Ítalíudraumur

30. ágúst - 13. september 2023 (15 dagar)

Hér er í boði sannkallaður Ítalíudraumur. Ferðin hefst í Piacenza en þaðan er ekið til perlunnar Vieste í Puglia héraði þar sem er ævintýri líkast að sigla með hvítri, klettóttri Gargano ströndinni. Þaðan verður farið í hrífandi pílagrímsbæinn San Giovanni Rotondo ásamt bænum Monte Sant´Angelo en þaðan er ægifagurt útsýni yfir Manfredonia flóann. Nú bíður okkar Hvíta borgin eins og Ostuni er oft kölluð en á leið þangað skoðum við tilkomumikla kastalann Castel del Monte sem er einn mesti fjársjóður Puglia héraðs. Heillandi og ævintýralegur er bærinn Alberobello en hann er einn áhugaverðasti staður svonefnds Trulli svæðis og er varðveittur á heimsminjaskrá UNESCO. Hér gefur að líta hvítkölkuð steinhús með keiluþökum sem bera nafn svæðisins og eru kölluð Trulli hús. Það er mögnuð upplifun að koma til Matera borgar þar sem heilu húsin, íbúðirnar og hallirnar eru grafnar inn í klettana. Vart er hægt að hugsa sér fullkomnari endi á Ítalíudraumi en í Sorrento við Napólíflóa og þar munum við njóta ljúfra daga. Á leiðinni verður áð í Pompei sem geymir frægustu fornminjar veraldar. Farið verður í ævintýralega siglingu til Caprí, sæbrattrar klettaeyju þar sem siglt verður í Bláa hellinn og farið með stólalyftu upp á hæsta fjall eyjunnar. Stórbrotin náttúrufegurð umleikur okkur í þessum dásamlega Ítalíudraumi. 

Verð á mann 492.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 108.900 kr.


Innifalið

 • 15 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Ferja til og frá Caprí og litlir strætisvagnar um Caprí.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir, kláfa og kirkjur.
 • Siglingar.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Aðgangur inn í Pompei u.þ.b € 19.
 • Sigling og önnur sigling inn í Bláa hellir u.þ.b € 33.
 • Kláfur upp á Monte Solaro fjall u.þ.b € 13. 
 • Bátsferð með Gargano ströndinni u.þ.b € 15.
 • Aðgangur í Hellaborgin Matera u.þ.b € 17.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

30. ágúst | Flug til Mílanó & Piacenza

Brottför frá Keflavík kl. 15:45 og mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 22:00 að staðartíma. Gist verður í eina nótt í Piacenza sem er suður af Mílanó.

31. ágúst | Piacenza & Vieste við Gargano ströndina

Eftir góðan morgunverð verður ekið suður að sporanum á hæl Ítalíustígvélsins og inn á Gargano fjalllendið sem rómað er fyrir fagrar strendur milli stórbrotinna kletta. Höldum til bæjarperlunnar Vieste við Gargano ströndina en hér gistum við þrjár nætur. Á hótelinu er sólbaðsaðstaða með útisundlaug og nokkur skref að ströndinni. Einnig er pallur með borðum og stólum þaðan sem er ægifagurt útsýni yfir gylltu ströndina.

1. september | Frjáls dagur í Vieste & sigling með Gargano ströndinni

Við byrjum á því að rölta um þennan undurfagra bæ sem er einn af stjörnum Gargano strandarinnar. Eftir hádegishressingu væri upplagt að fara í siglingu með fram suðurhluta Gargano strandarinnar og virða fyrir sér ægifagra hvíta kletta og hella milli skjólsælla sólríkra stranda. Hér lætur fegurðin ekki á sér standa.

