10. - 17. desember 2022 (8 dagar)
Tenerife er stærst Kanaríeyjanna, 2.055 km2 að flatarmáli og jafnframt fjölmennasta eyja Spánar með tæplega 900.000 íbúa. Frá landfræðilegu sjónarhorni tilheyrir þessi eldfjallaeyja Afríku enda liggur hún aðeins 300 km frá Marokkó. Milt og þægilegt loftslagið allt árið um kring gerir eyjuna ákjósanlegan áfangastað fyrir bæði göngugarpa sem og afslappaða sóldýrkendur. Í þessari ferð ætlum við einmitt að njóta aðventunnar á Tenerife þar sem við blöndum þessu saman, fjölbreyttum gönguferðum og afslöppun í sólinni fjarri helstu ferðamannastöðum eyjunnar. Við gistum fyrri helming dvalarinnar í La Laguna en elsti hluti miðbæjar þessarar gömlu höfuðborgar Kanaríeyja er á heimsminjaskrá UNESCO. Þaðan förum við í ferðir um nyrsta og gróðursælasta hluta eyjunnar, göngum á milli lítilla þorpa og sjáum hvernig daglegt líf eyjarskeggja gengur fyrir sig. Seinni helming dvalarinnar færum við okkur á vestari hluta Tenerife og dveljum í Los Gigantes. Þaðan förum við í dagsferðir í Teide þjóðgarðinn og Masca gljúfrin og kynnumst jafnframt strandlífinu í þessum litla bæ. Það er engu líkt að fá sumarauka á þessum tíma árs og kynnast um leið nýjum hliðum þessarar fallegu eyju. Gist verður á 4* hótelum.