Snæviþakið ævintýri í austurrísku Ölpunum

Snæviþakið ævintýri í austurrísku Ölpunum

Skíðaferðir toga í marga jafnvel þótt fólk hafi ekki farið á skíði árum og jafnvel áratugum saman. Það er eitthvað ævintýralegt og spennandi við þetta - og manni verður hugsað til atriða í James Bond-kvikmyndum þar sem fólk rennir sér niður snæviþaktar brekkurnar í tunglsljósinu. Bændaferðir hafa boðið upp á skíðaferðir í gegnum árin þar sem gist er í bæjum í dalnum Zillertal og fyrr í vetur var gist í Gerlos sem er í um 1300 metra hæð. Ævintýrið byrjaði þó miklu fyrr. Í rútuferðinni frá flugvellinum í Salzburg, sem margir tengja við kvikmyndina Sound of Music, blasti við stórbrotið útsýni til fjalla og ævintýralegir bæirnir á leiðinni voru margir. 

Tirolerhof í Gerlos er í Alpastíl. Þar er hlýlegt og var innifalið morgunverðarhlaðborð og kvöldmatur sem samanstóð af hlaðborði í forrétt og á hverju kvöldi var svo boðið upp á nokkra rétti sem hægt var að velja um að morgni. Í heilsulindinni á jarðhæðinni eru nokkrar gerðir af gufuböðum og má þar nefna finnska gufu og ilmgufu. Þar er einnig hvíldarherbergi þar sem notalegt var að liggja í nokkurs konar vatnsrúmi eftir dag í fjöllunum.

Gerlos
Hótelið stendur í enda þorpsins og fyrir framan það eru strætisvagnastöðvar sitt hvorum megin á götunni og var þægilegt að taka þar skíðarútuna til að fara í kláfinn sem flutti skíðafólk upp í fjall. Þegar búið var að kaupa skíðapassann fyrir vikuna var ókeypis í skíðarútuna en nokkrar mínútur tekur að aka að stoppistöðvunum þar sem kláfarnir eru. 

Fjölbreytt skíðasvæði

Svæðið allt, Zillertal Arena, samanstendur af fjórum tengdum skíðasvæðum og er svæðið fyrir ofan Gerlos eitt af því en hin eru Zell am Ziller, Köningsleiten og Hochkrimml. Zillertal-skíðasvæðið liggur í allt að 2.500 m hæð yfir sjávarmáli sem þýðir að það er talið vera mjög snjóöruggt. Skíðabrekkurnar eru um 147 kílómetra í heildarlengd og eru þær af ýmsum erfiðleikastigum. Skíðapassinn gildir á fleiri svæði en Zillertal Arena. Hópurinn hélt sig almennt á Zillertal Arena en hægt er að taka skíðarútu eða leigubíl á hin svæðin og gerði hluti hópsins það. Þá fóru sumir í skíðakennslu.

Hluti hópsins tók með sér sín eigin skíði og skíðaskó en fararstjórinn, Einar Skúlason, aðstoðaði hina þegar leigð voru skíði, skíðastafir, skíðaskór og hjálmar í Intersport sem er við einn kláfinn. Þess má geta að hægt er að taka kláfa upp í skíðasvæðin við Gerlos á tveimur stöðum í bænum.

Þessa viku var ævintýralegt að renna sér niður snæviþaktar brekkurnar og útsýnið var til fjallstinda í allar áttir. Stundum er veruleikinn eins og póstkort og stundum er póstkort eins og veruleikinn. Sólin skein flesta dagana og það var einfaldlega dásamlegt að vera í fjöllunum og jafnvel setjast niður í snjóinn á leiðinni og njóta. Láta sólina leika um andlitið og hlusta á þögnina. Og hlusta líka á hljóðin í skíðum og skíðafólki renna sér fram hjá. Einn renndi sér niður með hátalara svo minnti á diskótek. Fólk var fyrst og fremst að njóta náttúrunnar og frelsisins - og þessa stórkostlega útsýnis. Hver var að tala um James Bond-mynd?

Nokkrir skíðaskálar eru á svæðinu þar sem hópurinn hittist í hádeginu og var hægt að sitja annaðhvort úti eða inni. 

Önnur skíðasvæði

Það er stutt að fara yfir á næstu skíðasvæði svo sem Zell am Ziller og það gerðu nokkrir úr hópnum. Nokkrir fóru einnig upp á Hintertux-jökulinn og tók hópurinn leigubíl þangað og tók ferðin um klukktíma. Þetta eru allt góð skíðasvæði og á Hintertux-jöklinum fer skíðafólk hæst í um 3.250 metra.

Picture2.jpg

Hluti hópsins fór einnig á skíðasvæði fyrir ofan bæinn Mayerhofen en það svæði er mjög fjölbreytt og stærra heldur en svæðið við Gerlos. Þá er hægt að skíða á Köningsleiten-svæðinu eins og þegar hefur komið fram sem er einnig með tengingu yfir til Gerlos.

Nokkrir þeirra sem fóru á skíði við Mayrhofen fóru í svifvængjaflug. Einn af þeim var fararstjórinn og segir hann um upplifunina: „Við ákváðum nokkur að prófa „paragliding“ með vönum stjórnendum. Við komum okkur fyrir efst í brekku í um 2000 metra hæð og svo sagði stjórnandinn mér að renna mér af stað og hann hljóp á eftir. Allt í einu svifum við og það var hálfskrýtið að horfa niður á skíðin og svo fjallshlíðar og dalurinn fyrir neðan. Það var alveg undursamlegt að fljóta svona í loftinu og lækka flugið smátt og smátt. Ætli flugið niður hafi ekki tekið svona 20 mínútur og við lentum í um 700 metra hæð. Ég mæli með því að prófa svona!“

Sleðaferð

En ævintýrin áttu sér ekki bara stað á daginn. Eitt kvöldið tók hópurinn leigubíla til Gerlosstein til að fara í sleðaferð. Tekinn var kláfur upp fjall og var byrjað á því að fara á veitingastað þar sem hægt var að kaupa sér drykki og auðvitað þar á meðal heitt súkkulaði. Síðan hófst ævintýri þessa kvölds en hver og einn var með gamaldags viðarsleða og renndi fólk sér niður þar til gerða braut og hélt í band og gat hægt á ferðinni með fótunum. Það urðu margir aftur börn þetta kvöld, mikið hlegið og skríkt. Stoppað var á öðrum veitingastað þar sem tónlistin dundi úti á palli og hópur Íslendinga í skíðagöllum dansaði.

Picture4.jpg


Það var líka dansað á Après-ski í Gerlos og Mayrhofen. Skíðafólk frá hinum ýmsu löndum kemur þá saman seinni part þegar búið er að loka skíðasvæðunum og sýnir sig og sér aðra og dansar auðvitað í takt við þar til gerða Après-ski-tónlist sem ætti að koma öllum í gott skap.

Þvílíkt fjör! 

Gerlos

Svona skíðaferð býður upp á ýmislegt annað en að vera allan daginn í fjöllunum. Gerlos er fallegur og lítill bær þar sem gaman var að ganga um, fara á veitingastaði og skoða í verslanir en meirihluti þeirra seldi skíðabúnað og -fatnað. Jú, þetta var svolítið eins og að vera í bíómynd að sitja á veitingastað í Alpastíl. Ef veggirnir gætu talað! Allt í stíl. Hver sat þarna fyrir 35 árum síðan? Og hvað var sagt? Á veggjum héngu áratugagamlar ljósmyndir úr þorpinu sem sýndu íbúa og húsin. Hvar er saga þeirra?

Úrvalið af skíðabúnaði og -fatnaði er mikið í útivistarverslunum í bænum og í einni þeirra, sem er kannski eina tískuverslunin á svæðinu, stóð vaktina kona sem var eins og klippt út úr tískutímariti. Og auðvitað stóðst maður ekki freistinguna: Tvær peysur í pokann - önnur svört og hin gyllt - og minjagripur frá sama merki: Snjókúla og inni í henni skíðakona í rauðum skíðagalla. Auðvitað kaupir maður svona fínerí. Og í þessari fínu verslun fékkst ýmislegt annað svo sem töskur, súkkulaði og skinka. Þetta var sannkölluð sælkeraverslun.

Picture6.jpg


Undirrituð heimsótti einnig Mayrhofen í febrúar árið 2022 þegar einnig var farið í skíðaferð með Bændaferðum og Veseni og vergangi en þá var gist í bænum Tux. Mayrhofen er stærri bær heldur en Gerlos með úrvali veitingahúsa, kaffihúsa og verslana með meðal annars miklu úrvali af vönduðum skíðafatnaði. Og í einni versluninni hanga tugir „kú-kú-klukka“ og minna á að tíminn líður. Það er svolítið eins og að koma í annan heim og annan tíma að heimsækja þessa gullfallegu bæi í Tíról. Auðvitað má sjá út um allt skíðafólk í skíðaskóm með skíði á öxlinni eða þá að það er búið að skipta um föt og er að njóta alls þess sem þetta umhverfi býður upp á þegar kemur að skilningarvitunum. Þetta er dásemd sem mann langar að upplifa aftur og aftur.


Litríkar byggingar í Innsbruck

Einn daginn fór undirrituð til Innsbruck. Það eru mörg ár síðan ég var þar síðast en heima er þó til rauð skíðahúfa með nafni borgarinnar þótt ekki hafi þá verið um skíðaferð að ræða. Ég hafði takmarkaðan tíma til að skoða borgina þennan daginn og ákvað því að ganga beint í miðbæinn fallega þar sem styttan fagra, Annasäule, stendur og Alparnir eru í baksýn. Aðalverslunargatan, Maria-Theresien-Straße, er eins og listaverk og er þá ekki endilega átt við úrvalið í verslununum heldur litfagrar byggingarnar og alltaf þetta fallega útsýni. Fjallstopparnir eins og Toblerone-súkkulaði allt í kringum borgina.

Picture8.jpg


Gamli bærinn ku vera um 800 ára gamall og þvílík dásemd að ganga þar um. Veitingastaðir, kaffihús, verslanir... og merkjavörur fást þar í glæsilegum verslunum og í lítilli súkkulaðiverslun var úrvalið slíkt að það er ekki hægt að lýsa því. Hér skal endurtekið að tíminn í borginni var skammur, einungis um tveir tímar þar til taka þurfti lest til Jenbach og þaðan til Mayrhofen til að hitta hluta hópsins sem fór þar á skíði, en þessi tími var vel nýttur og varla stoppað.

Sigurboginn við Maria-Theresien-Straße minnir á sigurbogann í París. Sigurboginn í Innsbruck er sagður vera ein af þekktustu byggingum borgarinnar og er hann byggður úr grjóti sem tekið var úr borgarmúrnum.

Farið var inn í kirkju og hlustað á þögnina og andans friðsældar notið í örfáar mínútur, skvaldur vegfarenda var eins og tónlist þar sem af og til þögnin ríkti: Eins og andante. Presto.

Goldenes Dachl blasti svo við í göngunni - og er sú bygging sögð vera frægasta tákn borgarinnar. Lokið var við bygginguna árið 1500 og var þakið skreytt með 2.657 eldgylltum koparflísum fyrir Maximilian I keisara í tilefni af brúðkaupi hans og Bianca María Sforza. Keisarinn og eiginkona hans stóðu á svölunum til að fylgjast með hátíðum, mótum og öðrum atburðum sem áttu sér stað á torginu fyrir neðan.

Picture9.jpg


Og allt í einu byrjuðu kirkjuklukkur að slá í gamla bænum - í hjarta hans; þetta var engin kú kú-klukka.

Ferðahjartað þráir meira af svona.

 

Tengdar ferðir




Póstlisti