Síðasta vetur heimsóttum við stærsta skíðagöngusvæði Noregs, gistum á því rómaða hóteli Pellestova og tókum út brautirnar. Þarna er afslappað andrúmsloft og góð þjónusta, gaman að hitta frændur okkar Norðmenn og sjá hve rík skíðagöngumennskan er í þeirra menningu.
Hótelið er nútímalegt og virkilega huggulegt og herbergin góð. Það skiptist í nokkrar byggingar og hefur að geyma þrjá góða veitingastaði. Morgunmaturinn er fjölbreyttur og maturinn góður. Smuraðstaða fyrir skíðin er í hæsta gæðaflokki.

Skíðagöngusvæðið á Øyerfjellet-hásléttunni fyrir ofan bæinn Lillehammer er stórkostlegur ævintýraheimur. Svæðið er um 1000 metra fyrir ofan sjávarmál og því nægur snjór svo langt sem augað eygir og skíðabrautirnar um 300 kílómetra langar. Brautirnar liggja um þægilega ása í gegnum lágvaxinn barrskóg þannig að útsýnið er ávallt tilkomumikið.
Upphaf allra þessara brauta er við Pellestova hótelið, þar sem við gistum, en snjótroðararnir hefja jafnan brautarlagningu þaðan. Daglega eru því margir möguleikar á leiðarvali og ekki þarf að taka rútu til að komast á brautirnar. Stutt er í tengingar við önnur svæði eins og Sjusjøen, Nordseter og Lillehammer sem tvöfaldar heildarvegalengdina. Bæði eru lagðar brautir fyrir hefðbundna göngu og skaut.

Það er frábært að ganga út af hótelinu með gönguskíðin undir hendinni og beint út á nýlagða braut. Það kostar ekkert í brautirnar og á appinu Skisporet er auðvelt að fylgjast með öllum brautarlagningum og sjá hvenær þær voru lagðar, sem og sjá hvar við erum stödd hverju sinni.
Á svæðinu við brautirnar eru kaffihús og veitingastaðir sem hægt er að stoppa og njóta hressingar. Í Hafjell er meira að segja verslun með skíðavörur og fatnað, sem og verslun og gott veitingahús. Þangað skíðuðum við frá Pellestova hótelinu sem tók okkur um 45 mínútur. Einnig fórum við til Sjusjøen, sem tók okkur um tvo klukkutíma, og brautin virkilega skemmtileg. Með aðeins meiri brekkum en uppi á hásléttunni.
Í ferðinni býðst einstakt tækifæri fyrir þau sem vilja fara í sjálfa Birkebeine-gönguna en hún er 54 kílómetra löng, byrjar í Rena og endar í Ólympíuleikvanginum í Lillehammer. Gangan var fyrst haldin 1932 og er ein sú allra skemmtilegasta ganga sem boðið er upp á því það er svo mikil stemning í brautinni. Heimafólk raðar sér upp og hvetur fólk til dáða og er sérstaklega skemmtilegt að fara í gegnum Sjusjøen. Sveinbjörn, annar fararstjóri hópsins, hefur farið í þessa göngu áður og er því öllum hnútum kunnugur. Hann mun ganga með þeim sem vilja taka þátt í þessu ævintýri og verður fólki innan handar varðandi undirbúning.

Þeir sem ekki kjósa að fara í gönguna fara með Ragnhildi til Lillehammer að skoða þetta sögulega þorp og taka svo á móti göngugörpunum. Lillehammer er krúttlegur bær með ýmis konar þjónustu, verslanir og veitingastaði. Í ferð okkar á svæðið síðasta vetur vörðum við degi í Lillehammer, skoðuðum bæinn, og borðuðum á góðum veitingastað á aðalgötu bæjarins. Við fórum líka í mjög skemmtilega saunaferð, en við vatnið Mjösa er boðið upp á fljótandi sauna. Og inn á milli gusa tókum við sundsprett í vatninu. Það var skemmtileg upplifun enda vatnið að mestu ísi lagt.
Þessi mikla víðátta sem umlykur hótelið með endalausum brautum við allra hæfi kom skemmtilega á óvart. Það eru einhverjir töfrar sem fylgja því að njóta útivistar í svo óspilltri og fagurri náttúru en koma síðan inn í hlý og ilmandi veitingahús með arineldi til að hvíla lúin bein inn á milli.
- Sveinbjörn Sigurðsson og Ragnhildur Aðalsteinsdóttir -
