Minglabar! Ferðasaga til Burma

Minglabar! Ferðasaga til Burma

4.mars

Við vorum lögð af stað. Það er gott að vera komin í flugvélina, allir eru mættir og spenningurinn og tilhlökkunin er breytt í „nú látum við hlutina gerast“. Flugið til Rangun/Yangon frá Íslandi gekk vel. Í Kaupmannahöfn þurftum við að fá ný brottfararspjöld til Bangkok og þar fengum við einnig brottfararspjöldin fyrir Bangkok-Rangun, þar sem ég var með boðsbréfið með landvistarleyfinu fyrir Búrma. 

 HofidstoraiMandalayBurma (Medium).jpg
 
5. mars 

Það tók nokkurn tíma eins og gengur að fá landvistarleyfið en allt gekk þó eins og í sögu. „Mingalabar“ – komið þið sæl, var kveðjan sem við fengum þegar leiðsögumaðurinn okkar Bóbó (sem var í fyrsta sinn að taka á móti hópi frá Íslandi) tók á móti okkur með blómum og viðhöfn.Við vorum komin til þessa framandi og forvitnilega lands sem var búið að vera einangrað í meir en 50 ár eftir að herforingjastjórnin hafði hrifsað til sín öll völd 1962. Það eru ekki nema 3 ár síðan að landið opnaðist og flestum pólitískum föngum sleppt. Einhvern veginn finnur maður það strax að hér hefur margt staðið í stað þó nú sé margt að breytast, eins og t.d. bílaumferðin. Landið var fyrr á árum eitt ríkasta land í Asíu en árið 2011 var það orðið eitt af fátækustu löndum í heimi. Rangun eða Yangon eins og hún heitir nú er stærsta borg landsins, með um 6 milljónir íbúa, og var hún höfuðborgin til 2008, þegar ákveðið var að gera Naypyidaw að höfuðborg landsins. Hún er lítil borg inn í miðju landi. Rangun er samt enn miðstöð verslunar og viðskipta og hér eru enn flest erlend sendiráð. Við héldum á hótelið sem var mjög miðsvæðis og hvíldumst þar um stund.
 
Seinni partinn var farið í skoðunarferð um borgina og við gengum m.a. um „Chinatown“. Hér var iðandi líf, flestir klæddir litríkum síðum pilsum Longyi, bæði karla og konur og ótrúlega margir eru með skrautlega andlistförðun, Thanaka. Hún er gerð úr sérstakri trjákvoðu, ljósdrapplitað á lit og var málað, í einskonar skellum með ýmsu formi, á andliti fólks. Framandi matur og allt milli himins jarðar var á boðstólum á afar frumstæðum sölubásum við groddarlegar göturnar sem vegagerð hefur lítið skipt sér af áratugum saman. Nýlenduhúsin, sem einhvern tíma höfðu verið glæsileg voru illa farin en hinir suðaustur-asíu töfrar voru þó enn greinilegir. Í Myanmar búa margar þjóðir og eru þrír megin ættbálkar Mon-Khmer-, Síno-Tíbetskir- og Thæ- ættbálkarnir, en þeir skiptast síðan í meir en 130 þjóðarbrot, hver með sitt tungumál. Lang fjölmennastir eru Birmar (eða Búrmar, Bamar) um 70%, Shan 8,5 % sem búa í Shan héraði, Karen 6,2% sem eru að mestu kristnir og Mon 2,4% en þeir voru mjög valdamiklir snemma á miðöldum. Myanmarar eru einstaklega trúuð þjóð en 89% eru Búddatrúar og það má segja að trúin sé samofin lífinu allstaðar í þjóðfélaginu.
 
Eftir að hafa rölt um göturnar og fengið nasasjón af þessu lífi með nýstárlegum hljóðum, lykt og litum, héldum við til hins gullna hofs Shwedagon. Það er frægasta bygging Búrma og ein af heilögustu hofum Búddismans því hér eru sögð vera geymd 8 hár af höfði Búdda sjálfs. Sagan segir að ríkur kaupmaður hafi sent tvo syni sína til Bengalen á Indlandi með heilan skipsfarm af hrísgrjónum því hann hafði frétt af mikilli hungursneið sem þar ríkti. Bræðurnir voru leiddir fyrir Búdda sjálfan en hann gaf þeim átta hár af höfði sínu að launum. Eftir heimkomuna lét faðir þeirra byggja fyrsta hofið eða stúpuna á Siguttara hæð (58m há), þar sem kistill með hárunum átta var nokkurskonar kjarni þess, múraður inn í stúpuna. Stúpa er lokuð bygging einskonar varða (á að minna á fjallið Meru) þar sem bein eða aðrar líkamsleifar eða eigur heilagra manna eru varðveittar. Í kring um Shwedagon stúpuna eru ótal lítil hof og altör og er því talað um Shwedagon hofið þó að hin stórkostlega stúpa sé aðalbyggingin. Goðsagan á sem sé að hafa gerst fyrir 2500 árum og er því Shwedagon hofið sagt vera svo gamalt. Síðan þá hefur hofið stækkað og breyst í gegnum aldirnar. Árið 1446 er það drottningin Shinsawbu sem lætur endurbæta stúpuna og gylla eftir mikinn jarðskjálfta og gefur hún henni það útlit sem hún hefur nú og um leið hefst þessi hefð að gylla hofin og stúpurnar í landinu sem er svo einkennandi fyrir Búrma. Konungar, furstar og allir sem efni höfðu og hafa enn, gefa gull til hofsins í þeirri trú að það styrki andlega stöðu þeirra, sérstaklega fyrir næsta líf. Nú er talið að alls séu í toppi stúpunnar allt að því 60 tonn af hreinu gulli og væri það þá stærsti gullforði saman kominn á einum stað. Auk þess eru (samkvæmt inngöngumiðanum) 79.569 demantar og eðalsteinar. Hún er 90 metrar á hæð þannig að ekki er hægt að sjá steinana með berum augum af jörðu niðri enda eru þeir frekar ætlaðir þeim sem sita í hæstu hæðum.
 
Í Ragun má engin bygging vera hærri en Shwedagon hofið, en það er ekki bara trúarlegt tákn heldur hefur það líka táknræna þýðingu fyrir búrmönsku þjóðina pólitískt séð. Hér er sagt að sjálfstæðisbaráttufundir hafi hafist 1928, til að losna undan nýlendustjórn Breta, með mótmælum þar sem Aung San var í fararbroddi fylkingar. Hér hélt Aung San Suu Kyi, dóttir Aung Sans og friðarnóbelsverlaunarhafi (1991), sína fyrstu obinberu ræðu þann 26.águst 1988. Það var stuttu eftir að þjóðin hafði risið upp ( þann 8.8.88) og mótmælt spillingu og óstjórn herforingjaklíkunnar. Herlögreglan réðst þá vopnuð gegn friðsömum mótmælendum og voru þá fleiri hundruð manns skotnir til bana. Það er ekki síst Aung San Suu Kyi og flokki hennar að þakka að loksins rofar nú til í landinu og herinn er farinn að mjakast í átt til lýðræðis en það hefur leitt til opnunar landsins. Að sjálfsögðu fer maður úr skónum og gengur berfættur um hofið og það skiptir miklu að ganga réttsælis um stúpuna. Hringurinn er tákn hinnar yfirnáttúrulegu orku og hrynjandans eða rythmans (sóarhringurinn, árstíðarnar o.s.f.) sem umlykur og stjórnar hinu daglega lífi og færir okkur án afláts að miðjunni.
 
Í Shwedagon hofinu kemur fólk til bæna hver að sínu altari, til að fórna blómum og ávöxtum og um leið eys það vatni yfir þá Búddastyttu sem þar er. Hér eru óteljandi öltör, en það skiptir máli á hvaða vikudegi maður er fæddur. Er altari fyrir hvern dag og eru vikudagarnir hérna 8 og reiknast miðvikudagur sem tveir dagar, það er fyrir hádegi og eftir hádegi. Við sáum hóp kvenna vera sópa gólfin á mjög sérstæðan hátt þar sem ein stjórnaði og allir sópuðu í takt. Það er fórn og heiður að fá að sópa hér og um leið bæn. Maður fylltist lotningu gagnvart trúnni og það var tilkomumikið að vera komin á þennan heilaga stað í kvöldbirtunni og fá að upplifa sólarlagið.
 
Síðan var haldið í „Welcome“ kvöldverð í skipi sem heitir Karaweik (eftir hinum goðsögulega fugli) og er á Kandawgyi vatni í Kandawgyi garðinum.

 SpinnasilkiBurma (Medium).jpg

 
6. mars

Eftir morgunverð var Kaukhtatkyi hofið (líka skrifað Chaukhtatkyi) skoðað þar sem stærsta Búddastytta Myanmar er. Þessi liggjandi Búdda er 70m langur og 15 metra hár. Það er áberandi hversu kvennlegur hann er en hér var það siður að karlmenn, sérstaklega prinsar, máluðu sig (að okkur finnst) á mjög kvennlegan hátt.
 
Við ræddum hin fjögur grundvallar lögmál Búddatrúarinnar sem eru 1. að líf mannana er þjáning. 2. þjáningin stafar af græðgi og sjálfselsku. 3. það er hægt að yfirbuga þjáninguna ef við sigrumst á græðginni og sjálfselskunni. 4. takmarkinu er hægt að ná með áttagreina leiðinni. Í Búddismanum ber hver og einn ábyrgð á sjálfum sér og lífi sínu sem eru líka kjörorð Aung San Suu Kyi (mannréttindum og lýðræði fylgir ábyrgð sem við eigum að standa skil á). Næst var kíkt inn á Strand hótel þar sem rithöfundurinn Kipling dvaldi og þar sem hinn glæsilegi nýlendustíll er enn ríkjandi. Síðan var litið inn á „Scott Market“ sem nú heitir „Aung San market“ þar sem hefðbundnar handverksvörur eru til sölu. Á leið okkar í hádegismat var áð við hús Aung San Suu Kyi, en þar var hún í stofufangelsi í nær 20 ár. Á þeim tíma safnaðist oft mannfjöldi saman fyrir utan hliðið við hús hennar til að styðja hana og þegar yfirvöld leyfðu henni aðeins að hreyfa sig fór hún að hliðinu og upp á borð til að ávarpa fólkið. Úr þessu urðu nokkurskonar baráttufundir sem þekktir urðu um allan heim og að sjálfsögðu voru þeir bannaðir. Við borðuðum á fallegum veitingastað sem er í svipuðu nýlenduhúsi þarna í nágrenni við hús hennar.
 
Eftir hádegisverðinn var flogið til Heho. Eftir stutt flug vorum við lent í Shanhéraði og frá flugvellinum í Heho var keyrt í rútu um fjalllendi niður til Nyaung Shwe sem er lítill bær, í 900m hæð yfir sjávarmál, við Inle vant. Inle vatn er eitt stærsta stöðuvatn í Búrma 116 m2 umlykt 1500m háum fjöllum. Þegar þangað var komið var farið í litla báta (4 eða 5 í báti) og siglt að hótelinu í líklega 20 mínútur. Það samanstóð af tveimur stórum húsum og ótal mörgum litlum húsum á eyju út í miðju vatni og þar gistum við næstu 2 nætur.

 
7. mars

Að morgni sigldum við í suður til litla þorpsins Nanpan þar sem öll húsin eru byggð á stólpum út í vatninu. Fyrst skoðuðum við silfursmíðaverkstæði en síðan heimsóttum við hálslöngu konurnar af Padaung ættbálki sem eru stundum kallaðar „Gírafakonurnar“. Satt að segja brá okkur að sjá hvernig þessir krómhringir umlykja háls þeirra og afmynda þær í raun. Þegar þær eru á milli 5 og 9 ára fá þær fyrsta hringin um hálsinn og síðan bætist einn við árlega til tvítugs og er þá hálsinn orðin 20cm langur og hringirnir meir en tíu kíló að þyngd. Þær voru þarna þrjár og sátu við spunavinnu og vefnað og voru greinilega mjög stoltar og tóku vel á móti okkur. Af fyrrabragði spurðu þær okkur konurnar hvað við værum gamlar. Sú sem var elst þeirra, glæsileg kona, sagðist vera 60 ára og var hreikin af, því að meðalaldur kvenna hér er ekki nema 65 ár en karla 60 ár.
 
Næst var vefnaðarverkstæði sótt heim þar sem unninn er vefnaður úr lótusþræði og vefnaður blandaður lótusþræði og silki. Hvergi annars staðar í heiminum er slíkur vefnaður framleiddur og það þarf mikla leikni og þekkingu til að geta unnið þráð úr stöngli hins heilaga blóms sem er skorið í lok monsúntímans. Það þarf hvorki meira né minna en 6000-8000 stöngla af blóminu í einn trefil. Lótusblómið er eitt af heilugustu táknum Búddismans og táknar hreinleikann því allt perlar af því, en blómið vex í drullu sem er náttúrulega yndislega táknrænt. Þessi vefnaðarvara var eingöngu ætluð æðstu munkum eða konungum fyrr á tímum.
 
Því næst kynntumst við bátasmíði, járnsmíði og vindlagerð og alltaf var sigltt á milli húsa enda er þetta svæði stundum kallað Feneyjar austursins. Við stoppuðum í Phaung Daw Oo hofinu þar sem fimm heilagar Búddastyttur stóðu í miðju hofsins á miklu viðhafnaraltari. Búddastytturnar voru orðnar eins og feitar kartöflur því ekkert sást lengur í þær því það var búið að setja svo mikið af gullflögum utan á stytturnar. Hér koma hinir trúuðu til bæna, karlmenn geta keypt sér eina klessu af gulli við innganginn sem fórn og setja á eina af styttunum til að votta Búdda virðingu sína en um leið vonast þeir líka að fá plúspunkt á himnum. Konur mega ekki fara inn á hið allra heilagasta svæðið þar sem stytturnar eru, þær þurfa að láta sig nægja að biðja fyrir þar fyrir utan. Samt njóta konur meiri réttinda og virðingar hér en í nokkru öðru landi í Asíu en þær geta ekki endurholdgast sem Búdda eins og karlmennirnir geta get þegar þeir haf náð fullkomnun (konur þurfa að fæðast sem karlar fyrst, sem við samþykkjum nú ekki þó Búddavæn séum).
 
Héðan var svo siglt í næsta hús og snæddur dýrindis hádegismatur. Eftir það var haldið í bátana og siglt aftur í gegnum hina fljótandi matjurtargarða heimamanna og smakkað á heimsins bestu tómötum en garðarnir eru byggðir upp á einhverskonar grasþangi og eru virkilega fljótandi og unnið er á bátum við að vökva og hugsa um plönturnar. Hér búa um 10.000 manns af Intha þjóðflokkinum og lifa á þessari sérstöku garðækt og fiskveiðum. Fiskveiðarnar eru líka mjög óvenjulegar þar sem veiðimaðurinn er einn í báti og rær með skrúfuhreyfingum með einum fæti til að geta athafnað sig betur á hinum fætinum og báðum höndunum með net sín við veiðarnar. Að lokum var kíkt í hið sérstaka munkaklaustur Nga Phe Kyaung sem er frægt fyrir hina „hoppandi ketti“, sem lágu nú og flatmöguðu á gólfinu. Því næst var haldið heim á hið glæsilega hótel.

 
 
8. mars

Eftir morgunverð á veröndinni í töfrandi umhverfi við vatnið var siglt á bátunum okkar til Nyaungshwe (sem hét áður Yaungshwe) og þar röltum við um markaðinn í bænum sem var afar fjölskrúðugur og dæmigerður sveitamarkaður þar sem allt var hægt að fá hvort heldur væri handsmíðaðir plógar, grænmeti eða hina fallegu vefnaðarvöru t.d. hin fyrr nefndu Longyi sem eru hin hefbundnu pils, karlar eru í smáköflóttum bómullarpilsum en konur klæðast pilsum með blómamynstrum. Síðan innrituðum við okkur á yndislegt hótel og hvíldum okkur örlítið en vorum svo sótt af mótorhjólapallbílum.
 
Fyrst fengum við okkur hádegismat á kínversku veitingahúsi og héldum svo út í sveitina þar sem barnaskólann Sasana Yaung Chi er að finna. Hann er heimavistarskóli þar sem börn búa og stunda grunnskólanám. Menntakerfið í Búrma stóð á góðum grunni vegna klausturskólanna í landinu og einnig má þakka Bretum hvernig skólakerfið var byggt upp fram til ársins 1962, þegar herforingjastjórnin tók völdin. Hún vildi halda menntun niðri, studdi ekki grunn- eða framhaldsskóla og lokaði háskólum. Eingöngu þeir sem tengdust hernum máttu menntast. Sum þessara barna hér í Sasana Yaung Chi misstu foreldra sína í hamförunum fellibylsins Nargis 2008 en þá fórust meir en 140.000 manns. Önnur eru af fátæku fólki sem ekki hafa efni á að senda börn sín í skóla og fá hér ókeypis grunnskólamenntun. Við ræddum það, að í fjölmiðlum hefði það komið fram, að það sé stundum ekki rétt staðið að því, þegar að ferðamönnum er boðið í svona skóla. Börnin geti verið notuð sem verkfæri til að hala inn peningum á fölskum forsendum. Við tókum þá ákvörðun að fara í skólann, það er að sjálfsögðu alltaf hverjum og einum í sjálfsvaldi sett hvort hann vilji styðja starfið eða ekki.
 
Þessi heimsókn var afar fróðleg fyrir okkur og við sannfærðumst um að hér var verið að vinna gott starf. Aðbúnaður barnanna var að vísu afar frumstæður. Hvert barn hefur sinn kistil og þar eru aleigur þess, en sofið er á gólfinu á teppi sem rúllað er fam á kvöldin. Þannig eru um það bil 35- 40 börn í einum svefnsal sem í rauninni er strákofi. Þessi aðbúnaður er svipaður því sem þau eiga að venjast að heiman, því það tíðkast ekki út í sveitunum að hafa húsgögn eða rúm og húsakynnin eru að öllu jafnaði strákofar gerðir úr trégrind, veggir gerðir úr bambusmottum og stráþök. Hér voru komin tvö hús byggð úr múrsteinum annarsvegar skólahúsið og hinsvegar bænahús sem þjónaði einnig sem aðsetur skólastjóra og ábóta. Gamall munkur leiddi okkur um svæðið og sýndi okkur það helsta eins og skólaeldhúsið þar sem eldað var fyrir 70 manns á hlóðum en það fór ekki á milli mála hversu stoltur hann var að sýna okkur gufupott sem var 1,30 metra hár þar sem hægt var að elda á mörgum hæðum. Það er mikið sem við vesturlandabúar getum lært hvað varðar nýtni og kröfur í svona heimsókn. Eftir að við höfðum safnað einhverju samskoti í umslag og fært ábótanum og fengið blessun hans kvöddum við.
 
Næst var haldið upp nærliggjandi fjall, í vínsmökkun á evrópska vísu til Red Mountain en þaðan gátum við séð yfir Inlevatnið þó mistur væri. Keyrt var á þessum rykugu mjóu malarvegum á mótorhjóli með palli sem við sátum á fjögur eða fimm á hverju hjólpalli. Þar mættum við bændum á uxakerrum sem voru að koma af ökrunum sem var upplifun út af fyrir sig. Að kvöldi komum við til Nyaungshwe á hótelið, skiptum um föt og héldum síðan af stað til að finna veitingahús á eigin spítur í þessum skemmtilega, gamla bæ. Það var gaman að rölta um rykugar göturnar þar sem bæði götuljósin og lýsingin í búðunum og veitingastöðunum voru frekar týrur en ljós allt var frekar fátæklegt í pastelllitum en fallegt. Við fundum veitingahús sem var frumstætt eða ölluheldur einfalt en bauð upp á mjög vel eldaðan mat. Sumir fóru annað á eigin vegum í leit að matsölustað og voru líka mjög ánægðir.

 

IntelVatn3 (Medium).jpg
 
9. mars

Við lögðum snemma af stað frá Nyaungshwe, kvöddum þetta skemmtilega hótel og þennan indæla bæ á hásléttuni við Inlevatnið. Stoppað var við Tekkklaustrið í næsta þorpi og héldum við síðan yfir fjöllin til Heho í flugið til Bagan. Eftir stutt flug vorum við lent þar sem hin magnaða 40km2 hofaslétta er, með meir en 2000 hofum. Hún er skínandi tákn hins fyrsta þjóðríkis Búrma. Það var konungurinn Anawrahtas sem ríkti 1044-1077 sem talinn er faðir landsins því hann náði fyrstur að sameina mörg furstadæmi og innleiddi Búddisman sem ríkistrú. Þetta mesta blómaskeið hins forna Búrma varði þar til Narathihapati (1256-1287) flúði eftir árás Mongóla með Kublik Kan í fararbroddi.
 
Á leiðinni á hótelið í Bagan afgreiddum við þrjú hof. Það var hið gæsilega Anadahofið sem talið er vera eitt fallegasta hofið byggt 1105 af konunginum Kyansittha (sonarsyni Anawrahtas). Sagt er að hann hafi látið lífláta munkana sem byggðu það til að koma í veg fyrir að annað eins hof risi. Næst var Tatbyinnyu hof sem er eitt hið hæsta 61 metrar á hæð og að lokum klifum við upp á hofið þar við hliðina til að sjá yfir sléttuna. Í hvert skipti sem maður kemur inn í hof eða klýfur upp þrep þess er skilt að fara úr skóm og sokkum. Hér eru hvorki meira né minna en 2000 hof því hver konungur og fursti vildi skilja eftir sig minnismerki og gera um leið eitthvað gott fyrir sálartetrið. Bóbó var búinn að undirbúa okkur stax við komuna til Bagan að nú væru framundan á dagskrá pagóda, pagóda, pagóda, pagóda næstu daga.
 
Nálægt hótelinu stoppuðum við í framandi kjörbúð til að eiga hádegissnarl en síðan hvíldum við okkur vel því hitinn var mikill um miðbik dagsins allt að 37 stig. Eftir hádegi héldum við í stórkostlega hestvagnaferð sem flutti okkur aftur í tímann þegar ekið var um sléttuna en kúahjarðir og samar þeirra voru á heimleið af hinum þurru og hrjóstrugu beitilöndum sem líktist einna helst eyðimörk. Loks var numið staðar nálægt Dhammayangyi hofi (rauðlegt,líkt og pýramíti) en við enduðum á að klýfa upp Myauk Gundli hofið og nutum þaðan sólsetursins. Kvöldverður í Old Bagan, á skemmtilegu veitingahúsi með frekar misheppnuðum vestrænum mat en flottum brúðuleik- og danssýningu. Gistum í Bagan í 3 nætur.

 
10. mars

Bagan stendur við Irrawaddy ánna (Ayeyarwady á) og skiptist borgin í Old Bagan þar sem flest hofin eru, New Bagan þar sem hótelið var og í Nyaung Oo þar sem verslun og viðskipti fara að mestu fram en þar var ætlunin að skoða markað þennan morgun. Fyrst var stefnt til þorpsins í nágreninu, þar sem aðstoðarmaður bílstjórans okkar býr. Bóbó sagði okkur að við værum boðin að vera viðstödd einskonar vígslu barna sem væri verið að vígja til að fara í klaustur, kallað Shin Byu. Þess vegna lögðum við snemma af stað.
 
Við komum í þorpið sem var gjörsamlega laust við nútímalega tækni eða önnur nútíma áhrif. Hér voru eingöngu strákofa byggðir úr fallega ofnum bambusmottum, hlóðir til eldunar, ekkert rennandi vatn, heldur vatnsforði við húsin í voldugum og fallegum leirvösum. Göturnar voru malartraðir tilfinningin var að hér hafði ekkert breist í 1000 ár. Við vorum komin á eina af mikilvægustu hátíðum í lífi barna og fjölskyldum þeirra í Búrma og allt þorpið tekur þátt í þessari hátíð. Börnin voru í mjög skrautlegum búningum öll klædd eins og prinsar og prinsessur. Það á að minna á Búdda ungan á meðan hann var prinsinn Siddhartha Gautama og yfirgaf heimili sitt á hesti til að gerast munkur.
 
Mikil hljómsveit lék hefðbundna tónlist í hátíðartjaldi sem komið hafði verið fyrir í miðju þorpinu og þar voru börnin blessuð. Eftir það voru þau borin út úr tjaldinu og voru bara á sokkunum (án skóa) sem tákn um nýtt líf en þau máttu ekki snerta jörðina. Drengirnir voru bornir af feðrum sínum og stúlkur af mæðrum sínum. Síðan var beðið eftir hestunum sem drengirnir voru settir á, hver á sinn fagur skreytta hest. Stúlkurnar fylgdu drengjunum á eftir í vögnum líka mikið skreyttum sem uxar drógu. Yfir hverju barni var haldin gullsólhlíf af frænda hvers barns sem tákn uppljómunar. Ungar gjafvaxta stúlkur prúðbúnar gengu í fararbroddi skrúðgöngunnar með blóm og gyllt ljósker. Í miðju hennar voru börnin allt að því tuttugu að tölu með fyldarmönnum en hljómsveitin og ungu mennirnir í þorpinu ráku lestina. Þeir sem ekki voru skildir börnunum stóðu við vegarkantinn eins og við og flygdust með.Við vorum afar velkomin og það var greinilegt að þau höfðu ekki oft séð vestrænt fólk.
 
Skrúðgangan hélt til þorpklaustursins í nágrenninu en þangað fylgja bara hinir nákomnu ættingjar. Þar eru börnin krúnurökuð og klædd í munka- og nunnu kupla. Hér er þessi hátíð kannski eitthvað sambærileg fermingunni hjá okkur en það er talið nauðsynlegt að fá þessa vígslu til að vera fullgildur þegn í samfélaginu. Til skamms tíma voru það eingöngu drengir sem máttu vígjast á þennan hátt en það hefur breyst, þó stúkurnar séu mun færri. Börnin eru bara stuttan tíma í klaustrinu í þetta skiptið á meða á skólafríinu stendur. Seinna á lífsskeiðinu þykir mikilvægt að dvelja í klaustri um lengri eða skemmri tíma, en þá er þessi vígsla enn í gildi. Þetta var einstök upplifun fyrir okkur að fá að vera gestir á slíkri hátíð og koma inn í þetta litla og dæmigerða þorp úti á landsbyggðinni. Eftir að hafa verið í þorpinu var stefnan sett á Nyaung Oo markaðinn (líka skrifa Nyaug U), þar sem kenndi ýmissa grasa eins og fyrri daginn. Við skiptum peningum við aðalgötuna og það var gaman að fylgjast með umferðinni og farartækjunum, hestvagnar, hjólavagnar, rútur frá 1960 án glugga og hurða og meira að segja komu menn ríðandi á hestum í kaupstað til að sinna erindum. Við fengum innsýn í hið 1200 ára gamla lakkvöruhandverk en lakkið er unnið úr kvoðu lakktrésins.
 
Næst var haldið til eins mikilvægasta hofs landsins Shwezigon pagódunnar sem byggð var á 11.öld af hinum mikla konungi Anwrahta. Hún er sögð geyma bein úr líkama Búdda og er toppur stúpunnar gulli sleginn og er fyrirmynd flestra seinni tíma hofa. Síðan var stefnan tekin á Abeyadana hofið sem er í Mon-Khmer stíl þar sem veggmálverk sýna greinileg áhrif Hindúismans og segja sögur úr lífi Búdda. Sagan segir að hofið sé byggt af konunginum Kyansittha 1084, en bróðir hans hafði hrifsað til sín völdin. Eitt sinn þegar hann var að bíða eftir unnustu sinni og sofnaði kom snákur og lagðist ofan á hann. Abeyadana hét stúlkan og henni brá mjög er hún sá snákinn. Þá vaknaði ungi prinsinn og skildi það sem tákn að snákurinn hafi horfið á braut, hann yrði senn konungur. Það varð og hann byggði hofið þar sem hann hitti snákinn og nefndi það eftir stúlkunni Abeyadana og varð hún drottning hans. Næsti áfangastaður var „hellir“ eða jarðhýsi, þar sem orusta við Kínverja var skráð í myndum, en síðan var stoppað í Htilominlo hofi sem er einnig í Monstíl, byggt af Nantaungmya konungi árið 1211 og hefur verið glæsilega endurgert. Því næst kom GubyauGyi (Minkaba) byggt árið 1113 og var það keimlíkt hinum en mun minna. Kannski hef ég gleymt einhverju hofi en það var rétt sem Bóbó hafði sagt við sáum: pagóda, pagóda, pagóda. En við vorum honum þakklát að hann var ekki á því að láta okkur sleppa neinu, þessi hof eru einhverjar stærstu og merkustur fornminjar Asíu og eru einstök þó maður þurfi að fara úr og í skó stanslaust svo maður tali nú ekki um skítuga fætur. Um sólarlag var síðasta pagódan klifin til að upplifa sólsetrið og hofasléttuna að nýju, nú nær ánni frá allt öðru sjónarhorni. Kvöldverður var snæddur í garði við ána, sem var mjög skemmtilegt og þar var brúðuleiksýning látlaus en frábær.

 
11. mars

Ég var búin að bíða eftir þessum degi með nokkurri eftirvæntingu. Nú var keyrt í til hins heilaga fjalls Popa (Drottning blómanna) sem er aðalaðsetur hinna svokölluðu Nats. Þetta er 70km leið sem tekur rúma tvo tíma að keyra á heldur slæmum vegum, gegnum hrjóstrugar sveitirnar þar sem nær eingöngu Palmyra-pálmatré vaxa en safi ávaxta þeirra er nýttur. Nats tilheyra í raun hinni fornu náttúrutrú, sem ríkti hér á undan Búddismanum, og eru sálir eða andar framliðna sem eru í einhverskonar millibils heimi og geta verið mjög hjálplegir mönnunum. Búrmar trúa því að ef maður hugsar ekki vel um Nats andana getur illa farið fyrir manni og þess vegna fer fólk í pílagrímsferðir til Popafjalls. Það var frábært að allir í hópnum gengu á fjallið, að sjálfsögðu berfættir, en ekki frétti ég af neinum áheitum eða slíku.
 
Þetta var skemmtileg og framandi upplifun að vera mitt á milli allra pílagrímanna og settu fjöldi fjörugra apa, sem eru að sjálfsögðu heilagir, sinn svip á stemninguna. Heilu apafjölskyldurnar halda þarna til og lifa góðu lífi enda eru þeim færðar fórnir m.a hnetur í litlum kramarhúsum. Einn þeirra hékk í mér í nokkurn tíma vildi ekki hnetur sem ég bauð honum. Hann lét mig ekki lausa fyrr en ég áttaði mig á því að hann var þyrstur og hafði augastað á vatnsflöskunni minni. Ég skrúfaði af tappann og rétti honum þá losaði hann takið og hann drakk af stút af flöskunni sem ég lét honum eftir. Um kvöldið nutum við kvöldsiglingar á Irrawaddy ánni þar sem við sáum nú Bagan hofsléttuna í fjarska í sólsetrinu. Að lokum var kvöldverður snæddur á hótelinu.

 
12. mars

Að morgni var flogið til næststæstu borgar landsins sem telur nú hátt í 6 milljónir íbúa. Mandalay er við Irrawaddy ánna og var hún síðasta konungsborgin í Búrma 1857-1885. Fyrst stoppuðum við í Amarapura sem er 5 km fyrir sunnan Mandalay en hún hafði verið konungsborg þar á undan, sem sé til 1857. Þá lét Mindon konungur færa borgina eftir að hann hafði dreymt sérstæðan draum. Stjörnuspekingur hans réð drauminn þannig, að konungsborgina ætti að færa að ánni þangað sem Mandalayhill er.
 
Við litum inn á silkivefnaðarverkstæði þar sem verið var að vefa glæsilegustu silkiefni og var líka áhugavert að sjá litunarvekstæðið þar sem verið var að lita í stórum potti á hlóðum. Við spurðum hvað tekjurnar væru hjá vefurunum, sem flestar voru konur, og Bóbó sagði að það væru ca. $200 hjá þeim sem fengu mest borgað en hér er unnið í akkorði. Tekjur hjá skrifstofufólki, bílstjórum og örum í miðstétt eru svipaðar eða um $200 á mánuði, en það er sagt að það séu ekki nema $60 sem almenningur hefur að meðaltali á mánuði. Meir en 70% vinna við landbúnað og eru launin þar langlægst, en þar fær fólk mikið borgað í vöruskiptum. Þess vegna er mjög erfitt að segja hverjar eru rauntekjur fólks. Svo er náttúrulega viðmiðunin sem við höfum önnur, t.d. hvað er lífsnauðsyn eða hvað eru lífsgæði. Löglegur ellilífeyri er 30% af launum en eingöngu lítill hluti þjóðarinnar nýtur þess að vera fastráðinn.
 
Næst héldum við til stærsta Búddaklausturs landsins sem heitir Mahagandayon-klaustur en þar búa meira en 1000 munkar. Eins og fyrr segir er það hefð í Búrma að gerast munkur, um tíma jafnvel tvisvar til þrisvar á ævinni. Við vorum viðstödd þegar þeir komu í röðum, líklega mörg hundruð, með matargjafir sínar eða ölmusur sem þeir safna á morgungöngu sinni um bæinn eða þorpin. Það er aldargömul hefð að almenningur gefur munkunum þegar þeir koma fram hjá húsum þeirra og þeir sem gefa eru þakklátir fyrir að mega gefa. Stuttu fyrir hádegi koma þeir til að borða síðustu máltíð dagsins í klaustrinu því það sem eftir er dagsins fasta þeir. Hér vorum við allt í einu orðin hluti af fjölda ferðamanna, sem við sáum annars lítið af, allir með myndavélarnar sínar á lofti sem var dálítið óviðkunnarlegt og þar vorum við engin undantekning.
 
Næst var rölt á heimsins lengstu tekkbrú en fallegt umhverfi hennar gerir hana mjög sérstæða. Síðan komum við á útskurðarverkstæði þar sem m.a.var verið að skera út risa Búddastyttur í tekk en hvergi í heiminum eru jafnstóri tekkskóar og hér í Búrma. Vinnuaðstaðan var einföld, því listamennirnir sátu á hækjum sér í hitanum við þetta vandasama verk. Nú var komið að hinu heilaga Mahamuni hofi með hinni allra heilögustu Búddastyttu landsins. Goðsagan segir að hún sé sönn efirmynd Búdda, gerð á hans dögum og að hann sjálfur hafi gefið henni líf með andadrætti sínum. Ástæðan var sú að hann vorkenndi fólkinu sem hann hafði dvalið hjá en það var svo sorgmætt að hann skildi þurfta að yfirgefa þau, til að sinna köllun sinni annars staðar. Sagt er að eingöngu hafi verið gerðar fimm styttur af Búdda á meðan hann var á lífi og að tvær séu á Indlandi, tvær á himnum og þessi eina hér í Búrma. Sami siðurinn er hér og í hofinu á Inle vatninu, að einungis karlarnir mega fara inn að styttunni í einskonar opið tjald og setja á hana gullflögur. Karlarnir okkar létu sér nægja að fara inn og taka mynd. Einn þeirra sagði mér að það hafi verið eitthvað heilagt við það að koma þarna inn í helgidóminn og að það sé rétt að þessi stytta er alveg sérstök.
 
Eftir hádegishlé, eða seinnipart dags var hin stórfenglega pagóda Kuthodaw skoðuð. Konungurinn Mindon lét byggja hana eftir hið 5. alheimsþing Búdda trúarmanna sem haldið var hér í Mandalay 1872. Hún er umkringd 729 litlum pagódum með einskonar rjóma toppum, en inn í þeim eru jafn margar steinplötur þar sem kenningar Búdda eru ritaðar. Þessar steinplötur er svo miklar að umfangi að sagan segir að 5000 menn hafi unnið í átta ár að gerð þeirra og það eitt að lesa þær taki 450 daga, ef lesið er í átta tíma á dag. Kuthodaw hofið er því oft kallað stærsta bók í heimi. Hér nutum við sólarlagsins að þessu sinni í einhverskonar óendanlegum töfra pagódutoppa skógi með útsýni á Mandalayhill. Kvöldverðurinn var við ánna og var boðið upp dansýning með glæsilegum hefðbundnum dansi. Gist í Mandalay í 2 nætur.

 
13. mars

Að morgni keyrðum við til norðausturs gegnum sveitirnar og upp í fjöllin til bæjarins Pyin Oo Lwin sem áður var þekktur sem Maymyo og er í 1100 metra hæð. Á nýlendutíð Breta frá 1885-1942 höfðu þeir notið fjallaloftlagsins hér þegar heitast var niður á sléttunni, auk þess sem að enskir heimavistarskólar voru staðsettir hér fyrir börn þeirra. Þetta er 75 km löng leið, vegirnir eru slæmir og það er greinilegt að hér við veginn er fátæktin mikil. Fólk býr í óhrjálegum kofum og það er eitthvað umkomuleysi sem blasir við. Þessi leið um skörð og fjallgarða er hluti af hinni frægu Búrmaleið sem liggur til Kummning í suður Kína. Hún var að hluta til lögð af breskum stríðsföngum Japana við hræðilegan aðbúnað þar sem meir en helmingur dó af illri meðferð á hernámsárunum en Japanska hernámið í Búrma var 1942-1945. Þegar komið var í bæinn litum við á markaðinn. Síðan var haldið í hestvagnaferð og gamlar nýlendubyggingar skoðaðar.
 
Að lokum var einn merkasti grasagarður Búrma sóttur heim með öllum sínum framandi gróðri, m.a.eitthvað af þessum 250 orkídemum sem við sum vorum búin að bíða spennt eftir. Í Mandalay var kvöldverður á tælenskum veitingastað og það var athyglisvert hversu erfiðar gangstéttirnar voru líka hér til að ganga á. Við tókum eftir því að það var bænastund í næsta húsi og fólk sat á hækjum sér við að hreinsa grænmeti við litla lýsingu. Á hótelinu settist hópurinn aðeins niður í borðsalnum til að fá sér einn kveðjudrykk og eiga saman stund, því í ferðinni hafði fólk oftast verið orðið þreytt á kvöldin eftir að hafa upplifað svo margt yfir daginn. Því hafði lítill tími gefist til samverustunda á kvöldin.


 
14. mars

Eftir morgunverð á hótelinu hófst heimferðin. Við héldum út á flugvöllinn í Mandalay og keyrðum spotta eftir þessari nýju hraðbraut sem liggur suður til Rangun sem er glöggt merki þeirra framfara sem eru að eiga sér stað í landinu. Í Rangun fengum við hádegisverð á veitingahúsi sem var á mjög huggulegt, gamalt nýlenduheimili, þar sem skrifstofa sjálfstæðis- hetjunnar Aung San hafði verið endurgerð, virkilega sjarmerandi hús og góður matur.
 
Við kvöddum leiðsögumanninn okkar Bóbó sem hafði verið svo indæll og skemmtilegur. Mér fannst hann minna mig (sérstaklega hláturinn) á hinn þekkta búrmanska grínista Zargana sem herforingjarnir dæmdu í 59 ára fangelsi fyrir að segja brandara. En honum var líka gefið að sök að hafa hjálpað fólki í neyð eftir hamfarirnar 2008 þegar fellibilurinn Nagis fór yfir. Sem betur fer var hann einn af þeim þúsundum pólitískra fanga sem leystir voru úr haldi 12. október 2011. En Aung San Suu Kyi hafði verið sleppt 13. nóvember 2010 og hófst þá þessi jákvæða þróun sem hefur gert það að verkum að landið hefur opnast, lýðræðið hefur fengið að þróast og ferð eins og þessi er orðin möguleg. Tinn Tinn, konan á skrifstofunni og Bóbó vinkuðu okkur brosandi út að eyrum í kveðjuskyni og voru einstaklega ánægð með þennan fyrsta íslenska hóp sem hafði verið alltaf svo jákvæður og ánægður með allt hvað sem á reyndi.
 
Nú var hópinnritun, sem þýddi aftur sameiginlega innritun í Kaupmannahöfn en svo höfðum við þar frjálsan tíma. Nokkrir fóru inn í Kaupmannahöfn en flestir hvíldu sig á Kastup. Það var yndislegt að koma heim til Íslands eftir ótrúlega sérstaka, lærdómsríka og skemmtilegt ferð. Að lokum langar mig að þakka öllum fyrir einstaklega skemmtilega inndæla samveru.


Nánar um Ingu Ragnarsdóttir fararstjóra
 
Skoða sérferðir á framandi slóðir með Bændaferðum

 

Tengdar ferðir