoos selið

Hjólað er upp í hinn hrífandi Gaistal sem liggur milli Mieminger og Wetterstein fjallgarðanna. Moosalm selið er með huggulega sólarverönd og þar er boðið upp á girnilegar veitingar. Stundum er þar meira að segja leikið á hörpu. Aðeins hærra í dalnum er svo Gaistal selið sem er mögulegt að heimsækja ef við viljum hjóla meira.

  • Vegalengd: 34 km
  • Hæðarmunur: u.þ.b. 880 m
  • Erfiðleikastig: miðlungserfið

4. Gaisterklamm – draugagilið

Við hjólum yfir grónu Wildmoos sléttuna til Leutasch og inn kyrrláta Leautasch dalinn þar sem fjöllin gnæfa og loftið er tærara en víðast hvar. Þar leggjum við hjólunum og göngum inn í hið dularfulla draugagil, Geisterklamm, sem er eitt fallegasta náttúrufyrirbæri svæðisins. Það er sannkallað ævintýri að ganga eftir hengibrúm og göngustígum sem liggja yfir iðandi ár og milli kletta. Vatnið glitrar í sólinni og suðandi straumurinn bergmálar milli bergveggjanna. Þarna, í hjarta fjallanna, má segja að náttúran sýni sitt fegursta andlit. Eftir þessa ógleymanlegu heimsókn hjólum við út dalinn og tökum aðra leið yfir fjöllin heim til Seefeld – með ferskan fjallaloftblæ og dásamlegt útsýni á öllum hliðum

  • Vegalengd: u.þ.b. 37 km
  • Hæðarmunur: u.þ.b. 530 m
  • Erfiðleikastig: miðlungserfið

5. Kasten sel – við upptök Isar

Í dag er fyrsti spölurinn upp á móti og gegn um skóginn en svo er haldið inn dal. Hjólað verður inn með Isar ánni allt þar til komið er að uppsprettu hennar innst í dalnum en þar er fjallaselið Kastenalm sem býður upp á góðar veitingar. Þessi staður er vinsæll upphafspunktur af fjallgöngum. Hjólum sömu leið til baka með fjalladýrð á báða vegu.

  • Vegalengd: u.þ.b. 54 km
  • Hæðarmunur: u.þ.b. 660 m
  • Erfiðleikastig: miðlungserfið

Flug

Flogið verður með Icelandair til München þann 23. ágúst. Brottför frá Keflavík kl. 7:20 en mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Frá flugvellinum í München er um 160 km til Seefeld svo gera má ráð fyrir að rútuferðin taki um 2,5 klst. Á brottfarardegi verður flogið heim frá München kl. 14:05 og lending á Íslandi kl. 16:00.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Anna Sigríður Vernharðsdóttir

Anna Sigríður Vernharðsdóttir er hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir og starfar sem ljósmóðir hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hún var á árum áður félagi í Hjálparsveit skáta Kópavogi og var um tíma yfirleiðbeinandi Björgunarskólans í fyrstu hjálp.

Anna Sigga, eins og hún er alltaf kölluð, hefur áhuga á alls konar útivist og nýtir hvert tækifæri til ævintýra og útivistar. Fjallgöngur, hjólreiðar og skíðaganga eru í uppáhaldi.

Auðunn Páll Sigurðsson

Auðunn Páll, oftast kallaður Palli, er tæknifræðingur og starfar sem verkefnisstjóri hjá Marel. Palli hefur mikinn áhuga á alls konar útivist, s.s. utanvegahlaupum, fjallgöngum, jeppaferðum, mótorhjólum, fjallahjólreiðum, fjallaskíðum og auðvitað skíðagöngu. Hann var á árum áður virkur félagi í Hjálparsveit skáta í Kópavogi.

Hótel

Hotel Bergland - hjólaferð

Gist verður allar næturnar á 4* hóteli í miðbæ Seefeld, Hótel Bergland. Innifalið er vel úti látið morgunverðarhlaðborð, síðdegissnarl og fjögurra rétta kvöldverður með salatbar. Notaleg heilsulind er á hótelinu með sundlaug, sauna, eimbaði, innrauðum hitaklefa og köldu keri. Einnig er boðið er upp á ýmsar heilsumeðferðir gegn gjaldi. Herbergin eru öll með baði/sturtu, hárþurrku, síma, sjónvarpi og öryggishólfi. Gestir fá baðslopp til afnota á meðan á dvölinni stendur. Ókeypis þráðlaust net er á hótelinu.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti