Suðræn sveifla við St. Tropez

Franska rivíeran eða Côte d’Azur í Provence héraðinu og Comovatn á Ítalíu taka á móti okkur í allri sinni dýrð. Ferðin byrjar við rætur Alpafjallanna í bænum Cadenabbia við Comovatn sem býr yfir einstakri náttúrufegurð. Þaðan verður farið til Como sem er stærsti bærinn við vatnið og í heillandi siglingu til Bellagio en það er ekki að ástæðulausu að bærinn er kallaður perla Comovatns.Nú bíður bærinn Sainte-Maxime eftir okkur en hann stendur við hinn hrífandi St. Tropez flóa. Við upplifum töfrandi fegurð flóans einnig á siglingu til listamannabæjarins samnefnda, sem er einn frægasti bærinn við frönsku rivíeruna og heimabær leikkonunnar Brigitte Bardot. Suðrænn blær frönsku rivíerunnar leikur um okkur í furstadæminu Mónakó sem ógleymanlegt er að sækja heim. Stórbrotin fegurð ber við augu á leið okkar um Gullströndina, La Corniche de l’Estérel, á leiðinni til Cannes. Það verður dásamlegt að eiga rólegan dag í bænum Sainte-Maxime áður en við endum með trompi í bænum Annecy sem er einn fallegasti bær frönsku Alpanna. Á leiðinni þangað verður stoppað í Aix-en-Provence sem er með glæsilegustu, en einnig dýrustu, borgum Frakklands.

Verð á mann 299.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 76.600 kr.


Innifalið

 • 12 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Siglingar.
 • Vínsmökkun.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Sigling til St. Tropez ca € 15. 
 • Sigling á Comovatni ca 20.
 • Smálest í Sainte-Maxime ca € 10.
 • Höll furstafjölskyldunnar í Mónakó ca € 15.
 • Spilavítið í Monte Carlo ca € 18.
 • Sigling á Annecy vatni ca € 15.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

10. maí | Flug til Zürich & ekið að Comovatni

Brottför frá Keflavík kl. 7:20, mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 3 klst. fyrir brottför. Lending í Zürich í Sviss kl. 13:05 að staðartíma. Þaðan verður ekin fögur leið í átt að Comovatni á Ítalíu sem býr yfir einstakri náttúrufegurð. Vatnið er við rætur Alpafjalla og hefur verið eftirsótt af hefðarfólki frá fornu fari og enn er það svo að ríka og fræga fólkið sækir þangað. Á þessum yndislega stað við bæinn Cadenabbia ætlum við að gista fyrstu tvær næturnar.

11. maí | Ljúfur dagur í Como við Comovatnið

Við ætlum að eiga ljúfan dag í bænum Como sem er stærsti bærinn við vatnið og sá sem gefur því nafn. Staðsetningin við Como vatnið er yndisleg og margt sem gleður augað, m.a. er dómkirkjan í miðbænum einkar glæsileg. Bærinn Como hefur verið frægur fyrir silkiframleiðslu í margar aldir. Við ætlum að njóta þess að vera í þessum fallega bæ sem er umvafinn náttúrufegurð og skoða okkur um, líta inn á kaupmennina og kynna okkur líf bæjarbúa.

12. maí | Sigling á Comovatni & Bellagio

Á dagskrá okkar í dag er töfrandi og skemmtilegur dagur. Njótum þessa fallega landslags sem umlykur okkur líkt og mynd á póstkorti. Síðan ætlum við í siglingu frá litlu höfninni sem er rétt við hótelið okkar til Bellagio sem er á fagurgrænum tanga og ekki að ástæðulausu að bærinn er kallaður perla Comovatns. Litríkur og skemmtilegur bær með sínum hlykkjóttu, mjóu götum en það er dásamlegt að njóta lífsins í svona fallegum bæ í kringum skemmtilegar, litlar verslanir og hugguleg veitinga- og kaffihús.

Opna allt

13. maí | Sainte-Maxime við Côte d'Azur

Eftir góðan morgunverð verður ekið að frönsku rivíerunni eða Côte d'Azur ströndinni til yndislega bæjarins Sainte-Maxime við St. Tropez flóa sem er rómaður fyrir fegurð. Þar verður gist í sex nætur á huggulegu hóteli nálægt ströndinni. Hótelið er með sundlaugargarði, sólbaðsaðstöðu, líkamsrækt, innisundlaug og heilsulind með tyrknesku gufubaði.

14. maí | Stutt gönguferð í Sainte-Maxime & frjáls tími

Eftir góðan morgunverð verður farið í stutta gönguferð um Sainte-Maxime, sem færir okkur nær lífinu við ströndina. Þetta er einn af vinsælustu ferðamannabæjum Côte d'Azur strandarinnar og búa þar um 12.000 manns. Það má segja að bærinn hafi notið góðs af frægð St. Tropez bæjarins sem er hinum megin við flóann og er Sainte-Maxime nú með fínni bæjum strandarinnar. Í Sainte-Maxime er jafnframt ein best útbúna lystisnekkjuhöfn strandarinnar. Eftir hádegi verður frjáls tími til að kanna bæinn betur á eigin vegum og fá sér hádegishressingu. Einnig er upplagt að nýta sér glæsilegu aðstöðuna við hótelið okkar.

15. maí | Bátsferð til St.Tropez & smálest

Við höldum í glæsilega siglingu yfir til listamannabæjarins St. Tropez. Smálest ferjar okkur niður að höfn þar sem báturinn bíður okkar. Bærinn er einn aðaláfangastaður hinna ríku og frægu við frönsku rivíeruna. Brigitte Bardot býr þar og einnig halda ýmsar Hollywood stjörnur þar til í sínu orlofi. Við förum í skoðunarferð um þennan fallega, gamla virkisbæ og síðar gefst góður tími til að kanna líflegan bæinn á eigin vegum. Það er til að mynda mikil upplifun að skoða lystisnekkjur fræga fólksins í höfninni. Að lokinni siglingu aftur til Sainte-Maxime mun smálestin ferja okkur til baka á hótelið.

16. maí | Furstadæmið Mónakó & spilavítin í Monte Carlo

Þennan skemmtilega dag heimsækjum við furstadæmið Mónakó, stundum kallað dvergríkið Mónakó. Byrjað verður á að stoppa við kaktusgarðinn en þaðan er glæsilegt útsýni yfir borgina og klettinn sem gamli bærinn var reistur á. Við höldum í skoðunarferð um klettaborgina en þar er að finna höll furstafjölskyldunnar og dómkirkjuna þar sem Grace Kelly var borin til grafar. Glæsileg bygging Grand Casino spilavítisins í Monte Carlo hverfinu verður einnig skoðuð og komum við inn í Grand Casino spilavítið.

17. maí | Gullströndin & Cannes

Nú verður ekin falleg leið með La Corniche de l'Estérel ströndinni sem kölluð er Gullströndin. Stórbrotið landslag ber fyrir augu á leiðinni til Cannes, heillandi borgar á fallegum stað. Í Cannes verður gengið að kvikmyndahöllinni og rauða dreglinum en Cannes er einmitt frægust fyrir alþjóðlegu kvikmyndahátíðina sem haldin er þar ár hvert. Síðdegis gefst frjáls tími til þess að skoða borgina, sýna sig og sjá aðra.

18. maí | Frjáls dagur í Sainte-Maxime

Í dag njótum við þess að eiga frjálsan dag í Sainte-Maxime. Hægt verður að nýta sér aðstöðuna við hótelið, kanna betur fallega miðbæjarkjarnann, líta inn í skemmtilegar verslanir og fá sér hressingu á einhverju hinna fjölmörgu veitingahúsa bæjarins. Einnig er upplagt að fara í göngu meðfram ströndinni.

19. maí | Aix-en-Provence & Annecy

Í dag kveðjum við þennan draumfagra stað og ökum til Annecy, perlu frönsku Alpafjallanna, en á leiðinni þangað verður stoppað í Aix-en-Provence sem er með stærri háskólaborgum landsins og nema þar um 30.000 háskólanemar. Segja má að borgin sé með dýrustu en einnig glæsilegustu borgum landsins, umkringd fjöllum og sléttum. Á listasöfnum og í kirkjum borgarinnar má líta glæsta fortíð en einnig bera fjölmargar einkahallir sem byggðar voru í barokkstíl á 17. og 18. öld merki um glæsileikann. Í dag eru þessar einkahallir reknar sem lúxushótel. Aix, eins og hún er jafnan kölluð, er einnig þekkt fyrir gómsæta möndlukonfektið sitt, Calissons. Við röltum saman um elsta hluta borgarinnar og eftir það verður frjáls tími til að njóta og fá sér hressingu. Eftir góðan tíma þar verður ekið til Annecy þar sem gist verður í tvær nætur.

20. maí | Skemmtilegur dagur í Annecy

Við hefjum daginn á gönguferð um Annecy sem er yndisleg borg og nær að hrífa alla með sér. Borgin, sem liggur inn á milli fjallanna, er ein þeirra elstu í frönsku Ölpunum. Yfir henni gnæfir aldagömul höll og eru mörg húsanna frá 16.-18. öld. Eftir skoðunarferðina gefst frjáls tími þar sem áhugasamir geta meðal annars farið í töfrandi siglingu á vatninu.

21. maí | Heimferð frá Genf

Þá er þessi glæsilega ferð á enda. Ekið verður til Genf en brottför þaðan er kl. 14:00 og lending í Keflavík kl. 15:50 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00