14. – 21. október 2023 (8 dagar)
Hólar og hæðir Svartaskógar eru þekkt fyrir djúpgræna skóga og snotur þorp. Það var einmitt í þessu landslagi sem Grimmsævintýrin urðu til. Flogið verður til Frankfurt og síðan ekið til bæjarins Oberkirch en þar verður gist allan tímann og farið í spennandi skoðunarferðir. Vínakrar, gauksklukkur og kastalar, nóg er að sjá. Segja má að alþjóðlega borgin Freiburg sé hliðið inn í Svartaskóg og eins og Strassborg stendur borgin mitt í vínhéraði. Hér má rölta um miðbæinn, drekka í sig alþjóðlegt andrúmsloft og dást að fornum byggingum. Hægt verður að fara í bátsferð á ánni Ill og einnig verður komið til hinnar dásamlegu háskólaborgar Heidelberg sem og Baden Baden. Klukkuvegurinn svokallaði verður ekinn og komið við á verkstæði þar sem gauksklukkurnar frægu eru smíðaðar. Þjóðgarður Svartaskógar í Renchdalnum verður auðvitað líka á dagskrá. Á vínslóðinni í Alsace þræðum við ótal falleg smáþorp með heillandi bindingsverkshúsum eins og til dæmis í litla, rómantíska bænum Obernai. Ekið verður um Barr og frá Ribeauvillé til Riquewihr en þar væri upplagt að enda góðan dag á vínsmökkun.