Grikklandsperlur

Í þessari glæsilegu ferð munum við kynnast einstöku samspili náttúru og sögu Grikklands. Ferðin okkar hefst með flugi til Aþenu en dagarnir sem fylgja leiða okkur í gegnum stórbrotið landslag og menningararf Grikklands. Við hefjum ferðina við Kórinþuskurðinn en hann tengir Aþenu og Pelópsskaga og þykir eitt af merkileglegri verkum 19. aldar verkfræðinnar. Áfram höldum við svo til Ólympíu þar sem Ólympíuleikarnir eiga uppruna sinn. Eftir það tekur við ferð til eyjunnar Lefkada þar sem við siglum um Jónísku eyjarnar á milli töfrandi staða eins og Kefalonia, Iþaka og Skorpios. Við kynnumst sjarmerandi bæjum, böðum okkur í túrkísbláu hafinu og upplifum gríska eyjalífið í allri sinni fegurð. Í Syvota eigum við rólegan dag áður en haldið verður áfram til eyjunnar Corfu þar sem við skoðum sögulegar hallir, klaustur og þorp og dáumst að fallegu útsýninu yfir strandlengjuna. Frá Corfu liggur leið okkar aftur yfir á meginlandið þar sem náttúruundrið Meteora bíður okkar en það samanstendur af himinháum sandsteinsdröngum sem eru eins og þeim hafi verið hent af himnum ofan. Í Delfí upplifum við hina fornu véfrétt sem spáði fyrir gestum og gangandi í yfir 1000 ár og göngum um hof Apollós. Ferðinni lýkur svo í Aþenu, hinni sögufrægu höfuðborg Grikklands, þar sem fornar minjar og lífleg nútímastemning renna saman í eina heild. Þar fáum við tækifæri til að skoða helstu kennileiti borgarinnar eins og Akrópólis, gömlu konungshöllina, marmaraleikvanginn Kallimarmaro og röltum um elsta hverfi borgainnar, Plaka. Þessi ferð býður upp á magnaða blöndu af sögu, náttúru, menningu og afslöppun – sannkölluð ferð í gegnum tímann og töfra Grikklands.

Verð á mann 749.900 kr.

243.100 kr. aukagjald fyrir einbýli.


Innifalið

  • 14 daga ferð.
  • Allt flug og flugvallaskattar samkvæmt ferðalýsingu.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður allan tímann á hótelum.
  • Níu kvöldverðir.
  • Þrír hádegisverðir.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Lestarferð til Sachlorou.
  • Eyjasigling á Lefkada.
  • Ferja til og frá Corfu.
  • Aðgangsmiðar að fornleifum.
  • Innlend staðarleiðsögn í Ólympíu, Corfu, Delfí og Aþenu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Hádegis- og kvöldverðir fyrir utan þá sem eru innifaldir. 
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Nánari upplýsingar

  • Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

11. maí | Flug til Aþenu í gegnum Kaupmannahöfn

Brottför frá Keflavík með Icelandair kl. 07:40. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför og lending í Kaupmannahöfn kl. 12:55 að staðartíma. Flogið verður áfram með SAS kl. 14:30 og lent í Aþenu kl. 18:50. Við ökum inn til Aþenu þar sem við dveljum á hóteli í eina nótt. Fararstjóri fer með hópinn í stuttan göngutúr að hefðbundnum veitingastað í Plakahverfinu þar sem við borðum kvöldverð.

12. maí | Kórinþuskurðurinn, Sachlorou & Ólympía

Snemma morguns verður haldið af stað og keyrt að Kórinþuskurðinum sem grafinn var á síðari hluta 19. aldar. Skurðurinn er mikið mannvirki og eftir gott stopp þar höldum við áfram til bæjarins Diakopto þaðan sem við tökum litla tannalest upp til þorpsins Sachlorou sem er yndislegt lítið þorp staðsett inni í fallegu gljúfri. Við borðum hádegismat í þorpinu og höldum svo áfram til Ólympíu með stoppi í þorpinu Kalavryta. Kvöldmatur á hótelinu og nótt í Ólympíu.

13. maí | Ólympía & eyjan Lefkada

Við byrjum daginn á því að fara í skoðunarferð í Ólympíu til að skoða m.a. hof Seifs og Heru, vinnustofu frægasta myndhöggvara fornaldar og hinn eina sanna Ólympíuleikvang. Við heimsækjum einnig litla safnið á staðnum sem er eitt af fallegustu söfnum í Grikklandi og hýsir ótrúlega dýrgripi. Eftir frjálsan tíma í þorpinu keyrum við til eyjunnar Lefkada með viðkomu í Antirrio og Vonitsa. Kvöldverður og tvær nætur á Lefkada.

Opna allt

14. maí | Eyjasigling um Jónísku eyjarnar

Eftir morgunverð keyrum við til bæjarins Nydri þaðan sem við siglum fyrst suður fyrir eyjuna til tveggja fallegra stranda sem oft hafa verið valdar fegurstu strendur í heimi. Eftir stopp og sjósund á ströndinni Ekremni er haldið áfram til bæjarins Fiskardo á eyjunni Kefalonia. Bærinn er oft kallaður demantur Jónahafsins og þar er gaman að ganga um þröngar götur á milli fallegra húsa eða fá sér hádegissnarl á einum af veitingastöðunum við sjóinn. Eftir gott hádegisstopp er siglt áfram til eyjunnar Iþaka og svo til Meganisi og Skorpios. Eyjan Skorpios var lengi í eigu skipajöfursins Aristotelis Onassis. Siglt til baka í eftirmiðdaginn. Kvöldverður á hótelinu.

15. maí | Zaloggo & Syvota

Við tökum daginn rólega og keyrum til Syvota með viðkomu í Zaloggo sem kom við sögu í frelsisstríði Grikkja við Tyrki. Við erum komin snemma í eftirmiðdaginn til Syvota og eftir að við erum búin að koma okkur fyrir á hótelinu förum við í göngutúr um bæinn. Kvöldverður í bænum og tvær nætur í Syvota.

16. maí | Frjáls dagur & Parga

Frjáls dagur til að sleikja sólina við sundlaugina eða ströndina. Einnig er stutt að ganga inn í bæinn þar sem er mikið af verslunum, veitingastöðum og kaffihúsum. Í eftirmiðdaginn býðst að fara og skoða bæinn Parga, fara upp í virkið sem stendur uppi á hæð fyrir ofan bæinn og borða kvöldverð.

17. maí | Corfu & skoðunarferð um bæinn

Eftir dásamlega daga í Syvota tökum við ferjuna frá Igoumenitsa yfir til eyjunnar Corfu þar sem við dveljum í þrjár nætur. Við byrjum á því að koma okkur fyrir á hótelinu og förum síðan í skoðunarferð um bæinn. Við skoðum m.a. garðana við Achilleion höllina hennar Elísabetar (Sissí) keisaraynju, en hún bjó langdvölum í þessari höll þegar hún þurfti að hugsa um heilsuna og vildi hvílast. Frá höllinni er keyrt niður í bæ, þar sem við förum í göngutúr og skoðum m.a. gamla virkið, Spianada torgið, Boscetto garðinn, Maitland minnismerkið og Liston göngugötuna. Við endum ferðina á góðum veitingastað í miðbænum.

18. maí | Paleokastrita, Bella Vista & Kassiopi

Eftir morgunverð höldum við af stað í skoðunarferð um Corfu. Við keyrum fyrst til litla standbæjarins Paelokastritsa þar sem við heimsækjum litla klaustrið sem þar stendur og svo er hægt að fá sér sundsprett ef vill í túrkísbláum sjónum. Frá Paleokastritsa keyrum við til Bella Vista þar sem við dáumst að fallegu útsýninu yfir strandlengjuna og þaðan er keyrt áfram til þorpsins Kassiopi þar sem hægt er að fá sér hádegisverð og skoða í búðir. Frá Kassiopi keyrum við til baka á hótelið eftir mjög sjarmerandi strandleið.

19. maí | Frjáls dagur á Corfu

Upplagt að nota daginn til að skoða fallega bæinn í Corfu betur eða bara til að slappa af við sjóinn eða sundlaugina.

20. maí | Ioannina, Metsovo & Meteora

Í dag siglum við aftur yfir til meginlandsins og keyrum fyrst til Ioannina þar sem við fáum okkur kaffistopp við Pamvotida vatnið og síðan upp í Pindos fjöllin þar sem við stöldrum við til að fá okkur hádegissnarl í fallega fjallaþorpinu Metsovo sem minnir frekar á skíðaþorp í Ölpunum heldur en Grikklandi. Þaðan höldum við áfram til Meteora þar sem við dveljum í þorpinu Kastraki í eina nótt. Kvöldverður í bænum Kastraki.

21. maí | Meteora & Delfí

Það er engin leið að lýsa Meteora sem á grísku þýðir „það sem hangir í lausu lofti“. Náttúruundrið samanstendur af himinháum sandsteinsdröngum sem eru eins og þeim hafi verið hent af himnum ofan. Í rauninni eru þeir vind og vatnssorfinn framburður fornaldarfljóts sem rann út í innsjó sem í dag er Þessalíusléttan. Á miðöldum komu þangað munkar sem byggðu klaustur uppi á þessum dröngum.Við byrjum á því að skoða þessa stórkostlegu kletta og stoppum á mörgum útsýnisstöðum en heimsækjum líka eitt klaustur til að sjá hvernig munkarnir og nunnurnar hafa búið á þessum stað í aldaraðir. Eftir skoðunarferðina höldum við af stað frá Meteora og keyrum til Delfí með hádegisstoppi í Lamíu og stuttu stoppi við Laugarskörð þar sem hin fræga orusta Spartverja og Persa fór fram árið 480 f.kr. Við keyrum yfir fjallið Brallos, í gegnum Amfissadalinn og upp í fjallið Parnassos til Delfí þar sem við dveljum í eina nótt. Kvöldverður í þorpinu í Delfí.

22. maí | Delfí & Aþena

Eftir morgunverð keyrum við stuttan spöl að fornminjunum þar sem við skoðum bæði safnið og fornleifar helgistaðarins þar sem frægasta véfrétt hins forna heims spáði fyrir gestum og gangandi í yfir 1000 ár. Á útisvæðinu skoðum við heilaga veginn, nafla heimsins, fjársjóð Aþenumanna, hof Apollós, leikhúsið og ýmislegt fleira. Í safninu, sem er lítið en mikilvægt, skoðum við marga þá dýrgripi sem grafnir voru upp á svæðinu.
Eftir skoðunarferðina keyrum við áfram til Aþenu þar sem við dveljum í tvær nætur. Aþena, höfuðborg Grikklands, er borg andstæðnanna. Annars vegar er borgin vestræn nútímaborg en hins vegar minnir hún á lítið þorp þar sem mjóar götur og aldagömul hús keppast við að ná athygli vegfarandans. Saga borgarinnar nær aftur um þúsundir ára, eins og hin fögru hof uppi á Akrópólishæð bera vitni um. Fallegar nýklassískar byggingar eru einnig áberandi í borginni og þar er helst að nefna gömlu konungshöllina, fornminjasafnið, háskólabyggingarnar og Zappeion sýningarhöllina. Ekki má gleyma marmaraleikvangnum Kallimarmaro sem reistur var fyrir fyrstu ólympíuleika nútímans. Elsta hverfið í Aþenu liggur í hæðinni fyrir neðan Akrópólis og ber heitið Plaka. Þar er alltaf mikið líf jafnt á degi sem nóttu. Á nýtískulegum eða hefðbundnum kaffihúsum, börum og veitingastöðum þar sem má finna allt það helsta sem borgin hefur upp á að bjóða í mat og drykk. Grísk hönnun og minjagripir eru áberandi í verslunum í gamla bænum og þar ættu allir að geta nælt sér í eitthvað sem hjartað girnist.

23. maí | Skoðunarferð um Aþenu

Eftir morgunverð höldum við af stað og förum í hringferð um miðborgina þar sem við sjáum skiptingu varðanna fyrir framan gömlu konungshöllina, nýklassísku háskólabyggingarnar, Syntagmatorg, eina leikvanginn í heiminum sem er byggður algjörlega úr marmara og er kallaður Kallimarmaro, Hof Seifs og Hlið Hadríanusar keisara. Eftir þennan rúnt þar sem við sjáum það helsta í miðborginni, göngum við upp á Akrópólis til að skoða hofin þrjú sem þar standa, en ef þeim er Meyjarhofið frægast. Ferðinni lýkur í gamla hverfinu Plaka þar sem við borðum saman hádegisverð. Eftirmiðdagur og kvöldið er frjálst.

24. maí | Heimferð frá Aþenu

Eftir þessa úrvalsferð er komin tími til að kveðja. Að loknum morgunverði höldum við á flugvöllinn í Aþenu þar sem flogið verður með SAS kl. 13:35 og lending í Kaupmannahöfn kl. 16:00. Flogið áfram þaðan með Icelandair kl. 22:35 og lending í Keflavík kl. 23:50.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Þóra Björk Valsteinsdóttir

Þóra Björk Valsteinsdóttir er fædd árið 1962 í Reykjavík. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð lá leiðin  til Grikklands þar sem að hún festi rætur og býr enn eftir yfir 40 ár, gift og á 2 börn. Í Grikklandi nam hún m.a. grísku við háskólann í Aþenu, tók kennarapróf í ensku og fór á leiðsögumannanámskeið á vegum Aþenuháskóla. Þóra er einnig sagnfræðingur eftir að hafa stundað fjarnám í þeirri fræðigrein við Háskóla Íslands.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti