Vesen á Tenerife

Tenerife er stærst Kanaríeyjanna, 2.055 km2 að flatarmáli og jafnframt fjölmennasta eyja Spánar með tæplega 900.000 íbúa. Frá landfræðilegu sjónarhorni tilheyrir þessi eldfjallaeyja Afríku enda liggur hún aðeins 300 km frá Marokkó. Milt og þægilegt loftslagið allt árið um kring gerir eyjuna ákjósanlegan áfangastað fyrir bæði göngugarpa sem og afslappaða sóldýrkendur. Í þessari ferð ætlum við einmitt að njóta aðventunnar á Tenerife þar sem við blöndum þessu saman, fjölbreyttum gönguferðum og afslöppun í sólinni fjarri helstu ferðamannastöðum eyjunnar. Við gistum fyrri helming dvalarinnar í La Laguna en elsti hluti miðbæjar þessarar gömlu höfuðborgar Kanaríeyja er á heimsminjaskrá UNESCO. Þaðan förum við í ferðir um nyrsta og gróðursælasta hluta eyjunnar, göngum á milli lítilla þorpa og sjáum hvernig daglegt líf eyjarskeggja gengur fyrir sig. Seinni helming dvalarinnar færum við okkur á vestari hluta Tenerife og dveljum í Los Gigantes. Þaðan förum við í dagsferðir í Teide þjóðgarðinn og Masca gljúfrin og kynnumst jafnframt strandlífinu í þessum litla bæ. Það er engu líkt að fá sumarauka á þessum tíma árs og kynnast um leið nýjum hliðum þessarar fallegu eyju. Gist verður á 4* hótelum.

Verð á mann 279.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 61.700 kr.

Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Rútuferðir til og frá flugvelli og samkvæmt dagskrá.
 • Gisting í 7 nætur á góðum 4* hótelum í tveggja manna herbergi með baði.
 • Morgunverður allan tímann á hótelum.
 • Kvöldverðir öll kvöldin.
 • Gönguleyfi og ferð með kláfi upp/niður Pico del Teide.
 • Göngudagskrá.
 • Innlend leiðsögn í gönguferðum.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Kostnaður, annar en sá sem talinn er upp undir innifalið.
 • Hádegisverðir og annar tilfallandi kostnaður á göngunum.
 • Þjórfé.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

10. desember │ Flug til Tenerife

Brottför frá Keflavík kl. 08:40 og mæting í Leifstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending á Tenerife kl. 13:50. Ekið til borgarinnar La Laguna á norðurhluta eyjunnar og má reikna með að aksturinn taki u.þ.b. klukkustund. La Laguna er þriðja fjölmennasta borgin í eyjaklasanum, með rúmlega 150.000 íbúa. Borgin er skráð á heimsminjaskrá UNESCO enda má þar finna klaustur, háskóla, biskupssetur og elstu kirkju Tenerife, Iglesia de la Concepción frá 15. öld. Fyrir þá sem vilja er boðið upp á smá rölt um eldri hluta borgarinnar. Gist verður í þrjár nætur á góðu 4* hóteli í hjarta gamla bæjarins og sameiginlegur kvöldverður er á hótelinu.

11. desember │ La Laguna

Fyrsta gönguleið ferðarinnar er þægileg leið í gegnum skógarveg nálægt La Laguna. Á leið okkar verða m.a. gömul náma og litlir sveitabæir þangað til við komum að Tahodio stöðuvatninu. Við höldum síðan leið okkar áfram um litlar og hlykkjóttar gönguleiðir að smábænum Los Lirio. Þar má sjá ansi litskrúðug hús og mögulega sjáum við nokkra asna og hesta. Við röltum áfram ca 2 km þangað til við komum að þekktu, en illa merktu, hliði sem leiðir okkur að gamalli mjólkurframleiðslu. Þarna var forðum stunduð vöruskipti, mjólk fyrir aðallega fisk og grænmeti. Mjólkin fór síðan í framleiðslu fyrir La Laguna og Santa Cruz. Á leið okkar til baka að La Laguna verður farin leið í gegnum Barranco de Tabares þar sem yndisleg og fjölbreytt náttúran fangar augað. Risavaxin tré, m.a eukalyptus tré sjást þarna víða.

