Ferðalýsing & verð

Ferðalýsing & verð

 
28. maí           Flug til Mílanó & PortofinoSanta Margherita

Brottför frá Keflavík kl. 16.50. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 22.40 að staðartíma (+2 klst). Fararstjórinn tekur á móti hópnum á flugvellinum og er haldið með rútu beinustu leið niður að strönd Miðjarðarhafsins til bæjarins Santa Margherita Ligure sem stendur austan megin í Portofino höfðanum. Athugið að komið er seint á hótelið. Gist í miðbænum í 7 nætur.

 
 
29. maí           Santa Margherita – Rapallo

Við byrjum á því að skoða okkur um í bænum Santa Margherita, sem er í senn glæsilegur og rómantískur, enda hefur hann verið vinsæll af listamönnum lengi. Við skoðum miðbæinn, kirkjur og villur en göngum síðan af stað eftir ströndinni yfir í næsta bæ, Rapallo. Á leiðinni göngum við framhjá glæsilegum villum og Miðjarðarhafsgróðri en þegar komið er til Rapallo skoðum við bæinn, helstu kirkjur og einnig strandlengjuna. Hægt er að ganga sömu leið til baka eða taka bátinn til Santa Margherita.
 
Göngutími ca. 4 klst. Létt ganga um bæinn og á milli þeirra tveggja.

 
 
30. maí           PortofinoPortofino

Í dag fylgjum við mjög fallegum göngustíg sem liggur utan í höfðanum til nágrannabæjarins Portofino. Leiðin liggur eftir göngustígum upp úr bænum þar sem sjá má garðrækt bæjarbúa en síðan njótum við villts gróðursins. Frá hlíðinni er fagurt útsýni yfir Tigulio-flóann. Vegurinn liggur niður að Parodi-ströndinni og þaðan eftir einstaklega fallegum göngustíg í hina frægu vík Portofino. Hér liggja glæsilegar snekkjur alls staðar að úr heiminum við bryggju og hið fræga Portofino torg er þar upp af. Við göngum upp fyrir bæinn og alla leið fram á fremstu brún skagans þar sem vitinn trónir. Eftir stopp í bænum göngum við aðra leið til baka, þ.e. meðfram glæsilegri ströndinni á fallegum göngustíg en einnig er hægt að taka bát.
 
Göngutími ca. 4 klst & 1 klst ef gengið er tilbaka. Hækkun ca. 200 m. Auðveld ganga.

 
 
31. maí           Ruta di Camogli – PortofinoRuta di Camogli

Gangan í dag byrjar í Ruta í 250 m hæð fyrir ofan Camogli og þangað förum við með strætisvagni. Við göngum mjög fallega leið um skóginn upp í 500 m og héðan höfum við glæsilegt útsýni yfir Camogli og Paradísarflóann allt til Genova. Við höldum síðan áfram yfir höfðann þar til útsýnið opnast í austur yfir Tigulio-flóann um villtan Miðjarðarhafsgróðurinn. Leiðin fer síðan að halla niður á við og við komum niður á enda skagans þar sem hinn frægi bær Portofino liggur við lokaða vík. Tökum bát eða strætisvagn til baka.
 
Göngutími ca. 4,5 klst. Hækkun ca. 250 m. Auðveld ganga.

 
 
1. júní           Frjáls dagur

Í dag slökum við á og njótum þess sem nágrennið hefur upp á að bjóða. Hægt er að fara á ströndina, kíkja í litlu og fallegu búðirnar í Santa Margherita eða á kaffi- og veitingahús í bænum. Hugguleg sólarverönd er við hótelið og sundlaug fyllt með sjó.

 
 
2. júní           Cinque TerreCinque Terre

Nú höldum við til Cinque Terre þorpanna. Eftir stutta lestarferð komum við til bæjarins Monterosso al Mare og erum þá komin í Cinque Terre þjóðgarðinn sem er á heimsminjaskrá UNESCO sökum einstakra menningarminja. Við göngum þaðan yfir í næsta þorp, Vernazza eftir göngustíg sem liggur í klettahlíðum um vín- og sítrónuræktarlönd með stórkostlegt útsýni. Það er mismunandi hvaða gönguleiðir eru opnar svo að við ákveðum á staðnum hve langt við göngum, en einnig er á dagskrá að sigla hluta leiðarinnar áður en við tökum lest til baka.
 
Gangan á milli Monterosso og Vernazza er um 250m upp og sama niður og tekur um 2 tíma. Þægilegir göngustígar, en að miklum hluta til tröppur.

 
 
3. júní           Camogli – San FruttuosoCamogli – San Fruttuoso

Dagurinn byrjar með stuttri lestarferð (5 mín.) yfir í bæinn Camogli sem er staðsettur vestan megin við Portofino skagann. Camogli hefur verið fiskimannabær frá miðöldum og er einn sérstakasti bærinn í Ligúríu. Eftir að hafa gengið um skemmtilegan miðbæinn tökum við stefnuna upp á höfðann og eftir um 40 mín. erum við komin upp í bæjarkjarnann San Rocco. Gönguleiðin hér er ótrúlega falleg þar sem hún liggur um verndað svæði með útsýni yfir sjóinn og eftir allri ströndinni. Gengið er um í dæmigerðum Miðjarðarhafsgróðri utan í höfðanum með bláan sjóinn í bakgrunni. Þegar við förum niður á við birtist San Fruttuoso víkin sem ýmsir telja fallegasta staðinn við allt Miðjarðarhafið. Hér er gamalt klaustur og lítil strönd þar sem yndislegt er að hvíla sig eftir gönguna og kæla sig í sjónum. Héðan er tekinn bátur til baka til Santa Margherita. 
 
Göngutími ca.4 klst. Hækkun ca. 450 m. Góður göngustígur, tröppur upp fyrsta hlutann en síðan í gegnum skóglendi. Lækkun 450 m eftir skógarstíg.

 
 
4. júní           Heimferð

Í dag er frjáls tími. Ef áhugi er fyrir hendi þá er möguleiki á stuttri gönguferð eða skoðunarferð um Genova. Eftir snemmbúinn kvöldverð förum við með rútu út á flugvöll í Mílanó og fljúgum þaðan kl. 23.40. Lendum í Keflavík kl. 01.55 aðfaranótt 9. júní.

 
 
 
Erfiðleikaflokkur:

Léttar til miðlungserfiðar gönguferðir. 

  

Forsendur:

Hér er um gönguferð að ræða og þó að ferðin sé létt og henti jafnvel fyrir byrjendur, þá eru engu að síður brekkur og tröppur á gönguleiðunum. Almennt séð eru góðir göngustígar. Sem viðmiðun má segja að farþegar ættu auðveldlega að geta gengið á Úlfarsfell, Helgafell í Hafnarfirði eða sambærileg fell. Þess má jafnframt geta að það fylgir því mikil ánægja að æfa fyrir gönguferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferð.

 
 
 
Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

 
  
 
Verð: 244.400 kr. á mann í tvíbýli.           Mikið innifalið – athugið sérstaklega!

Aukagjald fyrir einbýli er 68.300 kr.

 
Lágmarksfjöldi er 18 manns og hámarksfjöldi 25 manns.

 
 Portofino & Cinque Terre
 
Innifalið: 

• Flug með Icelandair til Mílanó og flugvallarskattar.
• Rútuferð frá Mílanó til Santa Margherita og tilbaka út á flugvöll.
• Gisting í 7 nætur á 4* hóteli í Santa Margherita samkvæmt landsmælikvarða.
• 7 morgunverðir.
• 5 kvöldverðir.
• Drykkir með kvöldverði ( ½ flaska vatn & ¼ flaska borðvín).
• Íslensk fararstjórn.

 
 
Ekki innifalið:

Cinque Terre göngukort ca. € 5. Hádegisverðir og annar tilfallandi kostnaður á göngunum. 2 kvöldverðir. Forfalla- og ferðatryggingar.

 
 
 

 

Ferðaskilmálar Bændaferða 

 

Tengdar ferðir