17. - 24. september 2023 (8 dagar)
Tíról í Austurríki er heill ævintýraheimur út af fyrir sig. Fegurð Alpafjallanna umlykur okkur og náttúran skartar sínu fegursta. Eftir flug til München verður ekið til Seefeld í Tíról sem er í um 1.180 m hæð, umvafinn Wetterstein, Mieminger og Karwendel fjöllunum. Bærinn er með þekktustu ferðamannabæjum Tíról. Þar gistum við í sjö nætur og förum í skemmtilegar skoðunarferðir, m.a. til Innsbruck sem er höfuðstaður Tíról, að Achensee vatninu sem er eitt fallegasta vatn Tíróls og til Gramai Alm þjóðgarðsins. Við heimsækjum Swarovski kristalsverksmiðjuna í Wattens, ökum fallega leið yfir Brennerskarðið til Brixen í Suður-Tíról á Ítalíu og heimsækjum vínbónda í Isarco dalnum. Farið verður með kláfi upp á hæsta fjall Þýskalands, Zugspitze, en þaðan er stórglæsilegt útsýni yfir Alpana. Á leiðinni þaðan verður komið við í bænum Mittenwald, sem á sér engan líka með litlum myndskreyttum húsum og skemmtilegum verslunum.