 • Göngutími: ca 5 klst.
 • Erfiðleikastig: miðlungs
 • Hækkun: +/- 140 m

12. desember │ Gönguleið um Anaga fjallaþjóðgarðinn

Anaga fjallaþjóðgarðurinn, sem staðsettur er í norðausturhluta Tenerife, varð til fyrir um 9 milljónum ára við eldgos í Teide eldfjallinu. Hæsti punktur þessa skógi vaxna fjallgarðs er 1024 metrar og hæsti hryggur fjallanna því oft hulinn skýjum sem gerir svæðið að einu blautasta svæði eyjunnar. Við göngum um einstaklega fallegt skóglendi fjallgarðsins en árið 1987 var hann settur á náttúruminjaskrá UNESCO vegna síns einstaka lífríkis. Gengið verður um stíga gljávíðisskógarins og við upplifum þægilega kyrrðina og drekkum í okkur einstaka náttúrufegurð svæðisins. Inn á milli fáum við óviðjafnanlegt útsýni til allra átta og á vegi okkar verða lítil þorp. Það er ekki að ástæðulausu að þessi sælureitur er á náttúruminjaskrá UNESCO.

 • Göngutími: ca 3-4 klst.
 • Erfiðleikastig: miðlungs
 • Hækkun/lækkun: ca +300 m/ca -500 m
Opna allt

13. desember │ Ekið til Los Gigantes – gönguferð á Montaña Roja

Í dag ætlum við að færa okkur yfir á suðurhluta eyjunnar eða til bæjarins Los Gigantes. Á leið okkar þangað munum við ganga upp á hið fallega 171 m háa eldfjall Montaña Roja eða rauða fjallið. Þrátt fyrir að státa ekki af mjög mikilli hæð er útsýnið frá toppnum mjög fallegt og gangan upp á þetta rauða fjall ánægjuleg. Eitt af náttúruundrum Tenerife eru hinir tignarlegu Los Gigantes klettar vestan megin á eyjunni en þeir rísa upp úr sjónum og mynda allt að 600 metra háan vegg úr basaltgrýti. Klettarnir eru oft kallaðir stórbrotnasti gimsteinn Tenerife og er auðveldlega hægt að gleyma sér við að rýna í fjölbreyttar klettamyndirnar sem margar hverjar líkjast mannlegum verum. Nokkur lítil gljúfur renna niður Los Gigantes klettana í átt að sjónum og enda í litlum sandvíkum sem eingöngu er hægt að nálgast með seglbátum eða snekkjum. Í þessum afskekktu víkum er því að finna einstaklega fjölbreytt lífríki eins og svartan kóral, svampdýr og kalkþörunga og eru þessi svæði afar vinsæl á meðal kafara. Milt og þægilegt loftslagið hefur aukið þéttbýlismyndun á svæðinu og æ fleiri ferðamenn kunna að meta þessar slóðir en þetta svæði heyrir undir bæinn Santiago del Teide. Stutt er í þægilegar og góðar strendur.

 • Göngutími: ca 2 klst.
 • Hækkun/lækkun: +/- 160 m

14. desember │ Teide þjóðgarðurinn

Nú er komið að hápunkti ferðarinnar, göngu á eldfjallið Pico del Teide. Teide þjóðgarðurinn, sem hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO síðan árið 2007, er sá stærsti á Kanaríeyjum og er eldfjallið þriðja hæsta eyjaeldfjall í heimi, 3715 m. Hér býðst að velja á milli u.þ.b. 5 klst. næturgöngu og upplifa þannig sólarupprás á tindinum og þess að fara með fyrsta morgunkláfnum áleiðis og ganga svo upp á tindinn. Báðir hóparnir fara aftur niður með kláfnum þegar þeim hentar. Gígur garðsins, kallaður Las Cañadas, er um 17 km í þvermál og hraunið í kringum meginkeilu eldfjallsins á rætur að rekja til síðasta eldgosins sem talið er að hafi átti sér stað á milli 7. og 10. aldar. Gengnir verða litlir misþröngir göngustígar og mikilfenglegt gljúfrarlandslag Teno fjallgarðsins og einstakt landslag gíga og hraunstrauma mynda tilkomumikið sjónarspil lita og forma. Á norðurhluta eyjunnar, Mirador Piedra La Rosa, er sérstaklega fallegur útsýnisstaður yfir svæði bergmyndana sem líkja má við rósir myndaðar úr hrauni.

