Gengið í Portofino & Cinque Terre
27. maí - 3. júní 2023 (8 dagar)
Spennandi gönguferð um tvö af fallegustu göngusvæðunum við Miðjarðarhafið, Portofino skagann og Cinque Terre ströndina. Brattir klettar og höfðar, þaktir ilmandi og litríkum miðjarðarhafsgróðri sem speglar sig í túrkisbláum sjónum. Helstu bæir Cinque Terre strandarinnar verða skoðaðir og dvalið á huggulegu hóteli í einum þekktasta þeirra, Santa Margherita Ligure. Portofino skaginn sem dregur nafn sitt af bænum fræga, Portofino, nýtur náttúruverndar vegna gróðurs og dýralífs og þar er náttúrufegurðin hvað mikilfenglegust. Gengið verður um allan skagann og stoppað í ævintýralega bænum Camogli og við San Fruttuoso víkina. Seinni hluta ferðarinnar er gengið um Cinque Terre, þjóðgarð sem er á heimsminjaskrá UNESCO vegna einstakra minja um líf fyrr á öldum sem einkenndist af fiskveiðum og vínrækt. Ferðin er tilvalin fyrir hresst útivistarfólk en gott er að hafa í huga að nokkuð mikið er af tröppum og þröngum stígum og geta hlutar þeirra verið nokkuð brattir. Einungis er gengið með dagpoka.