Íslendingaslóðir í Vesturheimi

Þegar vesturfarar reyndu að fóstra með börnum sínum sömu ást, sömu tilfinningar og þeir sjálfir báru til ættlandsins höfðu þeir fá önnur úrræði en að segja og lesa sögur sem lýstu mannlífinu á Fróni og lífsbaráttunni sem þar hafði verið háð öldum saman. Frumbýlingar í Vesturheimi uppskáru sjaldnast eins og þeir sáðu, aðrir nutu ávaxtanna af erfiði þeirra. Þeir gleymdu þó aldrei uppruna sínum heldur kappkostuðu að minnast hans t.d. með árlegum sumarhátíðum. Þessi ferð snýst um að kynnast því hvernig afkomendur vesturfaranna rækta tengslin við Ísland og íslenska þjóð. Flogið verður til Minneapolis og gist eina nótt. Þaðan ökum við til Norður-Dakóta og gistum í Grafton, litlum bæ á sléttunni. Í Mountain dveljum við daglangt og fylgjumst með hátíð Íslendinga sem þar hefur verið haldin árlega nánast frá upphafi vesturferða. Á Gimli í Manitoba er merkasta hátíð Íslendinga í Kanada haldin ár hvert og þar verður margt að sjá. Skoðunarferð um Nýja-Ísland er að venju á dagskrá, förum meðal annars í Árborg, Riverton og Mikley. Snemma á Vesturfaratímabilinu varð Winnipeg höfuðból Íslendinga í Vesturheimi og gefst okkur tækifæri til að kynnast þessari merku borg. Ferðinni lýkur á upphafsreit í Minneapolis þar sem gist er eina nótt á góðum stað gegnt Mall of America.

Verð á mann í tvíbýli 438.000 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 160.800 kr.


Innifalið

 • 10 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Einfaldur morgunverður níu morgna.
 • Einn kvöldverður í Mountain.
 • Einn hádegisverður í Árborg.
 • Aðgangur að safni í Gimli.
 • Gönguferð um Winnipeg með innlendum leiðsögumanni.
 • Aðgangur að safni í Árborg.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, önnur en í Árborg og Gimli.
 • Máltíðir aðrar en þær sem tilgreindar eru undir innifalið.
 • ESTA heimild til Bandaríkjanna ca $ 14.
 • Frjáls framlög til gestgjafa í Vesturheimi.
 • Þjórfé.
 • Forfalla- og ferðatryggingar.

Athugið

Máltíðir eru almennt ekki innifaldar í ferðinni, nema einfaldur morgunverður alla morgna. Gott er að hafa með sér nasl í bílnum. Í honum er til sölu vatn gegn vægu gjaldi en gott er að taka líka með sér vatnsflösku sem hægt er að fylla á. Stundum mun fararstjórinn panta sameiginlega máltíð eða taka frá borð á veitingastað þannig að hópurinn snæðir saman. Það er mjög mismunandi hvað kvöldverður kostar, allt miðað við hvort farþegar vilja fá sér einfalda máltíð eða fara fínt út að borða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

1. ágúst | Flug til Minneapolis

Brottför frá Keflavík kl. 16:45. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Minneapolis kl. 18:10 að staðartíma. Eftir útlendingaeftirlit og tollskoðun er haldið á hótel nærri flugvelli. Gist í eina nótt.

2. ágúst | Vestur á bóginn – Norður-Dakóta

Að loknum morgunverði hefst ferðin á Íslendingaslóðir í þægilegri rútu. Ágætt bil er á milli sæta, bökum má halla aftur og rúður dökkna í sólinni. Á þessum árstíma getur hiti verið á bilinu 25-30 stig. Í rútunni verður ætíð hægt að fá vatn. Ekið í vestur uns komið verður til Clearwater sem er smábær í miðju landbúnaðarhéraði og verður áð þar um hríð. Áfram er svo haldið til Alexandria þar sem snæddur verður hádegisverður. Að lokinni máltíð er rölt á safn við hliðina á veitingastaðnum. Þetta er nokkuð norrænt byggðasafn, því margir fyrstu íbúar héraðsins voru norrænir vesturfarar, flestir norskir og sænskir. Þar er að finna afar umdeildan stein, The Kensington Runestone. Á honum eru rúnir sem greina frá ferð norrænna manna á þessar slóðir á 14. öld. Þaðan verður ekið áfram vestur yfir Rauðá og þá er komið til Norður-Dakóta. Áð á einum stað áður en ekið verður á náttstað í Grafton. Þar er gist í tvær nætur.

3. ágúst | Íslendingahátíð í Mountain

Árið 1878 flutti allstór hópur úr Nýja-Íslandi suður til Norður-Dakóta. Ný nýlenda Íslendinga varð til, efldist og stækkaði þegar árin liðu. Fyrsta þjóðminningarhátíðin var haldin í nýlendunni 1879 og hefur verið árlegur viðburður síðan. Ekið til Mountain í hjarta íslenska landnámsins þar sem hátíðin er haldin. Hér verður fylgst með viðburðum dagsins, farin skoðunarferð um byggðina og markverðir staðir athugaðir. Um kvöldið er snæddur kvöldverður áður en ekið er til baka á náttstað í Grafton.

Opna allt

4. ágúst | Winnipeg

Brottför af hóteli að loknum morgunverði og byrjað á að skoða Icelandic State Park, byggðasafn norðarlega í íslensku byggðinni. Þaðan er ekið að landamærum Bandaríkjanna og Kanada. Á leiðinni er komið við í smábænum Cavalier þar sem tækifæri gefst til að fá sér eitthvað snarl. Síðan er farið yfir landamærin og stefnan tekin á Gimli þar sem gist verður í þrjár nætur.

5. ágúst | Íslendingadagurinn á Gimli

Þessum degi er varið við hátíðarhöldin á Gimli í Nýja-Íslandi. Fyrsta þjóðminningarhátíð Íslendinga í Norður-Ameríku var haldin í Milwaukee 2. ágúst 1874. Tilefni hennar var ný stjórnarskrá sem afhent var Íslendingum á Þingvöllum þennan sama dag. Íslendingar í Winnipeg urðu fyrstir til að gera hátíðina að árlegum viðburði og var hún haldin í almenningsgörðum borgarinnar til ársins 1932. Þá var ákveðið að flytja hana til Gimli og þar hefur hún verið síðan. Enginn íslenskur viðburður í Norður-Ameríku er eins vel þekktur og Íslendingadagurinn á Gimli. Árlega sækja hátíðina þúsundir gesta alls staðar að úr álfunni. Hvernig minnast afkomendur vesturfaranna upprunans á Íslandi? Það er gaman að fylgjast með heimamönnum, taka þá tali og heyra með þeirra orðum hvaða hug þeir bera til Íslands og smakka hjá þeim vínartertu. Tryggðin við land og þjóð er ótrúleg.

6. ágúst | Nýja-Ísland & skoðunarferð

Skoðunarferð um þessa merkilegu nýlendu Íslendinga í Vesturheimi. Frá Winnipeg er ekið á landtökustaðinn á Víðirnesi, suður af Gimli. Þaðan er ekið um Árnes, Hnausa til Árborgar, en bærinn sá stendur við Íslendingafljót. Þar er skemmtilegt byggðasafn sem minnir um margt á Árbæjarsafn. Allmargar byggingar sem fluttar hafa verið úr sveitunum í kring mynda lítið þorp sem gaman er að skoða með íslenskumælandi safnvörðum. Þar verður snæddur hádegisverður en svo heldur ferðin áfram. Farið verður til Riverton, sem einnig stendur við Íslendingafljót. Hér eru áhugaverðir minnisvarðar sem allir tengjast íslensku landnámi. Loks er haldið til Mikleyjar sem nú kallast Hecla Provincial Park. Hér settust Íslendingar að árið 1876 og þeim sem það gerðu vegnaði vel. Þeir komust upp á lag með að veiða í vatninu og gerði það gæfumuninn.

7. ágúst | Winnipeg

Við hefjum daginn á því að aka til Winnipeg þar sem gist verður næstu nótt. Við komuna þangað verður haldið í skoðunarferð um Winnipeg. Eftir það gefst tækifæri til að kynnast borginni betur eða eyða stund með vinum og vandamönnum. Upplagt að skoða Manitoba Museum, þar sem saga sléttunnar er sögð á einkar áhugaverðan hátt, eða fara á nýja mannréttindasafnið. Rölta að svo búnu niður í The Forks sem er mikið svæði við ármót Assiniboine og Rauðár. Hér stunduðu frumbyggjar viðskipti öldum saman og hér myndaðist fyrsti byggðarkjarni hvítra á sléttunni. Á svæðinu eru söfn, ótal smáverslanir og fjöldi veitingastaða.

8. ágúst | Fargo í Norður-Dakóta

Í dag verður Kanada kvatt og ekið til Fargo í Norður-Dakóta í Bandaríkjunum. Við ökum í suður og komum við í fríhöfn við landamærin. Hér verður dvalið í stutta stund, tækifæri gefst til að skipta kanadískum peningum í bandaríska og kannski kaupa einhvern minjagrip áður en farið verður yfir landamærin. Komum til Grand Forks þar sem snæddur verður hádegismatur. Ökum suður sléttuna til Fargo og gistum eina nótt.

9. ágúst | Minnesota & Minneapolis

Við kveðjum Norður-Dakóta þennan morgun og ökum inn í Minnesota. Stefnan tekin á Minneapolis en áður en þangað er komið er áð á nokkrum stöðum. Á einum slíkum í Alexandria er farið á matstað og þar snæddur hádegisverður. Að honum loknum er ekið til Minneapolis þar sem gist verður eina nótt.

10. ágúst | Minneapolis

Flug heim til Íslands er um kvöldið þannig að ýmislegt má gera þennan lokadag ferðar. Rýma þarf herbergi kl. 11:00 en þá er hægt að koma töskum fyrir í læstum sal. Hótelið er beint á móti Mall of America. Skutlur hótels byrja að selflytja hópinn á flugvöll kl. 16:00. Flug til Íslands er kl. 19:25.

11. ágúst | Heimkoma til Íslands

Flugvél Icelandair frá Minneapolis lendir um kl. 6:35 að morgni í Keflavík.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Ásta Sól Kristjánsdóttir

Ásta Sól er fædd á Akureyri en hefur alla tíð búið í 101 Reykjavík. Í kringum tvítugt fékk hún mikinn áhuga á málefnum Vestur-Íslendinga og vann að því að skapa ógleymanlegar upplifanir og tengja fólk við uppruna sinn á Íslandi í hátt í tvo áratugi, m.a. með því að skipuleggja ferðir um Ísland og sjá um leiðsögn. Sjálf fann hún svo rætur sínar á Vestfjörðunum. Auk M.A. prófs frá HÍ hefur hún stundað skiptinám í Kanada, lært tungumál og menningu á Spáni og kvikmyndagerð í Prag. Hún hefur ferðast víða um heim, m.a. til Kúbu, Brasilíu, Suður-Afríku og Víetnam en einnig starfað í Danmörku og í Bretlandi. Mesti frítíminn fer í uppeldi tveggja upprennandi fótboltastjarna, byggingaframkvæmdir og útihlaup.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

 

Tengdar ferðir
Póstlisti