Íslendingaslóðir í Vesturheimi

29. júlí – 8. ágúst 2026 (11 dagar)

Þegar vesturfarar reyndu að fóstra með börnum sínum sömu ást, sömu tilfinningar og þeir sjálfir báru til ættlandsins höfðu þeir fá önnur úrræði en að segja og lesa sögur sem lýstu mannlífinu á Fróni og lífsbaráttunni sem þar hafði verið háð öldum saman. Frumbýlingar í Vesturheimi uppskáru sjaldnast eins og þeir sáðu, aðrir nutu ávaxtanna af erfiði þeirra. Þeir gleymdu þó aldrei uppruna sínum heldur kappkostuðu að minnast hans t.d. með árlegum sumarhátíðum. Þessi ferð snýst um að kynnast því hvernig afkomendur vesturfaranna rækta tengslin við Ísland og íslenska þjóð. Flogið verður til Minneapolis og gist í tvær nætur. Þaðan ökum við til Norður-Dakóta og gistum í eina nótt í Grafton, litlum bæ á sléttunni. Í Mountain dveljum við daglangt og fylgjumst með hátíð Íslendinga sem þar hefur verið haldin árlega frá árinu 1899. Á Gimli í Manitoba er merkasta hátíð Íslendinga í Kanada, Íslendingadagurinn, sem hefur verið haldin ár hvert frá 1890 og þar verður margt að sjá. Skoðunarferð um Nýja-Ísland er að venju á dagskrá, förum meðal annars til Árborgar, Riverton og Mikleyjar. Snemma á Vesturfaratímabilinu varð Winnipeg höfuðból Íslendinga í Vesturheimi og gefst okkur tækifæri til að kynnast þessari merku borg. Ferðinni lýkur í Toronto, stærstu borgar Kanada, þar sem gist er tvær nætur á góðum stað í miðborginni.

Verð á mann 559.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 169.800 kr.


Innifalið

  • 11 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Einfaldur morgunverður níu morgna.
  • Einn kvöldverður á Hilton
  • Einn kvöldverður í Mountain.
  • Einn hádegisverður í Árborg.
  • Skoðunarferð um Winnipeg með innlendum leiðsögumanni.
  • Aðgangur að safni í Árborg.
  • Aðgangur að safni í Gimli.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, önnur en í Árborg og Gimli.
  • Ferð til Niagarafossa.
  • Máltíðir aðrar en þær sem tilgreindar eru undir innifalið.
  • ESTA heimild til Bandaríkjanna u.þ.b. $ 21.
  • Frjáls framlög til gestgjafa í Vesturheimi.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Nánari upplýsingar

Máltíðir eru almennt ekki innifaldar í ferðinni, nema einfaldur morgunverður alla morgna. Það er mjög mismunandi hvað kvöldverður kostar, allt miðað við hvort farþegar vilja fá sér einfalda máltíð eða fara fínt út að borða. Gott er að hafa með sér smá nasl í rútuna.

Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

29. júlí | Flug til Minneapolis

Brottför frá Keflavík kl. 16:45. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Minneapolis kl. 18:20 að staðartíma. Eftir útlendingaeftirlit og tollskoðun er haldið á hótel í miðborg Minneapolis. Gist í tvær nætur.

30. júlí | Frjáls dagur í Minneapolis

Í dag gefst tækifæri til að njóta Minneapolis á eigin forsendum. Borgin býður upp á fjölbreytta möguleika, allt frá listasöfnum, líflegum hverfum, fallegum almenningsgörðum á fljótsbökkum, til Anthony-fossa sem eru einu náttúrulegu fossarnir í Missisippifljóti. Hægt er skoða listasafnið Walker Art Center eða City Mill Museum þar sem sögð er saga hveitimyllanna við fossana eða njóta stemningarinnar í North Loop-hverfinu. Einnig er auðvelt að fara í verslanir í miðborginni eða í Mall of America fyrir þá sem vilja. Farastjórinn býður einnig um á ferð með borgarlest til höfuðborgar Minnesota Saint-Paul þar sem þinghúsgarðurinn verður skoðaður og heilsað upp á styttuna af Leifi Eiríkssyni, fyrsta Vestur-Íslendingnum. Dagurinn er alfarið ykkar til að kanna borgina og finna það sem höfðar mest til hvers og eins.

31. júlí | Vestur á bóginn í gegnum hveitið – Norður-Dakóta

Að loknum morgunverði hefst ferðin til Íslendingaslóða í þægilegri rútu. Ekið í vestur slétturnar miklu uns komið verður til Clearwater sem er smábær í miðju landbúnaðarhéraði og verður áð þar um hríð. Áfram er svo haldið til Alexandria þar sem snæddur verður hádegisverður. Að lokinni máltíð er rölt á byggðasafn við hliðina á veitingastaðnum. Margir fyrstu íbúar héraðsins voru norrænir vesturfarar, flestir norskir og sænskir og ber safnið þess merki. Þar er að finna afar umdeildan rúnastein kenndan við smábæinn Kensington þar nærri. Á honum eru rúnir sem eiga að greina frá ferð norrænna manna á þessar slóðir á 14. öld. Þaðan verður ekið áfram vestur yfir Rauðá og þá er komið til Norður-Dakóta. Rauðá rennur til norðurs inn í Kanada og í Winnipegvatn og innan þess mikla vatnasviðs eru helstu slóðir Íslendinga í Vesturheimi. Ekið er fram hjá bæjunum Fargo og Grand Forks og áð á einum stað áður en ekið verður á náttstað í smábænum Grafton, dæmigerðri þjónustumiðstöð sléttubænda. Þar er gist í eina nótt.

Opna allt

1. ágúst | Íslendingahátíð í Mountain

Þennan laugardag sækjum við stærstu Íslendingahátíð Bandaríkjanna sem er kennd við gamla þjóðhátíðardaginn 2. ágúst en jafnan kallaður Deuce of August. Hún er haldin í smábænum Mountain sem er í um 40 mínútna aksturfjarlægð frá Grafton. Einkunnarorð hátíðarinnar eru: „Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur ?“ Upphaf landnáms Íslendinga í Norður Dakóta var árið 1878 þegar hluti landnámsmanna á Nýja Íslandi klauf sig út úr hópnum og freistaði gæfunnar á nýjum slóðum sunnan landamæranna. Í Mountain er elsta íslenska kirkjan í Vesturheimi, Víkurkirkja. Hátíðin í Mountain hefur verið haldin á hverju ári frá 1899 og telst með elstu þjóðarbrotahátíða í Bandaríkjunum. Áður en við komum til Mountain munum við koma við hjá minnisvarða í nágrenni Garða sem er tileinkaður þjóðskáldinu Stephan G. Stephanssyni en hann bjó hér um hríð áður en hann hélt vestur til Klettafjalla. Rétt áður en við komum til Mountain heimsækjum við kirkjugarð Þingvallasöfnuðar þar sem alþýðuskáldið ástsæla Káinn hvílir. Í Mountain horfum við á skrúðgönguna og tökum svo þátt í hátíðinni fram eftir degi. Við skjótumst aðeins í byggðasafnið í Icelandic State Park en ökum svo aftur til Mountain þar sem við snæðum kvöldverð í félagsheimili staðarins. Að því loknu ökum við niður með Rauðá til Winnipeg höfuðborgar Manitoba þar sem við gistum í fjórar nætur á hóteli sem er staðsett í hjarta borgarinnar. Reikna má með einhverjum tíma á landamærunum og eins rt gott að hafa vegabréfið við hendina og ekki neinn tollskyldan varning í farteskinu.

2. ágúst | Ferð um Nýja-Ísland

Í dag höldum við áfram niður með Rauðá að hinu mikla Winnipegvatn en á vesturbakka þess liggur Nýja-Ísland, svæði sem Kanadastjórn úthlutaði til íslenskra landnámsmanna árið 1875 en þá var svæðið utan landamæra Manitoba. Hér risu Íslendingabyggðir sem bjuggu við sjálfsstjórn um skeið og mynduðu þær kjarna íslenska samfélagsins ásamt Winnipeg sem átti langvarandi blómaskeið. Við ökum um Nýja Ísland endilangt í dag og byrjum á því koma við á Víðirnesi rétt sunnan við Gimli þar sem að fyrsti landnemahópurinn gekk á land eftir mikla svaðilför haustið 1875. Við stöldrum aðeins við á Gimli þar sem að Íslendingadagurinn er í fullum gangi alla helgina. Þaðan er ekið til Árborgar en bærinn sá stendur við Íslendingafljót. Þar er áhugavert byggðasafn sem geymir sögu frá búsetu íslenskra og úkraínskra landnema á þessum slóðum. Allmargar byggingar sem fluttar hafa verið úr sveitunum í kring mynda lítið þorp sem gaman er að skoða. Þar verður snæddur hádegisverður sem heimamenn reiða fram en svo verður ferðinni haldið áfram til Riverton, sem einnig stendur við Íslendingafljót. Hér er margt áhugavert að sjá sem tengist íslenska landnáminu. Loks er haldið til Mikleyjar í Winnipegvatni sem nú kallast Hecla Provincial Park og er stórt náttúruverndarsvæði. Hér var blómleg byggð íslenskra fiskimanna sem náðu góðum tökum á veiðum í vatninu árið um kring. Við heimsækjum kirkjuna í þorpinu Heclu en eyjan ber nú nafn þess, Hecla Island. Síðan er ekið til baka til Winnipeg og ferðalangar geta snætt kvöldverð í nágrenni hótelsins.

