Sveitasæla á Englandi

Við bjóðum spennandi ferð til Norður-Englands þar sem skoðaðar verða ýmsar náttúruperlur, farið um þjóðgarða Yorkshire og á slóðir norrænna manna og fornra minja. Flogið verður til Manchester og þaðan haldið á hefðarsetrið Chatworh House þar sem má svo sannarlega upplifa sveitasælu ensku yfirstéttarinnar. Við höldum til York og förum þar á Jorvik Viking Centre sem er frábært safn frá víkingatímanum. Við rifjum upp ferð Egils Skallagrímssonar til York en þar orti hann hið þekkta kvæði Höfuðlausn. Farið verður um Jórvíkurdalina sem að hluta til eru þjóðgarðar. Þar verður komið við í skemmtilegum þorpum og bæjum og sögustaðir heimsóttir, s.s. kastali, fornminjar og kunnir staðir úr sjónvarpsþáttum. Einnig verður farið á safn Brontë systranna þar sem saga þessara merku bókmenntakvenna svífur yfir vötnum. Seinni hluta ferðar verður dvalið í hinni sögufrægu borg Chester þar sem við sjáum vel varðveitta borgarmúra frá miðöldum, hinn sérstaka svart-hvíta arkitektúr og stórbrotna dómkirkjuna. Í Norður-Wales heimsækjum við Conwy þar sem gengið verður um gamla miðaldakjarna bæjarins og litið á minnsta hús Bretlands og höldum í Caernarfon kastala. Síðasta daginn verður haldið til Bítlaborgarinnar Liverpool þar sem farið verður á ýmsa staði tengda þessari heimsfrægu hljómsveit.

Verð á mann í tvíbýli 359.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 106.200 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður allan tímann á hótelum.
  • Fjórir kvöldverðir. 
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Hádegisverðir.
  • Þrír kvöldverðir.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Valfrjálst

  • Víkingasafnið York u.þ.b. £11. 
  • Dómkirkjan York u.þ.b. £15.
  • Rievaulx Abbey u.þ.b. £11. 
  • Brontë Parsonage safnið u.þ.b. £13.
  • Caernarfon kastali u.þ.b. £15.

Nánari upplýsingar

Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

21. júní | Flug til Manchester, Chatworth House & York

Flogið er til Manchester árla dags, brottför frá Keflavík kl. 8:00 en mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Við lendum í Manchester kl. 11:40 og ökum til eins fallegasta hefðarseturs Englands, Chatworth House en hér var t.d. bíómyndin Pride and Prejudice tekin upp. Hér má upplifa sannkallaða sveitasælu ensku yfirstéttarinnar. Því næst verður ekið áfram til York og gist þar í þrjár nætur. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

22. júní | Víkingaborgin Jórvík/York

Við byrjum daginn á gönguferð á Víkingasafnið og fræðumst um innrás norskra víkinga á svæðið undir stjórn Haralds harðráða þann 25. september 1066. Á árunum 1976-1981 unnu enskir fornleifafræðingar kappsamlega að uppgreftri fornminja í York. Í ljós kom heill bær norrænna manna frá 9. og 10. öld. Víkingasafnið, sem nú varðveitir þessar minjar, býður upp á merkilega ferð aftur í tímann til þeirra ára þegar norrænir menn bjuggu hér. Tímavélin nemur staðar á tilteknum degi í október árið 948. Gestir frá 21. öld eru komnir í Lundgötu þar sem íbúar vinna sín daglegu störf. Hér er selt og keypt, hér angar hverfið af 10. aldar mat, fötum og húsdýrum og er upplifunin engri lík. Þegar við höfum dvalið í heimi norrænna manna á 10. öld um hríð, verður gengið til hinnar tilkomumiklu Dómkirkju staðarins. Eftir hádegi er frjáls tími til að skoða borgina betur. Kvöldverður á eigin vegum.

23. júní | Whitby

Farið er í dagsferð til Whitby. Ekið verður um hluta Jórvíkurþjóðgarðs og um Thirsk til Rievaulx Abbey, sem er fornfrægt og aflagt klaustur. Þaðan er farið til Goathland, sem er áhugaverður staður, en hér voru sjónvarpsþættirnir Heartbeat myndaðir og hér er lestarstöðin fræga í Hogwarts sem kom við sögu í kvikmyndunum um Harry Potter. Næst verður ekið til Whitby, sem er vinsæll baðstrandarbær, en á heimleiðinni verður farið um enskar sveitir og komið við í Osmotherley og stansað þar á sveitakrá. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

Opna allt

24. júní | Ripon, Brontë systur & Chester

Við yfirgefum nú York og höldum til Chester um annan hluta Jórvíkurþjóðgarðs. Farið er um Ripon, ekið um bæinn og jafnvel staldrað við í morgunkaffi. Á leiðinni heimsækjum við einnig rólega bæinn Haworth í Yorkshire þar sem við stígum inn í heim Brontë systranna á Brontë Parsonage safninu. Hér má sjá skrifborð þeirra, bréf og muni úr daglegu lífi. Andrúmsloftið er fullt af sögu og innblæstri og á heiðunum í kring má sjá landslagið sem mótaði Jane Eyre og Fýkur yfir hæðir (e. Wuthering Heights). Komum síðdegis til Chester. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

25. júní | Dagur í Chester

Að loknum morgunverði verður haldið í gönguferð um Chester. Í þessari tæplega 80 þúsund manna borg er fjöldi bygginga frá miðöldum og borgarmúrarnir þar eru sennilega þeir best varðveittu í Englandi. Við kíkjum á þessa aldagömlu borgarmúra og sjáum hinn merkilega svart-hvíta arkitektúr sem prýðir mörg hús í miðbænnum. Við heimsækjum dómkirkjuna, Chester Cathedral, einstaka byggingu sem upphaflega var byggð sem klaustur árið 1092. Seinna reis svo kirkja í rómönskum stíl en frá 1250 tók við merkilegt 250 ára tímabil þegar sú magnaða bygging í gotneska stílnum sem við skoðum reis. Eftir hádegi gefst hverjum og einum tími til að skoða borgina á eigin vegum. Kvöldverður á eigin vegum.

26. júní | Norður-Wales

Í dag verður haldið í skoðunarferð um Norður-Wales. Við ökum til Conwy þar sem gengið verður um gamla miðaldakjarna bæjarins og litið á minnsta hús Bretlands. Þaðan verður farið til Caernarfon en þar var Karl Englandskonungur krýndur sem Prinsinn af Wales af Elísabetu móður sinni árið 1969. Við skoðum Caernarfon kastala sem er eitt frægasta og áhrifamesta virki Bretlands. Þaðan keyrum við í suður og svo í austur í kringum Snowdon fjallið, hæsta fjall Wales (1085 m). Þjóðsagan segir að riddarar Arthúrs konungs hvíli undir fjallinu og að sverð hans liggi í vatninu, Llyn Llydaw, sem er nálægt toppi þess. Háir fjallgarðar eru áberandi í þjóðgarðinum en þar má líka finna straumharðar ár, fossa, skóga og stöðuvötn. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

27. júní | Á slóðir Bítlanna – Liverpool

Í dag verður haldið til Bítlaborgarinnar Liverpool þar sem við gistum síðustu nótt ferðarinnar. Við fetum í spor þeirra Paul, George, John og Ringo og röltum um hina sögufrægu tónlistargötu Mathew Street. Lítum inn í Dómkirkjuna í Liverpool og förum síðan að rústum kirkju heilags Lúkasar. Hún var eyðilögð í loftárás í maí 1941 en veggir hennar standa enn. Við endum gönguna við Bítlasafnið þar sem áhugasamir geta skoðað sig um og átt frjálsan eftirmiðdag og kvöld. Kvöldverður á eigin vegum.

28. júní | Heimferðardagur

Hópurinn fluttur af hóteli á flugvöll. Brottför frá Manchester kl. 13:05 og er lending áætluð í Keflavík kl. 14:50 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

York – Novotel York Centre
Chester – Crowne Plaza
Liverpool – Radisson Blu Liverpool Center

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Þórhallur Vilhjálmsson

Þórhallur Vilhjálmsson er fæddur í Reykjavík 1963. Hann nam markaðsfræði við háskólann í San Francisco og útskrifaðist þaðan árið 1990. Þórhallur hefur starfað sem leiðsögumaður um 30 ára skeið, fyrst á hálendi austurlands en síðan víðsvegar um landið en einnig í Evrópu, Norður-Ameríku og á Grænlandi. Þórhallur hefur verið fararstjóri hjá Bændaferðum síðan 2009.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

 

Tengdar ferðir




Póstlisti