Gengið um eldfjallaeyjuna Tenerife

21. - 28. febrúar 2026 (8 dagar)

Tenerife er stærst Kanaríeyjanna, 2.055 km2 að flatarmáli og jafnframt fjölmennasta eyja Spánar með tæplega 900.000 íbúa. Frá landfræðilegu sjónarhorni tilheyrir þessi eldfjalla-eyja Afríku enda liggur hún aðeins 300 km frá Marokkó. Milt og þægilegt loftslagið allt árið um kring gerir eyjuna ákjósanlegan áfangastað fyrir bæði göngugarpa sem og afslappaða sóldýrkendur. Í þessari ferð ætlum við einmitt að njóta Tenerife þar sem við blöndum þessu saman, fjölbreyttum gönguferðum og afslöppun í sólinni fjarri helstu ferðamannastöðum eyjunnar. Við gistum fyrri helming dvalarinnar í La Laguna en elsti hluti miðbæjar þessarar gömlu höfuðborgar Kanaríeyja er á heimsminjaskrá UNESCO. Þaðan förum við í skemmtilegar göngur meðal annars um Anaga þjóðgarðinn nyrsta og gróðursælasta hluta eyjunnar, göngum á milli lítilla þorpa og sjáum hvernig daglegt líf eyjarskeggja gengur fyrir sig. Seinni helming dvalarinnar færum við okkur á vestari hluta Tenerife og dveljum í Los Gigantes þar sem finna má eitt af náttúruundrum Tenerife, Los Gigantes klettana. Þaðan förum við í dagsferðir milli þorpa á suðvestur-hluta eyjunnar, Teide þjóðgarðinn og Masca dalinn og kynnumst jafnframt strandlífinu í þessum litla bæ. Það er engu líkt að fá sumarauka á þessum tíma árs og kynnast um leið nýjum hliðum þessarar fallegu eyju. Gist verður á 4* hótelum.

Verð á mann 399.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 74.700 kr.

Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Rútuferðir frá flugvelli til La Laguna og samkvæmt dagskrá.
  • Gisting í 7 nætur á góðum 4* hótelum í tveggja manna herbergi með baði. 
  • Morgunverður allan tímann á hótelum.
  • Kvöldverðir öll kvöldin.
  • Gönguleyfi og ferð með kláfi upp/niður Pico del Teide.
  • Göngudagskrá.
  • Innlend leiðsögn í tveimur gönguferðum í La Laguna.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Kostnaður, annar en sá sem talinn er upp undir innifalið.
  • Hádegisverðir og annar tilfallandi kostnaður á göngunum.
  • Þjórfé.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

21. febrúar │ Flug til Tenerife

Brottför frá Keflavík kl. 10:00 og mæting í Leifstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending á Tenerife kl. 15:25. Ekið til borgarinnar La Laguna á norðurhluta eyjunnar og má reikna með að aksturinn taki u.þ.b. klukkustund. La Laguna er þriðja fjölmennasta borgin í eyjaklasanum, með rúmlega 150.000 íbúa. Borgin er skráð á heimsminjaskrá UNESCO enda má þar finna klaustur, háskóla, biskupssetur og elstu kirkju Tenerife, Iglesia de la Concepción frá 15. öld. Fyrir þá sem vilja verður tekið smá rölt um eldri hluta borgarinnar. Gist verður í þrjár nætur á góðu 4* hóteli í hjarta gamla bæjarins og sameiginlegur kvöldverður er á hótelinu.

22. febrúar │ La Laguna

La Laguna er fyrsta höfuðborg Tenerife og Kanarý eyja og er rík af menningu og sögu. Á þessu skemmtilega svæði njótum við leiðsagnar staðarleiðsögumanns. Við erum stödd hærra í landslaginu og hér er hitastigið svalara. Í nágrenni borgarinnar eru margar góðar gönguleiðir, enda liggur hún við Anaga Rural þjóðgarðinn sem er eitt besta göngusvæði eyjunnar og þar er mikil fjölbreytni í umhverfi og gróðri. Hér eru aldnir lárviðarskógar, tröllatré (Eucalyptus), drekatré, lyngviður, blómstrandi runnar, kaktusar og þykkblöðungar. Mikilfenglegir eldfjallahryggir, gil og gljúfur og frábært útsýni út á Atlantshafið.

23. febrúar │ Gönguleið um Anaga fjallaþjóðgarðinn

Anaga fjallaþjóðgarðurinn, sem staðsettur er í norðausturhluta Tenerife, varð til fyrir um 9 milljónum ára við eldgos í Teide eldfjallinu. Hæsti punktur þessa skógi vaxna fjallgarðs er 1024 metrar og hæsti hryggur fjallanna því oft hulinn skýjum sem gerir svæðið að einu blautasta svæði eyjunnar. Við göngum um einstaklega fallegt skóglendi fjallgarðsins en árið 2015 var hann settur á náttúruminjaskrá UNESCO vegna líffræðilegs fjölbreytileika og aldinna skóga. Gengið verður um stíga gljávíðisskógarins og við upplifum þægilega kyrrðina og drekkum í okkur einstaka náttúrufegurð svæðisins. Inn á milli fáum við óviðjafnanlegt útsýni til allra átta og á vegi okkar verða lítil þorp. Það er ekki að ástæðulausu að þessi sælureitur er á náttúruminjaskrá UNESCO.

  • Göngutími: ca 3-4 klst.
  • Erfiðleikastig: miðlungs
  • Hækkun/lækkun: ca +300 m/ca -500 m
Opna allt

24. febrúar │ Ekið til Los Gigantes – gönguferð á Montaña Roja

Í dag ætlum við að færa okkur yfir á suðurhluta eyjunnar eða til bæjarins Los Gigantes. Á leið okkar þangað munum við ganga upp á hið fallega 171 m háa eldfjall Montaña Roja eða rauða fjallið. Þrátt fyrir að státa ekki af mjög mikilli hæð er útsýnið frá toppnum mjög fallegt og gangan upp á þetta rauða fjall ánægjuleg. Eitt af náttúruundrum Tenerife eru hinir tignarlegu Los Gigantes klettar vestan megin á eyjunni en þeir rísa upp úr sjónum og mynda allt að 600 metra háan vegg úr basaltgrýti. Klettarnir eru oft kallaðir stórbrotnasti gimsteinn Tenerife og er auðveldlega hægt að gleyma sér við að rýna í fjölbreyttar klettamyndirnar sem margar hverjar líkjast mannlegum verum. Nokkur gljúfur ná niður Los Gigantes klettana í átt að sjónum og enda í litlum sandvíkum sem eingöngu er hægt að nálgast með seglbátum eða snekkjum. Í þessum afskekktu víkum er því að finna einstaklega fjölbreytt lífríki eins og svartan kóral, svampdýr og kalkþörunga og eru þessi svæði afar vinsæl á meðal kafara. Milt og þægilegt loftslagið hefur aukið þéttbýlismyndun á svæðinu og æ fleiri ferðamenn kunna að meta þessar slóðir en þetta svæði heyrir undir bæinn Santiago del Teide. Stutt er í þægilegar og góðar strendur.

  • Göngutími: ca 2 klst.
  • Hækkun/lækkun: +/- 160 m

25. febrúar │ Þjóðleið milli fjallaþorpa – Tamaimo – Arguayo – El Molledo

Í dag förum við áhugaverða útsýnisleið sem tengir saman nokkur minni þorp á suðvesturhluta eyjarinnar. Gangan okkar hefst í þorpinu Tamaimo sem stendur í 570 m hæð yfir sjávarmáli. Við ferðumst um fjallstíga sem leiða okkur um skóga þar sem eru sígræn fura og grösugir runnar, eldfjallahlíðar, gil og klettar. Fallegt útsýni er í dalina fyrir neðan og út á sjó og á góðum degi er hægt að sjá Teide fjall. Stígarnir leiða okkur í gegnum Arguayo sem stendur í 900 m hæð og áfram til þorpsins Molledo þar sem hópurinn verður sóttur. Áhugasömum gefst kostur á að sleppa rútunni og ganga niður að hóteli frá El Molledo (um 7 km leið). 

  • Göngutími: 3-4 klst
  • Erfiðleikastig: miðlungs
  • Vegalengd: um 8 km
  • Hækkun: u.þ.b. 450 m
  • Lækkun um 100 m

26. febrúar │ Teide þjóðgarðurinn

Nú er komið að hápunkti ferðarinnar, göngu á eldfjallið Pico del Teide sem er hæsta fjall Spánar. Það er jafnframt þriðja hæsta eyjaeldfjall í heimi, 3715 m. Fjallið stendur í Teide þjóðgarðinum, sem hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO síðan árið 2007. Við förum með kláfi áleiðis og göngum svo upp á tindinn. Gígur garðsins, kallaður Las Cañadas, er um 17 km í þvermál og hraunið í kringum meginkeilu eldfjallsins á rætur að rekja til síðasta eldgosins sem talið er að hafi átti sér stað á milli 7. og 10. aldar. Gengnir verða litlir misþröngir göngustígar og mikilfenglegt gljúfrarlandslag Teno fjallgarðsins og einstakt landslag gíga og hraunstrauma mynda tilkomumikið sjónarspil lita og forma. Í bakaleiðinni skoðum við klettaborgina Roques de García sem er röð dranga, spíra, tinda og kletta. Hún hefur myndast í eldsumbrotum og rofi á eyjunni í gegnum milljónir ára. Hér er hægt að ganga skemmtilega hringleið og skoða þessi skemmtilegu náttúruundur.

  • Göngutími samtals yfir daginn: ca 3-4 klst.
  • Erfiðleikastig: gangan upp á topp Teide er ekki löng en hún getur verið brött og miðlungs til erfið. Ganga um Roques de García er létt til miðlungs.
  • Hækkun 163 m á Teide og Roques de García um 175 m.

27. febrúar │ Santiago del Teide/Erjos til Masca

Gönguleiðin milli Santiago del Teide til þorpsins Masca er ein sú fallegasta á eyjunni. Fyrsti hluti hennar er aflíðandi brekka að hæsta punkti Teno fjalla. Héðan er fallegt útsýni og í góðu skyggni blasir Teide fjall við. Næst liggur leið okkar niður á við niður í Masca dalinn. Neðar er hið mikilfenglega Masca gljúfur sem er ein af stórbrotnari gönguleiðum Tenerife en um leið ein sú erfiðasta. Ganga okkar endar í friðsæla þorpinu Masca en íbúafjöldi þess telur eingöngu um 100 manns. Þorpið er fagurlega staðsett í 650-800 m hæð og vel fram á sjöunda áratug síðustu aldar var eingöngu hægt að komast fótgangandi eða með asna að þorpinu.

  • Göngutími: 4-5 klst
  • Erfiðleikastig: miðlungs
  • Vegalengd: um 10-12 km
  • Hækkun: u.þ.b. 400 m
  • Lækkun um 700 m (aflíðandi)

28. febrúar │ Heimferð

Síðasta morguninn er upplagt að nýta í rólegheit, rölta um bæinn og njóta sólarinnar. Brottför með Icelandair frá Tenerife kl. 14:50. Lent er í Keflavík kl. 20:10.

Hótel

Fyrstu þrjár næturnar er gist á 4* hótelinu La Laguna Gran Hotel í La Laguna. Hótelið er afar vel staðsett eða í hjarta gamla bæjarhlutans. Herbergin eru öll búin gervihnattasjónvarpi, hárþurrku, öryggishólfi, þráðlausu interneti, loftkælingu og litlum ísskáp. Á hótelinu er aðstaða til líkamsræktar, veitingastaður og bar.

Seinni hluta ferðarinnar gistum við í fjórar nætur á 4* Hotel Landmar Costa í Los Gigantes. Herbergin eru annaðhvort með verönd eða svölum og búin loftkælingu, gervihnattasjónvarpi, þráðlausu neti og hárblásara. Á hótelinu er heilsulind, glæsilegt útisvæði með sundlaug og sólbaðsaðstöðu ásamt veitingastöðum og börum.

Athugið að breytingar geta orðið á gönguleiðum/dagskrá vegna veðurs.

Myndir úr ferðinni

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

 

Tengdar ferðir




Póstlisti