Haustlitir í Svartaskógi

Hólar og hæðir Svartaskógar eru þekkt fyrir djúpgræna skóga og snotur þorp. Það var einmitt í þessu landslagi sem Grimmsævintýrin urðu til. Flogið verður til Frankfurt og síðan ekið til bæjarins Oberkirch en þar verður gist allan tímann og farið í spennandi skoðunarferðir. Vínakrar, gauksklukkur og kastalar, nóg er að sjá. Segja má að alþjóðlega borgin Freiburg sé hliðið inn í Svartaskóg og eins og Strassborg stendur borgin mitt í vínhéraði. Hér má rölta um miðbæinn, drekka í sig alþjóðlegt andrúmsloft og dást að fornum byggingum. Hægt verður að fara í bátsferð á ánni Ill og einnig verður komið til hinnar dásamlegu háskólaborgar Heidelberg sem og Baden Baden. Klukkuvegurinn svokallaði verður ekinn og komið við á verkstæði þar sem gauksklukkurnar frægu eru smíðaðar. Þjóðgarður Svartaskógar í Renchdalnum verður auðvitað líka á dagskrá. Á vínslóðinni í Alsace þræðum við ótal falleg smáþorp með heillandi bindingsverkshúsum eins og til dæmis í litla, rómantíska bænum Obernai. Ekið verður um Barr og frá Ribeauvillé til Riquewihr en þar væri upplagt að enda góðan dag á vínsmökkun.

Verð á mann í tvíbýli 269.000 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 26.500 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgun- og kvöldverður á hótelinu.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Siglingar og ferjur.
  • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
  • Hádegisverðir.
  • Þjórfé.

Valfrjálst

  • Sigling í Strassborg u.þ.b. € 15.
  • Vínsmökkun u.þ.b. € 15.
  • Heidelberg kastali og lyfta u.þ.b. € 10.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

5. október | Flug til Frankfurt og ekið til Oberkirch

Brottför frá Keflavík kl. 7:25. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Frankfurt kl. 13:00 að staðartíma. Ekin verður falleg leið til Oberkirch þar sem gist verður í sjö nætur. Bærinn er afar huggulegur, staðsettur á sólríku svæði Svartaskógar og aðeins í um 20 km fjarlægð frá Strassborg.

6. október | Freiburg & klukkuvegurinn

Freiburg hefur verið háskólaborg frá fornu fari en þessi borg hinna frjálsu á sér langa sögu. Sögulegar miðaldabyggingar setja svip sinn á borgina og margt er að skoða og dást að. Á bakaleiðinni verður ekinn hluti af klukkuveginum en þar eru framleiddar heimsfrægar gauksklukkur. Við munum heimsækja eina smiðjuna til að sjá hvernig klukkurnar eru búnar til og heyra frásagnir af uppruna þeirra. Að því loknu er upplagt að fara á Schwarzwald Café og bragða á hinni frægu Schwartzwäldertertu.

7. október | Strassborg

Strassborg er einstaklega áhugaverð borg með sjarmerandi gömlum húsum og vatnavegum. Þessi höfuðstaður Alsace héraðsins stendur í Frakklandi rétt við landamæri Þýskalands. Áhugasamir geta farið í skemmtilega siglingu á ánni Ill sem rennur um borgina en þar sést glöggt hvernig gljáandi ný háhýsi, eins og Evrópubyggingin, kallast á við eldri hluta borgarinnar með sögulegu bindingsverkshúsunum. Að siglingunni lokinni göngum við inn í gamla hluta borgarinnar, skoðum sögufrægu Münsterkirkjuna en inni í kirkjunni er mjög merkilegt stjörnu- og sólúr. Frjáls tími gefst síðan fyrir hvern og einn til að fá sér hressingu, líta inn til kaupmanna eða ganga um hverfið Litla Frakkland.

Opna allt

8. október | Heidelberg

Við hefjum daginn á ferð til dásamlegu borgarinnar Heidelberg sem er svo sannarlega ein af fallegustu borgum Þýskalands. Þessi borg á bökkum árinnar Neckar er ein elsta háskólaborg landsins og ber miðbærinn þess glöggt merki með sögulegum byggingum, mikilfenglegri dómkirkju og Heidelberg höllinni sem gnæfir tignarlega yfir borgina. Eftir að hafa skoðað nægju okkar af markverðustu stöðunum gefst tími til að njóta borgarinnar á eigin vegum áður en haldið verður aftur til Oberkirch.

9. október | Frjáls dagur í Oberkirch

Í dag gefst hverjum og einum tækifæri til að haga deginum að vild. Oberkirch er lítill og huggulegur bær en áin Rench rennur í gegnum hann. Hér á einu sólríkasta svæði Svartaskógar er mikil ávaxta- og vínrækt umhverfis bæinn. Það er einstaklega notalegt að rölta um í rólegheitunum og njóta þess að vera í þessu fagra umhverfi. Einnig mætti kíkja á kaupmenn eða skoða mannlífið á einu af kaffihúsum bæjarins.

10. október | Renchdalurinn & Baden Baden

Léttur og skemmtilegur dagur er fyrir höndum. Ekin verður falleg leið inn í næsta dal og þjóðgarðurinn í Renchtal heimsóttur. Hér erum við umvafin töfrum Svartaskógar, hrífandi gönguleiðum og varla hægt að hafa það betra. Farið verður í stutta og þægilega göngu í kringum lítið stöðuvatn sem kallast Mummelsee, í 1.036 metra hæð. Þaðan er stórkostlegt útsýni yfir Svartaskóg og alla leið að Vogesen fjöllunum í Frakklandi. Djúpt í þessu vatni búa vatnaálfar í stórri höll og margar þjóðsögur tengjast þeim. Síðar ökum við til borgarinnar Baden Baden sem titluð var sumarhöfuðstaður Evrópu en á árum áður hittist hér hástéttin í spilavíti borgarinnar eða spásseraði um skrúðgarða til að sýna sig og sjá aðra í sumarorlofi sínu. Í borginni eru heitir hverir með u.þ.b. 68° heitu vatni og rústir rómversks baðhúss frá 2. öld e.Kr. Eftir stutta göngu um þennan fagra bæ verður frjáls tími til að kanna líf bæjarbúa á eigin vegum.

11. október | Vínslóðin til Riquewihr

Að loknum morgunverði munum við aka eftir vínslóðinni í Alsace, einu þekktasta vínhéraði heims. Við þræðum ótal falleg smáþorp með heillandi bindingsverkshúsum, eins og Barr og Ribeauvillé og heimsækjum fallega og rómantíska bæinn Obernai, sem ákaflega gaman er að staldra við í og kynna sér nánar. Að sama skapi látum við hrífast af einstökum ævintýrablæ bæjarins Riquewihr, sem er með vinsælli ferðamannabæjum svæðisins.
Bærinn er staðsettur í hjarta héraðsins, býr yfir einstökum arkitektúr og hefur staðið í nánast óbreyttri mynd síðan á 16. öld. Á svæðinu fer fram háklassa vínrækt svo afurðin drýpur af hverju strái. Því er upplagt að enda góðan dag á heimsókn í vel valin vínkjallara og bragða á framúrskarandi afurð svæðisins.

12. október | Heimferðardagur

Nú kveðjum við Svartaskóg og Alsace héraðið eftir góða daga. Að morgunverði loknum verður lagt af stað út á flugvöll og flogið heim kl. 14:00. Lending í Keflavík er kl. 15:40 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Þórhallur Vilhjálmsson

Þórhallur Vilhjálmsson er fæddur í Reykjavík 1963. Hann nam markaðsfræði við háskólann í San Francisco og útskrifaðist þaðan árið 1990. Hann hefur starfað að markaðsmálum hjá ýmsum fyrirtækjum bæði hérlendis og í Bandaríkjunum m.a. sem forstöðumaður sölu- og framleiðsluáætlana hjá ISAL í Straumsvík, markaðsstjóri hjá Nýsi hf og markaðsstjóri Portus hf (sem byggði tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpuna í Reykjavík). 

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

 

Tengdar ferðir




Póstlisti