Norður-Írland - land sagna & söngva

Ógleymanleg ferð þar sem stórbrotin náttúra, rík saga og írsk menning fléttast saman í eina heillandi heild. Á leið okkar norður til Belfast kynnumst við fornum klausturrústum Kelta í Monasterboice og í höfuðborg Norður-Írlands, Belfast, upplifum við hvernig borgin hefur umbreyst úr iðnaðarborg í menningarlega borg með ríka sögu. Við heimsækjum Titanic safnið, þar sem saga hins goðsagnarkennda gufuskips lifnar við. Í ferð okkar meðfram Antrim ströndinni upplifum við náttúruundrið Giant‘s Causeway og heimsækjum elsta viskíbrugghús Írlands í Bushmills. Borgin Derry gegndi lykilhlutverki í átökum Norður-Írlands og ber þess víða merki. Stórkostlegt landslag Glenveagh þjóðgarðsins og hæstu sjávarhamrar Evrópu, Slieve League Cliffs, eru ógleymanleg upplifun. Þessi skemmtilega og fjölbreytta ferð endar í söguborginni Dublin þar sem við kynnumst helstu kennileitum borgarinnar, sögu og menningu. Um kvöldið snæðum við kveðjukvöldverð með lifandi tónlist og írskri menningu. Heillandi ferð fyrir þá sem vilja upplifa Norður-Írland í gegnum sögu keltneskrar arfleiðar, náttúru, tónlist og menningu.

Verð á mann 399.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 149.600 kr.


Innifalið

  • 9 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður á hótelum.
  • Sex kvöldverðir á hótelum.
  • Einn kvöldverður á írskri krá.
  • Aðgangur að Titanic safninu.
  • Aðgangur að St. Paptricks dómkirkjunni í Dublin.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í hallir, kirkjur og söfn, að undanskildum þeim sem eru undir innfalið. 
  • Hádegisverðir.
  • Einn kvöldverður. 
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar. 

Nánari upplýsingar

Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

15. ágúst | Flug til Dublin & Belfast

Brottför frá Keflavík kl. 09:40 og mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Dublin kl. 13:15 að staðartíma. Við hefjum svo ferðalagið með akstri til Belfast en á leiðinni verður komið við á einum merkilegasta sögustað Írlands, Monasterboice. Þetta áhrifamikla klaustursvæði, stofnað um árið 500 e.Kr. hefur m.a. að geyma vel varðveittan hringlaga turn, gamlar kirkjurústir og hinn einstaka háa steinkross, Muiredeach, ásamt fleiri merkum dæmum keltneskrar steinhögglistar frá fyrri hluta miðalda. Gist verður í tvær nætur á góðu og vel staðsettu hóteli í miðborg Belfast, í göngufæri við verslanir, veitingastaði og helstu kennileiti.

16. ágúst | Belfast – borg Titanic

Dagurinn hefst með borgarferð um Belfast, höfuðborg Norður-Írlands og eina helstu hafnar- og iðnaðarborg landsins. Í hjarta borgarinnar stendur glæsilegt ráðhúsið á Donegall torgi, umvafið sögulegum byggingum og skammt frá liggur Royal Avenue, aðalverslunargata borgarinnar. Borgin ber með sér djúp merki fortíðar og skýra sýn til framtíðar, og ekkert táknar það betur en Titanic, hið goðsagnakennda hafskip sem var smíðað hér í höfninni árið 1912. Eftir hádegismat heimsækjum við Titanic safnið, þar sem gestir kynnast sögu skipsins, allt frá hugmynd og smíði til hinnar örlagaríku ferðar þess yfir Atlantshafið. Eftir safnheimsóknina er frjáls tími til að njóta borgarinnar á eigin vegum.

17. ágúst | Antrim ströndin & Giant's Causeway

Eftir morgunverð hefst ógleymanleg dagsferð meðfram Antrim ströndinni, einni fallegustu strandlínu Norður-Írlands. Hér opnast stórbrotið útsýni yfir hafið, klettana og gróskumikið landslagið, sannkallað sjónarspil sem grípur hug og hjarta. Við höldum svo áleiðis að einni mögnuðustu náttúruperlu Evrópu, Giant's Causeway, þar sem um 37.000 reglulegar basaltsúlur rísa allt að tólf metra upp í loftið, líkt og risavaxnar orgelpípur og skapa ógleymanlegt sjónarspil. Ferð okkar heldur áfram til Bushmills, elsta viskíbrugghúss Írlands. Hér fáum við innsýn í aldagamalt framleiðsluferlið og að sjálfsögðu smökkum við á afurðunum. Þennan ógleymanlega dag endum við í sögufræga bænum Derry þar sem gist verður í tvær nætur.

Opna allt

18. ágúst | Inishowen skaginn & Derry

Þennan dag hefjum við á því að heimsækja nyrsta odda Írlands, Inishowen skagann, þar sem Atlantshafið mætir villtri strandlengjunni og grænum hæðum. Falinn gimsteinn þar sem auðvelt er að stíga út úr amstri dagsins og inn í heim kyrrðar og náttúrufegurðar. Við kíkjum við í litla sjávarþorpinu Moville, þar sem litlir bátar vagga í höfninni og lífið virðist ganga í rólegum takti. Héðan liggur svo leiðin norður til Malin Head, þar sem útsýnið yfir hafið er stórbrotið og vindurinn ber með sér sögu og söng sjávarins. Síðdegis höldum við svo aftur til Derry en borgin gegndi lykilhlutverki í átökum Norður-Írlands. Í Bogside hverfinu má sjá frægar veggmyndir segja sögu „Bloody Sunday“ og öðrum mikilvægum atburðum. Borgarmúrinn, sem umlykur gamla hluta Derry, er einn best varðveitti borgarmúr Evrópu og býður upp á einstaka gönguleið með útsýni yfir borgina. Gamli bærinn er heillandi en þar má finna litríkar götumyndir, verslanir, kaffihús og menningarstofnanir sem endurspegla bæði fortíð og framtíð þessarar merku borgar.

19. ágúst | Glenveagh þjóðgarður & Donegal sýsla

Eftir morgunverð höldum við yfir í Donegal sýslu, þar sem fyrsti viðkomustaður dagsins er Glenveagh þjóðgarðurinn, eitt fegursta náttúruverndarsvæði Írlands. Í hjarta garðsins og við bakka Lough Veagh stendur Glenveagh kastali, umvafinn viktoríönskum görðum og stórbrotnu landslagi. Hér mætast saga, náttúra og ró í ógleymanlegri upplifun með útsýni yfir Derryveagh fjöllin sem gnæfa yfir svæðið í kring. Þjóðgarðurinn er sannkölluð paradís fyrir náttúruunnendur. Hér má finna heimkynni einnar stærstu rauðdýrahjarðar landsins og fjölbreytt vistkerfi sem spannar allt frá skógi vöxnum dölum og kristaltærum vötnum til háfjalla með sjaldgæfum plöntum og dýralífi. Glenveagh er ekki aðeins fagurt svæði til að skoða, heldur einnig mikilvægt fyrir náttúruvernd og fræðslu. Hér sameinast saga, náttúra og friðsæld í einstaka upplifun. Gist verður tvær nætur í bænum Donegal.

20. ágúst | Slieve League Cliffs & Donegal

Dagurinn hefst með ferð um gróskumikla dali og skógi vaxið landslag þar sem fallegu þorpin Ardara og Glenties blasa við, sannkölluð perla í faðmi stórbrotinna fjalla. Frá Killybegs, stærstu og líflegustu fiskihöfn Írlands, heldur ferðin áfram til Slieve League Cliffs, sem eru magnaðir sjávarhamrar sem teljast meðal þeirra hæstu í Evrópu. Fyrir áhugasama er hægt að fara með litlum rútubílum frá Teelin upp að hamraveggnum og þeir sem kjósa geta gengið síðustu kílómetrana, auðveld og stórkostleg gönguleið með víðáttumiklu útsýni yfir úfið Atlantshafið. Frá hæsta punkti eru 609 metrar niður í hafið, mögnuð sjón. Upp úr hádegi er haldið aftur til Donegal, þar sem gefst tími til að rölta um sögufrægan bæinn, skoða handverk, verslanir og njóta afslappaðrar stemningar áður en snúið er aftur á hótel.

21. ágúst | Frá Donegal til Dublin

Eftir morgnunverð kveðjum við Donegal og ökum í gegnum fallegt landslag með viðkomu í bæjunum Enniskillen og Cavan, þar sem grænar hæðir og vötn mynda rólega og fallega umgjörð. Ferðin heldur áfram suður á bóginn og síðdegis er komið til Dublin, líflegu höfuðborgar Írlands. Við komu í borgina hefst stutt kynningarferð um helstu kennileiti áður en haldið er til St. Patrick’s dómkirkjunnar, meistaraverks miðaldabyggingarlistar. Þar starfaði hinn mikli rithöfundur Jonathan Swift og kór kirkjunnar söng einmitt frumflutning Messíasar eftir Händel, tónlistarlegur minnisvarði sem enn lifir í anda staðarins. Eftir viðburðarríkan dag er kvöldið frjálst. Gist er í tvær nætur á hóteli miðsvæðis, þar sem stutt er í fjölbreytt úrval góðra veitingastaða og kráa og hægt að njóta ýmissa menningarviðburða. Kvöldverður á eigin vegum.

22. ágúst | Dublin – saga, tónlist & kveðjukvöld

Dagurinn hefst með skoðunarferð um Dublin, hinni þúsund ára gömlu höfuðborg Írlands. Borgin sameinar sögulegar og nútímalegar byggingar, vatnaleiðir, brýr og græna almenningsgarða sem gefa henni einstakan karakter. Við sjáum helstu kennileiti borgarinnar og fáum innsýn í ríka sögu og þróun hennar í gegnum aldirnar. Eftir skoðunarferðina gefst frjáls tími til að njóta og kynnast þessari líflegu borg á eigin vegum. Upplagt er að rölta um Grafton Street, eina líflegustu götu Dublin. Þar má heyra tónlist frá fjölmörgum götutónlistarmönnum, skoða verslanir eða setjast niður og njóta í rólegheitum. Um kvöldið er haldið á Merry Ploughboy Pub, nálægt Dublin, þar sem kvöldið er helgað kveðjukvöldverði með tónlist og skemmtun. Í hlýlegu og írsku umhverfi njóta gestir góðs matar, lifandi tónlistar og menningarlegrar upplifunar sem fangar anda Írlands á einstakan hátt.

23. ágúst | Heimferð frá Dublin

Nú er þessari skemmtilegu ferð um Norður-Írland að ljúka. Brottför frá Dublin flugvelli er kl. 12:15 og lending í Keflavík kl. 13:55 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

  • Belfast – Holiday Inn City Centre
  • Derry – Holiday Inn Hotel
  • Donegal – Villa Rose Hotel
  • Dublin – Camden Court Hotel Dublin City Centre

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Þórhallur Vilhjálmsson

Þórhallur Vilhjálmsson er fæddur í Reykjavík 1963. Hann nam markaðsfræði við háskólann í San Francisco og útskrifaðist þaðan árið 1990. Hann hefur starfað að markaðsmálum hjá ýmsum fyrirtækjum bæði hérlendis og í Bandaríkjunum m.a. sem forstöðumaður sölu- og framleiðsluáætlana hjá ISAL í Straumsvík, markaðsstjóri hjá Nýsi hf og markaðsstjóri Portus hf (sem byggði tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpuna í Reykjavík). 

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti