Ferðalýsing & verð

Ferðalýsing & verð

 
18. júní           Flug til Mílanó & Gardavatn

Flogið verður með Icelandair til Mílanó þann 18. júní. Brottför frá Keflavík kl. 16.50, en mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 22.40 að staðartíma. Frá flugvellinum í Mílanó eru um 180 km að Gardavatni svo gera má ráð fyrir að rútuferðin taki um þrjár klst.

 
 
19. júní          Gengið eftir Strada del Ponale til PregasinaGengið eftir Strada del Ponale til Pregasina

Þennan dag förum við seint af stað til að til að jafna okkur eftir ferðalagið og tökum daginn rólega. Við byrjum á að ganga niður í gamla miðbæinn í Riva Del Garda, alveg niður að höfninni. Gönguleið dagsins er vegurinn Ponale sem höggvinn var inn í bergið umhverfis vatnið í fyrri heimstyrjöldinni og var sérstaklega mikilvægur í hernaðarlegum tilgangi. Vegurinn er í dag lokaður fyrir bílaumferð og er því aðeins nýttur sem göngu eða hjólreiðastígur. Hann er einn vinsælasti áfangastaðurinn við Gardavatn, enda er útsýnið frá honum stórfenglegt. Við göngum eftir þessum fallega vegi sem hlykkjast utan í fjallsveggnum í átt okkar að Pregasina. Á leiðinni er að finna fjöldann allan af hvíldar- og útsýnisstöðum þar sem mikilvægt er að taka upp myndavélina/símann og smella af einni mynd af glæsilegri dagleiðinni. Við höldum leið okkar áfram og stöldrum við hjá fallegri styttu af Madonnu og njótum dásamlegs útsýnis. Við göngum svipaða leið til baka að hótelinu í Riva del Garda.
 
          Göngutími: ca. 4 klst.
          Hækkun: 450 m.
          Erfiðleikastig leiðar: Létt til miðlungserfið.

 
 
20. júní           Útsýnisleið frá Torbole og TempestaÚtsýnisleið frá Torbole og Tempesta

Við tökum vagn í átt að bænum Torbole og göngum þar í gegnum gamla miðbæinn upp að kirkjunni Saint’Andrea og ævintýragarðinum Busatte. Héðan hefst hin eiginlega ganga en gönguleið dagsins er oft nefnd svalir Gardavatns, svo stórfenglegt er útsýnið frá bjargstígnum út yfir vatnið. Vegurinn sem er um 4 km að lengd liggur í hlíðum Monte Baldo fjallsins sem umlykur Gardavatn.Við njótum blómaflóru fallegrar náttúrunnar á þessu forna eldfjalli á leið okkar til Tempesta, en þar lágu landamæri Ítalíu að Austurríki fyrr á öldum. Frá Tempesta hefjum við gönguna niður fjallið og liggur leið okkar aftur til Torbole. Möguleiki er á að taka vagn til baka, fyrir þá sem finna fyrir þreytu, en þeir sem enn hafa lyst og orku geta gengið til baka á hótelið í Riva del Garda.
 
          Göngutími: ca. 5 klst.
          Hækkun: 400 m.
          Erfiðleikastig leiðar: Miðlungserfið.

 
 
21. júní           Hjólað – Sarca, Marocche og Vino SantoHjólað – Sarca, Marocche og Vino Santo

Í dag reynum við annan ferðamáta og bregðum okkur upp á hjólin. Frá Riva del Garda hjólum við í átt til Torbole. Við hjólum upp að ánni Sarca, stærstu ánni sem rennur í Gardavatn. Við ósa Sarca finnum við stíg sem leiðir okkur í gegnum vínakra og ólífulundi. Við förum framhjá Arco, miðaldakastalanum sem stendur hátt á bjargi og komum að hrjóstrugu landslagi Marocche sem oft er líkt við tunglið. Þetta stórgrýtta svæði sem ótal skriður hafa fallið á er ólíkt öllu því sem gerist í nágrenninu. Þegar við komum að vínhéraðinu Vino Santo snæðum við léttan hádegisverð í vínkjallara svæðisins þar sem verður sjálfsagt boðið upp á smakk af afurðum svæðisins. Heimleiðis hjólum við rólega meðfram Cavedine vatninu.
 
          Hjólaleið: ca. 45 km.
          Hækkun: 450 m.
          Erfiðleikastig ferðar: Létt – miðlungserfið.

 
 
22. júní           Frjáls dagur

Þennan dag er tilvalið að láta hugsanlegar harðsperrur líða úr sér og njóta þess sem heilsulind hótelsins hefur upp á að bjóða, slappa af við sundlaugina, eða kynna sér nágrenni Gardavatns á eigin vegum.

 
 
23. júní           Hjólað að Canale di Tenno

Við höldum í dag áfram að hjóla á hliðargötum í áttina að vatninu Tenno, en á leiðinni stöðvum við að minnsta kosti einu sinni til að dást að smaragðsgrænu vatninu og smella af einni mynd til minningar. Ef svo ber undir er jafnvel hægt að fá sér sundsprett í þessu fallega vatni. Leiðin liggur áfram eftir malarvegum meðfram vatninu, í gegnum skóga þar til við komum að hinum fagra miðaldabæ Canale di Tenno. Hér tökum við hádegishlé og endurnærð og sæl hjólum við heim á hótel eftir gömlum og þröngum götum, enn og aftur með dásamlegt útsýni yfir Gardavatnið góða.
 
