Hjólað í Norður-Toskana

Í þessari frábæru ferð kynnumst við perlum Toskana héraðs, miðaldaþorpum og bæjum með sinn gullna sjarma. Einnig fallegum hjólaleiðum um gjöfular sveitir þar sem mæta okkur sólbakaðar vínekrur og aldnir ólífulundir, sem og aldagamlar borgir þar sem andi endurreisnar og miðalda býr við hvert fótmál. Við dveljum í huggulega heilsulindarbænum Montecatini Terme en hér hefur jarðvarminn verið nýttur öldum saman. Áin Arno, lífæð Toskana héraðs verður títt á vegi okkar. Við komum á hið fræga Kraftaverkatorg í Pisa, Piazza dei Miracoli, en þar ber hæst hinn magnaði skakki klukkuturn sem hefur staðið þar síðan á 14. öld. Leið okkar liggur í fallega bæinn San Gimignano en hans helsta einkenni eru fjölmargir turnar sem voru reistir af ríkustu fjölskyldum bæjarins á miðöldum. Við komum einnig í snotru borgina Lucca sem gjarnan er kölluð borg listanna. Í elsta hluta hennar er vinsælasti ferðamátinn reiðhjól. Hér er mikið virki sem stendur enn og uppi á múrunum eru frábærir hjólastígar sem þaktir eru voldugum trjágróðri. Við njótum mikilfenglegs útsýnis yfir sveitir Toskana frá bænum Montecarlo og hjólum um vínekrurnar í Chianti Classico. Á vegi okkar verður Vinci, fæðingarbær endurreisnarmannsins Leonardo da Vinci, en þar er skemmtilegt safn um þennan þekkta snilling sem við munum skoða og við bregðum okkur einnig í vínsmökkun á þessum slóðum. Við hjólum til Flórens, hinnar undursamlegu borgar við Arno fljót. Þar gefst góður tími til þess að njóta og skoða, en þar má meðal annars finna hina frægu brú Ponte Vecchio, Uffizi listasafnið, Boboli garðinn og hina fallegu dómkirkju, Duomo, með sinni tilkomumiklu hvelfingu. Í þessari yndislegu hjólaferð um hjarta Toskana héraðs njótum við alls hins besta í norður ítalskri sveitasælu. Við ferðumst um gylltar hæðir og vínekrur, lagðar litlum hvítum sveitavegum og hávöxtum dökkgrænum síprusviðartrjám. Litlir fallegir bæir og borgir verða á leið okkar sem eiga sér langa og ríka sögu. Hér blandast saman skemmtilegar hjólaleiðir, menning og óviðjafnanlegt landslag.

Verð á mann í tvíbýli 429.900 kr. 

Aukagjald fyrir einbýli 28.800 kr.

Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði á 4* hótelum. 
  • Morgun- og kvöldverðir á hótelum. 
  • Aðgangur að Leonardo da Vinci safninu.
  • Vínsmökkun ásamt léttu snarli. 
  • Leiga á rafhjóli í 6 daga.
  • Erlend hjólaleiðsögn.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Hjólahjálmur 2.040 kr.
  • Hjólataska 3.400 kr.
  • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur.
  • Siglingar.
  • Hádegisverðir.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Undirbúningur

Dagleiðirnar í þessari hjólaferð spanna um 30-55 km. Ferðahraðinn er ekki meiri en svo að auðvelt er að upplifa umhverfið og njóta þess sem fyrir augu ber. Við ráðleggjum fólki að fara í nokkra lengri dagstúra og festa kaup á gelhnakki eða hjólabuxum. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir hjólaferð af þessu tagi og fólk nýtur sjálfrar ferðarinnar betur ef það æfir og undirbýr sig vel fyrir ferðina. Vinsamlegast athugið að ef þátttakendur hafa ekki þá getu sem nauðsynleg er fyrir hjóladaga ferðarinnar getur fararstjórinn farið fram á að viðkomandi sleppi einhverjum degi/dögum. Í staðinn er hægt að nýta sér aðstöðu hótelsins eða fara í hjólaferðir á eigin vegum.

Tillögur að dagleiðum

Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé fararstjóri er reynd hjólamanneskja og mun hún skipuleggja hjólaferðirnar eftir aðstæðum hverju sinni í samráði við innlendan leiðsögumann sem fylgja mun hópnum alla hjóladagana. Eftirfarandi eru leiðarlýsingar til viðmiðunar fyrir hjóladagana sem fararstjóri getur skipulagt eftir eigin höfði ásamt því að breyta eða bæta við stöðum.

18. maí | Flug til Mílanó & Montecatini Terme

Brottför frá Keflavík kl. 09:00 og mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 15:10 að staðartíma. Við keyrum í suðurátt til heilsulindarbæjarins Montecatini Terme þar sem gist verður í 7 nætur á 4* hóteli.

Opna allt

19. maí | Vicopisano, Skakki turninn & Marina di Pisa

Eftir góðan morgunverð leggjum við upp frá miðaldaþorpinu Vicopisano og fylgjum lífæð Toskana héraðs, ánni Arno, en hún er 240 km löng og rennur meðal annars í gegnum Flórens og Pisa. Hér eru fjöllin Monte Pisano á aðra hönd og áin mikla á hina. Við höldum áfram meðfram ánni fram hjá ólífulundum, vínekrum og litlum bóndabæjum í fallegu landslagi Toskana héraðs. Næst stöldrum við í borginni Pisa þar sem hinn frægi Skakki turn hefur staðið síðan á 14. öld. Hann var um 200 ár í byggingu sem hófst á seinni hluta 12. aldar. Verkið var ekki langt komið þegar turninn tók að hallast og hann var nálægt falli árið 1990 þegar miklar björgunaraðgerðir hófust. Hér við Kraftaverkatorgið, Piazza dei Miracoli, sjáum við líka dómkirkjuna sjálfa sem turninn tilheyrir, Duomo di Pisa, ásamt stærstu kapellu Ítalíu, skrúðgarði og kirkjugarði sem öll eru á heimsminjaskrá UNESCO. Við fáum tíma til að skoða okkur um áður en við höldum leið okkar áfram. Við sjáum kirkjuna San Pietro a Grado, en hún er sögð staðsett þar sem Pétur postuli kom í land frá Arno ánni og flutti sína fyrstu messu á Ítalíu. Að lokum komum við að ströndum Toskana héraðs í þorpið Marina di Pisa þar sem áin Arno fellur í Týrennahafið.

  • Hjólavegalengd u.þ.b. 41 km
  • Hækkun u.þ.b. 120 m
  • Erfiðleikastig: auðvelt til miðlungs

20. maí | Chianti & San Gimignano

Við fáum far að bænum Tavarnelle en þaðan hjólum við út í sveitir Toskana héraðs og Chianti sem einkennast af háum síprus trjám, mjóum hvítum sveitavegum, vínekrum, bóndabæjum, kastölum og miðaldaþorpum. Við komum í fallega bæinn Certaldo. Hér mætast arkitektúr frá miðöldum, litlar steinilagðar götur og torg og hið hefðbundna líf Toskana búa í bland við fallegt landslag hæðanna í dalnum Val d’Elsa. Eftir stop í þessum skemmtilega bæ höldum við áfram til eins þekktasta og fallegasta miðaldarbæjar Toskana hérðas, San Gimignano. Hann stendur á hæð milli ánna Elsa og Arabia og er stundum kallaður bær turnanna því að eitt sinn bar þar 72 turna við himinn en í dag eru um 14 eftir. Þrátt fyrir að hafa fækkað talsvert eru þeir mjög ríkjandi í ásýnd bæjarins og sjást víða að. Hér gefst tími til að kanna bæinn á eigin vegum. Í San Gimignano meðal annars framleitt eitt þekktasta hvítvín Toskana, Vernaccia og hér er frábær ísbúð, Gelateria Dondoli. Við fáum far með rútu aftur að hóteli.

  • Hjólavegalengd u.þ.b. 35 km
  • Hækkun u.þ.b. 390 m
  • Erfiðleikastig: miðlungs

21. maí | Lucca

Hjólaferð dagsins er til borgarinnar Lucca sem var upprunalega byggð Etrúskumönnum og síðar Rómverjum á tímum Júlíusar Sesars. Hún er gömul virkisborg og var á 13. og 14. öld ein af valdamestu borgum Evrópu. Hér hefur sögulegur og menningarlegur andi borgarinnar elst vel og þess vegna er hún gjarnan kölluð listaborgin, Città d'arte. Við munum hjóla eftir virkisveggjunum frá miðri 17. öld og njóta stórkostlegs útsýnis yfir borgina. Hér gefst góður tími til að skoða sig um í borg hinna hundrað kirkna, sem finna má meðal annars í rómönskum, gottneskum og barrokk stíl. Þessi fjöldi skýrist af því að auðugar fjölskyldur á miðöldum og seinna, reistu kirkjur til þess að sýna veldi sitt, öðlast virðingu og sýna hollustu við almættið. Piazza dell’Anfiteatro torgið er reist á grunni rómversks hringleikahúss, þar eru skemmtileg kaffihús og bakarí. Einnig er hægt að sjá æskuheimili Puccinis en það er í dag safn um skáldið. Það er gaman að fara um gamla bæinn í Lucca og götur borgarinnar en þar er einnig að finna sérverslanir, veitinga- og kaffihús. Ekið verður til baka á hótelið í rútu.

  • Hjólavegalengd u.þ.b 52 km
  • Hækkun u.þ.b. 270 m
  • Erfiðleikastig: miðlungs

22. maí | Frjáls dagur

Nú gefst tækifæri til að slaka á og njóta þessa dásamlega bæjar, Montecatini Terme. Hér eru að minnsta kosti 11 heitar uppsprettur sem nýttar eru í heilsulindir bæjarins en hann er á heimsminjaskrá UNESCO yfir merkilegustu heilsulindarbæi heims. Í bænum eru fallegir göngustígar og fjöldi grænna svæða og rétt fyrir ofan hann er miðaldaþorpið Montecatini Alto en þangað er hægt að komast með toglest. Það er upplagt að skoða sig um, líta inn í litlar, forvitnilegar verslanir og kynna sér líf bæjarbúa. Fyrir þá sem vilja skoða sig um hjólandi, þá verða rafhjólin tiltæk. Svo er alltaf hægt að slaka á og láta fara vel um sig á hótelinu og nýta góða aðstöðu þess, meðal annars heilsulindina.

23. maí | Chianti Classico, Montecarlo & Vinci

Eftir notalegan frjálsan dag höldum við hjólaferð okkar áfram. Í dag njótum við fegurðar hæða og hóla í sveitum Toskana, fyrst í bænum Montecarlo en þar er frábært útsýni. Þaðan höldum við áfram í gegnum vínekrurnar í Chianti Classico þar sem vínviðurinn liðast um brekkurnar. Hér eru ótal ólífulundir og litlir bóndabæir. Seinni hluta dags komum við í litla bæinn Vinci, fæðingarbæ Leonardo da Vinci. Hér fáum við tíma til þess að skoða okkur um í bænum en í honum frábært safn um líf og starf þessa merka manns og þar er hægt að sjá teikningar, málverk og tæki sem hann fann upp. Við endum ferðina okkar á huggulegri vínsmökkun í sveitasælunni með eðalvíni og góðgæti úr héraði. Við ökum síðan aftur til baka á hótelið.

  • Hjólavegalengd u.þ.b 42 km
  • Hækkun u.þ.b. 360 m
  • Erfiðleikastig: miðlungs

24. maí | Meðfram Arno ánni til Flórens

Í dag ferðumst við með rútu til litla bæjarins Signa. Við hjólum meðfram árbakkanum, í gegnum lítil þorp þar til við sjáum móta fyrir hinni fallegu Flórens, höfuðborg menningar og lista. Þar ber hæst dómkirkjan Santa Maria del Fiore, Duomo, sem var verk margra frábærra listamanna, meðal annars Filippo Brunelleschi sem hannaði og byggði hina frægu hvelfingu. Hér gefst góður tími til að skoða sig um á eigin vegum. Á torginu Piazza della Signoria er skemmtilegt safn höggmynda og í ráðhúsi borgarinnar Palazzo Vecchio er hægt að dást að fallegum veggmyndum sem fanga sögu Flórensborgar. Uffizi listasafnið stendur við ánna og hægt er komast yfir hana um hina frægu brú Ponte Vecchio. Í Oltrarno hverfinu er mikið af sérverslunum með leður, keramik, textíl og fleira. Boboli garðurinn handan árinnar er líka skemmtilegur með sínum víðáttumiklu svæðum, gróðri, tjörnum, gosbrunnum og lystihúsum. Við hjólum aftur til Signa sömu leið.

  • Hjólavegalengd u.þ.b 35 km
  • Hækkun u.þ.b. 180 m
  • Erfiðleikastig: auðvelt

25. maí | Heimferð frá Mílanó

Þá er þessi frábæra ferð á enda eftir yndislega daga og skemmtilega samveru. Ekið verður til Mílanó en brottför þaðan er kl. 16:20 og lending í Keflavík kl. 18:35 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

Hotel Adua & Regina di Saba - Montecatini Terme

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé

Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé er viðskiptafræðingur og starfar á velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Hún hefur verið þjálfari hjá Náttúruhlaupum frá 2014 og var þjálfari hjá Hlaupahópi Stjörnunnar frá 2018-2022. Hún hefur mikinn áhuga á hreyfingu og útivist og elskar að leiðbeina fólki að stíga sín fyrstu skref í hreyfingu. 

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

 

Tengdar ferðir




Póstlisti