Opna allt

2. september | Monte Sant´Angelo & San Giovanni Rotondo

Í dag bíður okkar bærinn Monte Sant´Angelo sem liggur hæst allra bæja Gargano fjallanna og trónir sem kóróna í 850 m hæð. Þaðan er ægifagurt útsýni yfir Manfredonia flóann og sléttur Foggia héraðsins. Monte Sant´Angelo er einn mikilvægasti pílagrímsstaður Apulia en sagan segir að Mikael erkiengill hafi birst þar og farið fram á að hellir á svæðinu yrði helgaður Guði og myndi hann þá verja bæinn gegn árásum heiðingja. Við ökum síðan til San Giovanni Rotondo. Þangað koma árlega milljónir pílagríma til að heiðra heilagan föður Pio en hann var uppi frá 1887–1968 og var þekktur fyrir kraftaverkalækningar. Við munum leggja í útjaðri bæjarins og taka okkur far með lítilli bæjarlest inn í bæinn.

3. september | Castel del Monte, Trani & Ostuni

Við ökum svo suður Puglia héraðið á fallegasta stígvélahæl í heimi og áleiðis til Ostuni. Á leiðinni þangað verður staldrað við í borginni Trani þar sem drottningu dómkirkjanna, St. Nicola il Pellegrino, er að finna. Fallegri hlið kirkjunnar snýr út að hafinu en á henni eru merkilegar bronshurðir og einn fegursti turninn í öllu Apulia. Hér verður tími til að fá sér hressingu og skoða kirkjuna. Eftir það verður ekið að Castel del Monte kastalanum sem Friedrich II Staufer keisari lét byggja. Kastalinn sameinar mismunandi stíla í byggingarlist og er einn mesti fjársjóður Apulia. Að lokum komum við til litlu borgarinnar Ostuni sem betur er þekkt sem Hvíta borgin. Þessi einstaklega töfrandi borg með hvítkölkuðum húsum sínum líkist helst stórri rjómatertu þegar bæinn ber við augu. Hér munum við gista í sex nætur. Frá hótelinu er stórkostlegt útsýni yfir borgina og sólarveröndin er með útisundlaug. Einnig er verönd með veitingasvæði þar sem borðað er á kvöldinn. Frá hótelinu er um 5 mínútna gangur inn í gamla miðbæinn í Ostuni. 

4. september | Rólegur dagur í Ostuni & frjáls tími

Nú gefst tækifæri til að slaka á og njóta þessa dásamlega bæjar. Eftir morgunverð förum við saman í stutta skoðunarferð um bæinn en eftir það er upplagt að skoða sig betur um, líta inn í litlar, forvitnilegar verslanir og kynna sér líf bæjarbúa. Þeir sem vilja láta fara vel um sig á hótelinu geta nýtt góða aðstöðu þess, sett tærnar upp í loft í sólbaðsaðstöðunni eða heilsulindinni.

5. september | Alberobello & Trulli hús

Þessi ævintýradagur byrjar í bænum Alberobello, miðstöð Trulli svæðisins í Puglia. Heimsókn í Alberobello er mikil upplifun en árið 1996 var bærinn settur á heimsminjaskrá UNESCO fyrir sérkennilegar byggingar. Þar eru um 1.000 lítil og hringlaga, hvítkölkuð, hlaðin steinhús með keiluþökum. Húsin eru einkennandi fyrir svæðið og voru notuð sem hús hjarðmanna og bænda en í stærsta húsinu er að finna merkilegt safn. Einstaklega heillandi er að ganga um götur bæjarins þar sem finna má fjölda minjagripaverslana og víða býðst að smakka á fljótandi gulli heimamanna, ólífuolíunni sem á þessum slóðum drýpur af hverju strái. Við förum einnig í huggulega vínsmökkun á verönd eins Trulli hússins og njótum útsýnis yfir bæinn. Eftir skoðunarferð er frjáls tími til að fá sér hressingu og kanna mannlíf bæjarins.

6. september | Hellaborgin Matera & Altamura

Það er mikil upplifun að koma til borgarinnar Matera sem er á dagskrá okkar í dag en hún hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO frá árinu 1993. Ólýsanlegt er að koma þangað og sjá hús, kirkjur og hallir frá 4. öld f. Kr. sem hoggnar eru inn í bergið og minna á gömlu Jerúsalem eða katakompurnar. Árið 1950 bjuggu enn um 20.000 manns hér en þessir hellabústaðir eru kallaðar Sassi. Á leiðinni til baka verður stoppað í Altamura til að skoða stæðilega dómkirkju með frægri gluggarós.

7. september | Virkisbærinn Otranto

Í dag verður ekið til virkisbæjarins Otranto sem skartar framandi grískum blæ en þar er umhverfið dýrðlegt. Dómkirkjan er fræg vegna kirkjugólfsins sem er lagt mósaík en um 10 milljónir steina segja 700 sögur, til að mynda sögur mánaðanna og ýmissa hetja mannkynssögunnar. Þetta stórvirki listasögunnar er gott dæmi um þrotlaust strit listamanna fyrri tíma. Bærinn er yndislegur og fegurðin við Adríahafið er einstök. Við gefum okkur góðan tíma til að njóta alls sem bærinn hefur upp á að bjóða. Á góðum degi sést þaðan alla leið yfir til Albaníu.

8. september | Frjáls dagur í Ostuni

Rólegheit og slökun á þessum fagra stað. Upplagt að nota aðstöðuna við hótelið eða fara í göngu með ströndinni. Einnig er hægt að líta á kaupmenn bæjarins og fá sér hressingu á kaffi- og veitingahúsum bæjarins.

9. september | Pompei & Sorrento

Nú kveðjum við Ostunia eftir yndislega dvöl og er stefnan tekin á Sorrento við Napólíflóa, einn fallegasta flóa landsins. Á leiðinni þangað heimsækjum við Pompei og lítum á einhverjar frægustu fornminjar veraldar. Rústir gömlu Pompei eru eitt stórkostlegasta dæmið um fornleifauppgröft heillar byggðar og mun heimamaður leiða okkur í allan sannleikann um söguna. Eftir að hafa staldrað við í Pompei drykklanga stund höldum við áfram til Sorrento. Bærinn er einstaklega heillandi, byggður í bröttum hlíðum þar sem vaxa ólífu- appelsínu- og sítrónutré en þess má geta að Limoncello líkjörinn frægi kemur frá þessu svæði. Gist verður í fjórar nætur í Sorrento á góðu hóteli en þaðan er stórkostlegt útsýni yfir Napólíflóann.

10. september | Dagur í Sorrento við Napólíflóa

Dagurinn er tilvalinn til afslöppunar. Fararstjórinn býður upp á stutta skoðunarferð um bæinn og eftir það er upplagt að kanna dásamlegt umhverfið í Sorrento, eins eftirsóttasta ferðamannabæjarins á Sorrento skaganum. Í bænum er fjöldinn allur af þröngum, gömlum götum, fögrum kirkjum og glæstum byggingum.

11. september | Sigling yfir á eyjuna Caprí

Nú verður siglt yfir á eyjuna Caprí, perlu Napólíflóans. Við skoðum eyjuna, siglum að Bláa hellinum, Grotta Azzurra, og förum upp til Anacapri þar sem við njótum stórfenglegs útsýnis. Áhugasömum gefst einnig tækifæri til að fara með stólalyftu upp á fjallið Monte Solaro en þar lætur fegurðin ekki á sér standa. Jafnframt verður komið í bæjarhlutann Caprí og hægt verður að skoða alls kyns handunnar vefnaðarvörur eins og kniplinga, dúka og fatnað.

12. september | Rólegheit & slökun í Sorrento

Á þessum dýrðardegi er slökun og rólegheit á dagskrá. Nú er hægt að njóta alls sem staðurinn hefur upp á að bjóða og baða sig í náttúrufegurð Napóliflóa.

13. september | Heimferð frá Róm

Þá er Ítalíudraumurinn á enda eftir yndislega daga og skemmtilega samveru. Ekið verður til Róm en brottför þaðan er kl. 16:00 og lending í Keflavík kl. 18:45 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00