Tindrandi Tíról

30. ágúst - 6. september 2026 (8 dagar)

Tíról í Austurríki er heill ævintýraheimur út af fyrir sig. Fegurð Alpafjallanna umlykur okkur og náttúran skartar sínu fegursta. Eftir flug til München verður ekið til Seefeld í Tíról sem er í um 1.180 m hæð, umvafinn Wetterstein, Mieminger og Karwendel fjöllunum. Bærinn er með þekktustu ferðamannabæjum Tíról. Þar gistum við í fimm nætur og förum í skemmtilegar skoðunarferðir, m.a. til Innsbruck sem er höfuðstaður Tíról, að Achensee vatninu sem er eitt fallegasta vatn Tíróls og í  Gramai Alm þjóðgarðsins. Við heimsækjum Swarovski kristalsverksmiðjuna í Wattens og farið verður með kláfi upp á hæsta fjall Þýskalands, Zugspitze, en þaðan er stórglæsilegt útsýni yfir Alpana. Á leiðinni þaðan verður komið við í bænum Mittenwald, sem á sér engan líka með litlum myndskreyttum húsum og skemmtilegum verslunum. Endum þessa ljúfu ferð með trompi í  lista- og menningarborginni München sem er höfuðborg Bæjaralands og býður upp á margt áhugavert og skemmtilegt að upplifa. Við skoðum m.a. helsta kennileiti München, Maríukirkjuna, og förum í Hofbräukeller, eitt frægasta brugg- og veitingahús borgarinnar.

Verð á mann 339.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 41.400 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar. 
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður alla daga.
  • Fimm kvöldverðir á hótelinu í Seefeld.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
  • Siglingar.
  • Tveir kvöldverðir í München.
  • Hádegisverðir.
  • Þjórfé.
  • Forfalla- og ferðatryggingar.

Valfrjálst

  • Kláfur upp á Zugspitze u.þ.b. € 66. 
  • Aðgangur í Swarovski safnið u.þ.b. € 17. 
  • Aðgangur í fiðlusafnið í Mittenwald u.þ.b. € 8. 

Nánari upplýsingar

Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

30. ágúst | Flug til München & Seefeld í Tíról

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Þaðan verður ekið til fjallanna í Tíról í Austurríki eða nánar tiltekið til Seefeld. Bærinn er líflegur og skemmtilegur og stendur á hásléttu í 1.180 m hæð sem er innrömmuð af fjöllunum. Þarna verður gist í fimm nætur á góðu hóteli í miðbænum. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

31. ágúst | Dagur í Swarovski safni & Innsbruck

Í dag verður byrjað á því að aka til Wattens en þar eru Swarovski verksmiðjurnar staðsettar og safnið sem sett var upp á 100 ára afmæli þeirra. Auðvitað verður gefinn tími til að skoða verslun staðarins. Eftir það verður ekið til Innsbruck, höfuðstaðar Tíról sem hvílir hér í fjalladýrðinni. Miðaldahluti borgarinnar er sérstaklega heillandi en Innsbruck var ein af borgum Habsborgaranna. Ætt Habsborgara var ein mikilvægasta konungsætt Evrópu og var blómatími borgarinnar á 15. öld undir stjórn Maximilian I af Habsborg. Hann lét byggja húsið með gullþakinu sem stendur við eitt fallegasta torgið í Tíról og vekur jafnan mikla athygli. Borgin var á þeim tíma ein af menningar- og listaborgum landsins. Hér höldum við í stutta skoðunarferð en eftir hana verður hægt að kanna borgina á eigin vegum, líta inn til kaupmanna í Maria Theresien Straße og setjast inn á kaffihús. Eftir skemmtilega skoðunarferð verður gefin frjáls tími til að njóta borgarinnar á eigin vegum. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

1. september | Frjáls dagur í Seefeld & Rosshütte fjallið

Tökum daginn rólega, byrjum á góðum morgunverði og förum síðan í stutta skoðunarferð um Seefeld sem er með eftirsóttustu ferðamannabæjum Tíról. Bærinn er umkringdur fjöllum en hér áður var þetta mikið vatnasvæði og ber nafn bæjarins það með sér. Eftir stutta göngu með fararstjóranum gefst frjáls tími það sem eftir er dags. Hér er margt hægt að gera, t.d. fara með hestvagni um bæinn, ganga hringinn í kringum vatnið eftir þægilegri gönguleið og svo er hægt að fara upp á Rosshütte fjallið með kláfi sem fer upp í 1.784 m hæð. Þar er gott veitingahús og upplagt að fá sér kaffi og tertusneið. Einnig er upplagt að nota þessa frábæru aðstöðu á hótelinu en heilsulindin bíður upp á nokkrar gerðir af gufuböðum, innrauðan klefa og sundlaug. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

Opna allt

2. september | Zugspitze & Mittenwald

Í dag verður farið með lest og kláfi upp á hæsta fjall Þýskalands, Zugspitze í 2.963 m hæð. Þaðan er stórkostlegt útsýni yfir þýsku og austurrísku Alpana. Á leiðinni til baka verður komið við í bænum Mittenwald, sem á sér engan líka með litlu myndskreyttu húsunum og skemmtilegum verslunum. Bærinn er frægur fyrir smíði strengja- og plokkhljóðfæra og stendur minnisvarði af Matthias Klotz, upphafsmanni fiðlusmíði í Mittenwald, fyrir utan fiðlusafn bæjarins. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

3. september | Achensee & Gramai Alm þjóðgarðurinn

Nú er komið að Achensee vatninu sem er eitt fallegasta og jafnframt stærsta vatn Tíróls. Stoppað verður í Pertisau sem er lítill og skemmtilegur bær. Eftir það verður ekið til Gramai Alm, þjóðgarðs Karwendel-fjallanna sem er í 1263 m hæð. Þar er tilvalið að fá sér léttan hádegisverð og hægt er að skoða, osta- og pylsusel frá 16. öld. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

4. september | Höfuðborgin München í Bæjaralandi

Nú verður stefnan tekin á München höfuðborg Bæjaralands, þar sem gist verður í tvær nætur. München er lista- og menningarborg landsins og verður ekið um helstu staði þessarar heillandi borgar, t.d. að Ólympíusvæðinu sem var byggt fyrir Ólympíuleikana 1972, BMW byggingunni og safninu, Maximilianeum þinghúsinu og gamla og nýja Pinakothek listasafninu. Við ökum einnig hjá Wittelsbacher brunninum og Viktualienmarkt, sem aðalmatarmarkaður borgarinnar. Kvöldverður á eigin vegum.

5. september | Gönguferð um München & frjáls tími

Þessi ljúfi dagur byrjar á gönguferð um miðborg München með fararstjóra okkar sem leiðir okkur um helstu staði borgarinnar. Helsta kennileiti München er gotneska dómkirkjan með laukturnunum tveimur, Maríukirkjan. Á torginu Marienplatz er eitt fallegasta ráðhús landsins en úr turninum hljómar ægifagurt klukknaspil tvisvar sinnum á dag. Ekki langt frá ráðhúsinu er kirkjan St. Peter eða Alter Peter eins og borgarbúar kalla hana. Þar er ákjósanlegur útsýnisstaður en sá sem kemst upp allar 306 tröppurnar verður ekki svikinn af útsýninu yfir miðbæ München. Endum gönguferðina í Hofbräukeller, einu frægasta brugg- og veitingahúsi borgarinnar þar sem bæjarbúar hittast gjarnan og spjalla saman yfir góðum mat og drykk. Bæverski hertoginn Wilhelm V. stofnaði Hofbräukeller árið 1589 og átti það að sjá um bjór fyrir Wittelsbach ættina. Þar er upplagt að fá sér hádegishressingu að hætti borgarbúa. Eftir það er frjáls tími til að skoða sig betur um í borginni. Kvöldverður á eigin vegum.

6. september | Heimferð frá München

Eftir indæla og skemmtilega ferð er komið að heimferð frá München. Brottför þaðan kl. 14:05 og lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

  • Seefeld – Hotel Bergland
  • München – Holiday Inn – City centre

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Ósk Vilhjálmsdóttir

Ósk Vilhjálmsdóttir nam myndlist við Hochschule der Künste í Berlín og hefur sinnt leiðsögn frá árinu 1992 meðfram myndlist og kennslu. Lengst af um náttúru Íslands og yfirleitt með franska og þýska ferðamenn. Árin 2003-2006 skipulagði hún ásamt Ástu Arnardóttur leiðangra um náttúrusvæði norðan Vatnajökuls. Í kjölfarið stofnaði hún eigin ferðaskrifstofu með náttúruvernd og slow-travel hugmyndafræði að leiðarljósi. Hún kom meðal annars á laggirnar námskeiðum fyrir börn og unglinga sem fjalla um náttúruskoðun og myndlist, árlegar ferðir um Þjórsárver o.fl. Undanfarinn áratug hefur hún auk þess skipulagt ferðir og námskeið fyrir Íslendinga í Marokkó, Þýskalandi og á Ítalíu. Nú hefur Ósk gengið til liðs við Bændaferðir og hlakkar til samstarfsins.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti