Strandperlur Eystrasaltsins

Þessi skemmtilega og fjölbreytta ferð hefst við hið víðfeðma Müritzvatn, stærsta stöðuvatn sem liggur alfarið innan Þýskalands. Vatnið er hjarta Müritz þjóðgarðsins, landslagsperlu sem spannar yfir 300 km² og geymir óteljandi vötn, forna skóga og votlendi sem eru heimkynni sjaldgæfra fugla. Svæðið var áður hluti af Austur-Þýskalandi og lokað almenningi en hefur nú umbreyst í friðsælt athvarf náttúruunnenda og göngufólks. Við yfirgefum meginlandið og förum yfir brú til hinnar fögru Eystrasaltseyju, Rügen, stærstu eyju Þýskalands. Eyjan er heillandi ferðamannastaður og býður upp á skemmtilega strandmenningu ásamt einstakri náttúru, sögu og menningu. Frá Rügen förum við yfir til hafnarborgarinnar Stralsund, einnar af helstu Hansaborgum miðalda. Söguáhugafólk fær svo sannarlega sitt þegar við heimsækjum Peenemünde, staðinn þar sem Þjóðverjar þróuðu eldflaugar á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Við ferðumst eftir strandlengju Usedom eyjunnar með sína einstaklega fallegu strandbæi. Ferðinni lýkur við strendur Póllands í borginni Świnoujście eða Swinemünde, þar sem Eystrasalt mætir sögu og endurnýjun. Hér munum við njóta sjávarloftsins, ganga um söguríkar götur og drekka í okkur andrúmsloftið á þessum heillandi slóðum við Eystrasalt. Hrífandi og áhugaverð ferð um svæði sem eitt sinn voru hulin bak við múra og járntjald en heilla nú með allri sinni fegurð, fjölbreyttri náttúru og ríkri menningu. 

Verð á mann 389.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 38.600 kr.


Innifalið

  • 9 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverðir.
  • Sjö kvöldverðir.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Hádegisverðir.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Valfrjálst

  • Peenemünde safnið u.þ.b. € 14.

Nánari upplýsingar

Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

21. ágúst │ Flug til Berlínar & Waren við Müritzsee

Flogið er til Berlínar, brottför frá Keflavík kl. 7:35 en mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Við lendum í Berlín kl. 13:10 og ökum til Waren við Müritzsee þar sem við gistum í tvær nætur á hóteli við vatnið. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

22. ágúst │ Ljúfur dagur við Müritz vatn

Nú njótum við náttúrufegurðarinnar við Müritz vatn. Vatnið, sem dregur nafn sitt af slavneska orðinu yfir „litla hafið“, er hjarta Müritz þjóðgarðsins, landslagsperlu sem spannar yfir 300 km² og geymir óteljandi vötn, forna skóga og votlendi sem eru heimkynni sjaldgæfra fugla eins og fiskarna og grátrana. Þetta líflega og fjölbreytta náttúrusvæði var áður hluti af Austur-Þýskalandi og lokað almenningi. Eyðum hluta dagsins í Waren sem er fallegasti bærinn við vatnið með sínum einstöku bindingsverkhúsum. Hægt er að skoða plöntu- og fuglalífið í siglingu á vatninu eða fara í göngutúr í þjóðgarðinum sem liggur við bæinn. Kvöldverður á eigin vegum.

23. ágúst │ Stralsund & Rügen – eyjan undurfagra

Í dag höldum við í norðurátt og keyrum fallega græna leið, fram hjá ökrum og litlum sveitaþorpum, áður en við komum að Stralsund. Skoðum okkur aðeins um þar með fararstjóra og fáum okkur hressingu. Við höldum svo yfir brúna sem tengir Stralsund við stærstu eyju Þýskalands, Rügen. Eyjan er vinsæll ferðamannastaður og býður upp á einstaka blöndu af náttúru, sögu og menningu. Hér dveljum við á góðu strandhóteli í fjórar nætur og njótum og kynnumst öllu því helsta sem þessi yndislega eyja hefur upp á að bjóða. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

Opna allt

24. ágúst │ Rügen & Prora

Í dag ætlum við að kynnast Rügen aðeins betur. Eyjan er rómuð fyrir sínar fögru strendur og hvíta kalksteinskletta við Jasmund þjóðgarðinn og þar ber hæst Königsstuhl kletturinn, sem einn og sér er næg ástæða til að heimsækja Rügen. Á leið okkar um Rügen sjáum við Prora, reist af nasistastjórninni og sennilega eitt umdeildasta mannvirki Þýskalands. Byggingin, sem er um 4,5 km á lengd, var hönnuð sem sumardvalarstaður fyrir um 20 þúsund manns og aðhylltust nasisma. Sturluð framkvæmd, sem á sér enga hliðstæðu í sögunni. Prora náði lítið að sanna notagildi sitt því síðari heimsstyrjöldin braust út á svipuðum tíma og byggingu búðanna lauk. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

25. ágúst │ Stralsund & Peenemünde

Eftir góðan morgunverð höldum við yfir til Stralsund. Þessi fagra borg sem stendur við Eystrasaltið byggðist að stórum hluta á tímum Hansakaupmannaveldisins og var mikilvæg verslunarmiðstöð á tímum Hansasambandsins og varð hluti af Sænsku Pommern eftir Vestfalíufriðinn árið 1648. Borgarbúar geta líka státað sig af fallegri höfn og skemmtilegri baðströnd. Gamli bærinn í Stralsund er á heimsminjaskrá UNESCO og þar má sjá glæsilegar gotneskar byggingar, steinkirkjur og verslunarhús sem bera vitni um gullöld borgarinnar. Söguáhugafólk kemur ekki á þessar slóðir án þess að skoða Peenemünde, staðinn þar sem Þjóðverjar þróuðu V-1 og V-2 eldflaugarnar á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Þessi rólega strandbyggð varð miðstöð tæknibyltingar og hernaðarleyndar og í dag hýsir hún Peenemünde safnið sem varpar ljósi á dramatíska sögu svæðisins og áhrif þess á þróun geimferða og vopnatækni. Hægt er að fara um borð í kafbát frá síðari heimsstyrjöldinni. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

26. ágúst │ Frjáls dagur á Rügen

Í dag gefst tækifæri til að kynnast eyjunni betur á eigin vegum. Það er t.d. stutt til Sellin sem er einn skemmtilegasti strandbærinn á eyjunni Rügen með úrvali vandaðra veitingastaða og verslana. Hér er gaman að kynnast strandmenningu sem er svo skemmtilega öðruvísi en menn eiga að venjast frá Suður-Evrópu. En einnig er hægt að njóta aðstöðunnar á hótelinu og strandarinnar. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

27. ágúst │ Usedom & Pólland

Við kveðjum nú Rügen og ökum til eyjunnar Usedom, sögufrægrar eyju við Eystrasaltið og landamæri Þýskalands og Póllands. Eyjan er næststærsta eyja Þýskalands og er þekkt fyrir fallegar sandstrendur og strandbæi og því afar vinsæll áfangastaður ferðamanna. Skoðum Heringsdorf, þar sem Wilhelm Þýskalandskeisari sótti í náttúrufegurð og heilnæmt sjávarloft. Þarna má segja að norður-þýsk strandmenning hafi orðið til en hún rekur sögu sína aftur til 19. aldar. Strandbæjararkitektúrinn þarna er einstakur, bryggjur og gangstéttar nær upprunalegar og svo ekki sé talað um strandkörfurnar. Austasti hluti Usedom eyjunnar tilheyrir Póllandi og þangað höldum við þegar líður á daginn. Við stoppum á landamærunum Póllands megin, en þar er einn stærsti sölumarkaður Póllands. Þar er keppst um að selja allt milli himins og jarðar og gaman að sjá óvenjulegt úrval söluvarnings. Við ökum svo á hótelið okkar í strandborginni Świnoujście eða Swinemünde þar sem við borðum saman kvöldverð.

28. ágúst │ Świnoujście í Póllandi

Í dag kynnumst við Świnoujście betur með heimamanni. Borgin, sem liggur á þremur eyjum Usedom, Wolin og Karsibór, fór mjög illa í síðari heimstyrjöldinni og ber þess enn merki. Við förum stuttlega í gegnum stórbrotna og átakanlega sögu Póllands og tökum stöðu mála þar í landi nú þegar yfir 30 ár eru liðin frá falli járntjaldsins. Staldrað verður við í miðborg Świnoujście þar sem menn geta fengið sér pólska pylsu og Tyskie bjór. Ströndin við Świnoujście þykir ein sú fallegasta í Póllandi. Hér má finna fjölda veitingastaða og kaffihúsa og því vel hægt að mæla með göngutúr um þessa fegurstu strönd landsins sem er rétt við hótelið okkar. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

29. ágúst │ Heimferð frá Berlín

Eftir frábæra ferð er komið að heimferð. Við ökum til Berlínar en brottför frá flugvellinum í Berlín er kl. 14:05 og lending í Keflavík kl. 15:50 að staðartíma. 

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

  • Waren am Müritzsee – Seehotel Ecktannen
  • Rügen – Aja Hotel
  • Świnoujście – Platino Mare Spa & Resort

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Kristín Jóhannsdóttir

Kristín Jóhannsdóttir er fædd árið 1960 og uppalin í Vestmannaeyjum.  Eftir stúdentspróf frá MH lá leiðin til Noregs, en Kristín bjó í Osló og vann á skrifstofu Flugleiða í tvö ár. Eftir það fluttist hún til Þýskalands, en hún hefur búið bæði í austur og vesturhlutanum þ.e. Freiburg, Berlín, Leipzig og Frankfurt í 20 ár. Kristín stundaði nám í Freiburg, Berlín og Leipzig og lauk magisterprófi í bókmenntum og sagnfræði árið 1991 frá Freie Universität í Berlín.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti