23. september - 2. október 2023 (10 dagar)
Gardavatn hefur verið einn vinsælasti áfangastaður Íslendinga til margra ára, enda meðal allra fegurstu staða á Ítalíu. Sjálfur Goethe líkti staðnum við himnaríki og skal engan undra. Við hefjum ferðina á því að aka suður á bóginn upp í stórbrotin Alpafjöllin og gistum í bænum Bolzano í Suður-Tíról þar sem líkamsleifar fjallabúans og veiðimannsins Ötzi eru varðveittar en hann lá undir ís í rúm 5000 ár. Riva del Garda tekur á móti okkur við hið sægræna Gardavatn en bærinn stendur á fallegum stað við vatnið og er einn vinsælasti ferðamannastaður svæðisins. Í ferðinni munum við fara í áhugaverðar skoðunarferðir, yndislega siglingu á Gardavatni til bæjanna Limone og Malcesine, fara til Feneyja og heimsækja Veróna, eina elstu borg Norður-Ítalíu. Við höldum til Seefeld í Tíról eftir góða daga við Gardavatn og njótum þar náttúrunnar milli hárra og tignarlegra fjalla síðustu daga ferðarinnar. Við heimsækjum Innsbruck, höfuðstað Tíról og komum við í Mittenwald, þar sem við skoðum myndskreyttu húsin í þeim huggulega bæ.