Páskar í Toskana & Assisi

Töfrandi blær Toskana héraðsins og yndislegt andrúmsloft rivíerunnar við Miðjarðarhafið, með blaktandi pálmatrjám og hrífandi ströndum, leika við okkur í þessari ferð. Á leið okkar um hina undurfögru Versilíaströnd látum við fara vel um okkur í borginni Viareggio sem er þekktust fyrir karnivalið sitt og töfrandi útsýni á Alpi Apuane fjöllin sem geyma frægu Carrara marmaranámurnar. Farið verður í ævintýralegar ferðir þar sem við kynnumst menningu og listum landsins, m.a. sækjum við heim Lucca, sem er ein af gömlu virkisborgunum og eigum góða stund hjá vínbónda í nágrenninu. Við siglum úti fyrir Cinque Terre ströndinni með viðkomu í þorpunum Vernazza, Monterosso og Portovenere og upplifum einstaka fegurð Ítalíu. Við stöldrum við í Pisa þar sem við skoðum skakka turninn, basilíkukirkjuna og skírnarkapelluna. Einnig verður töfrandi sigling frá Rapallo til fræga og fagra bæjarins Portofino. Við dveljum einnig í miðaldavirkisborginni Assisi en á leiðinni þangað verður stoppað í höfuðborg Toskana héraðsins, Flórens, einni glæsilegustu lista- og menningarborg landsins. Assisi tekur á móti okkur í allri sinni dýrð og þar njótum við friðsæls andrúmslofts, byggingarlistar frá miðöldum og skoðum þar kirkjurnar San Francesco og Santa Chiara. Við endum þessa ljúfu ferð á að sækja heim borgina Perugia sem er ekki aðeins sú stærsta, heldur einnig ein fallegasta borg Umbria héraðsins.

Verð á mann 429.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 93.500 kr.


Innifalið

  • 11 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgun- og kvöldverðir á öllum hótelum.
  • Sigling frá Rapallo til Portofino.
  • Sigling við Cinque Terre ströndina.
  • Heimsókn til vínbónda ásamt léttu snarli.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur. 
  • Hádegisverðir.
  • Þjórfé.
  • Forfalla- og ferðatryggingar. 

Valfrjálst

  • Aðgangur í kirkjuna og skírnarkapelluna í Pisa u.þ.b. € 18.

Nánari upplýsingar

  • Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

1. apríl | Flug til Mílanó & Viareggio

Brottför frá Keflavík kl. 08:00, mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Flogið verður til Mílanó og lent kl. 14:10 að staðartíma. Þaðan verður ekin fögur leið að hinni undurfögru Versilíaströnd þar sem gist verður á góðu hóteli við sjávarsíðuna í borginni Viareggio. Á hótelinu er þakverönd með útsýni yfir Tyrrenahaf og hrífandi Alpi Apuane fjöllin með Carrara marmaranámunum. Fyrir framan hótelið er einkaströnd með sundlaug í eigu samstarfshótels, sem er í boði gegn aukagjaldi.

2. apríl | Lucca & snarl hjá vínbónda

Við heimsækjum borgina Lucca í dag. Borgin er helst þekkt sem gömul virkisborg en á 13. og 14. öld var hún ein af valdamestu borgum Evrópu. Mikilfenglegir virkisveggir hennar frá miðri 17. öld eru enn uppistandandi. Tónskáldið Puccini er fæddur í borginni og er húsið sem hann fæddist í safn í dag. Við höldum í skoðunarferð um helstu staði borgarinnar og að henni lokinni verður vínbóndi sóttur heim þar sem boðið verður upp á smá snarl og auðvitað vín bóndans.

3. apríl | Sigling við Cinque Terre ströndina

Í dag verður farið í ævintýralega siglingu úti fyrir Cinque Terre ströndinni, einu stórfenglegasta svæði ítölsku rivíerunnar. Það er svo sannarlega ekki að ástæðulausu að Cinque Terre svæðið fór á heimsminjaskrá UNESCO árið 1997. Siglt verður til Portovenere, Vernazza og Monterosso. Auðvitað verður stoppað til að fá sér hádegishressingu og kanna líf bæjarbúa í nokkrum vel völdum bæjum strandarinnar.

Opna allt

4. apríl | Viareggio & frjáls tími

Við hefjum daginn á góðum morgunverði áður en farið verður í göngu inn í miðbæ Viareggio. Þetta er hrífandi bær, einna helst frægur fyrir glæsilegu karnival hátíðina sem haldin er ár hvert. Á 19. öld hóf aðallinn í Evrópu að sækja hér að ströndinni og er það upphafið að þeirri ferðaþjónustu sem bærinn byggir á í dag. Tákn bæjarins er turninn Torre Matilde og út frá honum óx gamli bærinn. Hér er hægt að njóta þess að fara á fallega strönd og kíkja í fínar verslanir, á kaffihús og veitingastaði. Einnig er hægt að fara í gönguferð með ströndinni eða taka það rólega og nota aðstöðuna við hótelið.

5. apríl | Sigling til Portofino

Ljúfur dagur byrjar á morgunverð en eftir það verður ekið til Rapallo við ítölsku rivíeruna. Þar verður farið í skemmtilega siglingu með fram Portofino skaganum sem dregur nafn sitt af bænum fræga Portofino sem við komum til með að njóta í allri sinni dýrð. Upplagt að fá sér hressingu þar og kanna líf bæjarbúa sem er litríkt og skemmtilegt.

6. apríl | Pisa & Kraftaverkatorgið

Það er alltaf svo yndislegt að koma til borgarinnar Pisa sem er þekktust fyrir skakka turninn á torginu, Piazza dei Miracoli. Bygging turnsins hófst árið 1173 og var þessum frístandandi klukkuturni, sem tilheyrir dómkirkjunni í Pisa, ætlað að standa lóðrétt en eftir byggingu annarrar hæðar hans tóku undirstöður turnsins að síga. Turninn er eitt af þremur mannvirkjum á Campo dei Miracoli eða Kraftaverkatorginu í Pisa. Við höldum í góða skoðunarferð um svæðið en eftir það er tími til að kanna staðinn á eigin vegum og fá sér hressingu.

7. apríl | Dagur í Flórens & Assisi

Nú kveðjum við Viareggio eftir yndislega daga. Nú er komið að einum hápunkti ferðarinnar. Það eru fáar borgir sem komast í hálfkvisti við Flórens. Hver kannast ekki við snillinga á borð við Leonardo da Vinci, Michelangelo, Botticelli, Galileo Galilei, Dante og Machiavelli en allir mörkuðu þeir sögu borgarinnar. Flórens er höfuðborg Toskanahéraðs og liggur á hásléttu rétt sunnan við Appenínafjöllin. Farið verður í skoðunarferð og að henni lokinni gefst fólki tækifæri til að upplifa borgina eftir eigin hentisemi, skoða áhugaverð kennileiti enn frekar, fara á söfn eða kynna sér framboð fjölmargra verslana eða veitingastaða borgarinnar. Eftir glæsilegan dag verður ekið fögur leið til Assisi í Umbria héraði. Þar verður gist næstu fjórar nætur á hóteli sem er staðsett í 500 metra hæð yfir sjávarmáli fyrir utan Assisi og býður upp á víðáttumikið útsýni yfir bæinn Assisi, dalinn og dásamlega umhverfið. Á hótelinu er heilsulind og upphituð innisundlaug.

8. apríl | Skoðunarferð um Assisi

Við ökum stutta leið að helga staðnum Assisi sem er yndislegur virkisbær frá miðöldum í miðju Umbria héraði og er bærinn á heimsminjaskrá UNESCO. Hér var heilagur Frans frá Assisi fæddur sem var predikari og boðaði meinlætislíf og höfnun veraldlegra gæða. Hann stofnað hér reglu heilags Frans og reglu heilagrar Klöru frá Assisi. Við förum í skoðunarferð um Assisi og að sjálfsögðu skoðum við kirkjurnar San Francesco og Santa Chiara og eftir það verður góður tími til að skoða sig um og kanna líf bæjarbúa á eigin vegum. Eftir það verður ekið á hótelið okkar.

9. apríl | Ljúfur dagur í Assisi

Í dag gefst góður tími til þess að njóta líðandi stundar. Andrúmsloftið í Assisi er gjarnan friðsælt og þar sameinast saga trúar og menningar. Margar götur gamla miðbæjarins eru eingöngu ætlaðar gangandi vegfarendum. Á rölti um bæinn gefur að líta byggingarlist miðalda og falleg torg í bland við verslanir, veitinga- og kaffihús. Bærinn er byggður á hæð og þaðan er falleg sýn yfir landslag Umbria héraðs sem umlykur bæinn. Boðið er upp á akstur frá hótelinu inn í Assisi en það þarf að melda sig kvöldinu áður.

10. apríl | Höfuðborgin Perugia & frjáls tími

Nú verður haldið til höfuðborgarinnar Perugia sem er ekki aðeins sú stærsta, heldur einnig ein fallegasta borg Umbria héraðsins. Borgin er staðsett í 450 m hæð en þaðan er frábært útsýni yfir á Apenninefjöllin og þorpin í kring um Lago Trasimeno vatnið. Farið er upp í borgina með rúllustiga en hún er ein af fornu virkisborgunum og ber þess enn merki. Perugia var ein öflugasta borg Etruskan heimsveldisins á 6. öld f.Kr. Hjarta borgarinnar er torgið Piazza Grande með brunninum Maggiore. Við förum í skoðunarferð um borgina en að henni lokinni verður tími til að fá sér hressingu og líta inn í verslanir borgarinnar á vinsælu göngugötunni Corso Vannucci. Eftir góðan tíma þar verður ekið til baka á hótlið.

11. apríl | Heimferð frá Róm

Nú kveðjum við Assisi eftir yndislega daga. Við leggjum snemma af stað og nú verður stefnan tekin á flugvöllinn í Róm. Brottför heim til Íslands kl. 15:45, áætluð lending í Keflavík er áætluð kl. 18:35 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

  • Viareggio – Palace Hotel
  • Assisi – Grand Hotel Assisi

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Guðrún Sigurðardóttir

Guðrún Sigurðardóttir er fædd og uppalin í Hlíðunum, Reykjavík. Hún kom fyrst til Ítalíu árið 1980 í framhaldsnám og hefur verið þar að mestu leyti síðan, bjó í næstum þrjá áratugi við Como vatn og býr nú til skiptis á Ítalíu og á Íslandi. Hún hefur verið fararstjóri með Íslendinga víðs vegar um Ítalíu og víðar í fjölda ára. Einnig hefur hún unnið sem leiðsögumaður með Ítali á Íslandi.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti