Ferðalýsing & verð

Ferðalýsing & verð

 
SvæðiðTindar Dólómítanna umlykja bæinn St. Ulrich í Suður-Tíról

Blómleg beitilönd, djúpgrænir furuskógar og tignarlegir tindar Dólómítanna umlykja bæinn St. Ulrich í Suður-Tíról. Svæðið er einkar spennandi en á sama tíma róandi og endurnærandi. Bærinn St.Ulrich er í 1.236 m hæð yfir sjávarmáli við stórfenglega Dólómítana í dalnum Grödner. Hann er einn eftirsóttasti ferðamannastaður landsins, jafnt á veturna sem á sumrin. Ótal gönguleiðir eru á svæðinu inni á milli fjallanna um óspillta og einstaklega heillandi náttúru. Svæðið er ekki aðeins aðlaðandi fyrir náttúruunnendur, heldur einnig þá sem fræðast vilja um menningu og sögu svæðisins. Margar kirkjur og ótal hallir sem og Wolkenstein kastalarústirnar eru eitthvað sem gestir í Grödnerdalnum ættu ekki að láta fram hjá sér fara.

 
 
Gönguferðirnar

Farið verður í skipulagðar gönguferðir með staðarleiðsögumanni, en íslenski fararstjórinn verður að sjálfsögðu með í för. Teknar verða ákvarðanir um leiðirnar með skömmum fyrirvara eftir veðri og öðrum aðstæðum. Hvaða dag sem er geta farþegar valið að fara styttri leiðir á eigin vegum eða hreinlega taka því rólega á hótelinu og njóta þess sem heilsulindin og nágrennið hefur upp á að bjóða.

 
 
Undirbúningur

Mikilvægt er að þátttakendur séu í ágætis gönguformi, en besti undirbúningurinn er að njóta náttúrunnar og ganga upp á Esjuna eða sambærilegt fjall. Gott er að ganga upp að Steini einu sinni í viku, a.m.k. tvisvar til þrisvar sinnum fyrir ferðina.

 
 
Tillögur að dagleiðum 4. – 9. september

Seiser Alm - Saltria

Hér á eftir eru tekin dæmi um 5 mismunandi dagleiðir sem eru líklegar til að vera á dagskránni þessa viku, en einn dagur er frjáls dagur.

 
  
1. Seiser Alm - Saltria

Gengið frá Seiser Alm lestarstöðinni. Í stað lestar er hægt að fara alla leiðina fótgangandi. Sú ganga tekur 1 – 1,5 tíma með 600 m hækkun. Frá lestarstöðinni göngum við að Hótel Sonne. Við komum að læk og göngum svo yfir blómstrandi engi á Gran Paluch. Við förum niður hlíðina til Saltria og göngum eftir Jendertal aftur til St. Ulrich. Möguleiki að lengja gönguna og fara aðrar leiðir tilbaka.
 
          Göngutími: ca. 3-4 klst.
          Hækkun: 600 m.
          Erfiðleikastig leiðar: Létt

 Brogelshütte 
 
2. Brogleshütte

Við tökum lest til Raschötzer Bergstation. Hér fyrir ofan skógarlínuna liggur leiðin gegnum grösug beitilönd til Brogelshütte, sem er einstaklega fallegur staður. Við getum valið að fara alla leið til baka með lestinni, eða hálfa leið og ganga svo frá Seceda (1 klst), eða jafnvel fara aukalega yfir Panascharte fjallaskarðið til Seceda (1,5 tímar, mjög bratt).
 
          Göngutími: ca. 1,5 klst.
          Hækkun: lítil, aðeins upp og niður
          Erfiðleikastig leiðar: Létt

 
 
3. Regensburger Hütte

Förum með lest til Seceda Bergstation. Á göngunni höfum við Geislerspitzen tindana fyrir augunum og á vegi okkar verða hugguleg alpasel. Piera Longia drangurinn þykir merkileg sjón og eftir að hafa myndað hann í bak og fyrir höldum við að Plan Ciautier enginu. Þaðan sækir á brattan til Regensburger Hütte. Á bakaleiðinni getum við valið um mismunandi erfiðar leiðir, allt frá 20 mín göngu á næstu lestarstöð eða ganga alla leið tilbaka (2,5 tímar).
 
          Göngutími: ca. 3,5 klst.
          Hækkun: ekki mikil, 400 m niður í móti
          Erfiðleikastig leiðar: Miðlungserfitt

 Monte Pana
 
4. Monte Pana til Langkofelhütte

Förum með strætó til St. Christina og svo með stólalyftu á Monte Pana og Mont Seura. Við höldum eftir Ciaulong heiði og svo yfir grófan veg til Langkofelhütte. Við snúum við til Monte Pana og tökum stólalyftuna aftur niður. Frá St. Christina er aðeins 3,5 km gangur til St. Ulrich, en auðvitað er líka hægt að taka strætó.
 
          Göngutími: ca. 3 klst.
          Hækkun: Ein klst upp í móti, tvær niður í móti
          Erfiðleikastig leiðar: Miðlungserfitt

 
 
5. Col Raiser – Steviahütte þjóðgarður

Með strætó til St. Christina og svo með hringlestinni til Col Raiser. Við sækjum á brattann til Regensburger Hütte. Þaðan liggur stórbrotin leið með einstaka fjallasýn yfir La-Piza fjallaskarðið að Stevia heiði, en svo hallar undan fæti í bili. Frá Stevia seli förum við Sylvester Steig leiðina að Juac seli og loks yfir engin til St. Christina. Til baka með strætó eða gangandi.
 
          Göngutími: ca. 3,5 klst.
          Hækkun: Þó nokkur bratti
          Erfiðleikastig leiðar: MiðlungserfittGengið upp fjalladalinn Val Setus

 
 
6. Sellastock

Farið með strætó til Grödner Joch og gengið upp fjalladalinn Val Setus til Pisciaduseehütte 2587 m. Frá Boéhütte fikrum við okkur eftir einstígi á Val-Tita-Kessel, förum yfir Lastie dalinn, en svo er aftur einstígi á Coburger Weg. Frá Pordoi skarði getum við valið um að fara áfram upp að Pordoi lestarstöðinni eða gengið niður að Pordoijoch. Til baka með lest og/eða strætó.
 
          Göngutími: ca. 5,5 klst.
          Hækkun: nokkuð mikil.
          Erfiðleikastig leiðar: Erfitt, einungis fyrir fótvissa.

 
 
 
Alpenhotel Rainell

Hótelið Alpenhotel Rainell er 4* alpahótel í fjölskyldueigu, Alpenhotel Rainellsem staðsett er skammt frá miðbæ St. Ulrich í Suður-Tíról. Hótelið er með 27 herbergjum sem öll eru með svölum og búin sturtu/baðkari, flatskjá, öryggishólfi, hárþurrku, míníbar og síma. Á hótelinu er hugguleg heilsulind með sauna, gufubaði og nuddpotti, þar sem gott er að slaka á eftir góðan göngudag. Gestir hafa einnig aðgang að sundlaugargarði í 10 mín fjarlægð. Hótelið er staðsett á stórfenglegum stað í Dólómítunum og njóta gestir glæsilegs útsýnis beint úr herbergisgluggum sem og á göngu um svæðið. 10 mín gangur er niður í miðbæ St. Ulrich, þar sem finna má helstu verslanir og þjónustu ásamt veitinga- og kaffihúsum. Þar er einnig að finna tréútskurðameistara sem þekktir eru um heim allan fyrir hæfileika sína.

 
 
 
Flugið

Flogið verður með Icelandair til München þann 3. september. Brottför frá Keflavík kl. 7:20, en mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Frá flugvellinum í München eru um 280 km til Tíról svo gera má ráð fyrir að rútuferðin taki um 3,5 klst. Á heimleið 10. september leggjum við snemma af stað út á flugvöll og flogið verður heim kl. 14:05 frá München. Lending á Íslandi kl. 16:00 að staðartíma.

 
 



 
 
Verð: 188.400 kr. á mann í tvíbýli.           Mikið innifalið – athugið sérstaklega!

Aukagjald fyrir einbýli er 12.800 kr.

 
 
 
Innifalið: 

Trítlað í Suður-Tíról

• Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
• Ferðir á milli flugvallarins í München og hótelsins í St. Ulrich í Suður-Tíról.
• Gisting í tveggja manna herbergi með baði á 4 stjörnu hóteli.
• Morgunverðarhlaðborð.
• Vel útilátinn 4 rétta kvöldverður með salatbar.
• Aðgangur að sundlaug og öllu því sem glæsileg heilsulindin hefur upp á að bjóða.
• Aðgangur að tennisvelli.
• Göngudagskrá.
• Strætókort í vagna í dalnum.
• Leiðsögn staðarleiðsögumanns í gönguferðum.
• Íslensk fararstjórn.

 
 
Ekki innifalið:

Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur. Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll, leigubílaakstur, hádegisverður og þjórfé, internet á hóteli. Mælt er með að fólk kaupi sér 6 daga kort í kláfana ca. € 79, sem er ódýrara en að greiða í hvert sinn.

 
  

 

 

Ferðaskilmálar Bændaferða

 

Tengdar ferðir




Póstlisti