Dólómítar & Gardavatn

Í þessari glæsilegu ferð höldum við á vit ævintýranna og byrjum í fallega bænum Brixen í Eisackdalnum í Suður-Tíról á Ítalíu. Við upplifum kynngimagnaða náttúrufegurð Dólómítafjalla sem er sennilega einn frægasti fjallgarður Alpanna en þar var kvikmyndin Everest að hluta tekin upp. Glæsta borgin Merano verður sótt heim með sínum skemmtilegu, þröngu götum, yfirbyggðum súlnagöngum, fögrum byggingum og iðandi mannlífi. Heimsækjum St. Ulrich í dalnum Val Gardena sem rómaður er fyrir fegurð og heimsþekkt tréútskurðarlistaverk. Þaðan verður tekinn kláfur upp á Seiser Alm sem er hæsta hálendisslétta Evrópu og þar blasir við okkur stórkostleg fegurð og útsýni yfir tinda Dólómíta Alpafjalla. Njótum verunnar í Brixen og tökum kláf upp á heimafjallið þeirra, Plose fjallið. Nú bíður okkar Riva del Garda við Gardavatn sem hefur verið einn vinsælasti áfangastaður Íslendinga til margra ára, enda er það meðal allra fegurstu staða á Ítalíu. Sjálfur Goethe líkti staðnum við himnaríki og skal engan undra. Bærinn Riva del Garda stendur á fallegum stað við vatnið í skjóli fjalla og er einn vinsælasti ferðamannastaður svæðisins. Við munum fara í áhugaverðar skoðunarferðir, m.a. í yndislega siglingu á Gardavatni til bæjanna Limone og Malcesine, heimsækjum Veróna, eina elstu og fallegustu borg Norður-Ítalíu, og förum á líflegan útimarkað í bænum Garda. Í þessari ljúfu ferð ætlum við að njóta skemmtilegrar samveru í undurfögru umhverfi á Ítalíu.

Verð á mann í tvíbýli 399.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 46.800 kr.

Innifalið

  • 11 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður allan tímann á hótelum.
  • Fimm kvöldverðir á hótelum.
  • Tveir kvöldverðir á veitingastað. 
  • Aðgangur að hringleikahúsinu í Veróna.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll. 
  • Siglingar og vínsmökkun.
  • Hádegisverðir.
  • Þrír kvöldverðir í Riva del Garda.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Valfrjálst

  • Kláfur uppá Seiserlam u.þ.b. € 30.
  • Sigling á Gardavatni u.þ.b. € 28.
  • Kláfur frá Malcesine upp á Monte Baldo u.þ.b. € 29.

Nánari upplýsingar

Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

11. júní | Flug til München & Brixen

Brottför frá Keflavík kl. 07:20 og mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Þaðan verður ekið upp í Alpafjöllin í gegnum Brennerskarð til Brixen í Suður-Tíról en þar gistum við í fimm nætur á góðu hóteli.

12. júní | Sæludagur í Brixen

Brixen er ein af perlum Suður-Tíról. Eftir morgunverð verður farið í gönguferð um elsta hluta borgarinnar en hún er höfuðstaður Eisackdalsins og liggur við rætur fjallsins Plose. Í þessum 20.000 manna sögufræga bæ má finna gamlar götur, brýr, kirkjur og söfn. Þar mætast árnar tvær Eisack og Rienz sem ásamt umlykjandi vínekrum og aldingörðum gera Brixen að einstaklega heillandi og fallegum stað. Farið verður í stutta göngu með farastjóra ykkar sem kynnir ykkur borgina og staðhætti. Eftir það verður fjáls tími til að njóta og næra sál og líkama.