          Hjólaleið: ca. 35 km.
          Hækkun: 600 m.
          Erfiðleikastig leiðar: Miðlungserfið.

 Útsýniskláfur & hæsti tindur Monte Baldo  
 
24. júní           Útsýniskláfur & hæsti tindur Monte Baldo

Við hefjum daginn á bátsferð til bæjarins Malcesine, en þar liggur leiðin með útsýniskláfi upp á topp fjallsins Monte Baldo í 1.650 m hæð. Hér göngum við um græna grundu og njótum ægifagurs útsýnis yfir Gardavatn. Leið okkar liggur ýmist eftir slóðum eða yfir tún og engi þar sem við kynnumst helstu blómategundum árstíðarinnar. Í fjallakofa slökum við á og þegar tími er kominn til að halda aftur af stað, förum við til baka að biðstöð kláfsins sem ferjar okkur aftur niður til bæjarins Malcesine. Upplagt er að spássera um miðaldabæinn og fá sér hressingu áður en við höldum með bátnum aftur á hótel.
 
          Göngutími: ca. 4 klst.
          Hækkun: 400 m.
          Erfiðleikastig leiðar: Létt – miðlungserfið.

 
 
25. júní           Arco, Laghel og Colodri – flug til KeflavíkurArco, Laghel og Colodri

Við höldum með vagni til bæjarins Arco. Þar könnum við gamla miðbæinn og skoðum grasagarðinn, þar sem finna má jurtir og trjágróður víðsvegar að úr heiminum, ásamt fjölda framandi plantna. Síðan göngum við upp eftir fjallshlíðinni í gegnum ólífulundi og miðjarðarhafsgróður á leið okkar til miðaldakastalans Arco. Þaðan njótum við útsýnisins yfir Riva, Torbole og Gardavatnið. Áfram röltum við forna slóða í gegnum aldagamla ólífuakra að sérkennilega smádalnum Laghel. Við göngum upp á tind fjallsins Colodri og fræðumst þar um jarðfræði Gardavatns og stórmerkilegan uppruna þess. Úr hlíðum fjallsins Colt gefur að líta víðfemt útsýni yfir árdal Sarca. Héðan liggur leiðin niður á móti í átt að Ceniga, þar til við komum að rómversku brúnni. Héðan tökum við vagn til baka á hótelið. Upplagt er að nýta sér heilsulind hótelsins áður en haldið verður til flugvallar í Mílanó. Þaðan verður flogið kl. 23.40. Lending á Íslandi kl. 1.55 að staðartíma.
 
          Göngutími: ca. 4,5 klst.
          Hækkun: 450 m.
          Erfiðleikastig leiðar: Létt – miðlungserfið.

 
 
Astoria Park HotelHotel Park Astoria

Gist verður á 4* hótelinu Astoria Park Hotel, sem staðsett er steinsnar frá miðbæ Riva del Garda og um 1 km frá vatnsbakkanum. Umhverfis hótelið er 15 hektara stór garður með sundlaug. Hótelið er með 118 smekkleg og björt herbergi sem öll eru með gervihnattasjónvarpi, hárþurrku, síma, nettengingu, öryggishólfi, míníbar og loftkælingu. Á hótelinu er að finna líkamsrækt og heilsulind þar sem gestir geta látið líða úr sér í finnskri sauna, íssturtu og gufubaði sem endurnærir bæði sál og líkama. Hægt er að panta sér nudd og ayurvedískar líkamsmeðferðir gegn gjaldi.

 
 
Fararstjóri getur fært dagleiðir milli daga eftir því sem þörf þykir þegar komið er á staðinn.

 
 



 
 
Verð: 214.700 kr. á mann í tvíbýli.           Mikið innifalið – athugið sérstaklega!

Aukagjald fyrir einbýli er 26.900 kr.

 
 Útivist við Gardavatn
 
Innifalið: 

• Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
• Ferðir á milli flugvallarins í Mílanó og hótelsins við Gardavatn.
• Gisting í tveggja manna herbergi með baði á 4 stjörnu hóteli.
• Morgun- og kvöldverður allan tímann á hóteli.
• Aðgangur að öllu því sem heilsulindin á hótelinu hefur upp á að bjóða.
• Vagnferðir nefndar í leiðarlýsingu.
• Útsýniskláfur á Monte Baldo.
• Bátsferðir milli Riva Del Garda til Malcesine samkvæmt leiðarlýsingu.
• Stafgöngustafir.
• Leiga á 21 gíra hjólum í 2 daga. Hjálmar innifaldir en ekki töskur.
• Leiðsögn staðarleiðsögumanns í göngu- og hjólaferðum.
• Íslensk fararstjórn.

 
 
Ekki innifalið:

Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur. Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll annað en tekið er fram í ferðalýsingu, leigubílaakstur, hádegisverðir og þjórfé.

 
 
Valfrjálst:

Hádegisverður í vínkjallara ca. € 18 og picknick ca. € 20, Vatnsleikfimi í sundlaug hótelsins ca. € 10.

  

 

 

Tengdar ferðir




Póstlisti