Haustgleði í Króatíu

Það er draumi líkast að ferðast um eyjaperlur Króatíu úti fyrir Kvarner flóa og kynna sér menningu og lifnaðarhætti eyjaskeggja. Ferðin byrjar í Austurríki þar sem gist verður í bænum St. Johann í Pongau en síðan ekið til Króatíu og komið til bæjarins Crikvenica þar sem dvalið verður bróðurpart ferðarinnar. Farið verður í töfrandi ferðir, m.a. siglingar yfir á eyjuna Krk þar sem fegurðin gælir við okkur og út í eyjuna Kosljun. Við heimsækjum höfuðstað eyjunnar Krk, samnefnda virkisbæinn en þessi fjölsótti bær er menningarmiðstöð eyjunnar. Dagsferð er til Opatija, vinsælasta heilsubæjar króatísku strandarinnar þar sem margt er að skoða. Siglum yfir til Cres, sem er ásamt Krk stærsta eyja Adríahafsins, en Cres er tengd við eyjuna Lošinj sem er blóma- og furuparadís. Þar skoðum við yndislega bæinn Mali Lošinj með sínum þröngu, hlykkjóttu hliðargötum og dýrðlegu útsýni. Við upplifum eina af glæsilegustu náttúruleiksýningum Austur-Evrópu í vatnaþjóðgarðinum Plitvička Jezera sem er þakinn vötnum, fossum, ám og lækjum. Einnig verður farið í draumasiglingu yfir á Rab eyjuna en íbúar hennar eru sagðir hamingjusömustu íbúar landsins. Þar verður áð í bænum Lopar þar sem við upplifum hina dýrðlegu Paradísarströnd og miðaldabæinn Rab sem talinn er einn fallegasti hafnarbær Kvarner flóans. Þessi eyjadraumur endar í Kufstein í Austurríki, þar sem fer vel um alla ferðamenn í fjallasölum Alpafjalla

Verð á mann 249.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 28.800 kr.

Athugið að ef til þess kemur að Bændaferðir þurfi að fella niður ferðina er hún endurgreidd að fullu.


Innifalið

 • 12 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Siglingar.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Sigling til eyjunnar Cres ca € 6. 
 • Sigling til Košljun og heimsókn til vínbónda ca € 22.
 • Vatnaþjóðgarðurinn Plitvička jezera ca € 30.
 • Sigling yfir á eyjuna Rab ca € 5.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

5. október | Flug til München & St. Johann í Pongau

Brottför frá Keflavík kl. 7:20 og mæting í Leifsstöð 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Þaðan verður ekin falleg leið til St. Johann í Pongau í Austurríki, þar sem gist verður í eina nótt í hjarta bæjarins.

6. október | Crikvenica í Króatíu

Eftir góðan morgunverð og rólegheit verður farin undurfalleg leið í gegnum Slóveníu til bæjarperlunnar Crikvenica við Kvarner flóa í Króatíu. Hér verður gist í átta nætur á hóteli í miðbænum en hótelið er örfáum skrefum frá ströndinni. Einnig er heilsulind á hótelinu með saunu.

7. október | Eyjan Krk, eyjan Kosljun & vínbóndi

Ævintýraferð í dag um fallegu eyjuna Krk með heimamanni sem fræðir okkur um líf eyjaskeggja, menningu og listir. Krk eyjan er ásamt Cres stærsta eyja Adríahafsins og ber höfuðborgin nafn eyjunnar. Eyjan er tengd meginlandinu með Krk brúnni eða hinni svokallaðri Tito-brú eins og hún hét áður. Hún var byggð stuttu eftir lát forseta landsins árið 1980 og nefnd eftir honum, honum til heiðurs. Byrjað verður á að aka til bæjarins Punat þar sem farið verður í stutta siglingu út á eyjuna Kosljun við víkina Puntarska Draga. Á eyjunni er að finna mjög áhugavert Franziskanaklaustur frá 15. öld með heilmiklu safni og undurfallegri Maríukirkju. Eftir það verður ekið til höfuðstaðar eyjunnar, gamla virkisbæjarins Krk en þessi fjölsótti bær er menningarmiðstöð eyjunnar og upplifum við hann á skemmtilegri göngu. Þessi góði dagur endar á akstri til bæjarins Vrbnik þar sem vínbóndi verður heimsóttur.

Opna allt

8. október | Rólegur dagur Crikvenica

Við ætlum að taka lífinu með ró í dag og skoða umhverfið í þessum fagra bæ við Kvarner flóann. Farið verður í skemmtilega göngu um þennan fræga ferðamannabæ þar sem íbúar hafa byggt afkomu sína á ferðaþjónustu í 125 ár. Eftir það verður frjáls tími til að kanna bæinn á eigin vegum. Pálmum prýdd strandgatan er falleg og það er gaman að kynnast lífi og menningu bæjarbúa.

9. október | Dagur í heilsubænum Opatija

Leiðin er fögur til Opatija, eins vinsælasta heilsubæjar strandarinnar með 10.000 íbúum. Bænum er oft líkt við Nice við frönsku rivíeruna en hér má finna glæsileg hótel, blómaskreytta garða og fallega strönd. Njótum þess að kanna bæinn á eigin vegum eftir stutta skoðunarferð og fá okkur hressingu á einum af fjölmörgu veitingastöðum borgarinnar. Einnig gefst tími til að kíkja í verslanir sem eru fjölmargar af ýmsum toga.

10. október | Vatnaþjóðgarðurinn Plitvička Jezera

Þennan dag leggjum við land undir fót og heimsækjum þjóðgarðinn Plitvička Jezera. Garðurinn er þakinn 16 vötnum, fossum, ám og lækjum sem saman mynda stórkostlegt náttúrusjónarspil. Þessi undursamlegi staður hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO frá árinu 1979 og er fegurðin ólýsanleg. Hér er um að gera að klæðast góðum skóm, því eina leiðin til að virða fyrir sér dýrðina er fótgangandi.