13. júní | Töfrandi dagur í Meran

Nú verður haldið til Meran en í þessari töfrandi og skemmtilegu borg mætast menningarheimar Ítalíu og Austurríkis og segja má að hér finnist það besta frá báðum löndum. Borgin var áður fyrr höfuðborg Tírólahéraðs í Austurríki en blómatími hennar var á 19. öld. Þá varð bærinn þekktur sem heilsubær en heitar lindir eru á svæðinu. Hér er loftslagið sérlega milt og því eru frjósöm ávaxtahéruð allt í kringum borgina. Miðbærinn er yndislegur, með skemmtilegum, þröngum götum, yfirbyggðum súlnagöngum, glæstum byggingum og iðandi mannlífi og við ætlum að njóta þess. Eftir skemmtilega skoðunarferð verður góður tími til að fá sér hressingu.

Opna allt

14. júní | Stórbrotin fegurð í St. Ulrich & Seiseralm

Dólómítarnir eru án efa einn frægasti fjallgarður Alpanna. Stórbrotin náttúrufegurð, sögulegt mikilvægi og sérstæð menning eru ástæður þess að fjallgarðurinn var tekin á heimsminjaskrá UNESCO. Nú ætlum við að eiga glæsilegan dag í bænum St. Ulrich í dalnum Val Gardena (Grödner dal) sem rómaður er fyrir fegurð og heimsþekktur fyrir tréútskurðarlistaverk. Einnig er hann fæðingarbær Sigurðar Dementz óperusöngvara og kennara, leikarans Luis Trenker og popp tónskáldsins Giorgio Moroder. Eftir ljúfan tíma þar verður farið með kláf upp á Seiser Alm sem er hæsta hálendisslétta Evrópu og tilheyrir Dólómítum Ítalíu. Það er ekki að undra að hluti Everest kvikmyndarinnar hafi verið tekin upp á þessum slóðum. Upplifum þar stórkostlegt útsýni yfir Alpafjöllin sem eru í senn róandi og endurnærandi. Við gefum okkur góðan tíma til að rölta þar um og auðvitað fáum við okkur hressingu og njótum tilverunnar.

15. júní | Plose heimafjallið & frjáls tími í Brixen

Við munum eiga góðan morgunn á Plose fjalli í dag, heimafjalli þeirra í Brixen sem er 2542 m á hæð. Hótelið býður öllum með kláf upp á fjallið þar sem náttúrufegurðin umvefur okkur og ómótstæðilegt útsýni er þaðan yfir Eisackdalinn og Alpafjöllin. Fáum okkur létta göngu uppi og njótum friðsældar og fjallanna í allri sinni dýrð. Einnig er upplagt að fá sér hádegishressingu áður en farið er til baka. Það sem eftir er dags gefst frjáls tími til að njóta sælunnar í Brixen. Upplagt er að skoða bæinn betur og líta inn á kaupmenn bæjarins sem geta verið ansi líflegir. Einnig er hægt að nota þá glæsilegu aðstöðu sem hótelið býður upp á.

16. júní | Riva del Garda við Gardavatnið & skómarkaður

Eftir morgunverð kveðjum við Brixen eftir góðan tíma og höldum á næsta áfangastað ferðarinnar, bæinn Riva del Garda, sem tekur á móti okkur við hið sægræna Gardavatn. Bærinn stendur á fallegum stað í skjóli fjalla við vatnið og er einn vinsælasti ferðamannastaður svæðisins. Þarna munum við gista í fimm nætur á góðu hóteli. Á leiðinni verður ekið um Sarcha dalinn (Valle del Sarca) og stoppað í Dro þar sem verður áð í skómarkaði áður en ekið verður á hótelð okkar. Sameiginlegur kvöldverður á veitingastað.

17. júní | Frjáls dagur í Riva del Garda & stutt skoðunarferð

Dagurinn verður rólegur en að loknum morgunverði förum við fótgangandi í stutta skoðunarferð um bæinn Riva del Garda. Að henni lokinni er frjáls tími til að skoða sig um í þessum snotra bæ, ganga um litlar og þröngar götur hans, staldra við í verslunum, rölta undir pálmatrjám með fram ströndinni eða upp að Bastillione virkinu en þar er einstakt útsýni yfir vatnið. Einnig er kjörið að njóta aðstöðunnar á hótelinu, annaðhvort við sundlaugina á þakgarðinum eða í heilsulindinni, þar sem er gufubað og slökunarrými. Kvöldverður á eigin vegum.

18. júní | Sigling á Gardavatni, Limone & Malcesine

Farið verður í ljúfa siglingu á Gardavatni. Haldið verður til Limone, eins fallegasta bæjarins við vatnið og staldrað við dágóða stund. Þaðan verður siglt yfir sægrænt Gardavatnið til Malcesine sem er sögufrægur ferðamannabær við austurströnd vatnsins. Í Malcesine gefum við okkur góðan tíma, fáum okkur hressingu og skoðum okkur um í bænum. Áhugasamir geta farið með kláfi upp á Monte Baldo, hæsta fjallið við Gardavatn, en aðrir geta litið inn í mjög áhugaverðan gamlan kastala sem er að finna í bænum. Siglt til baka til Riva del Garda. Kvöldverður á eigin vegum.

19. júní | Útimarkaður í bænum Garda & frjáls tími í Riva del Garda

Árla dags verður ekin undurfögur leið með Gardavatni að austanverðu í gegnum mörg falleg þorp að bænum Garda við Gardavatnið en þar er mjög skemmtilegur og líflegur útimarkaður í dag. Bærinn er yndislegur og upplagt er að fá sér hádegishressingu þar áður en ekin verður hraðbrautin til baka. Eftir það er hægt að nota tímann í slökun og rólegheit í Riva del Garda og skoða sig betur um í þessum heillandi bæ. Einnig er hægt að fara í skemmtilega göngu með ströndinni til næsta bæjar, Torbole, sem er enn einn hrífandi bærinn við vatnið. Þeir hressustu geta gengið upp í Santa Barbara kapelluna sem er í 625 m hæð yfir bænum. Kvöldverður á eigin vegum.

20. júní | Dagsferð til Veróna

Nú verður ekið til Veróna, elstu borgar Norður-Ítalíu, og er þetta einn hápunktur ferðarinnar. Veróna er borg menningar og lista en frægust er hún sem sögusvið leikrits Shakespeare um Rómeó og Júlíu. Farið verður í skoðunarferð um borgina og staldrað við helstu staði þessarar merku borgar. Þar má nefna þriðja stærsta hringleikahús veraldar, Arena, og Kryddtorgið en þar stendur fjöldi fagurra bygginga og minnisvarða. Allur miðbær borgarinnar eins og hann leggur sig er skráður á heimsminjaskrá UNESCO og ekki að ástæðulausu. Eftir skoðunarferðina um borgina verður gefin frjáls tími til að fá sér hressingu og kanna líf bæjarbúa. Sameiginlegur kvöldverður á veitingastað.

21. júní | Heimferð frá Mílanó

Eftir þessa ljúfu og viðburðarríku daga verður ekið út á Malpensa flugvöll í Mílanó. Brottför þaðan kl. 17:00 og lending í Keflavík kl. 19:15 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

Brixen - Hotel Gruner Baum
Riva del Garda - Grand Hotel Riva

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Elísabet Sveinsdóttir

Elísabet er mikil útivistarmanneskja, hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og hefur starfað sem markaðsstjóri ýmissa fyrirtækja stærstan hluta síns vinnuferils. Hún bjó í Þýskalandi um árabil ásamt fjölskyldu sinni og ferðaðist víða um Evrópu meðan á dvölinni stóð. Hún, ásamt manni sínum Aðalsteini Jónssyni sem einnig er fararstjóri, hefur tekið þátt í fjölda ferða á vegum Bændaferða við góðan orðstír. Elísabet hefur m.a. látið til sín taka í góðgerðarmálum og stofnaði ásamt vinkonum sínum Á allra vörum, sem margir þekkja.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

 

Tengdar ferðir




Póstlisti