Ferðalýsing & verð

Ferðalýsing & verð

 
26. ágúst           Flug Keflavík – EdmontonMynnisvarði Stephansson

Flug frá Keflavík til Edmonton í Alberta. Brottför frá Leifsstöð kl.16:45. Mæting á flugvöll 3 klst. fyrir brottför. Lent í Edmonton kl.17:25 að staðartíma. Að loknu útlendingaeftirliti og tollskoðun flytja skutlur hópinn á hótel nærri flugvelli þar sem gist verður eina nótt.

 
 
27. ágúst           Edmonton – Markerville – Banff

Frá Edmonton er ekið í íslensku nýlenduna í Markerville. Þangað fluttu Íslendingar frá Norður Dakota og var skáldið Stephan G. Stephansson einn þeirra. Hann reyndist löndum sínum drjúgur og tók virkan þátt í mótun íslenska samfélagsins. Nöfn eins og Hólar, Tindastóll og Fensalir voru hans hugmyndir og hér flutti hann Þó þú langförull legðir á þjóðminningarsamkomu. Hús skáldsins er nú safn og verður það skoðað. Hádegisverður snæddur í Markerville. Við komum til Calgary og skoðum okkur þar um áður en ekið verður til Banff, þar sem gist verður 3 nætur.

 
 
28. ágúst           Frjáls dagur í Banff

Nú höfum við heilan dag til að anda að okkur fjallaloftinu og upplifa stemninguna í Banff. Ef veður er gott væri upplagt að taka kláfinn upp á fjallið Sulphur Mountain og njóta stórkostlegs útsýnisins þaðan yfir fjöllin, en þeir sem vilja geta gengið niður eftir skógarstígnum. Hér eru áhugaverð söfn, sem varða m.a. sögu frumbyggja landsins og landnemanna. Það er því tilvalið að taka því rólega og rölta um hinn fræga fjallabæ, sem stundum er kallaður skíðabær ríka fólksins, og jafnvel fá sér vísundasteik í kvöldmatinn.

 
 
29. ágúst           Kootenay – þjóðgarðurKootenay þjóðgarður

Í dag verður farin dagsferð í Kootenay þjóðgarðinn og á hverasvæðið Radium Hot Springs. Í Klettafjöllunum, þessum einstaka fjallgarði, finnast víða djúpir og skjólgóðir dalir. Veðurfar er milt og gróðursæld mikil. Kootenay þjóðgarðurinn er einn slíkur staður. Nafnið er dregið af ættbálki indíána, Kootenay (Ktunaxa), sem sóttu hingað á hverju sumri fyrr á öldum. Fornleifar benda til þess að þeir hafi komið á svæðið fyrst og fremst til að veiða. Hádegisverður er snæddur áður en ekið verður áfram á eitt hverasvæða fjallanna, Radium Hot Springs. Þótt engar heimildir séu til bendir ýmislegt til þess að indíánar hafi komið og baðað sig í hverunum, sannfærðir um lækningamátt þeirra. Sir George Simpson, forstjóri Hudson´s Bay Company mun fyrstur hvítra manna hafa séð hverina. Í minnisbók hans er færsla árið 1841 þar sem hann segist hafa baðað sig í heitri laug, passlega stórri fyrir einn. Seint á 19. öld settust landnemar hér að og árið 1890 keypti Roland Stuart hverasvæðið fyrir 160 dali. Árið 1922 varð svæðið hluti þjóðgarðsins.

  Lake Louise  
 
30. ágúst           Banff – Lake Louise - Jasper

Þessi dagsferð snýst nánast algerlega um Klettafjöllin. Ekið verður frá Banff til Lake Louise, líklega einhvers fallegasta staðar fjallanna. Mörgum sem þangað koma þykir svæðið nánast himneskt. Bresk áhrif í Alberta eru mikil, fjölmörg staðarheiti tengjast Bretlandi 19. aldar. Stöðuvatnið Lake Louise ber nafn breskrar prinsessu og fjallið, sem gnæfir yfir botni dalsins, heitir Viktoría. Frá Lake Louise er ekið norður um fjöllin. Hér er margt að sjá og því víða áð. Á einum stað blasir við skógivaxinn dalur, þar sem blágrænt stöðuvatnið Peyto Lake glitrar eins og gimsteinn í sólinni. Hér og hvar glittir í jökla og hvarvetna er fjallasýnin einstök. Þessi dagleið endar í ferðamannabænum Jasper þar sem gist verður næstu tvær nætur.

 
 Jasper Wildlife safnið 
31. ágúst           Frjáls dagur í Jasper

Snemma á 19. öld komu skinnakaupmenn North West Company til héraðsins og árið 1813 var reist hús, sem kallað var Jasper House. Seinna tók Hudson´s Bay félagið yfir reksturinn og var skinnaverslun stunduð fram eftir öldinni. Það var svo árið 1907 að hér varð til þjóðgarður. Jasper er sannur fjallabær með skemmtilegri smábæjarstemningu í stórbrotnu umhverfi. Jasper safnið er merkilegt og sjálfsagt að skoða það. Þar er sagan sögð í máli og myndum á einkar skemmtilegan máta. Þá er spennandi að fara í skoðunarferð í hinn magnaða Maligne dal. Ferðin þangað er skipulögð og stjórnað af heimamönnum.

 
 
1. september           Jasper – Edmonton

Fjöllin kvödd og stefnan er tekin í austur. Við ökum út á Hutteritessléttuna þar sem þúsundir vísunda undu hag sínum fyrr á öldum en gengdarlausar veiðar um miðbik 19. aldar gengu mjög nærri stofninum. Í samvinnu við bændur sneru stjórnvöld við blaðinu og efldu stofninn. Förinni er heitið á búgarð þar sem bóndinn fer með hópinn á sérstökum vagni til að skoða vísundahjörð. Byrjum á að borða hádegismat á Rochfort Bridge Trading Post, en þar gefst tækifæri til að smakka vísundakjöt. Eins og nafnið gefur til kynna þá var þetta fyrrum verslunarstaður. Hingað komu íbúar sléttunnar með varning og seldu, og gera enn, því hér selja svonefndir Hutterites grænmeti o.fl. Frá fyrstu tíð hefur Kanada verið griðarstaður fyrir ýmsa sértrúarhópa og í dag gefst tækifæri til að heimsækja byggð Hutterites. Þessi sértrúarhópur heldur fast í hefðir og siði 19. aldar sem m.a. sést á klæðaburði. Hér er merkilegt samfélag sem vert er að kynnast. Komið til höfuðborgarinnar seinnipartinn og þar gist í tvær nætur.

 
 
2. september           Frjáls dagur í Edmonton

Þennan dag gefst tækifæri til að skoða borgina, kíkja á söfn, versla í stærstu verslunarmið-stöð í Kanada eða bara hvílast og taka það rólega.

 
 
3. september           Heimferðardagur

Heimferðardagur. Flug heim er undir kvöld svo tækifæri gefst til að skoða meira í borginni fram eftir degi. Rúta flytur hópinn á flugvöll kl.15.00. Mæting á flugvöll a.m.k. tveimur tímum fyrir brottför. Flug til Íslands kl. 18.25.

 
 
4. ágúst           Lending í Keflavík

Flugvél Icelandair frá Edmonton lendir um kl. 6.40 að morgni í Keflavík.

 
  
 
Verð: 264.600 kr. á mann í tvíbýli.           Allar skoðunarferðir innifaldar!

Aukagjald fyrir einbýli er 89.900 kr.

 
 Klettafjöll
 
Innifalið:

• Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
• Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
• Morgunverður alla morgna.
• Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
• Aðgangur að þjóðgarðinum í Jasper.
• Aðgangur að þjóðgarðinum í Banff.
• Aðgangur að þjóðgarðinum í Kootenay.
• Skoðunarferð á vísundabúgarði.
• Akstur á flugvöll á heimferðardegi.
• Íslensk fararstjórn.

 
 
Ekki innifalið:

Aðgangseyrir inn í söfn og kirkjur. Kláfar. Hádegis- og kvöldverðir. Forfalla- og ferðatryggingar.

 
 
Valfrjálst:

Aðgangseyrir í Markerville safnið ca. $4.00, hús Stephans G. Stephanssonar ca. $5.00. Hádegismatur í Fennsölum ca.$18.00. Fararstjóri safnar saman greiðslum í rútu á leiðinni og borgar allan pakkann.

 
 
Athugið:

Að máltíðir eru almennt ekki innifaldar í ferðinni, nema morgunverður alla daga. Gott er að hafa með sér nasl í bílnum, ávexti, vatn og annað slíkt. Það er mjög mismunandi hvað kvöldverður kostar og miðast við hvort farþegar vilja fá sér einfalda máltíð eða fara fínt út að borða. Sem viðmiðun má gera ráð fyrir að kvöldverður kosti ekki undir 20 dollurum á mann (aðeins skyndibitamáltíð er ódýrari).

 
 

 Ferðaskilmálar Bændaferða

 
  
 

 

Tengdar ferðir