Ferðalýsing & verð

Ferðalýsing & verð

 
25. júní           Flug til BergenBergen

Brottför frá Keflavík kl. 08.00. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í Bergen kl.12:15 að staðartíma (+2 klst). Við höldum á hótelið, komum okkur fyrir og förum í bæjarferð. Meðal þess sem er að sjá í bænum eru Hansabyggingarnar í Bryggen. Að skoðunarferð lokinni verður frjáls tími og væri t.d. kjörið að fara með Flöilestinni að útsýnisstaðnum Flöien. Þaðan er frábært útsýni yfir Bergen. Einnig er tilvalið að heimsækja líflegan fiskmarkaðinn. Við gistum eina nótt í Bergen.

 
 
26. júní           Bergen – Myrdal – Sognefjord - Leikanger

Næsta morgun yfirgefum við Bergen og ökum til Voss þar sem farið verður í stórfenglega lestarferð frá Voss í gegnum Myrdal og áfram til Flåm. Á þessari leið upplifum við eitt mikilfenglegasta landslag sem Noregur hefur upp á að bjóða, há fjöll með snæviþökktum tindum, fallega fossa og sveitabæi sem hafa verið byggðir utan í fjallshlíðunum. Flåm járnbrautin er eitt af meistaraverkum norskrar verkfræði, en lagning hennar í erfiðu landslaginu hófst árið 1920 og lauk 20 árum seinna. Eftir hádegi verður ekið í gegnum hin 24,5 km löngu Lærdalsgöng, lengstu bílagöng í heimi, til Borgund stafkirkju sem var byggð á tímabilinu 1150 – 1200. Þaðan verður ekið til Fodnes þar sem við tökum ferju yfir til Manheller. Við höldum för okkar áfram meðfram undurfögrum Sognefjord þar til við komum að náttstað okkar í Leikanger. Gist eina nótt.

 Geirangursfjörður 
 
27. júní           Leikanger - Geirangursfjörður

Við byrjum daginn með að aka upp með firðinum og höldum svo áfram upp Gaula fjallið og upp á hásléttuna. Þetta er einstaklega spennandi og fjölbreytt leið eftir þröngum fjörðum, yfir há fjöll og inn í skjólsama dali. Við förum meðfram Jølster vatninu, sem er þekkt fyrir sinn ljúffenga silung og komum til Skei, þar sem við stöldrum við í hádeginu. Við tökum svo ferju frá Anda yfir til Lote og frá Nordfjordeit ökum við meðfram dýpsta stöðuvatni Evrópu; Hornindalsvatnet. Við ljúkum dagleiðinni með yndislegri ferjuferð frá Hellesylt til Geiranger. Á þessari rúmlega klukkutíma löngu siglingu er hægt að njóta einstaks útsýnisins til stórbrotinna fjallanna og dásamlegra fossa sem falla fram af fjallsbrúnunum. Kvöldverður og gisting eina nótt á hóteli í Geirangri.

 
 
28 . júní           Geirangursfjörður – Tröllastígurinn - TrondheimTröllastígurinn

Við ökum Örnevegen til Eidsdal og tökum þar ferju til Linge. Síðan er komið að því að aka eftir hinum hrikalega Tröllastíg til Åndalsnes, tæplega 3000 manna bæjarfélags, sem stendur við ósa árinnar Rauma mitt í fjalladýrð Romsdalsfjarðarins. Við höldum áfram til Dombsås þar sem við tökum hádegishlé. Dofrafjöllin eru þekkt fyrir sauðnautin sín. Á heiðskírum dögum er oft hægt að sjá dýrin á beit uppi í fjallshlíðinni. Loks er haldið niður Oppdal til Þrándheims. Gist þar tvær nætur.

 
 
29. júní           Þrándheimur

Þrándheimur við árós Nidelven er þriðja stærsta borg í Noregi og var höfuðborg Noregs til forna. Við munum heimsækja Ringve Gård við borgina og sjá hina merku Niðarósdómkirkju frá 1070. Gamla brúin yfir ána er nú orðin tákn Þrándheims og gaman er að rölta um Bakklandet hverfið. Eftir skoðunarferðina gefst frjáls tími til að skoða sig um á eigin vegum.

 
 
30. júní           Þrándheimur - heimferðÞrándheimur

Lagt verður af stað á flugvöllinn í Þrándheimi kl. 12.00. Brottför er kl. 14:55 og lending í Keflavík kl. 15:25 að staðartíma.

 
 
 
Fararstjórar geta fært dagskrárliði milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

 
  
 
Verð: 189.900 kr. á mann í tvíbýli.           Mikið innifalið – athugið sérstaklega!

Aukagjald fyrir einbýli er 26.200 kr.

 Í tröllahöndum í Noregi 
 
 
Innifalið: 

• Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
• Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
• Morgun- og kvöldverðir allan tímann á hótelum.
• Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
• Ferjur samkvæmt ferðalýsingu.
• Íslensk fararstjórn.

 
 
Ekki innifalið:

Aðgangseyrir inn á söfn og kirkjur. Hádegisverðir. Þjórfé.

 
 
Valfrjálst:

Aðgangseyrir að Borgund stafkirkju ca. NOK 80. Lestarferð með Flåm lestinni ca. NOK 395. Niðarósdómkirkja, aðgangur að turninum og safninu ca. NOK 140.

 
 

 Ferðaskilmálar Bændaferða

 
 

 

Tengdar ferðir