3. ágúst | Íslendingadagurinn á Gimli

Í dag nær Íslendingadagurinn hámarki sínu en þessi mánudagur er almennur frídagur í Manitoba. Við munum verja deginum frá morgni til kvölds í Gimli. Sögu þjóðminningarhátíðarinnar má í raun rekja til þjóðhátíðardagsins 2. ágúst 1874 þegar Kristján IX færði okkur stjórnarskrána á Þingvöllum. Þá var fyrsti hópur íslenskra landnema komin til Vesturheims og héldu hátíð þann sama dag í bænum Milwaukee í Wisconsin en flestir úr þeim hópi komu til Nýja Íslands ári síðar. Þjóðhátíðin í Gimli, í Mountain og í Herjólfsdal eru því í rauninnni sama hátíðin. Íslendingadagurinn hefur síðan verið haldinn frá árinu 1890, fyrst í Winnipeg en frá árinu 1932 í Gimli. Enginn íslenskur viðburður í Norður-Ameríku er eins vel þekktur og Íslendingadagurinn á Gimli. Árlega sækja hátíðina þúsundir gesta, afkomendur íslenskra landnema alls staðar að úr Vesturheimi en einnig aðrir heimamenn. Gestir heiman frá Íslandi eru jafnan fjölmennir sem sumir eru komnir til að taka þátt í dagskránni ekki síst með tónlistarviðburðum. Boðið er upp á veitingar um allan bæinn, bæði á veitingastöðum og í sölutjöldum. Ýmsir viðburðir eru í gangi og úr mörgu að velja. Við byrjum á því að fylgjast með skrúðgöngunni með Fjallkonuna í broddi fylkingar. Hátindi sínum nær hátíðin þegar að Fjallkonan stígur á svið á hátíðarsvæðinu í Gimli-Park og hringir bjöllunni sem kallar alla Íslendinga í Vesturheimi saman til hátíðarinnar. Það voru Vestur-Íslendingar sem voru upphafsmenn þess að láta Fjallkonuna koma fram á þjóðhátíðum. Gimli er um 2.500 manna bær við Winnpegvatn en fjöldi íbúa margfaldast yfir sumarmánuðina þar sem fjöldi sumarhúsa er á svæðinu og þá er Gimli sannkallaður strandbær sem íbúar Winnipeg leita til í miklum mæli. Ef vel viðrar má fara í sólbað á ströndinni og busla í vatninu. Ekki er hægt annað en að gæða sér á vínartertu (randalín) sem er í hugum Vestur-Íslendinga það íslenskasta af öllu íslensku. Við munum fá að upplifa hin sterku bönd sem afkomendur íslenskra landnema eiga við uppruna sinn, tryggðin við land og þjóð er ótrúleg. Þegar við höfum snætt kvöldverð á eigin vegum ökum við til baka til Winnipeg.

