11. - 24. maí 2026 (14 dagar)
Í þessari glæsilegu ferð munum við kynnast einstöku samspili náttúru og sögu Grikklands. Ferðin okkar hefst með flugi til Aþenu en dagarnir sem fylgja leiða okkur í gegnum stórbrotið landslag og menningararf Grikklands. Við hefjum ferðina við Kórinþuskurðinn en hann tengir Aþenu og Pelópsskaga og þykir eitt af merkileglegri verkum 19. aldar verkfræðinnar. Áfram höldum við svo til Ólympíu þar sem Ólympíuleikarnir eiga uppruna sinn. Eftir það tekur við ferð til eyjunnar Lefkada þar sem við siglum um Jónísku eyjarnar á milli töfrandi staða eins og Kefalonia, Iþaka og Skorpios. Við kynnumst sjarmerandi bæjum, böðum okkur í túrkísbláu hafinu og upplifum gríska eyjalífið í allri sinni fegurð. Í Syvota eigum við rólegan dag áður en haldið verður áfram til eyjunnar Corfu þar sem við skoðum sögulegar hallir, klaustur og þorp og dáumst að fallegu útsýninu yfir strandlengjuna. Frá Corfu liggur leið okkar aftur yfir á meginlandið þar sem náttúruundrið Meteora bíður okkar en það samanstendur af himinháum sandsteinsdröngum sem eru eins og þeim hafi verið hent af himnum ofan. Í Delfí upplifum við hina fornu véfrétt sem spáði fyrir gestum og gangandi í yfir 1000 ár og göngum um hof Apollós. Ferðinni lýkur svo í Aþenu, hinni sögufrægu höfuðborg Grikklands, þar sem fornar minjar og lífleg nútímastemning renna saman í eina heild. Þar fáum við tækifæri til að skoða helstu kennileiti borgarinnar eins og Akrópólis, gömlu konungshöllina, marmaraleikvanginn Kallimarmaro og röltum um elsta hverfi borgainnar, Plaka. Þessi ferð býður upp á magnaða blöndu af sögu, náttúru, menningu og afslöppun – sannkölluð ferð í gegnum tímann og töfra Grikklands.