Ferðalýsing & verð

Ferðalýsing & verð

 
31. ágúst           Flug til Frankfurt – Strassburg – MS Gérard SchmitterMS Gérard Schmitter

Brottför er frá Keflavík kl. 7.25, en mæting er í Leifsstöð 2 klst. fyrir brottför. Lent í Frankfurt kl. 12.50 að staðartíma. Ekið verður frá Frankfurt til hinnar fögru borgar Strassburg í Frakklandi, þar sem við stígum um borð í skipið MS Gérard Schmitter. Við munum gista fimm nætur um borð í þessu glæsilega skipi í þægilegum vel búnum káetum með tveimur rúmum og glugga. Í gestasalnum er bar með öllum drykkjum inniföldum og á veitingastaðnum er hlaðborð á morgnana en þjónað til borðs í hádegi og á kvöldin. Uppi á sóldekki eru legustólar til reiðu. Þegar við höfum komið okkur fyrir, hittum við ferðafélagana og áhöfn í móttökuathöfn og snæðum kvöldverð um borð.

 
 
1. september            Strassburg – Rüdesheim

Um nóttina verða landfestar leystar og við siglum niður ána í átt að Rüdesheim. Um það leyti sem við njótum morgunverðarins er siglt framhjá Speyer og Mannheim. Ferðin liggur áfram gegnum Mainz og Wiesbaden, framhjá Rínareyjunum Rettbergsaue, Mariannenaue og Fulderaue. Síðdegis er akkeri varpað í höfn huggulega gamla vínræktarþorpsins Rüdesheim, sem m.a. er þekkt fyrir bindingsverkshúsin sín. Stigið verður upp í litla bæjarlest, sem ferjar okkur í gegnum borgina að einstaklega forvitnilegu tónlistarsafni, sem er eitt sinnar tegundar í Evrópu. Að loknum kvöldverði um borð er tilvalið að kanna betur hina líflegu Drosselgasse í Rüdesheim. Þessi gata varð heimsfræg á sínum tíma fyrir andrúmsloftið sem skapaðist hér þegar tónlistin ómaði út á götu frá tónlistarmönnum sem spiluðu á fjölmörgum börum í götunni.

 
 
2. september           Rüdesheim – Koblenz - KölnKöln

Næsta morgun leggur skipið af stað í siglingu um rómuðustu svæði hins sögufræga Rínardals. Einn hápunktur dagsins er Loreley kletturinn, sem er þekktur fyrir þjóðsöguna um lokkaprúðu hafmeyjuna Loreley sem sat uppi á klettinum og leiddi fiskimenn í dauðann með seiðandi söng sínum. Þessi saga hefur verið yrkisefni margra skálda, m.a. Heinrich Heine. Hin 2000 ára gamla borg Koblenz, er staðsett við ármót Mósel og Rínar. Skaginn sem myndast við ármótin er kallaður þýska hornið eða „Deutsches Eck“. Á stuttri siglingu áfram til Kölnar, munum við njóta ævintýralegs útsýnis til ýmissa kastala og halla. Síðdegis leggjum við að í elsta hluta Kölnar og okkur gefst tækifæri til að rölta um þröngar gamlar götur í miðbænum og skoða hina frægu Kölnardómkirkju sem er stærsta gotneska kirkja Norður-Evrópu. Kvöldverð snæðum við um borð.

 
 
3. september           Köln – Nijmegen

Árla morguns verður siglt af stað til Hollands. Við Emmerich förum við yfir landamærin og síðdegis komum við til Nijmegen. Hér gefst tækifæri til að rölta um þessa elstu borg Hollands. Hún var mennta- og menningarsetur fyrr á öldum, aðsetur Karlunga og síðar Hansaborg. Meðal þess markverðasta sem sjá má í borginni er Karólínska kapellan frá 11. öld, hin gotneska kirkja St. Stevens og ráðhúsið. Þetta kvöld gerum við okkur glaðan dag um borð, með hátíðarkvöldverði og í kjölfarið tónlist og dans í gestasal skipsins.

 
 
4. september           Nijmegen – AmsterdamAmsterdam

MS Gérard Schmitter léttir akkerum árla morguns og fer framhjá Arnhem og Utrecht áður en við komum til Amsterdam um miðjan dag. Eftir hádegisverð er farið í gönguferð um Amsterdam með leiðsögumann í fararbroddi, sem sýnir okkur það markverðasta í borginni. Að skoðunarferð lokinni gefst tími til að kanna borgina á eigin vegum, rómantísk síki, litrík hús sem halla sér hvert að öðru, kaffihús af ýmsu tagi og stórfengleg listasöfn. Eftir kvöldverð um borð er farið í siglingu á minni útsýnisbát með glerþaki um síki miðbæjarins. Við njótum þess að sitja um borð og horfa á þessa stórkostlegu borgarmynd líða framhjá.

 
 
5. september           Amsterdam – Heimferð

Þennan síðasta dag okkar er haldið með rútu út á flugvöll í Amsterdam að loknum morgunverði. Þaðan er flogið kl. 14:00 og lent í Keflavík kl. 15.10 að staðartíma.

 
 
 
Um skipið:Káeta í skipinu MS Gerard Schmitter

MS Gérard Schmitter, sem er í eign franska skipa-félagsins CroisiEurope, var tekið í notkun árið 2012. Skipið er 110 metra langt, 11,40 metrar á breidd og með 88 káetum á þremur hæðum. Lyfta er á milli hæða og á skipinu er að finna setustofu með bar og glæsilegum veitingastað. Á sóldekkinu eru sæti og legubekkir. Allar káeturnar eru með glugga, sjónvarpi, hárblásara, öryggishólfi og baðherbergi með sturtu.

 
 
 
Athugið

Í þessari ferð er upplagt að lengja ferðina og breyta heimferð. Breytingargjaldið er 5.000 kr. á miða. Farþegar geta bókað gistingu í Amsterdam á eigin vegum og notið þess að skoða borgina betur. Starfsfólk Bændaferða aðstoðar að sjálfsögðu þá farþega sem þess óska við að bóka gistingu á netinu.

 
  
 
Verð: 219.900 kr. á mann í tvíbýli           Mikið innifalið – Athugið sérstaklega!

Aukagjald fyrir einbýli 49.900 kr.

 
Aukagjald fyrir káetu á miðju þilfari er 21.700 kr. á mann í tvíbýli. Ekki er hægt að fá einbýli á miðju þilfari.

Aukagjald fyrir káetu á efra þilfari er 28.800 kr. á mann í tvíbýli. Ekki er hægt að fá einbýli á efra þilfari.

 
 
 
Innifalið:

Vindmyllur í Hollandi

• Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
• Rútuferð frá flugvellinum í Frankfurt til Strassburg þar sem farið er um borð í skipið.
• 6 dagar á fljótabátnum MS Gérard Schmitter.
• Gisting á skipinu MS Gérard Schmitter í káetum með baðherbergi með sturtu 5 nætur.
• Morgun-, hádegis- og kvöldverður á MS Gérard Schmitter alla daga um borð (fyrsta máltíð er kvöldverður þann 31. ágúst og síðasta máltíð morgunverður 5. september áður en haldið er út á flugvöll).
• Drykkir með máltíðum á skipinu, vín, bjór, vatn og 1 x kaffi espresso.
• Allir drykkir á barnum um borð.
• Hátíðarkvöldverður 3. september um borð í skipinu með tónlist og dansi.
• Skoðunarökuferð með „Winzerexpress“ lestarvagni í Rüdesheim.
• Aðgangur að tónlistarsafninu í Rüdesheim.
• Skoðunarferð með leiðsögumanni á göngu í Amsterdam.
• Sigling að kvöldi til með útsýnisbátum um síkin í Amsterdam.
• Rútuferð frá höfninni í Amsterdam og út á flugvöll í Amsterdam.
• Íslensk fararstjórn.

 
 
Ekki innifalið:

Þær máltíðir sem ekki eru tilgreindar undir innifalið. Aðgangseyrir annar en nefndur er undir innifalið. Forfalla- og ferðatryggingar.
 
 


Ferðaskilmálar Bændaferða

 

Tengdar ferðir