Leyndardómar Kraká & Prag

Hér er boðið upp á einstaklega viðburðaríka söguferð um merkar borgir og áhugaverð landsvæði. Ferðin hefst í borginni Wroclaw í Póllandi sem á sér mikla og flókna sögu en er jafnframt þekkt fyrir fegurð, líflegan karakter og litríkt markaðstorg. Leið okkar liggur einnig til miðaldaborgarinnar Görlitz sem telst til fegurstu borga Þýskalands og á svo sannarlega eftir að koma á óvart. Görlitz liggur við fljótið Neisse sem aðskilur Þýskaland og Pólland. Hún á sér einstaka byggingarsögu og hefur verið gerð upp í upprunalegri mynd. Við höldum næst til Kraká en menning, sögulegar og glæstar byggingar gera hana að einni af vinsælustu borgum landsins. Þaðan verður ekin fögur leið að Wieliczka saltnámunum sem eru þær elstu og þekktustu í heimi og hafa verið á heimsminjaskrá UNESCO síðan 1978. Einnig verður boðið upp á mjög áhugaverða ferð til bæjarins Oswiecim en þar voru stærstu fanga- og útrýmingabúðir nasista, Auschwitz. Lokaáfangastaður ferðarinnar er gullborgin Prag en á leiðinni þangað verður gist í eina nótt í borginni Brno sem er önnur stærsta borg Tékklands. Vinaleg borg sem er stútfull af merkum byggingum í bland við eftirtektarverðan nútímaarkitektúr frá fyrri hluta 20. aldarinnar. Í Prag setja menning, listir og dulúð miðalda svip sinn á borgina sem iðar af mannlífi og einkennist af glæsilegum byggingum, Karlsbrúnni, Hradcanykastalanum, ráðhúsinu með stjörnuúrinu, kirkjum, listasöfnum, kristal og litskrúðugum verslunum. Wroclaw, Kraká og Prag hafa skapað sér sess meðal vinsælustu borga í Evrópu og þetta er frábært tækifæri til að upplifa fagrar en á sama tíma söguríkar og áhugaverðar borgir.

Verð á mann 379.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 89.200 kr.


Innifalið

  • 11 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður allan tímann á hótelum.
  • Sex kvöldverðir á hótelum.
  • Aðgangur í saltnámurnar Wieliczka.
  • Aðgangur inn í Auschwitz.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu. 
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Siglingar. 
  • Vínsmökkun.
  • Hádegisverðir.
  • Fjórir kvöldverðir.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Valfrjálst

  • Sigling á ánni Vislu í Kraká u.þ.b. € 15.
  • Aðgangur í höllina í Hradčany m. leiðsögn u.þ.b. € 28.

Nánari upplýsingar

Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

8. júní | Flug til Prag

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð a.m.k. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Prag kl. 13:05 að staðartíma. Frá Prag verður ekið til Wroclaw í Póllandi þar sem gist verður í þrjár nætur. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

9. júní | Skoðunarferð um Wroclaw

Wroclaw er höfuðborg Dolnośląskie héraðs í suðvesturhluta Póllands en þessi fjórða stærsta borg Póllands er sannarlega staður sem vert er að heimsækja. Wroclaw er þekkt fyrir fegurð sína, líflegan karakter og litríkt markaðstorg og hefur verið verslunarstaður allt frá miðöldum. Borgin á sér mikla og flókna sögu og menningaráhrif frá Þýskalandi, Tékklandi, Austurríki og Póllandi setja sitt mark sitt á andrúmsloft borgarinnar. Við förum í skoðunarferð um Wroclaw en að minnsta kosti 112 brýr setja svip sinn á borgina. Litlar dvergastyttur vekja einnig athygli þegar gengið erum Wroclaw en þær byrjuðu að birtast á víð og dreif um borgina árið 2005 og hafa síðan fjölgað sér og er talið að í heildina séu nú yfir 600 dvergastyttur víðsvegar um borgina. Kvöldverður á eigin vegum.

