Tindrandi Tíról

Tíról í Austurríki er heill ævintýraheimur út af fyrir sig. Fegurð Alpafjallanna umlykur okkur og náttúran skartar sínu fegursta. Eftir flug til München verður ekið til Seefeld í Tíról sem er í um 1.180 m hæð, umvafinn Wetterstein, Mieminger og Karwendel fjöllunum. Bærinn er með þekktustu ferðamannabæjum Tíról. Þar gistum við í sjö nætur og förum í skemmtilegar skoðunarferðir, m.a. til Innsbruck sem er höfuðstaður Tíról, að Achensee vatninu sem er eitt fallegasta vatn Tíróls og til Gramai Alm þjóðgarðsins. Við heimsækjum Swarovski kristalsverksmiðjuna í Wattens, ökum fallega leið yfir Brennerskarðið til Brixen í Suður-Tíról á Ítalíu og heimsækjum vínbónda í Isarco dalnum. Farið verður með kláfi upp á hæsta fjall Þýskalands, Zugspitze, en þaðan er stórglæsilegt útsýni yfir Alpana. Á leiðinni þaðan verður komið við í bænum Mittenwald, sem á sér engan líka með litlum myndskreyttum húsum og skemmtilegum verslunum.

Verð á mann 289.800 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 15.400 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar. 
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hóteli.
  • Skemmtikvöld með tónlist og dansi.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
  • Siglingar.
  • Hádegisverðir.
  • Vínsmökkun.
  • Þjórfé.
  • Forfalla- og ferðatryggingar.

Valfrjálst

  • Lest og kláfur upp á Zugspitze u.þ.b. € 63. 
  • Vínsmökkun u.þ.b. € 20. 
  • Aðgangur í Swarovski safnið u.þ.b. € 13.
  • Aðgangur í fiðlusafnið í Mittenwald u.þ.b. € 8. 

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

17. september | Flug til München & Seefeld í Tíról

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Þaðan verður ekið til fjallanna í Tíról í Austurríki eða nánar tiltekið til Seefeld. Bærinn er líflegur og skemmtilegur og stendur á hásléttu í 1.180 m hæð sem er innrömmuð af fjöllunum. Þarna verður gist í sjö nætur á góðu hóteli í miðbænum.

18. september | Dagur í Innsbruck & Swarovski safnið

Í dag verður byrjað á því að aka til Innsbruck, höfuðstaðar Tíról sem hvílir hér í fjalladýrðinni. Miðaldahluti borgarinnar er sérstaklega heillandi en Innsbruck var ein af borgum Habsborgaranna. Ætt Habsborgara var ein mikilvægasta konungsætt Evrópu og var blómatími borgarinnar á 15. öld undir stjórn Maximilian I af Habsborg. Hann lét byggja húsið með gullþakinu sem stendur við eitt fallegasta torgið í Tíról og vekur jafnan mikla athygli. Borgin var á þeim tíma ein af menningar- og listaborgum landsins. Hér höldum við í stutta skoðunarferð en eftir hana verður hægt að kanna borgina á eigin vegum, líta inn til kaupmanna í Maria Theresien Straße og setjast inn á kaffihús. Eftir skemmtilega skoðunarferð og frjálsan tíma í borginni verður ekið til Wattens en þar eru Swarovski verksmiðjurnar staðsettar og safnið sem sett var upp á 100 ára afmæli þeirra. Auðvitað verður gefinn tími til að skoða verslun staðarins.

19. september | Dagur í Brixen

Á dagskrá okkar í dag er bærinn Brixen í Suður-Tíról á Ítalíu. Farið verður í skemmtilega gönguferð um elsta hluta bæjarins sem er aðalbær Eisackdalsins, við rætur fjallsins Plose. Í þessum 20.000 manna snotra bæ eru gamlar götur, brýr, kirkjur og söfn. Þar mætast árnar tvær Isarco og Rienza og þetta allt, ásamt vínekrum og aldingörðum, gerir Brixen að einstaklega heillandi áfangastað. Góður tími gefst til að fá sér hressingu og kanna líf bæjarbúa. Á leiðinni til baka förum við í skemmtilega vínsmökkun í Irsaco dalnum. Við höldum yfir Brennerskarðið á bakaleiðinni en sú leið er bæði stórbrotin og undurfalleg.

Opna allt

20. september | Frjáls dagur í Seefeld & Rosshütte fjallið

Tökum daginn rólega, byrjum á góðum morgunverði og förum síðan í stutta skoðunarferð um Seefeld sem er með eftirsóttustu ferðamannabæjum Tíról. Bærinn er umkringdur fjöllum en hér áður var þetta mikið vatnasvæði og ber nafn bæjarins það með sér. Eftir stutta göngu með farastjóranum gefst frjáls tími það sem eftir er dags. Hér er margt hægt að gera, t.d. fara með hestvagni um bæinn, ganga hringinn í kringum vatnið eftir þægilegri gönguleið og svo er hægt að fara upp á Rosshütte fjallið með kláfi sem fer upp í 1.784 m hæð. Þar er gott veitingahús og upplagt að fá sér kaffi og tertusneið. Deginum lýkur með hátíðarkvöldverði og skemmtikvöldi á hótelinu, tónlist og dansi.

21. september | Zugspitze & Mittenwald

Í dag verður farið með lest og kláfi upp á hæsta fjall Þýskalands, Zugspitze í 2.963 m hæð. Þaðan er stórkostlegt útsýni yfir þýsku og austurrísku Alpana. Á leiðinni til baka verður komið við í bænum Mittenwald, sem á sér engan líka með litlu myndskreyttu húsunum og skemmtilegum verslunum. Bærinn er frægur fyrir smíði strengja- og plokkhljóðfæra og stendur minnisvarði af Matthias Klotz, upphafsmanni fiðlusmíði í Mittenwald, fyrir utan fiðlusafn bæjarins.

22. september | Innsbruck & frjáls tími í Seefeld

Fyrir hádegi eða kl 9:00 ætlum við að bjóða upp á ferð inn í Innsbruck. Þar gefst frjáls tími til að líta inn á kaupmenn borgarinnar, rölta um fallega miðbæinn eða kíkja á söfn sem eru mörg mjög áhugaverð. Um kl. 13:30 verður ekið til baka til Seefeld en þá er upplagt að nota frábæra aðstöðuna á hótelinu og fara í gufu og heitan pott í heilsulindinni.

23. september | Achensee & Gramai Alm þjóðgarðurinn

Nú er komið að Achensee vatninu sem er eitt fallegasta og jafnframt stærsta vatn Tíróls. Stoppað verður í Pertisau sem er lítill og skemmtilegur bær. Eftir það verður ekið til Gramai Alm, þjóðgarðs Karwendel-fjallanna sem er í 1263 m hæð. Þar er tilvalið að fá sér léttan hádegisverð og hægt er að skoða, osta- og pylsusel frá 16. öld.

24. september | Heimferð frá München

Eftir indæla og skemmtilega ferð verður ekið til München. Brottför þaðan kl. 14:05 og lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Inga S. Ragnarsdóttir

Leiðsögu- og myndlistamaðurinn Inga Sigríður Ragnarsdóttir hefur starfað fyrir Bændaferðir frá árinu 2004. Hún hefur farið í fjölda ferða um mið-Evrópu þar sem hún er á heimavelli en Asía hefur verið hennar kærasta sérsvið frá upphafi. Ferðir Ingu um lönd eins og Indland, Nepal, Tíbet, Víetnam, Kambódíu, Búrma, Laos og Japan hafa notið mikilla vinsælda en Kína hefur hún sótt heim á hverju ári, oft tvisvar, síðustu 15 árin. Inga segir töfra Kína vaxa eftir því sem maður kynnist landinu nánar en það hefur heillað hana allt frá því á unglingsárunum.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-14:00