Kvennagleði í Króatíu

Hér er í boði glæsilegur króatískur draumur um Istríaströndina þar sem gist verður í sjö nætur á nýju hóteli við Adríahafið í einum elsta bæ í Króatíu, Poreč. Hér ætlum við að láta náttúrufegurð, sögu og menningu landsins dekra við okkur. Poreč er litríkur og skemmtilegur bær með fallegum marmaralögðum götum, litlum sætum verslunum, fallegum torgum og mjög áhugavert er að skoða Basilíkuna frá 6. öld sem varðveitt er á heimsminjaskrá UNESCO. Skemmtilegar skoðunarferðir verða í boði m.a. farið í töfrandi siglingu til listamannabæjarins Rovinj sem er litríkur bær og iðar af mannlífi. Á leiðinni til baka verður siglt inn í Limski Canal sem er rómaður fyrir fegurð en þar var kvikmyndin Víkingarnir tekin upp og við snæðum hér hádegisverð á bátnum. Sunnarlega við Istríaströndina er hin merka borg Pula sem er lífleg og heillandi borg með ægifagra strönd og margar fornar og glæstar byggingar. Að lokum bíður okkar í hæðóttu landslagi Istríuhéraðsins rómantíski, litli bærinn Hum, sem er þekktur sem minnsti bær í heimi. Á heimleiðinni þaðan verður komið við hjá vínbónda í Pazin. Í þessari ljúfu ferð ætlum við að njóta lífsins og hafa gaman saman.

Verð á mann 359.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 49.800 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
  • Léttur hádegisverður hjá vínbónda í Pazin. 
  • Sigling til Rovinj og hádegisverður. 
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
  • Hádegisverðir. 
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Nánari upplýsingar

  • Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

26. maí | Flug til Feneyja & ekið til Poreč

Brottför frá Keflavík kl. 8:20. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Feneyjum kl. 15:00 að staðartíma. Þaðan verður stefnan tekin á Poréc í Króatíu sem er yndislegur bær við Istríaströndina en þar verður gist í sjö nætur á góðu hóteli. Á hótelinu er gott útisvæði með sundlaugum og sólbekkjum. Einnig er þar heilsulind með saunum, innisundlaug, nuddpotti og hvíldarsvæði og hægt að bóka sér ýmsar heilsumeðferðir gegn gjaldi. Einnig er m.a. boðið upp á sundleikfimi, aerobic og dans.

27. maí | Gönguferð í Poreč & frjáls tími

Umhverfið er dásamlegt og við njótum þess á skemmtilegri göngu eftir ströndinni inn í miðbæ Poreč, sem er einn elsti bærinn við ströndina. Farið verður í stutta skoðunarferð um þennan yndislega bæ sem skartar marmaralögðum götum og fögrum byggingum. Þar er að finna áhugaverða basilíku sem kennd er við himnaför Maríu. Hún er frá 6. öld og var skráð á heimsminjaskrá UNESCO árið 1997. Auðvelt er að finna skemmtilegar verslanir, þar á meðal fjölmargar skartgripaverslanir. Eftir skoðunarferðina verður frjáls tími til að kanna líf bæjarbúa og fá sér hressingu. Einnig er upplagt að nota aðstöðuna við hótelið okkar.

28. maí | Sigling til Rovinj & hádegishressing í Limski Canal

Skemmtilegur dagur í Króatíu sem byrjar á yndislegri siglingu með Istríaströndinni þar sem náttúrufegurðin dekrar við okkur. Stefnan er tekin á Rovinj, yndislegan, litríkan listamannabær við Istríaströndina sem iðar af mannlífi. Hér verður farið í stutta skoðunarferð um elsta hluta bæjarins, gengið verður upp að barokkkirkju heilagrar Euphemíu en þaðan er glæsilegt útsýni yfir eyjarnar og gamla bæinn. Úti fyrir Rovinj eru 22 eyjur, stærst þeirra er eyjan Sveta Katharina og sést hún vel frá gamla bænum. Einnig munum við halda niður listamannagötuna. Eftir góðan tíma þar heldur siglingin áfram til baka en á leiðinni verður stoppað inn í Limski Canal sem er rómaður fyrir fegurð. Þar verður boðið upp á grillaðan fisk eða kjöt með meðlæti. Eftir góðan tíma þar verður siglt til Poreč.

Opna allt

29. maí | Dekur dagur í Poreč

Dekurdagur í Poreč! Nú er upplagt að fara í sundleikfimi, aerobic eða dans en hótelið býður upp á margt skemmtilegt. Upplagt er að nota líkamsræktaraðstöðuna sem er mjög flott eða fara í göngu með ströndinni inn í miðbæinn og kanna líf bæjarbúa.

30. maí | Glæsilegur dagur í Pula

Glæsilegur dagur í Pula sem er stærsta og elsta borgin á Istríaskaganum. Hún á sér viðburðaríka sögu en með því að fullkomna samspil rómverskrar menningar, fallegra baðstranda og nútíma ferðaþjónustu laðar bærinn til sín ferðamenn alls staðar að úr heiminum. Frægust er borgin fyrir forna hringleikahúsið frá tímum rómverska heimsveldisins í Króatíu en borgina prýða einnig glæstar byggingar frá tímum Habsborgaraveldisins. Hér ætlum við að dvelja góða stund, skoða og fræðast ásamt því að njóta dásamlegs umhverfis við ströndina.

31. maí | Hum & vínbóndi í Pazin

Nú bíður okkar í hæðóttu landslagi Istríuhéraðsins litli, rómantíski bærinn Hum sem er þekktur sem minnsti bær í heimi. Í bænum búa u.þ.b. 28 íbúar en hann er engu að síður vinsæll ferðamannastaður í miðhluta Istríu. Gengið er inn um borgarhliðið frá 11. öld sem er skreytt með koparplötum og þar fyrir innan sjáum við falleg steinhlaðin hús. Hum er þekktur fyrir trufflupylsur og biska brandý sem er búið til m.a. úr mistilteini. Í Hum má sjá glagólískt letur á kirkjum og torgum en þetta er forn slavneskt stafróf sem var notað á svæðinu fram að byrjun 19.aldar. Við munum aka hluta af Glagolitska veginum þar sem sjá má minnismerki um letrið. Eftir heimsóknina til Hum verður ekið til Pazin þar sem vínbóndi verður sóttur heim og borðaður hjá honum léttur hádegisverður. Þar verður eflaust sungið og trallað.

1. júní | Rólegheit í Poreč

Rólegheitar dagur í Poreč, nú er upplagt að nota þessa frábæru aðstöðu við hótelið eða taka sundsprett í Adríahafi. Skoða sig betur um í bænum og líta á inn á kaupmenn bæjarins.

2. júní | Heimferð frá Feneyjum

Það er komið að heimferð eftir yndislega og ljúfa ferð. Nú er stefnan tekin á flugvöll í Feneyjum. Brottför þaðan kl. 16:10 og lending í Keflavík kl. 18:50 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

Porec – Hotel Pical Resort Valamar Collection

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður heiti ég, alltaf kölluð Hófý, og er fædd á Patreksfirði en ólst upp í Reykjavík. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi. Ég er búin að starfa hjá Bændaferðum síðan 2004 í skipulagningu á utanlandsferðum og sem fararstjóri. Þetta hefur verið dásamlegur tími með frábæru fólki, yndislegu samstarfsfólki og vinum. 

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti