Ferðalýsing & verð

Ferðalýsing & verð

 
SvæðiðWallis er draumastaður fyrir göngufólk

Wallis er draumastaður fyrir göngufólk, en á svæðinu eru um 8.000 kílómetrar af stikuðum gönguleiðum um fjöll og dali. Mikill kostur er að geta farið upp í alpasalina með kláfi og notið þess svo að ganga um þetta stórkostlega landslag á engjum og í skógum án mikils hæðarmunar. Naters er um 8.000 manna bær. Hér tala flestir þýsku, en ítalska er einnig algeng. Í þorpinu er margt athyglisvert að sjá eins og beinahúsið, sem geymir gamlar beinagrindur sem ekki var lengur pláss fyrir í kirkjugarðinum og safn svissnesku varðanna, en þeir gæta páfans í Róm.

 
 
Gönguferðirnar

Farið verður í skipulagðar gönguferðir með staðarleiðsögumanni, en íslenski fararstjórinn verður að sjálfsögðu með í för. Teknar verða ákvarðanir um leiðirnar með skömmum fyrirvara eftir veðri og öðrum aðstæðum.

 
 
Undirbúningur

Mikilvægt er að þátttakendur séu í ágætis gönguformi, en besti undirbúningurinn er að njóta náttúrunnar og ganga upp á Esjuna eða sambærilegt fjall. Gott er að ganga upp að Steini einu sinni í viku, a.m.k. tvisvar til þrisvar sinnum fyrir ferðina.

 
 
30. júlí           Flug Genf & Naters

Brottför frá Keflavík til Genfar kl. 7.20, en mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst fyrir brottför. Lending í Genf kl. 13.00 að staðartíma. Frá flugvellinum í Genf eru um 210 km á hótelið svo gera má ráð fyrir að rútuferðin taki um 2,5 - 3 klst.

 
 
Tillaga að dagleiðum 31. júli – 5. ágúst

Hér á eftir eru tekin dæmi um 5 mismunandi dagleiðir sem eru líklegar til að vera á dagskránni þessa viku, en gönguleiðir verða í raun ákveðnar með skömmum fyrirvara eftir aðstæðum. Einn frídagur er í ferðinni en auðvitað geta farþegar hvernær sem er valið að taka það rólega á hótelinu eða kanna hvað nágrennið hefur upp á að bjóða.

 
 
1. Með kláf á Lauhernalp og fjallaþorpið FafleralpFjallaþorpið Fafleralp

Rúta flytur okkur til Lötschendal og þaðan förum við með kláf upp á Lauchernalp. Hér í fjalladýrðinni göngum við yfir grösug engi og gegnum forna lerkiskóga, þar til við komum að huggulega fjallaþorpinu Fafleralp. Hér njótum hádegisverðar í fjallaseli sem sérhæfir sig í mat af svæðinu. Endurnærð göngum við niður að Kühmatt kapellunni í Blattern, en þar sækir rútan okkur aftur. Eftir kvöldverð fyrsta kvöldið býður hótelið okkur upp á hálftíma skoðunarferð um Naters með lítilli bæjarlest.
 
          Göngutími: ca. 4 klst.
          Hæðarmunur: 140 m hækkun, 430 m lækkun.
          Erfiðleikastig leiðar: Létt.

 
 
2. Grächen – Hannigalp og Chleini FurggeGrächen – Hannigalp og Chleini Furgge

Rútan flytur okkur til þorpsins Grächen, sem stendur á stalli yfir Matterdalnum. Héðan göngum við með lækjarnið í eyrum meðfram Bineri áveituskurðinum þar til við komum að kláfinum. Hann flytur okkur hærra upp á Hannigalp þar sem við göngum með útsýni til allra átta áleiðis til Saas. Frá Chleini Furgge tindinum er víðfemt útsýni yfir Saastal. Eftir hádegisverð liggur leiðin aftur niður til Hannigalp, en þar höfum við val á að fara með kláf eða gangandi alla leið til Grächen. Frá Grächen flytur rútan okkur aftur á hótelið.
 
          Göngutími: ca. 3,5 klst.
          Hæðarmunur: 200 m hækkun, 200 m lækkun til Hannigalp, 400 m til Grächen.
          Erfiðleikastig leiðar: Miðlungserfið.

 
 
3. Simplonskarð og Gondo gilSimplonskarð og Gondo gil

Í dag göngum við um hið stórbrotna Simplon skarð sem liggur í 2.000 m hæð milli Pennine og Lepontine Alpanna. Við göngum á sögulegum stígum í greniskógum og um blómstrandi engi í átt að bænum Egga. Rútan ferjar okkur yfir til bæjarins Gabi þar sem í boði verður ljúffengur hádegisverður í fögru skógarrjóðri við litla tjörn. Eftir hressinguna göngum við um Gondo gilið sem áin Doveria hefur sorfið inn í bergið. Þetta er stórfallegt gil sem dásamlegt er að ganga um. Á leiðinni sést sjaldgæfur fjallagróður og dýralíf ásamt rústum úr Napóleonsstríðinu og virki fótgönguliða Seinni heimstyrjaldarinnar. Gangan endar í bænum Gondo við ítölsku landamærin.
 
          Göngutími: ca. 5 klst.
          Hæðarmunur: 650 m lækkun.
          Erfiðleikastig leiðar: Létt fjallganga.

 
 
4. Matterhorn - Riffelalparnir og fjallavötnMatterhorn - Riffelalparnir og fjallavötn

Í dag stefnum við hátt. Blauherd liggur í 2.571 m hæð, en þangað ferjar okkur rúta, lest, toglest og kláfur. Við göngum um mikilfenglegu Riffelalpana og njótum útsýnis yfir fjall fjallanna Matterhorn sem er einn hæsti tindur Alpanna, 4.478 m. Við förum um stórbrotið landslag í átt að kyrrláta fjallavatninu, Stellisee. Áfram höldum við í átt að gimsteininum Grünsee þar sem tilvalið er að hvílast og nærast. Á svæðinu er að finna ríka Alpaflóru og auðugt dýralíf, hver veit nema að nokkur múrmeldýr, sem eru algeng á svæðinu, verði á vegi okkar. Á leiðinni aftur til Zermatt verður stoppað hjá grafreit fjallgöngumanna og í gamla þorpinu.
 
          Göngutími: ca. 5 klst.
          Hæðarmunur: 950 m lækkun
          Erfiðleikastig leiðar: Létt eða miðlungserfið.

 
 
5. Bettmerhorn Aletsgletscher & Märjelen jökullónBettmerhorn Aletsgletscher & Märjelen jökullón

Þá er komið að hápunkti ferðarinnar, göngu á fjallinu Bettmerhorn. Fjallið er 2.872 má hæð og þaðan er stórkostlegt útsýni yfir stærsta jökul Alpanna, Aletsgletscher sem er 23 km að lengd og nær yfir 120 ferkílómetra svæði. Rúta ferjar okkur til bæjarins Betten og þaðan þurfum við að taka tvo kláfa til að komast að upphafsstað göngunnar. Á veitingastað í fjallshlíðinni verður hægt að sjá áhugaverða heimildamynd um 18.000 ára sögu jökulsins og gæða sér á svisslensku bakkelsi sem ber nafnið Gipfeli, sem þýðir toppur. Við göngum meðfram jöklinum að jökullóninu Märjelensee, en í fjallahótelinu Gletscherstube snæðum við hádegisverð að hætti heimamanna. Loks göngum við gegn um 1 km löngu frárennslisgöngin Tälligrat til Kühboden þorpsins og fáum okkur þar kaffi og kökur. Eftir notalega kaffipásu göngum áfram í dásamlegri náttúru fjallanna um dalinn Rhonetal með hrífandi útsýni yfir Valais Alpana.
 
          Göngutími: ca. 5 klst.
          Hæðarmunur: 500 m lækkun
          Erfiðleikastig leiðar: Miðlungserfið.

 
 
6. ágúst           HeimferðHotel Touring

Komið er að heimferð eftir dásamlegar göngur og hressandi útivist. Eftir morgunverð verður lagt af stað út á flugvöll og flogið heim frá Genf kl. 14.00. Lending í Keflavík er kl. 15.50 að staðartíma.

 
 
Hótel

Gist verður á 3* Hotel Touring sem staðsett er í miðbæ Naters. Hótelið er með 35 velbúin herbergi sem öll eru með baði/sturtu, kapalsjónvarpi, síma og hárþurrku. Á hótelinu er gufubað og innrauður hitaklefi. Einnig er líkamsræktaraðstaða. Boðið verður upp á morgunverðarhlaðborð sem og 4 rétta kvöldverð á meðan dvölinni stendur.

 
 



 
 
Verð: 249.200 kr. á mann í tvíbýli.           Mikið innifalið – athugið sérstaklega!

Aukagjald fyrir einbýli er 27.000 kr.

 Göngugleði í svissnesku Ölpunum
 
 
Innifalið: 

• Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
• Ferðir á milli flugvallarins í Genf og hótelsins í Naters.
• Allar rútu-, lestarferðir og kláfar sem nefndar eru í ferðalýsingu.
• Gisting í tveggja manna herbergi með baði.
• Morgun- og kvöldverður allan tímann á hóteli.
• 5 hádegisverðir á göngu.
• Skoðurnarferð um bæinn með lítilli bæjarlest.
• Staðarleiðsögumaður í gönguferðum
• Íslensk fararstjórn.

 
 
Ekki innifalið:

Aðgangseyrir inn á söfn, leigubílaakstur og þjórfé.

 
 
 
 
 
 
 
Ferðaskilmálar Bændaferða
 
 
 
 

 

Tengdar ferðir




Póstlisti