4. ágúst | Íslenska Winnipeg

Winnipeg hefur alla tíð verið þungamiðja hins íslenska samfélags í Vesturheimi. Við fáum að kynnast því hvað þetta samfélag var öflugt í heila öld og hafði víðtæk áhrif bæði í Manitoba og heima á Íslandi. Hér bjó almenningur frá Íslandi í fyrsta inn í stórborg og kynntust alþjóðlegri menningu. Íslendingar létu til sín taka á öllum sviðum eins og blaða-og bókaútgáfu, menntamálum, menningarmálum, vísindum, byggingariðnaði, íþróttum og útfararþjónustu svo eitthvað sé nefnt. Hér var gefinn út fjöldi tímarita og vikublaða eins og Lögberg og Heimskringla sem síðar sameinuðust í vikublað sem enn kemur út. Hér var gefið út á íslensku fyrsta kvenréttindablaðið í Kanada, Freyja. Þegar fyrsti hópur íslenskra landnema sem taldi um 200 mans kom til Winnipeg haustið 1875 voru íbúar Winnipeg um 4000 en staðurinn átti eftir að vaxa með ógnarhraða næstu áratugina. Íslendingar tóku því fullan þátt í þeirri uppbygging frá upphafi. Við munum verja deginum í borginni og þræða slóðir Íslendinga þar. Svæðið umhverfis Sargent Avenue er hlaðið minningum um íslenska samfélagið og er þar m.a. að finna kirkjur sem reistar voru af íslenskum söfnuðum, félagsheimili, skólar og annað sem kemur við sögu. Við munum einnig ganga að þinghúsi Manitoba og heilsa upp á styttuna af Jóni Sigurðssyni sem reist var fyrir um öld síðan. Innfæddur leiðsögumaður af íslenskum ættum verður með hópnum hluta úr degi. Hér skapast einnig tækifæri til þess að heilsa upp á ættingja og vini og eru þátttakendur hvattir til þess að reyna að hafa upp á frændfólki sínu og eru ýmsar leiðir til þess. Upplagt er að rölta niður í The Forks sem er mikið svæði við ármót Assiniboine og Rauðár. Hér stunduðu frumbyggjar viðskipti öldum saman og hér myndaðist fyrsti byggðarkjarni hvítra á sléttunni. Á svæðinu eru söfn, ótal smáverslanir og fjöldi veitingastaða.

5. ágúst | Flug til Toronto

Að morgni er flogið frá Winnipeg til Toronto kl. 10:45 og lent kl. 14:12 að staðartíma. Eftir komuna tekur við frjáls dagur þar sem ferðalöngum gefst tækifæri til að kynnast þessari fjölbreyttu og líflegu borg á eigin hraða. Toronto er stærsta borg Kanada og býður upp á fjölda upplifana; glæsilegan miðbæ með CN Tower, lífleg hverfi á borð við Distillery District og Kensington Market, auk frábærrar matsölu og verslana. Hér er kjörið að rölta um borgina, njóta góðs matar eða einfaldlega slaka á eftir ferðalagið. Fararstjóri mun fara í stutta göngu þegar hópurinn hefur komið sér fyrir á hótelinu og sýna það helsta sem fyrir augu ber í miðborginni. Hér koma Vestur-Íslendingar líka við sögu. Gist verður í Toronto næstu tvær nætur.

6. ágúst | Frjáls dagur í Toronto

Dagurinn er frjáls til að njóta Toronto á eigin vegum. Þá er einnig vert að minna á að margir kjósa að nota tækifærið og fara í vinsæla dagsferð til Niagara-fossanna, þar sem má upplifa eitt þekktasta náttúruundur heims. Ef tilskilinn fjöldi næst er hægt að panta rútu fyrir hópinn frá hóteli að Niagara-fossum. Fararstjóri mun kanna áhugann í upphafi ferðarinnar og veita upplýsingar um verð. Hvort sem valið verður að dvelja í borginni eða fara í ferðalag út fyrir hana er dagurinn í ykkar höndum til að njóta sem best. Farstjóri mun fylgja þeim sem kjósa að fara til fossanna.

7. ágúst | Heimferð frá Toronto

Flug heim til Íslands er um kvöldið þannig að ýmislegt má gera þennan lokadag ferðar. Rýma þarf herbergi kl. 12:00 en þá er hægt að koma töskum fyrir í læstum sal. Teknar verða hótelskutlur út á flugvöll upp úr kl. 16:00. Flug til Íslands er kl. 20:50.

8. ágúst | Heimkoma til Íslands

Flugvél Icelandair frá Toronto lendir um kl. 6:20 að morgni í Keflavík. 

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

  • Minneapolis - Hilton
  • Grafton - AmericInn
  • Winnipeg - Delta Hotels
  • Toronto - Chelsea Hotels

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Arinbjörn Vilhjálmsson

Arinbjörn hefur lengi starfað sem leiðsögumaður og fararstjóri í frístundum. Hann hefur verið leiðsögumaður þýskumælandi ferðamanna á Íslandi frá árinu 1991 og fór sem fararstjóri í sína fyrstu bændaferð árið 1997. Hann hefur veitt farastjórn í bændaferðum til Þýskalands, Austurríkis, Ítalíu, Sviss, Frakklands, Spánar og á Íslendingaslóðir í Manitoba og Norður-Dakóta.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

 

Tengdar ferðir




Póstlisti