Páskar í Toskana & Assisi
1. - 11. apríl 2026 (11 dagar)
Töfrandi blær Toskana héraðsins og yndislegt andrúmsloft rivíerunnar við Miðjarðarhafið, með blaktandi pálmatrjám og hrífandi ströndum, leika við okkur í þessari ferð. Á leið okkar um hina undurfögru Versilíaströnd látum við fara vel um okkur í borginni Viareggio sem er þekktust fyrir karnivalið sitt og töfrandi útsýni á Alpi Apuane fjöllin sem geyma frægu Carrara marmaranámurnar. Farið verður í ævintýralegar ferðir þar sem við kynnumst menningu og listum landsins, m.a. sækjum við heim Lucca, sem er ein af gömlu virkisborgunum og eigum góða stund hjá vínbónda í nágrenninu. Við siglum úti fyrir Cinque Terre ströndinni með viðkomu í þorpunum Vernazza, Monterosso og Portovenere og upplifum einstaka fegurð Ítalíu. Við stöldrum við í Pisa þar sem við skoðum skakka turninn, basilíkukirkjuna og skírnarkapelluna. Einnig verður töfrandi sigling frá Rapallo til fræga og fagra bæjarins Portofino. Við dveljum einnig í miðaldavirkisborginni Assisi en á leiðinni þangað verður stoppað í höfuðborg Toskana héraðsins, Flórens, einni glæsilegustu lista- og menningarborg landsins. Assisi tekur á móti okkur í allri sinni dýrð og þar njótum við friðsæls andrúmslofts, byggingarlistar frá miðöldum og skoðum þar kirkjurnar San Francesco og Santa Chiara. Við endum þessa ljúfu ferð á að sækja heim borgina Perugia sem er ekki aðeins sú stærsta, heldur einnig ein fallegasta borg Umbria héraðsins.