26. maí - 2. júní 2026 (8 dagar)
Hér er í boði glæsilegur króatískur draumur um Istríaströndina þar sem gist verður í sjö nætur á nýju hóteli við Adríahafið í einum elsta bæ í Króatíu, Poreč. Hér ætlum við að láta náttúrufegurð, sögu og menningu landsins dekra við okkur. Poreč er litríkur og skemmtilegur bær með fallegum marmaralögðum götum, litlum sætum verslunum, fallegum torgum og mjög áhugavert er að skoða Basilíkuna frá 6. öld sem varðveitt er á heimsminjaskrá UNESCO. Skemmtilegar skoðunarferðir verða í boði m.a. farið í töfrandi siglingu til listamannabæjarins Rovinj sem er litríkur bær og iðar af mannlífi. Á leiðinni til baka verður siglt inn í Limski Canal sem er rómaður fyrir fegurð en þar var kvikmyndin Víkingarnir tekin upp og við snæðum hér hádegisverð á bátnum. Sunnarlega við Istríaströndina er hin merka borg Pula sem er lífleg og heillandi borg með ægifagra strönd og margar fornar og glæstar byggingar. Að lokum bíður okkar í hæðóttu landslagi Istríuhéraðsins rómantíski, litli bærinn Hum, sem er þekktur sem minnsti bær í heimi. Á heimleiðinni þaðan verður komið við hjá vínbónda í Pazin. Í þessari ljúfu ferð ætlum við að njóta lífsins og hafa gaman saman.