10. júní | Görlitz

Í dag skoðum við miðaldaborgina Görlitz sem telst til fegurstu borga Þýskalands en hún á svo sannarlega eftir að koma á óvart. Görlitz er ein örfárra þýskra borga sem sluppu við eyðileggingar sprengjuárása í síðari heimsstyrjöldinni. Borgin er í austurhluta Þýskalands og var að grotna niður þegar þýsku ríkin voru sameinuð árið 1990. Síðan hefur borgin verið gerð upp í upprunalegri mynd. Görlitz á einstaka byggingarsögu, þar eru yfir 3000 friðuð hús og byggingar, þær merkustu allt frá 15. öld. Hér spannar sviðið byggingarlist í barokk-, endurreisnar-, ný gotneskum- og júgendstíl. Borgin er eftirsótt sem sviðsmynd fyrir kvikmyndir. Þar með teljast stórmyndir á borð við Lesarinn með Kate Winslet, Budapest Hotel með Ralph Fiennes og Inglorious Basterds með Brad Pitt. Görlitz liggur við Neisse fljótið sem skilur að Þýskaland og Pólland. Allt til ársins 1945 var Görlitz bæði Þýskalands og Póllands megin árinnar en nú er hægt að ganga yfir Altstadtbrücke og þá er komið í pólska bæinn Zgorzelec. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

Opna allt

11. júní | Kraká

Við kveðjum hina fögru Wroclaw og höldum til Kraká. Kraká er stundum kölluð Flórens norðursins en borgin var um langa hríð aðsetur pólsku konunganna og þykir undrum sæta að borgin hafi aldrei verið lögð í rúst. Menning og sögulegar, glæstar byggingar gera hana að vinsælustu borg landsins, St. Florians hliðið vekur alltaf hrifningu sem og St. Mary´s kirkjan. Hér er einnig elsta verslunarmiðstöð í heimi, Cloth Hall. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

12. júní | Wieliczka saltnámurnar & frjáls tími

Nú verður ekin fögur leið frá Kraká að Wieliczka saltnámunum sem eru þær elstu og þekktustu í heimi og hafa verið á heimsminjaskrá UNESCO síðan 1978. Þetta er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins og yfir milljón ferðamanna frá öllum heimshornum skoða saltnámurnar ár hvert. Þær hafa mikla, sögulega þýðingu fyrir landsmenn en í aldaraðir hefur verið unnið þar salt. Farið verður í mjög áhugaverða skoðunarferð um námurnar. Eftir það verður ekið til baka til Kraká og þá er upplagt að nota tímann sem eftir lifir dags til að skoða borgina nánar. Það er til að mynda gaman að fara í hestakerruferð eða rölta um gamla gyðingahverfið í Kazimierez. Þetta er sérstakur staður þar sem vel fór á með gyðingum og kristnum mönnum fyrr á tímum. Í hverfinu eru einstaklega heillandi og hlýleg kaffi- og veitingahús og ljúft að hvíla lúin bein á einhverju þeirra og fylgjast með mannlífinu. Kvöldverður á eigin vegum.

13. júní | Frjáls dagur í Kraká

Í dag er boðið upp á göngu með heimamanni um miðbæ Kraká en eftir það er frjáls dagur og upplagt að kynna sér betur þessa spennandi borg sem hefur upp á svo margt að bjóða. Það er til að mynda hægt að skoða betur gamla miðborgarkjarnann og eitt eða fleiri hinna stórmerkilegu safna sem eru í borginni. Fyrir þá sem hafa gaman af siglingu væri tilvalið að skella sér í bátsferð á ánni Vislu eða Vistula á pólsku. Einnig væri hægt að fara inn í Podgorze hverfið en þar er minnisvarðinn „80 auðir stólar“ sem minnir á hörmungarnar í gyðingahverfinu. Miðbærinn er líka einstaklega heillandi og af mörgu er að taka til að njóta dagsins. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

14. júní | Auschwitz

Þennan dag verður boðið upp á mjög áhugaverða ferð til bæjarins Oswiecim sem er staðsettur 60 km vestur af Kraká. Þar voru stærstu fanga- og útrýmingabúðir nasista, Auschwitz, og á þeim tíma var það einnig þýskt nafn bæjarins. Fangabúðirnar samanstóðu af þremur aðalbúðum og rúmlega 40 aukabúðum. Hér voru um 1,3 milljónir manna líflátnir og af þeim voru 85% gyðingar. Þegar þessari heimsókn lýkur er ekið á hótel í Kraká. Þau sem ekki kæra sig um að skoða Auschwitz geta varið öllum deginum í Kraká. Kvöldverður á eigin vegum.

15. júní | Keisaraborgin Brno

Nú er förinni heitið til Brno þar sem gist verður í eina nótt. Brno er önnur stærsta borg Tékklands á eftir Prag en þessi vinalega borg er rík af merkum byggingum í bland við eftirtektarverðan nútímaarkitektúr frá fyrri hluta 20. aldarinnar. Dómkirkjan í Brno á rætur sínar að rekja til 11. og 12. aldar en frá 84 metra háum turnum hennar er fallegt útsýni yfir Brno og nágrenni. Í dag er þessi gamla keisaraborg með virtari háskólaborgum landsins, einkar lífleg og skemmtileg. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

16. júní | Gullborgin Prag

Við höldum í dag á loka áfangastað þessarar ferðar, til glæsilegrar höfuðborgar Tékklands, Prag, en hún hefur verið ein helsta menningarmiðstöð Evrópu um aldir. Við komuna til Prag verður farið í skoðunarferð um borgina. Farið verður meðal annars að Karlsbrúnni sem liggur yfir ánna Moldu, eða Karlův most, en hún er glæsilegt mannvirki og af henni er stórkostlegt útsýni. Við förum einnig á gamla torgið í miðri borginni, Staroměstské náměstí. Þar er mikið af fallegum byggingum, meðal annars ráðhús borgarinnar og stjörnuúrið fræga. Við komum einnig að Wenzel torginu svo eitthvað sé nefnt. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

17. júní | Frjáls dagur í Prag

Í dag gefst hverjum og einum tækifæri til að skoða sig betur um í Prag en ótal margt er að sjá og skoða í þessari glæsilegu borg.Prag hefur stundum verið nefnd Borg hinna hundrað spíra og þá er átt við þann mikla fjölda tignarlegra turnspíra sem bera við himinn. Hér blandast saman arkitektúr miðalda, gotnesks tíma, barrokks og endurreisnar. Hér er nóg að skoða og sem dæmi má nefna kastalann í Prag sem er staðsettur í Hradčany hverfinu og er oft kenndur við það. Í yfir 1000 ár hefur hann verið aðsetur kónga, keisara og forseta landsins og er það enn. Kastalinn ber þess merki að við hann hefur byggst á hinum ýmsu tímabilum í sögunni og hann telst vera stærsti forni kastali heims. Svæðið er einn merkilegasti og áhugaverðasti hluti Prag og þar má njóta glæsilegs útsýnis frá hallarsvæðinu yfir borgina. Lesser hverfið stendur í hæðunum fyrir neðan kastalann. Þar er friðsælt og mikið af glæsilegum byggingum frá barrokk tímanum, fallegir garðar og kræklóttar steinilagðar götur. Hægt er að fara í siglingu á ánni Vltava eða Moldá en hún er lengsta á Tékklands. Fyrir áhugasama er helsta verslunargata borgarinnar Na Příkopě en hún liggur nálægt Wenzel torginu og gamla bænum. Einnig er gaman að koma við á einu af brugghúsi borgarinnar enda eru Tékkar frægir fyrir sinn góða bjór. Það er mikil kaffhúsamenning í Prag og það er upplagt að koma sér vel fyrir og njóta veitinga og fylgjast með mannlífinu. Kvöldverður á eigin vegum

18. júní | Heimferð

Nú er komið að því að kveðja Prag eftir ljúfa daga en brottför þaðan er kl. 14:05 og lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma.
Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

  8. - 11. júní = Wroclaw = Puro Hotel Wroclaw
11. - 15. júní = Kraká = Puro Hotel Kraká
15. - 16. júní = Brno = Hotel International
16. - 18. júní = Prag = Century Hotel Old Town

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Kristín Jóhannsdóttir

Kristín Jóhannsdóttir er fædd árið 1960 og uppalin í Vestmannaeyjum.  Eftir stúdentspróf frá MH lá leiðin til Noregs, en Kristín bjó í Osló og vann á skrifstofu Flugleiða í tvö ár. Eftir það fluttist hún til Þýskalands, en hún hefur búið bæði í austur og vesturhlutanum þ.e. Freiburg, Berlín, Leipzig og Frankfurt í 20 ár. Kristín stundaði nám í Freiburg, Berlín og Leipzig og lauk magisterprófi í bókmenntum og sagnfræði árið 1991 frá Freie Universität í Berlín.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti