30. ágúst - 13. september 2023 (15 dagar)
Hér er í boði sannkallaður Ítalíudraumur. Ferðin hefst í Piacenza en þaðan er ekið til perlunnar Vieste í Puglia héraði þar sem er ævintýri líkast að sigla með hvítri, klettóttri Gargano ströndinni. Þaðan verður farið í hrífandi pílagrímsbæinn San Giovanni Rotondo ásamt bænum Monte Sant´Angelo en þaðan er ægifagurt útsýni yfir Manfredonia flóann. Nú bíður okkar Hvíta borgin eins og Ostuni er oft kölluð en á leið þangað skoðum við tilkomumikla kastalann Castel del Monte sem er einn mesti fjársjóður Puglia héraðs. Heillandi og ævintýralegur er bærinn Alberobello en hann er einn áhugaverðasti staður svonefnds Trulli svæðis og er varðveittur á heimsminjaskrá UNESCO. Hér gefur að líta hvítkölkuð steinhús með keiluþökum sem bera nafn svæðisins og eru kölluð Trulli hús. Það er mögnuð upplifun að koma til Matera borgar þar sem heilu húsin, íbúðirnar og hallirnar eru grafnar inn í klettana. Vart er hægt að hugsa sér fullkomnari endi á Ítalíudraumi en í Sorrento við Napólíflóa og þar munum við njóta ljúfra daga. Á leiðinni verður áð í Pompei sem geymir frægustu fornminjar veraldar. Farið verður í ævintýralega siglingu til Caprí, sæbrattrar klettaeyju þar sem siglt verður í Bláa hellinn og farið með stólalyftu upp á hæsta fjall eyjunnar. Stórbrotin náttúrufegurð umleikur okkur í þessum dásamlega Ítalíudraumi.