18. - 25. maí 2026 (8 dagar)
Í þessari frábæru ferð kynnumst við perlum Toskana héraðs, miðaldaþorpum og bæjum með sinn gullna sjarma. Einnig fallegum hjólaleiðum um gjöfular sveitir þar sem mæta okkur sólbakaðar vínekrur og aldnir ólífulundir, sem og aldagamlar borgir þar sem andi endurreisnar og miðalda býr við hvert fótmál. Við dveljum í huggulega heilsulindarbænum Montecatini Terme en hér hefur jarðvarminn verið nýttur öldum saman. Áin Arno, lífæð Toskana héraðs verður títt á vegi okkar. Við komum á hið fræga Kraftaverkatorg í Pisa, Piazza dei Miracoli, en þar ber hæst hinn magnaði skakki klukkuturn sem hefur staðið þar síðan á 14. öld. Leið okkar liggur í fallega bæinn San Gimignano en hans helsta einkenni eru fjölmargir turnar sem voru reistir af ríkustu fjölskyldum bæjarins á miðöldum. Við komum einnig í snotru borgina Lucca sem gjarnan er kölluð borg listanna. Í elsta hluta hennar er vinsælasti ferðamátinn reiðhjól. Hér er mikið virki sem stendur enn og uppi á múrunum eru frábærir hjólastígar sem þaktir eru voldugum trjágróðri. Við njótum mikilfenglegs útsýnis yfir sveitir Toskana frá bænum Montecarlo og hjólum um vínekrurnar í Chianti Classico. Á vegi okkar verður Vinci, fæðingarbær endurreisnarmannsins Leonardo da Vinci, en þar er skemmtilegt safn um þennan þekkta snilling sem við munum skoða og við bregðum okkur einnig í vínsmökkun á þessum slóðum. Við hjólum til Flórens, hinnar undursamlegu borgar við Arno fljót. Þar gefst góður tími til þess að njóta og skoða, en þar má meðal annars finna hina frægu brú Ponte Vecchio, Uffizi listasafnið, Boboli garðinn og hina fallegu dómkirkju, Duomo, með sinni tilkomumiklu hvelfingu. Í þessari yndislegu hjólaferð um hjarta Toskana héraðs njótum við alls hins besta í norður ítalskri sveitasælu. Við ferðumst um gylltar hæðir og vínekrur, lagðar litlum hvítum sveitavegum og hávöxtum dökkgrænum síprusviðartrjám. Litlir fallegir bæir og borgir verða á leið okkar sem eiga sér langa og ríka sögu. Hér blandast saman skemmtilegar hjólaleiðir, menning og óviðjafnanlegt landslag.