Ferðalýsing & verð

Ferðalýsing & verð

 
21. maí           Flug til München & BrixenFlórens eða „La Bella“

Brottför frá Keflavík kl. 7.20. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13.05 að staðartíma. Þaðan verður ekin fögur leið yfir Brennersskarðið til Suður-Tíról á Ítalíu og gist eina nótt í Brixen.

 
 
22. maí           Brixen & Flórens

Eftir góðan morgunverð verður ekið til borgarinnar Flórens sem staðsett er í hinu víðfræga héraði Toskana. Flórens eða „La Bella“ eins og hún er oft nefnd, er með glæsilegustu lista- og menningarborgum Ítalíu og ein af fjölsóttustu borgum veraldar. Lega borgarinnar er með eindæmum fögur, en hún stendur báðu megin fljótsins Arno. Í Flórens verður gist í 3 nætur á góðu hóteli í miðbænum og aðeins örfáum skrefum frá demöntum listasögunnar.

 
 
23. maí           Glæsileg skoðunarferð í FlórensFlórens

Í dag höldum við í glæsilega skoðunarferð um Flórens með heimamann í fararbroddi, sem mun leiða okkur í allan sannleikann um sögu og mannlíf borgarinnar og sýna okkur alla helstu staði borgarinnar. Fáar borgir komast í hálfkvisti við Flórens, en ótrúlegt er að slíkur fjöldi fágætra listaverka finnist á jafn litlu svæði. Að skoðunarferðinni lokinni gefst hverjum og einum tími til að kanna borgina betur á eigin vegum og fá sér hressingu.

 
 
24. maí           Frjáls dagur í Flórens

Hver kannast ekki við snillinga á borð við Leonardo da Vinci, Michelangelo, Botticelli, Galileo Galilei, Dante og Machiavelli? Allir mörkuðu þeir spor sín í menningar- og listasögu borgarinnar. Í dag er upplagt að skoða sig betur um í töfrandi borginni og verja drjúgum tíma á Galleria deglia Uffezi listasafninu, sem er eitt glæsilegasta listasafn landsins. Það var áður stjórnsýsluhús en er nú málverkasafn með 4.500 myndum sem sýna þróun menningar í Flórens og málaralistar í Feneyjum. Svo má ekki gleyma glæsilegustu höll borgarinnar Palazzo Pitti sem Medici ættin lét stækka með yndislegum garði. Kaupmenn borgarinnar eru á sínum stað og leggja sitt af mörkum til að gera þetta að ógleymanlegum degi.

 

25. maí           San Gimignano & Forte dei MarmiSan Gimignano, borg hinna fínu turna

Nú kveðjum við Flórens og ökum fagra leið um Toskanahéraðið með viðkomu í San Gimignano, borg hinna fínu turna. Borgin er ein af best varðveittustu miðaldaborgum Ítalíu. Áður fyrr voru turnar borgarinnar rúmlega 70 en í dag má sjá 13 til 14 þeirra. Hér verður tími til að fá sér hressingu og skoða helstu staði borgarinnar. Því næst er stefnan tekin á Versilíaströndina til Forte dei Marmi, sem verður okkar næsti áfangastaður. Þar munum við gista í 3 nætur á góðu hóteli í miðbænum.

 
 
26. maí           Sigling yfir á eyjuna Elbu

Í dag munum við byrja á því að aka til bæjarins Piombino, en þaðan siglum við yfir kristaltært hafið til borgarinnar Portoferraio á eyjunni Elbu. Ekinn verður skemmtilegur hringur um þessa fallegu eyju og á vegi okkar verður einstök náttúrufegurð og hugguleg þorp. Glæsileg sumarhöll Napóleons er meðal þess sem við munum berja augum, en árið 1814 var hann sendur í útlegð og fékk eyjuna til umráða. Síðdegis verður siglt til baka.

 
 
27. maí           Frjáls dagur í Forte dei MarmiMílanó

Þennan dag er frjáls dagur í Forte dei Marmi, sem er yndislegur og skemmtilegur bær. Upplagt er að ganga um bæinn, líta inn í fínar verslanir, á kaffihús eða veitingastaði. Einnig er hægt að fara í gönguferð eftir ströndinni eða taka það rólega og njóta glæsilegrar aðstöðu hótelsins.

 
 
28. maí           Dagur í Mílanó & heimferð

Nú kveðjum við Toskana eftir yndislega daga, það er komið að heimferð eftir þessa glæsilegu ferð. Ekið verður til heimsborgarinnar Mílanó þar sem tími gefst til að líta inn hjá kaupmönnum borgarinnar og skoða sig um áður en farið verður út á flugvöll. Flug þaðan kl. 23.40 og lent í Keflavík kl. 01.55 að staðartíma.

 

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

 
  
 
Verð: 199.900 kr. á mann í tvíbýli           Mikið innifalið – athugið sérstaklega!

Aukagjald fyrir einbýli er 49.900 kr.

 
 Toskana vín
 
Innifalið: 

• Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
• Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
• Morgunverður á hótelum.
• Fjórir kvöldverðir.
• Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
• Íslensk fararstjórn.

 
 
Ekki innifalið:

Þrír kvöldverðir í Flórens. Aðgangseyrir í söfn, hallir og kirkjur. Siglingar og hádegisverðir. Þjórfé.

 
 
Valfrjálst:

Sigling yfir á eyjuna Elbu ca. € 28. Galleria deglia Uffizi listasafnið ca. € 18. Höllin Palazzo Pitti ca. € 9.
 
 
 


Ferðaskilmálar Bændaferða

 

 

 

Tengdar ferðir