Gran Canaria, Lanzarote & Tenerife

Kanaríeyjar eru mörgum Íslendingum kunnugar en þrátt fyrir það eru margir sem ekki hafa upplifað allt það stórkostlega sem eyjarnar hafa upp á að bjóða. Þar má helst nefna fjölbreytta og gullfallega náttúru, girnilega matargerðarlist og áhugaverða sögu og menningu. Í þessari ljúfu ferð munum við njóta þess að blanda saman fjölbreyttum skoðunarferðum og afslöppun í sólinni á þremur Kanaríeyjum, Gran Canaria, Lanzarote og Tenerife. Frá landfræðilegu sjónarhorni tilheyra þessar spænsku eldfjallaeyjur Afríku, enda liggja þær aðeins 100 km frá Marokkó þar sem styst er á milli. Við hefjum ferð okkar á Gran Canaria þar við skoðum m.a. hið undraverða friðland á Maspalomas ströndinni, sjarmerandi sjávarþorpið Mogán, litríka bæinn Agüimes og frumbyggjadalinn Guayadeque. Við fræðumst um kanaríska rommframleiðslu, skoðum okkur um í vatnabænum fræga Firgas og í dalnum Los Berrazales. Undurfagra eldfjallaeyjan Lanzarote bíður okkar með stórbrotinni náttúrufegurð. Við komum meðal annars til Teguise sem er talið eitt fallegasta þorp Spánar og töfrandi er að aka meðfram strandlengjunni til bæjarins Punta Mujeres. Jameos del Agua er einstakur staður sem myndaðist þegar þak á hraunhelli hrundi en í þessu stórkostlega náttúruundri er nú lista-, menningar- og ferðaþjónustumiðstöð, staðsett í eldfjallagöngunum. Upplifum einnig fagra náttúru í Timafaya þjóðgarðinum og við fagurgræna stöðuvatnið Charco de los Clicos. Við dveljum lengst á stærstu Kanaríeyjunni, Tenerife. Eldfjallið Teide blasir víða við enda hæsta fjall Spánar en við munum taka kláf upp á Teide og njóta þaðan stórkostlegs útsýnis. Við förum í skoðunarferðir um bæði norður- og vesturhluta Tenerife og sjáum þar stórbrotna náttúru og mörg hrífandi þorp á borð við Candelaria, La Laguna, El Sauzal og Masca sem situr á einum toppi Teno-fjalla. Milt og þægilegt loftslagið allt árið um kring gerir Kanaríeyjar ákjósanlegan áfangastað og þarna munum við svo sannarlega njóta þess að dvelja, slaka á og njóta ómældrar náttúrufegurðar.

Verð á mann í tvíbýli 629.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 143.700 kr.


Innifalið

  • 17 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði á 4* hótelum.
  • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
  • Öll flug á milli eyjanna.
  • Aðgangur að Þjóðgarðinum Timafaya á Lanzarote.
  • Hádegissnarl og vínsmökkun í La Geria á Lanzarote.
  • Aðgangur að Jamoes del Agua eldfjallasvæðinu og hellinum Cueva Verde á Lanzarote.
  • Hádegisverður í helli á Gran Canaria.
  • Hádegissnarl ásamt víni, kaffi og líkjör í Los Berrazales dalnum.
  • Aðgangur og smökkun í rommbrugghúsi á Gran Canaria.
  • Ferð með kláfi upp á Teide á Tenerife.
  • Sigling á Tenerife.
  • Hádegisverður í El Sauzal á Tenerife.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur sem ekki er talinn upp í innifalið.
  • Hádegisverðir sem ekki eru taldir upp í innifalið.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Nánari upplýsingar

  • Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

24. febrúar | Flug til Gran Canaria

Brottför frá Keflavík kl. 10:00 og mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending á Gran Canaria kl. 15:25 að staðartíma. Við dveljum í fjórar nætur á Hotel Cristina by Tigotan sem er 5* hótel í Las Palmas á Gran Canaria. Á hótelinu er glæsileg aðstaða, m.a. upphituð útisundlaug og góð sólarverönd.

25. febrúar | Maspalomas, Mogan & hádegisverður í helli

Í dag munum við kanna suðurhluta Gran Canaria og hefjum ferðina í hinu undraverða friðlandi á Maspalomas ströndinni þar sem gamall viti vakir yfir sandöldum svæðisins. Næsti áfangastaður er fiskiþorpið Mogán en við höldum í stutta skoðunarferð um þennan heillandi bæ sem oft er talinn sá fegursti á eyjunni. Eftir þetta höldum við í frumbyggjadalinn Guayadeque en hann er þekktur fyrir hellana sína og enn er búið í mörgum þeirra. Við snæðum hádegisverð í einum hellana.

26. febrúar | Rólegheit & slökun

Þennan dag gefst heill dagur til þess að slaka á og njóta þess að vera á þessum yndislega stað. Las Palmas er líflegur og skemmtilegur bær, þar er margt að skoða og tilvalið að kíkja í verslanir eða á kaffi- og veitingahús. Einnig er hægt að slaka á við sundlaug hótelsins eða ganga niður að strandlengjunni.

Opna allt

27. febrúar | Skoðunarferð um Gran Canaria

Við heimsækjum í dag hið töfrandi eldfjall Bandama sem er 1 km í þvermál og meira en 250 m djúpt. Þetta er góður staður til að skilja myndun eyjunnar. Því næst förum við til bæjarins Arucas þar sem okkur býðst að heimsækja romm brugghús, fræðast um söguna og framleiðsluferlið og að sjálfsögðu smakka aðeins á afurðinni. Að þessu loknu ökum við til vatnabæjarins fræga Firgas og fallega bæjarins Agüimes sem er litríkur og skemmtilegur. Þaðan er síðan haldið áfram á vestari hluta eyjunnar í Los Berrazales dalnum með sínum einstöku kaffiplantekrum, appelsínutrjálundum og suðrænu ávöxtum. Þarna fáum við okkur hádegissnarl sem byggist upp af kanarískum afurðum.

28. febrúar | Flug til Lanzarote

Byrjum daginn í rólegheitum en í dag verður flogið á undurfallegu eyjuna Lanzarote. Þar verður gist í fjórar nætur á góðu hóteli við Playa Blanca ströndina með aðgangi að ströndinni, útisundlaug og sólarverönd. Einnig er heilsulind og líkamsrækt á staðnum þar sem hægt er að kaupa sér vellíðunarpakka og sækja jógatíma.

1. mars | Skoðunarferð um Lanzarote

Við byrjum þennan glæsilega dag á því að heimsækja höfuðstað Lanzarote, Arrecife. Borgin er yndisleg og þar upplifum við lífstíl Kanaríeyja á skemmtilegan hátt í gamla bænum með sínum hvítu húsum með trésvölum og litlu höllum. Norðan við borgina er hafnarsvæðið Puerto de los Mármoles, sem er þriðja mikilvægasta höfn Kanaríeyja. Næst verður stefnan tekin á Punta Mujeres en það telst vera eitt fallegasta þorpið á eyjunni, með sínum litlu, heillandi götum. Hér er hægt að dáðst að hvítum og bláum framhliðum húsanna sem minna meira á Grikkland en Spán. Jameos del Agua er einstakur staður sem myndaðist eftir eldgos frá eldfjallinu La Corona fyrir um 4000 árum þegar þak á hraunhelli hrundi. Í þessu stórkostlega náttúruundri er nú lista-, menningar- og ferðaþjónustumiðstöð, staðsett í eldfjallagöngunum. Þarna er líka tónleikahöll, umkringd eldfjallabergi, þar sem hljómburðurinn er frábær. Við förum einnig að hraunhellinum Cueva de los Verdes sem er eitt merkilegasta jarðfræði fyrirbæri eyjunnar. Þessi 7000 metra langi hellir varð einnig til eftir gos eldfjallsins La Corona þegar yfirborð hraunsins storknaði en heitt hraun rann áfram undir og skildi eftir hola miðju. Hellarnir voru eitt sinn mikilvæg vernd eyjarskeggja gegn sjóræningjaárásum en voru endurbyggður fyrir ferðamenn um miðja 20. öld. Eftir yndislegan dag verður stefnan tekin á hótelið okkar.

2. mars | Skoðunarferð um Timafaya þjóðgarðinn

Annar glæsilegur dagur um vesturhluta eyjunnar og nú verður ekið um hluta af Timanfaya þjóðgarðinum. Hér er hrífandi og stórbrotin náttúra sem myndaðist fyrir um 25 milljónum ára við eldgosið sem myndaði eyjuna Lanzarote. Haldið verður til El Golfo sem er heillandi sjávarbær með sínum dulúðlegu og sérlega fallegu, litlu, kræklóttu götum. Þaðan heldur ferð okkar áfram á einn af ómissandi stöðum eyjunnar, Charco de los Clicos stöðuvatnið sem myndast hefur í gígi gamals eldfjalls og er náttúruverndarsvæði. Vatnið er fagurgrænt en liturinn kemur frá þörungum á botni vatnsins. Oft er sagt að landslag Lanzarote sé líkt og á tunglinu og þegar þú sérð svæðið í kringum La Geria munt þú skilja af hverju. „Geria“ er keilulaga hola sem er nokkurra metra djúp og grafin í eldfjallamölina. Hún er umkringd steinum sem vernda vínviðinn fyrir vindi og gerir kleift að framleiða frábær vín í jafn hrjóstrugu landslagi. Eftir að hafa upplifað þetta sérstaka og ógleymanlega landslag endum við þennan ljúfa dag í hádegissnarli hjá einum af ófáum víngerðarmönnum svæðisins.

3. mars | Frjáls dagur á Lanzarote

Nú er upplagt að skoða svæðið betur á eigin vegum og njóta þess að hafa nægan tíma til að rölta um, sýna sig og sjá aðra. Einnig er hægt að fara á ströndina eða nota aðstöðuna við hótelið sem er frábær, sóla sig og njóta lífsins.

4. mars | Flug til Tenerife

Nú kveðjum við Lanzarote eftir ljúfa daga og fljúgum yfir til Tenerife. Tenerife er stærst Kanaríeyjanna, 2.055 km2 að flatarmáli og jafnframt fjölmennasta eyja Spánar með tæplega 900.000 íbúa. Við gistum í átta nætur á Hotel Tigotan á Amerísku ströndinni á suðurhluta Tenerife. Á hótelinu eru útisundlaugar, sólarverönd og glæsileg þakverönd með útsýni yfir Atlantshafið. Hótelið er aðeins fyrir 18 ára og eldri. Þarna verður ljúft að dvelja næstu daga.

5. mars | Frjáls dagur á Tenerife

Frídagur til að slaka á og njóta aðstöðunnar við hótelið. Hver ræður sínum degi að vild. Tilvalið að fara í göngu niður að strönd og kanna umhverfið betur.

6. mars | Eldfjallið Teide & sigling

Í dag fær eldfjallið Pico del Teide alla okkar athygli. Við tökum kláf upp á þetta hæsta fjall Spánar og njótum stórkostlegs útsýnis. Þeir sem vilja geta farið í stuttan göngutúr með leiðsögumanni um þetta frábæra svæði. Teide þjóðgarðurinn, sem hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO síðan árið 2007, er sá stærsti á Kanaríeyjum og er eldfjallið þriðja hæsta eyjaeldfjall í heimi, 3715 m. Eftir ferðina á Teide keyrum við til Los Gigantes, eins fallegasta sjávarsvæðis eyjunnar og þar verður tími til að fá sér hádegishressingu áður en farið verður í siglingu með ströndinni.

7. mars | Frjáls dagur á Tenerife

Dagur í slökun og rólegheitum. Upplagt að nota aðstöðuna við hótelið eða skoða sig betur um, rölta niður að strönd, setjast á kaffihús eða skoða í verslanir á Av. las Américas.

8. mars | Skoðunarferð um norðurhluta Tenerife

Eftir morgunverð höldum við af stað í skoðunarferð um norðurhluta Tenerife. Fyrsta stopp dagsins er í einu af fallegustu þorpum eyjunnar, Candelaria. Það má enginn missa af þessu sjarmerandi sjávarþorpi. Því næst höldum við í norðurátt til einnar af áhugaverðustu borgum Tenerife, San Cristóbal de la Laguna. Þessi fyrrum höfuðborg eyjunnar er á heimsminjaskrá UNESCO enda rík af sögulegum byggingum og minnisvörðum, þröngum sjarmerandi götum og fallegum stórhýsum. Bærinn El Sauzal verður sóttur heim og þar komum við til með að að snæða léttan hádegisverð. Eftir yndislegan tíma þar verður ekin fögur leið á hótelið.

9. mars | Frjáls dagur á Tenerife

Í dag njótum við þess að eiga frjálsan dag og slökum á í sólinni.

10. mars | Skoðunarferð um vesturhluta Tenerife, Masca & Tenno fjöllin

Í dag ætlum við að upplifa fleiri perlur Tenerife en eyjan hefur svo sannarlega að geyma mörg dásamleg þorp þar sem hægt væri að gleyma sér í notalegheitum tímunum saman. Við ökum upp í Tenno fjöllin til fjallaþorpsins Masca sem er yndislegur staður en hér má einnig finna stórfenglegt landslag fjallshlíða og gljúfra. Ein vinsælasta gönguleið eyjunnar liggur niður Masca gljúfrið og þarna ætti öllum að vera kleift að taka sannkallaðar póstkortamyndir. Áfram verður haldið til bæjarins Garachico sem við vitum að er uppáhaldsstaður margra Spánverja. Þessi hluti eyjunnar er hvað þekktastur fyrir einstaka sögulega arfleið og áhugaverða staði á borð við Santa Ana kirkjuna, Nuestra Señora de los Ángeles kirkjuna, klaustur og San Miguel kastalann. Síðan verður ekið til líflega strandbæjarins Purto de la Cruz þar sem upplagt er að fá sér smá hressingu en einnig eru skemmtilegar verslanir við ströndina. Að lokum heimsækjum við bæinn Icod de los Vinos sem staðsettur er í fallegum dal á norðvesturhluta eyjunnar. Svæðið var mikilvægt fyrir banana-, ávaxta- og vínrækt á 17. öld og dregur nafn sitt af því. Hér er frægasta og elsta drekatré eyjunnar, náttúran er stórbrotin og útsýnið blanda af eldfjöllum og sjávarsýn.

11. mars | Frjáls dagur á Tenerife

Dagur í slökun og rólegheitum. Upplagt að nota aðstöðuna við hótelið eða skoða sig betur um, rölta undir pálmatrjám eða eftir strandlengjunni.

12. mars | Heimferð

Nú er komið að heimferð eftir þessa glæsilegu ferð. Ekið verður út á flugvöllinn á Tenerife og er brottför þaðan kl. 15:05 og áætluð lending í Keflavík kl. 20:35 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

  • 4 nætur – Gran Canaria – Hotel Cristina by Tigotan
  • 4 nætur – Lanzarote - Gran Castillo Tagoro
  • 8 nætur – Tenerife – Hotel Tigotan

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem var einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

 

Tengdar ferðir




Póstlisti