Gran Canaria, Lanzarote & Tenerife
24. febrúar - 12. mars 2026 (17 dagar)
Kanaríeyjar eru mörgum Íslendingum kunnugar en þrátt fyrir það eru margir sem ekki hafa upplifað allt það stórkostlega sem eyjarnar hafa upp á að bjóða. Þar má helst nefna fjölbreytta og gullfallega náttúru, girnilega matargerðarlist og áhugaverða sögu og menningu. Í þessari ljúfu ferð munum við njóta þess að blanda saman fjölbreyttum skoðunarferðum og afslöppun í sólinni á þremur Kanaríeyjum, Gran Canaria, Lanzarote og Tenerife. Frá landfræðilegu sjónarhorni tilheyra þessar spænsku eldfjallaeyjur Afríku, enda liggja þær aðeins 100 km frá Marokkó þar sem styst er á milli. Við hefjum ferð okkar á Gran Canaria þar við skoðum m.a. hið undraverða friðland á Maspalomas ströndinni, sjarmerandi sjávarþorpið Mogán, litríka bæinn Agüimes og frumbyggjadalinn Guayadeque. Við fræðumst um kanaríska rommframleiðslu, skoðum okkur um í vatnabænum fræga Firgas og í dalnum Los Berrazales. Undurfagra eldfjallaeyjan Lanzarote bíður okkar með stórbrotinni náttúrufegurð. Við komum meðal annars til Teguise sem er talið eitt fallegasta þorp Spánar og töfrandi er að aka meðfram strandlengjunni til bæjarins Punta Mujeres. Jameos del Agua er einstakur staður sem myndaðist þegar þak á hraunhelli hrundi en í þessu stórkostlega náttúruundri er nú lista-, menningar- og ferðaþjónustumiðstöð, staðsett í eldfjallagöngunum. Upplifum einnig fagra náttúru í Timafaya þjóðgarðinum og við fagurgræna stöðuvatnið Charco de los Clicos. Við dveljum lengst á stærstu Kanaríeyjunni, Tenerife. Eldfjallið Teide blasir víða við enda hæsta fjall Spánar en við munum taka kláf upp á Teide og njóta þaðan stórkostlegs útsýnis. Við förum í skoðunarferðir um bæði norður- og vesturhluta Tenerife og sjáum þar stórbrotna náttúru og mörg hrífandi þorp á borð við Candelaria, La Laguna, El Sauzal og Masca sem situr á einum toppi Teno-fjalla. Milt og þægilegt loftslagið allt árið um kring gerir Kanaríeyjar ákjósanlegan áfangastað og þarna munum við svo sannarlega njóta þess að dvelja, slaka á og njóta ómældrar náttúrufegurðar.