11. október | Eyjarnar Lošinj & Cres

Í dag ætlum við að fara í smá eyjahopp. Byrjum á því að aka til Valbiska á Krk þar sem við tökum ferju yfir til Merag á Cres sem er ein af landbúnaðareyjunum. Ekið verður yfir á eyjuna Lošinj sem er blóma- og furuparadís eyjanna í Króatíu. Hér er að finna suðrænan gróður, s.s. pálma- og furutré, agave plöntur, lárviðarrós, sítrónutré, salvíu og lofnarblóm. Eyjan telst til sólríkustu staða Evrópu og státar af yfir 2500 sólarstundum á ári, sem þýðir að það eru um 300 nánast skýjalausir dagar á ári. Komum til Mali Lošinj, höfuðstaðar hennar, en þar liggur miðbærinn upp frá smábátahöfn með fjölmörgum, huggulegum verslunum og kaffi- og veitingahúsum sem bjóða upp á dæmigerða Miðjarðarhafsrétti. Það er gaman að ganga um þröngar, hlykkjóttar hliðargötur og fara upp að aðalkirkju bæjarins, en þaðan er dýrðlegt útsýni yfir bæinn og flóann. Eftir yndislegan tíma þar verður ekið yfir til bæjarins Cres, sem er höfuðstaður samnefndrar eyju. Bærinn er einstaklega hrífandi og þéttbyggður bæjarkjarninn minnir helst á Feneyjar. Hér gefum við okkur tíma til að skoða okkur um áður en ekið verður til baka á hótelið.

12. október | Sigling yfir á Rab eyjuna, Lopar & miðaldabærinn Rab

Dásamlegur dagur sem byrjar á siglingu yfir á draumaeyjuna Rab sem er skógi vaxin með undurfallegar sandstrendur, umvafin kristalstærum sjó. Íbúar eru sagðir þeir hamingjusömustu í allri Króatíu enda búa þeir í söguríkum, gömlum bæjum í náttúrufegurð sem lætur engan ósnortinn. Komið verður á nokkra fallegustu staði eyjunnar og staldrað við á merkum stöðum. Það verður t.d. komið til miðaldabæjarins Lopar sem stendur við fallegustu strönd eyjunnar, svonefnda Paradísarströnd, og að miðaldabænum Rab, sem byggðist út á keilulöguðum tanga. Rab er með sterkum feneyskum blæ og af mörgum talinn einn fallegasti hafnarbær Kvarner flóa. Eftir góðan morgunverð verður farið í skemmtilega göngu með heimamanni um gamla bæinn þar sem við kynnumst sögu hans og menningu. Fjórir turnar bæjarins eru tákn hans og tróna yfir rauðum leirþökum húsanna sem gera þennan miðaldabæ svo hrífandi. Eftir skoðunarferð er frjáls tími sem upplagt er að nota til að kynnast mannlífinu á torgum og strætum, í verslunum og kaffi- eða veitingahúsum.

13. október | Rólegheit í Crikvenica

Kærkominn hvíldardagur eftir dásamlega daga og nú verður tími til að slaka á og njóta þess að vera á þessum fagra stað. Nota sér aðstöðu hótelsins eða fara í gönguferð inn í miðbæinn og kanna betur líf bæjarbúa.

14. október | Crikvenica & Kufstein í Austurríki

Nú er komið að því að kveðja þetta yndislega land. Eftir morgunverð verður ekin falleg leið norður eftir Slóveníu inn í Austurríki og tökum stefnuna á Kufstein þar sem gist verður í tvær nætur. Mjög skemmtilegur bær með sínum miðaldakastala sem trónir yfir borginni.

15. október | Dagur í Kufstein & frjáls tími

Inn á milli Alpafjalla er bærinn Kufstein sem er oft kallaður perla Tíróls og er staðsettur við grænu ána Inn. Árum saman hafa hljómað um hann fallegar ballöður listamanna. Miðaldakastalinn Kufstein trónir yfir bænum en kastalinn er frægur fyrir tilkomumikið útiorgel, svokallað Hetjuorgel, en í hádeginu dag hvern er leikið á orgelið til minningar um þá sem féllu í heimstyrjöldunum tveimur. Orgelhljómarnir óma frá turni kastalans og endurkastast í þverhníptum fjöllunum í kring. Við förum í stutta gönguferð til að kanna umhverfið og upplagt er að hlusta á stutta orgeltónleika, förum síðan með lyftu upp í kastalann en þaðan er útsýnið yfir bæinn og nærliggjandi sveitir undurfagurt. Eftir það er frjáls tími til að kanna bæinn á eigin vegum.

16. október | München & heimflug

Eftir frábæra ferð verður ekið frá Kufstein til München. Brottför er kl. 14:05 og lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma. 

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Gísli Einarsson

Gísli Einarsson hefur unnið ýmiskonar störf, lengst af þó við fjölmiðla. Hann er í dag dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu en kemur einnig reglulega fram sem skemmtikraftur á árshátíðum, þorrablótum og hvers kyns skemmtunum. Þá hefur Gísli tekið að sér að staðarleiðsöng fyrir hópa um Vesturland.
 
Gísli er eins og fleiri sveitamenn alinn upp við að menn fari ekki á fjöll nema eiga þangað erindi, annað hvort til að leita sauða eða skjóta rjúpur. Í seinni tíð hefur hann þurft að kúvenda i þeirri afstöðu því hans aðaláhugamál í dag eru fjallgöngur, innanlands sem utan.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00