 • Göngutími: ca 5 klst.
 • Erfiðleikastig: næturgangan er krefjandi/ferð með morgunkláf er miðlungs

15. desember│ Bátsferð, ganga meðfram ströndinni, frjáls dagur

Í dag ætlum við að njóta hinna stórkostlegu Los Gigantes kletta frá ólíkum sjónarhornum og fara bæði í skemmtilega bátsferð meðfram tignarlegri klettaströndinni sem og stoppa við litla sandvík og ganga þar meðfram svartri sandströndinni. Hafsbotninn í kringum klettana nær aðeins um 30 metra dýpi og er þetta svæði því heimkynni fjölmargra og ólíkra sjávardýra. Eftir árstíðum má sjá á þessu svæði hvali, háhyrninga, höfrunga, svartan kóral, svampdýr og leðurskjaldbökur. Það er því ekki að ástæðulausu að þetta svæði er vinsælt meðal kafara.

16. desember │ Masca gljúfrin

Masca gljúfrið er ein af stórbrotnari gönguleiðum Tenerife en um leið ein sú erfiðasta. Eftir að gönguhópar höfðu ítrekað lent í vandræðum var gönguleiðinni lokað árið 2018. Stjórnvöld tóku sig á og kostuðu meira en milljón evra í gagngerar endurbætur á þessari vinsælu gönguleið. Merkingar voru uppfærðar og tröppum og köðlum bætt við þar sem gönguleiðir þykja sérstaklega erfiðar yfirferðar. Gönguleið dagsins byrjar við litla friðsæla Masca þorpið á norðvestur hluta eyjunnar en íbúafjöldi þess telur eingöngu um 100 manns. Þorpið er fagurlega staðsett í 650-800 m hæð og vel fram á sjöunda áratug síðustu aldar var eingöngu hægt að komast fótgangandi eða með asna að þorpinu. Til baka verður gengið niður gljúfrið og um leið njótum við stórkostlegs útsýnis yfir Atlantshafið. Þessi hlykkjótta gönguleið frá Masca þorpinu niður gljúfrið heillar marga
göngugarpana enda ægifagurt landslagið, allt að 600 metra háir klettar, sægræn gljúfur og sérkennilegar bergmyndanir, allt um kring. Masca gljúfrið er afar gróðursælt en á vegi okkar verða möndlu- og fíkjutré sem og döðlupálmar og kaktusar. Villta fjallageitin hefur einnig fundið sitt búsvæði í gljúfrinu.

 • Göngutími samtals yfir daginn: ca 5 klst.
 • Hækkun/lækkun: +1400m/-160m

17. desember │ Heimferð

Síðasta morguninn er upplagt að nýta í rólegheit, rölta um bæinn og njóta sólarinnar. Brottför með Icelandair frá Tenerife kl. 14:50. Lent er í Keflavík kl. 20:10.

Fararstjórn

Einar Skúlason

Einar Skúlason er fæddur í Kaupmannahöfn 1971. Hann er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá HÍ og MBA gráðu frá Háskólanum í Edinborg.

Hann hefur unnið við markaðsstörf á nokkrum stöðum, var framkvæmdastjóri Alþjóðahússins og kynningarstjóri Fréttablaðsins en hefur síðustu ár starfrækt gönguklúbbinn Vesen og vergang og gönguappið Wapp-Walking app. Í tengslum við gönguklúbbinn hefur Einar verið leiðsögumaður og fararstjóri í hundruðum ferða innanlands og erlendis.

Einar skrifaði jafnframt tvær bækur um gönguleiðir í nágrenni Reykjavíkur.

Hótel

Laguna Nivaria

Fyrstu þrjár næturnar er gist á 4* hótelinu Laguna Nivaria í La Laguna. Hótelið er afar vel staðsett eða í hjarta gamla bæjarhlutans. Herbergin eru öll búin gervihnattasjónvarpi, hárþurrku, öryggishólfi, þráðlausu interneti, loftkælingu og litlum ísskáp. Á hótelinu er veitingastaður og kaffibar og auk þess góð heilsulind.

Hotel Landmar Costa

Seinni hluta ferðarinnar gistum við í fjórar nætur á 4* Hotel Landmar Costa í Los Gigantes. Herbergin eru annaðhvort með verönd eða svölum og búin loftkælingu, gervihnattasjónvarpi, þráðlausu neti og hárblásara. Á hótelinu er heilsulind, glæsilegt útisvæði með sundlaug og sólbaðsaðstöðu ásamt veitingastöðum og börum.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir