Ferðalýsing & verð

Ferðalýsing & verð

 
6. ágúst           Flug til München & St. Johann í TírólSt. Johann í Tíról

Brottför frá Keflavík kl. 7.20. Mæting í Leifsstöð um 2 klst. fyrir brottför. Lending í München kl.13.05 að staðartíma (+ 2 klst. tímamismunur). Þaðan verður ekið til St. Johann í Tíról þar sem gist verður 4 nætur á glæsilegu alpahóteli. Á hótelinu eru þrjár sólarverandir, heilsulind með stórri innisundlaug, finnskri sauna og ýmsum tegundum af gufuböðum, ásamt líkamsræktaraðstöðu. Hægt er að panta ýmsar heilsumeðferðir gegn gjaldi.

 
 
7. ágúst          Notalegur dagur í St. Johann

Við ætlum að eiga rólegan dag og njóta þess að vera á fegursta stað austurísku Alpanna í bænum St. Johann í Tíról. Eftir góðan morgunverð förum við inn í bæinn og röltum saman til að skoða en síðan verður frjáls tími. Upplagt er að fara í skoðunarferð með smálest sem ekur um bæinn og umhverfi hans. Einnig verður tími til að njóta frábærrar aðstöðu á hótelinu eða fá sér göngutúr í fjallalandslaginu.

 
 
8. ágúst           Köningsee & Arnarhreiðrið

Köningsee

Nú liggur leið okkar til Berchtesgaden þar sem Arnarhreiður Hitlers er staðsett. Bormann lét byggja það og færa honum að gjöf frá ríkinu á 50 ára afmæli hans, en Hitler sjálfur valdi tindinn Kehlstein í 1.834 m hæð sem byggingarstað. Á leiðinni til baka verður stoppað við Köningsee sem þekkt er fyrir stórfenglega náttúrufegurð, en þetta kristalstæra vatn er einn eftirsóttasti ferðamannastaður Þýskalands. Hér verður farið í skemmtilega siglingu út að fallegu St. Bartholoma kapellunni sem er frá 12. öld.

 
 
9. ágúst           Kitzbühel & Kitzbüheler Horn

Skemmtilegur dagur í Kitzbühel í Tíról sem er einn af þekktustu vetraríþróttabæjum Austurríkis. Á 16. og 17. öld blómstraði bærinn vegna kopar- og silfurvinnslu. Gamli bærinn státar af fallegum gömlum bindiverkshúsum, Katharinen kirkjunni, sem er í gotneskum stíl og mikið úrval er af fínum verslunum. Tækifæri gefst til að fara með kláf upp á Kitzbüheler Horn sem er í 1.998 m hæð yfir sjávarmáli. Þar er veitingahús, kapella og stórkostlegt útsýni. Um kvöldið væri upplagt að hópurinn skellti sér saman á Tírólaskemmtun og upplifði ekta glens og gaman á tírólska vísu.

 
 
10. ágúst           Innsbruch & IschglInnsbruck

Nú kveðjum við St. Johann í Tíról og er stefnan tekin á Ischgl sem er í 1.377 m hæð í Paznaundal. Bærinn er einn þekktasti skíðabær landsins og mikill ferðamannabær með ótal kláfum og lyftum upp á Silvretta skíðasvæðið. Á leiðinni verður staldrað við í Innsbruck, höfuðborg Tíról sem er í einstaklega fögrum fjallasal. Innsbruck var ein af borgum Habsborgaranna, einnar mikilvægustu valdaættar Evrópu. Eftir stutta skoðunarferð verður hægt að kanna borgina á eigin vegum og líta t.d. inn til kaupmanna í Maria-Theresien-Straße eða setjast niður á einhverju af hinum fjölmörgu kaffi- og veitingahúsum og virða fyrir sér mannlíf borgarinnar. Eftir góða stund í bænum höldum við á hótelið í Ischgl þar sem gist verður 3 nætur. Á hótelinu er heilsulind með sauna, gufubaði, innisundlaug og nuddpotti. Einnig er verönd þar sem hægt er að sitja og njóta fjallafegurðar Paznaundals.

 
 
11. ágúst           Ischgl & Silvretta HochalpenvegurinnSilvretta Hochalpenvegurinn

Við ökum um Silvretta-Hochalpen veginn sem liggur frá Tiroler Paznaun, yfir Silvretta fjöllin, Bielerhöhe og Vermunt til Voralberger Monafon. Hluti leiðarinnar, milli Partenen og Galtür, liggur í 1.538 m hæð og er það einn vinsælasti og fallegasti fjallvegur Austurríkis. Á leiðinni verður áð í fjallabænum Bludenz sem er þekktur fyrir töfrandi litlar, þröngar götur sem liðast milli gamalla húsa. Við njótum þess að detta inn í bæjarlífið og fá okkur hressingu.

 
 
12. ágúst           Ischgl & Silverette

Við eigum ljúfan dag í fjallabænum Ischgl. Tilvalið er að fá sér göngutúr um bæinn og jafnvel fara með kláfi upp á Idalp í 2.320 m hæð þar sem töfrandi fjallaheimur tekur við og náttúrufegurðin er allsráðandi. Hér uppi mætast flestar lyftur og kláfar svæðisins. Þeir hressustu geta gengið að kláfinum sem fer niður til bæjarins Samnau í Sviss. Samnau er tollfrjálst svæði og því er upplagt að líta inn til kaupmanna þar.

 
 
13. ágúst           St Moritz, Bernina-Express & MeroneBernina-Express

Nú kveðjum við Ischgl eftir yndislega daga og ökum til St. Moritz í Sviss, sem er frægur skíðabær. Við skoðum okkur um í bænum áður en stigið verður um borð í Bernina-Express hraðlestina. Hún fer á milli Chur, elstu borgar Sviss, og Tirano á Ítalíu sem er einstaklega falleg leið. Á vegi okkar verða um 55 göng, 196 brýr og hallinn er allt að 70%. Það er ekki annað hægt en að dást að dásamlegu útsýni sem mun blasa við, fjöll, dalir, fjallaþorp, jöklar, skógar, vötn og minnisvarðar. Ferðin tekur um 2 klukkutíma, en þegar komið er til Tirano bíður rútan okkar og ekur okkur til Merone á Ítalíu þar sem gist verður í 2 nætur á góðu hóteli á bökkum Lambro árinnar. Þetta huggulega hótel er með heilsulind með sauna, líkamsræktaraðstöðu og verönd sem snýr út að ánni.

 
 
14. ágúst           Sigling á Como vatni & Bellagio

Como vatnið við rætur Alpafjalla er frægt fyrir dramatískt landslag. Þetta djúpbláa vatn með fjöllin í bakgrunni og gróðurfegurð við ströndina eru eins og mynd á póstkorti. Meðfram strönd vatnsins eru lúxushótel og ríkmannlegir bústaðir. Við förum í siglingu á þessu draumfagra vatni til bæjarins Bellagio sem stendur á tanga. Þar er að finna dulúðlega litla höfn, litríkar verslanir, skemmtileg kaffihús og veitingastaði.

 Mílanó
 
15. ágúst           Heimferð frá Mílanó

Þá er komið að heimferð eftir ljúfa ferð. Undir hádegi verður ekið til heimsborgarinnar Mílanó. Farið verður í stutta göngu um borgina og svo gefst frjáls tími til þess að skoða hana á eigin vegum. Margar fallegar byggingar er að finna í borginni, dómkirkjan er til að mynda eitt af meistaraverkum gotneskrar byggingarlistar. Tilvalið er að borða kvöldverð í borginni áður en ekið er út á flugvöll. Brottför frá Mílanó verður kl. 23.40 og lending í Keflavík kl. 01.55 að staðartíma.

 
 
 
Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

 
  
 
Verð: 249.900 kr. á mann í tvíbýli.           Mikið innifalið – athugið sérstaklega!

Aukagjald fyrir einbýli er 47.400 kr.

 
 Fegurð landsins fjalla
 
Innifalið í þátttökugjaldinu: 

• Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
• Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
• Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
• Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
• Útsýnislestarferð með Bernina Express um Alpafjöllin.
• Íslensk fararstjórn.

 
 
Ekki innifalið:

Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur. Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll. Siglingar. Hádegisverðir. Þjórfé.

 
 
Valfrjálst:

Arnarhreiður Hitlers ca. € 16. Sigling á Königssee vatni ca. € 14. Tírólakvöld ca. € 10. Kláfur á Kitzbüheler Horn ca. € 22. Sigling til Bellagio ca. € 8.


 


Ferðaskilmálar Bændaferða

  

 

Tengdar ferðir