Bled vatn & króatískar strendur

Óviðjafnanleg náttúrufegurð, menning og slökun einkenna þessa skemmtilegu ferð sem hefst í tónlistarborginni Salzburg, einni af perlum Austurríkis. Bled vatn í Slóveníu bíður eftir okkur í allri sinni dýrð en þar er náttúrufegurðin óviðjafnanleg. Þar siglum við út í eyjuna Blejski Otok, njótum útsýnisins og heimsækjum einstaklega fallega Maríukirkju sem á sér aldagamla sögu. Því næst verður stefnan tekin á Króatíu en á leiðinni þangað verður áð í Ljubljana, höfuðborg Slóveníu og stærstu borg hennar. Einn elsti bærinn í Króatíu, Poreč við Istríaströndina, er næstur á dagskrá en þar er að finna áhugaverða basilíku frá 6. öld sem varðveitt er á heimsminjaskrá UNESCO. Þaðan verður farið í listamannabæinn Rovinj sem er litríkur bær og iðar af mannlífi. Á leiðinni þangað verður stoppað fyrir ofan Limski Canal og heimleiðinni komið við hjá vínbónda í Pazin. Einnig verður í boði dásamleg sigling út í eyjuna Veliki Brijuni þar sem við kynnumst nýrri hlið á Tító, fyrrum leiðtoga Júgóslavíu. Sunnarlega við Istríaströndina er hin merka borg Pula sem er lífleg og heillandi borg með ægifagra strönd og margar fornar og glæstar byggingar. Þessi glæsilega ferð endar í hinni fornu háskólaborg Padua á Ítalíu sem kemur á óvart, sérlega lífleg borg með afslöppuðu andrúmslofti.

Verð á mann 419.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 162.000 kr.


Innifalið

  • 13 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar. 
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður allan tímann á hótelum. 
  • Ellefu kvöldverðir á hótelum.
  • Léttur hádegisverður hjá vínbónda í Pazin.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu. 
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
  • Siglingar.
  • Hádegisverðir.
  • Einn kvöldverður í Padua. 
  • Vínsmökkun.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Valfrjálst

  • Sigling út í Blejski Otok eyju u.þ.b € 17.
  • Aðgangseyrir í Maríukirkjuna u.þ.b. € 8.
  • Bled kastali u.þ.b. € 12.
  • Sigling út í Brijuni eyju og smálest u.þ.b € 50.

Nánari upplýsingar

Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

21. maí | Flug til München & ekið til Salzburg

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Þaðan verður ekið til tónlistarborgarinnar Salzburg og fæðingarborgar Mozarts þar sem við gistum fyrstu nóttina.

22. maí | Salzburg & Bled vatn

Eftir góðan morgunverð förum við af stað gangandi inn í borgina með fararstjóra okkar. Hann leiðir okkur um undurfögru borgina Salzburg sem þekktust er sem fæðingarborg Mozart en jafnframt fyrir mikilfenglegar byggingar í barokkstíl. Einnig verður tími til að fá sér hressingu áður en rútan sækir okkur rétt hjá Mirabell höllinni. Nú verður stefnan tekin að Bled vatni í Slóveníu sem er með fegurstu perlum Alpanna og dveljum við þar í þrjár nætur á hóteli við vatnið. Á hótelinu er heilsulind með inni- og útisundlaugum.

23. maí | Eyjan Blejski Otok & Bled kastalinn

Eftir morgunverð höldum við í siglingu á Bled vatninu út í eyjuna Blejski Otok en þar er hugguleg Maríukirkja með frægri óskabjöllu. Eftir bátsferðina verður ekið upp að Bled kastalanum, miðaldakastala sem stendur í 139 m hæð á hamri við norðurbakka vatnsins. Kastalinn er talinn vera elsti kastali Slóveníu og er eitt mesta aðdráttarafl landsins. Þaðan gefur að líta stórkostlegt útsýni yfir svæðið. Síðdegis gefst einnig frjáls tími til að taka það rólega og njóta borgarinnar Bled og umhverfi hennar.

Opna allt

24. maí | Frjáls dagur við Bled vatnið

Þennan dag ætlum við að njóta þess að vera á þessum undurfagra stað. Tilvalið er að nýta sér aðstöðu hótelsins til afslöppunar og einnig er dásamlegt að ganga með fram Bled vatninu.

25. maí | Ljubljana & Poreč

Nú kveðjum við dásemdina við Bled vatn og tökum stefnuna á Istríaskagann í Króatíu. En á leiðinni þangað verður stoppað í Ljubljana, höfuðborg Sóveníu og stærstu borg hennar, sem telst ein grænasta og líflegasta höfuðborg Evrópu. Borgin er hrífandi og Ljubljanica áin rennur um hjarta hennar. Þar verður farið í skemmtilega skoðunarferð og eigum við frjálsan tíma til að fá okkur hressingu áður en ekið verður suður til Poréc í Króatíu sem er yndislegur bær við Istríaströndina en þar verður gist í sex nætur á góðu hóteli. Á hótelinu er gott útisvæði með sundlaugum og sólbekkjum. Einnig er þar heilsulind með saunum, nuddpotti og hvíldarsvæði og hægt að bóka sér ýmsar heilsumeðferðir gegn gjaldi.

26. maí | Gönguferð í Poreč & frjáls tími

Umhverfið er dásamlegt og við njótum þess á skemmtilegri göngu eftir ströndinni inn í miðbæ Poreč, sem er einn elsti bærinn við ströndina. Farið verður í stutta skoðunarferð um þennan yndislega bæ sem skartar marmaralögðum götum og fögrum byggingum. Þar er að finna áhugaverða basilíku sem kennd er við himnaför Maríu. Hún er frá 6. öld og var skráð á heimsminjaskrá UNESCO árið 1997. Auðvelt er að finna skemmtilegar verslanir, þar á meðal fjölmargar skartgripaverslanir. Eftir skoðunarferðina verður frjáls tími til að kanna líf bæjarbúa og fá sér hressingu.

27. maí | Rovinj, Limski Canal & vínbóndi í Pazin

Skemmtilegur dagur í Króatíu sem byrjar á því að aka fagra leið um Istríaskagann. Á leiðinni verður stoppað fyrir ofan Limski Canal en þar þrengir fjörðinn svo mjög að hann minnir heldur á skurð. Síðan verður ekið til Rovinj í Króatíu. Rovinj er yndislegur, litríkur listamannabær við Istríaströndina sem iðar af mannlífi. Hér verður farið í stutta skoðunarferð um elsta hluta bæjarins, gengið verður upp að barokkkirkju heilagrar Euphemíu en þaðan er glæsilegt útsýni yfir eyjarnar og gamla bæinn. Úti fyrir Rovinj eru 22 eyjur, stærst þeirra er eyjan Sveta Katharina og sést hún vel frá gamla bænum. Einnig munum við halda niður listamannagötuna. Eftir góðan tíma þar verður ekið til Pazin þar sem vínbóndi verður sóttur heim og borðaður hjá honum léttur hádegisverður. Þar verður eflaust sungið og trallað.

28. maí | Sigling til eyjunnar Veliki Brijuni

Nú verður ekið til litla bæjarins Fazana en þaðan verður farið í skemmtilega siglingu út í eyjuna Veliki Brijuni, sem er stærsta eyja Brijuni eyjaklasans úti fyrir Istríaströndinni. Eyjaklasinn samanstendur af 14 eyjum en þar er ótrúleg náttúrufegurð og gróðursæld. Tító, einræðisherra Júgóslavíu, fundaði hér á árum áður með valdamestu kommúnistaleiðtogum heims og þá var það ekki á færi margra að vera boðið á þennan eðalstað. Sjálfur dvaldi hann oft og tíðum hér með merka gesti víðsvegar að úr heiminum. Upphafið að fjölskrúðugu dýralífi eyjunnar er frá tímum Tító en m.a. má finna muflon sauðfé, sebrahesta, lamadýr og fíla svo eitthvað sé nefnt. Eyjan var opnuð almenningi árið 1983 eftir dauða Títós. Við höldum í fróðlega skoðunarferð um eyjuna en hér má til að mynda sjá mjög áhugavert myndasafn frá tíma Títós í einni villu eyjunnar.

29. maí | Dagur í Pula

Pula er stærsta og elsta borgin á Istríaskaganum. Hún á sér viðburðaríka sögu en með því að fullkomna samspil rómverskrar menningar, fallegra baðstranda og nútíma ferðaþjónustu laðar bærinn til sín ferðamenn alls staðar að úr heiminum. Frægust er borgin fyrir forna hringleikahúsið frá tímum rómverska heimsveldisins í Króatíu en borgina prýða einnig glæstar byggingar frá tímum Habsborgaraveldisins. Hér ætlum við að dvelja góða stund, skoða og fræðast ásamt því að njóta dásamlegs umhverfis við ströndina.

30. maí | Rólegur dagur í Poreč

Í dag verður rólegur dagur í Poreč. Upplagt er að fara í göngu með ströndinni og kanna betur líf bæjarbúa. Einnig eru í boði töfrandi siglingar frá höfninni í Poreč m.a. inn í Limski Canal.

31. maí | Ekið til Padua á Ítalíu & skoðunarferð

Nú er komið að því að kveðja Slóveníu og taka stefnuna á hina fornu háskólaborg Padua á Ítalíu. Borgin er sérlega lífleg og andrúmsloftið afslappað. Áður en farið verður á hótelið tökum við stutta göngu um borginni með innlendan leiðsögumann í broddi fylkingar og fræðumst um viðburðaríka sögu einnar elstu borgar Ítalíu. Margar glæstar byggingar prýða borgina, þ.á m. Basilíka heilags Antoníusar, risastóra torgið Prato della Valle og glæsilega höllin Palazzo della Ragione á markaðstorginu. Eftir góðan tíma verður haldið á hótel þar sem gist verður tvær síðustu næturnar.

1. júní | Frjáls dagur í Padua

Í dag ætlum við að eiga frjálsan dag í Padua. Upplagt er að njóta borgarinnar á eigin vegum, fá sér hressingu og líta inn á kaupmenn borgarinnar sem eru fjölmargir. Kvöldverður á eigin vegum.

2. júní | Heimferð frá Feneyjum

Það er komið að heimferð eftir góðan morgunverð og ljúfa ferð. Nú er stefnan tekin á flugvöll í Feneyjum. Brottför þaðan kl. 16:10 og lending í Keflavík kl. 18:50 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

Salzburg – Hotel Europa Austria Trend
Bled - Rikili Balance Hotel
Porec - Hotel Valamar Diamant
Padua - Hilton Garden inn Padova City center

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Bjarni Torfi Álfþórsson

Bjarni Torfi Álfþórsson er ekki fæddur á hjóli en hefur samt farið yfir 40 hjólferðir erlendis , mestmegnis með gesti Bændaferða. Bjarni er menntaður lögreglumaður, grunnskólakennari og kerfisfræðingur og hefur frá 2011 verið framkvæmdastjóri Specialisterne á Íslandi. Bjarni hefur alla tíð verið mikill áhugamaður um íþróttir og útiveru, en hann hefur m.a. verið formaður Íþróttafélagsins Gróttu í 6 ár auk þess að vera virkur í margskonar öðru félagsstarfi. Hann hefur þjálfað unglinga bæði í knattspyrnu og handknattleik og auk þess farið margar ferðir sem farastjóri með íþróttahópa erlendis. Bjarni er giftur 4 barna faðir og á auk þess 5 barnabörn. Bjarni Torfi bjó lengi í Kaupmannahöfn.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti