Sérferðir

Sérferðir

 

 
Jólaferðir til Wiesbaden

29. nóvember - 2. desember 2012     UPPSELT!
6. - 9. desember 2012      ÖRFÁ SÆTI LAUS!
Fararstjóri: Marianne Eiríksson

Aðventan er tími ljóss og friðar. Ilmurinn af jólaglöggi og brenndum möndlum liggur í loftinu. Í þessari jólaferð höldum við til Wiesbaden sem stendur á bökkum Rínar, rétt vestur af Frankfurt, þar sem við gistum í 3 nætur á hóteli við göngugötuna. Í Wiesbaden er aðventustemning og í miðbænum er fallegur jólamarkaður þar sem upplýstar stjörnur svífa yfir litríku jólahúsunum. Boðið verður upp á bæjarrölt með fararstjóra, en eins gefst tækifæri til að kanna bæinn á eigin vegum, líta inn til kaupmanna eða fylgjast með mannlífinu frá einu af fjölmörgum kaffi- og veitingahúsum sem eru í miðbænum. Við förum einnig í dagsferð til Rüdesheim sem er vinsæll ferðamannabær við ána Rín. Í hjarta bæjarins er hinn skemmtilegi „Jólamarkaður þjóðanna”, þar sem hægt er að kaupa fallegar gjafavörur og fylgjast með hvernig handverk frá hinum ýmsu þjóðum er unnið. Þá er upplagt að ylja sér við jóladrykkinn „Glühwein” á meðan gengið er á milli jólabásanna. Allur miðbærinn er skreyttur jólaljósum og gaman er að rölta um og njóta jólastemningarinnar til fulls.

 

 

Jólaferðir til Mainz

29. nóvember - 2. desember 2012     UPPSELT!
Fararstjóri: Íris Sveinsdóttir

Jólaferðir Bændaferða til Þýskalands hafa öðlast fastan sess í hjörtum margra og hafa verið geysivinsælar í gegnum árin. Ferðinni er að þessu sinni heitið til borgarinnar Mainz sem stendur við ána Rín. Mainz sem oft er kölluð Gutenbergerborgin hefur upp á margt að bjóða og skartar miðbærinn fallegum jólamarkaði sem á sér 200 ára gamla sögu. Þar má einnig sjá einstaklega fallegan 11 metra háan jólapíramída sem prýddur er englum, jólasveinum og þekktum hetjum úr sögu Mainz. Við markaðstorgið stendur hin fallega St. Stephans dómkirkja með sínum einstaklega fallegu, bláu glergluggum eftir listamanninn Chagall. Boðið verður upp á stutta bæjarferð um Mainz og eftir það er upplagt að njóta aðventustemningarinnar, kíkja í verslanir eða ylja sér við jólaglögg. Einnig verður farið í dagsferð til háskólaborgarinnar Heidelberg, þar sem kastali frá 13. öld gnæfir tignarlega yfir borginni en í miðbænum er einnig þekktur jólamarkaður þar sem kaupa má allskyns fallegar jólavörur.

 

  

Jólaferð til Rosenheim & Salzburg

1. - 4. desember 2012     UPPSELT!
Fararstjóri: Inga Ragnarsdóttir

Í þessari nýju jólaferð til Rosenheim í Bæjaralandi fáum við að upplifa jólastemningu, jólamarkaði og fallegar jólaskreytingar í borg sem á eftir að koma flestum á óvart. Rosenheim er viðskipta- og menningarmiðstöð suðaustur Bæjaralands með aldagamalli verslunar- og handverkshefð. Saga borgarinnar er frá tímum Rómverja, en blómatími borgarinnar var á miðöldum með saltverslun og flutningum á ánni Inn. Rosenheim prýða fagrar byggingar og torg, Stadtpfarr-kirkjan St. Nikolaus er einstaklega falleg og þess virði að líta þar inn. Boðið verður upp á stutta bæjarferð um Rosenheim og eftir það er upplagt að dreypa á jólaglöggi á jólamarkaði borgarinnar og finna hjartslátt bæjarbúa. Einnig er farið í dagsferð til fæðingarborgar Mozarts, Salzburgar í Austurríki, sem er ein af fallegustu borgum landsins og með sérlega fallega jólamarkaði. Borgin er þekkt fyrir byggingar í barokkstíl og var hún skráð á heimsminjaskrá UNESCO árið 1996, en Salzburg er í hugum margra sannkölluð perla Austurríkis. Kastalinn Hohensalzburg færir borginni ævintýraljóma og frá honum er glæsilegt útsýni yfir Salzburgerland.

 

 

Tengdar ferðir